Skáldskapur um skáldskap: við getum ekki sungið þjóðsönginn, hann er of hár. Íslands þúsund ár, Íslands þúsund ár, svo hár, svo ekki sé minnst á nasískur. Þarf hann að vera svona vegna þess að þetta þjóðríki er þvættingur og hann veit það? Vegna þess, ekki einfaldlega, að Íslendingar séu ekki þjóð heldur vegna þess að í smæð hennar og einsleitni blasir það svo við að þá vídd skáldskaparins sem felst í hugmyndinni þjóðríki þarf ekki og í ofanálag er ekkert pláss fyrir hann. Íslands þúsund þegnar – þið eigið ýmislegt sameiginlegt. Já, ókei, og hvað fleira, koddu nú með það, segðu mér eitthvað sem ég veit ekki. En það kemur ekki.
Þess vegna er sjálf hugmyndin um þetta þjóðríki andvana fædd, því hún er ekki einu sinni hugmynd, hvað sem hún klífur tónstiga, hún er, og er dæmd til að verða, aldrei meira en vísifingur á lofti — nei, vísifingur á fleygiferð, að reyna að benda á sjálfan sig.