„Let them deny it“ – ég var barn þegar ég heyrði fyrst þennan frasa, sem er eignaður Lyndon B. Johnson, Bandaríkjaforseta. Hann hefði stungið upp á því að klaga einhver ósköp upp á pólitískan andstæðing, sagði sagan. Þegar ráðgjafi svaraði því til að það væri augljós lygi á Lyndon að hafa svarað með þessu viðkvæði. „Let them deny it“ er raunar stytt, almenn útgáfa. „Let the bastard deny it“ virðist helst í umferð þessa dagana, en „Let’s make the bastard deny it“ er hugsanlega upprunalegust, hvað sem það þýðir í þessu samhengi.
Á Íslandi er viðkvæðið vel þekkt. Elsta tilfelli þess í íslenskum prentmiðli virðist vera í grein sem Árni Bergmann skrifaði í Þjóðviljann 1979, eftir að blaðamaður Vísis hafði kallað hann „fyrrverandi KGB-agent í Moskvu“. „Let the bloody devil deny it,“ er útgáfa Árna. Þá hafði Johnson legið dauður í sex ár. Hafi Árni samið línuna, eða flutt hana inn, þá er ekki nóg að fyrirgefa honum heldur á hann lof skilið, samkvæmt því viðmiði Salvadors Dali, að fyrsti maðurinn til að líkja ungri konu við rós var augljóslega skáld, þó að sá næsti hafi vel mögulega verið idíót.
Línan birtist aftur 1980 og 1981. Í heilan áratug liggur hún síðan í þagnargildi, eða utanprents að minnsta kosti, þar til 1990 að hún skýtur upp kollinum í blaðagrein. Og hverfur ekki síðan.
1998 birtust í það minnsta fimm blaðagreinar með þessu viðkvæði. Metár þess hins vegar, er 2007. Um þann rógburð að mótmælendur við Kárahnjúka fengju borgað fyrir að láta handtaka sig var skrifað: „Þetta voru bara dylgjur samkvæmt formúlunni: „Let the bastards deny it!“. Á sama tíma brást „söguritari Ísal“ við athugunum Landverndar á loftmengun sem sagt var að bærist yfir Hafnarfjörð, frá Hveravirkjunum með greininni „Er Nixon orðinn fréttastjóri á Íslandi?“ Þar má lesa að athæfi Landverndar sé: „allt í anda forsetans Nixons; let the bastards deny it – látum helv… neita því“. Sú grein hét „Er Nixon orðinn fréttastjóri á Íslandi?“, og var svarað í greininni „Nixon og hveralyktin“. Henni svaraði söguritari ÍSAL með pistlinum „Nixon og skrattinn á veggnum“, 159 orða ritgerð þar sem máltækið kemur fyrir þrisvar sinnum.
Rúmri viku eftir þetta orðaskak birtist loks greinarstúfurinn „Til varnar Nixon“, til að benda á að Nixon hafi ekki sagt „Let the bastard deny it!!!“, heldur Johnson.
Árið 2008 dettur svo allt í dúnalogn. Árið sem Ísland afhjúpaðist lætur enginn hafa það eftir sér að Nixon eða Johnson liggi í loftinu. Viðkvæðið hefur raunar ekki borið sitt barr síðan.
Fyrr en semsagt að það krælir á því núna. Máltækið sem á níunda áratugnum var sagt upprunnið í því að Lyndon B. Johnson hefði logið fjárglæfrum upp á mótframbjóðandi sinn, er nú sagt tilkomið kringum lygi sama forseta um að andstæðingur hans „hefði kenndir til svína“. Þannig virka tilvitnanir án heimilda, þær laga sig betur að tíðarandanum.
Það sem ég vildi hins vegar fara með þessu er að þó að þessi ummæli séu einatt viðhöfð innan gæsalappa, á ensku, og beri með sér að þau séu víðförul eins og mælandinn – en um leið kannski ný speki fyrir þekkingarþyrstum lesanda – þá lítur ekki út fyrir að þau séu mikið þekkt eða notað utan Íslands.
Gúgli maður þá útgáfu sem er algengust meðal Íslendinga, „let the bastard deny it“, birtist listi yfir 45 tilfelli, alls. Af þeim eru 32 frá Íslandi. „Let the bloody devil deny it“, útgáfa Árna Bergmanns, er bara til á Íslandi. Sama á við ef ég geri leit í bókum, þar koma aðeins upp íslenskir textar – ekki einn einasti á ensku. “Let’s make the bastard deny it” er eina útgáfan sem birtist oftar í enskum texta en íslenskum, hvort sem er á vef eða prenti. Hún hefur ratað í sex bækur, þar á meðal bókina Better Than Sex eftir Hunter S. Thompson. Utan bóka fyrirfinnst þessi lína alls 2.470 sinnum á netinu. „Í draumi sérhvers manns“, til samanburðar, finnst 9.450 sinnum. „I have a dream“: 40 milljón. (Í íslenskum prentmiðlum hafa orðin „I have a dream“ birst um það bil jafn oft og slóttugheitin hans Johnson – en reynist oftar en ekki vísa til samnefndrar plötu hljómsveitarinnar ABBA, frekar en til ræðu Martins Luther King).
Með öðrum orðum eru til heimildir utan Íslands um að eitthvað í þessa veru hafi verið haft eftir Lyndon B. Johnson (þó að fáir virðist í dag fullyrða að orðin séu beinlínis frá honum komin). En hvergi virðast þau hafa komist á sama flug og á Íslandi. Hvers vegna? Verða Íslendingar oftar fyrir því en aðrir að logið sé upp á þá? Eða eru þeir kjarkmeiri en aðrir við að rísa upp gegn slíku? Eru þeir vænisjúkari en aðrir, hættara en íbúum annarra málasvæða við að telja sig borna röngum sökum?Eða birtast hér slóttugheit Íslendinga, gripu þeir á lofti þetta orðfæri sem aðrir fóru á mis við, til að smokra sér út úr vandræðum þegar rök þrýtur – til að gera, eiginlega, það sem þeir þar með væna andstæðinginn um?
Ég veit það ekki. Mér datt í hug, þegar ég sá þetta birtast á ný, enska orðalagið „sense of entitlement“. Að finnast maður eiga tilkall til forréttinda. Tilkallssýki datt mér í hug að mætti kalla það. Efri stéttir þjást nú af tilkallssýki svo ræða má um faraldur. Á frumstigi birtist hún sem einföld, hversdagsleg frekja. Á seinni stigum getur tilfinning fyrir tilkalli til alls konar gæða, umfram annað fólk, þróast í óyggjandi, efalausa sannfæringu. Á lokastigi lýsir tilkallssýki sér í hugmyndum um óskeikulleika: stétt sem er svo langt leidd af pestinni tekur botnlausa hugaróra sína fram yfir hvaða staðreynd sem er borin á borð fyrir hana. Staðreyndir málsins, hvað sem um ræðir, víkja þá fyrir eðli málsins. Meðlimir stéttarinnar verða í einlægni sannfærðir um að hvaða sökum sem þeir eru bornir séu þær, eðli málsins samkvæmt, rangar. Innilegur þótti og vandlæting þeirra sjálfra birtist þeim sjálfum sem óhrekjanleg staðfesting þeirra eigin sannfæringa, og hrakning á hverju öðru sem kann að hafa verið haldið fram en verður gleymt fyrir bröns.
Hvort það er þá tilkallssýkin sem ræður því að Ísland á, svo gott sem, sína eigin tilvitnun í Lyndon B. Johnson? Eins og ég sagði, ég veit það ekki. Samt varla. Ástandið er, eins og stéttin sem það plagar, alþjóðlegt. Eftir stendur ráðgáta.