Poemhunter heitir vefurinn sem svarar mér þegar ég gúgla W. H. Auden “the novelist” – og kennir mér að The Novelist er ljóð sem lýkur svona:
For, to achieve his lightest wish, he must
Become the whole of boredom, subject to
Vulgar complaints like love, among the Just
Be just, among the Filthy filthy too,
And in his own weak person, if he can,
Must suffer dully all the wrongs of Man.
Vefurinn býður mér líka að heyra tölvurödd flytja ljóðið … sem er jafn ágætt og afleitt og vefurinn sjálfur. En hvað um það: suffer dully. Að láta sér leiðast gegnum kvalirnar, ganga gegnum tilkomulitlar þjáningar – ég er ekki nógu góður þýðandi til að snara þessu sisona yfir á íslensku. Hvernig sufferar maður dully?
Það er Kenzaburo Oe sem vitnaði í þessa línu og fékk mig til að leita hana uppi. Hann segir tónlist sonar síns hafa fært sér trú á heilandi getu listar. „While I cannot prove this belief, I do rely on it, ‘weak person’ though I am, to ‘suffer dully all the wrongs of Man’ accumulated throughout the twentieth century’s monstrous developments in technology“. Þetta er í inngangi að bók um Hiroshima – sem aftur veitir orðalaginu „suffer dully“ allt annan skugga en þann sem fylgdi því kannski þegar ljóðið var samið, fyrir seinna stríð. Hvað sem þú kvelst er það áreiðanlega ekki jafn leiðinlegt og kvalirnar í Hiroshima …
To suffer er ekki bara að kveljast, heldur undirgangast eitthvað – á eitthvað skylt við þolraun frekar en sársauka einan sér. Úr þýðingu seinna Korintubréfs Páls postula kemur orðalagið „suffer fools gladly“: „For ye suffer fools gladly, seeing ye yourselves are wise“. Í síðustu þýðingu Biblíunnar á íslensku hljómar setningin svo: „Því að fúslega umberið þið hina fávísu svo vitur sem þið eruð“. To suffer er þannig líka að umbera.
Að umbera grámyglu sinna þjáninga … það væri alltof hástemmt, allt of mikið skrúð. Auden stefndi að einhverju öðru. Sama á kannski við um biblíuþýðinguna: to suffer fools er kannski frekar að umbera bjána en „hina fávísu“. Eða er ekki vitleysingum gert svolítið hátt undir höfði með því að hleypa þeim upp á lausan greini? Fúslega umberum við fávita, glaðlega umberum við glópa, idíótin ylja.
Hvað um það – þetta er bara til að tefja við, ég á að vera að vinna. Ég vildi bara deila því hérna, þá að minnsta kosti með sjálfum mér, eina núverandi lesanda þessa bloggs að ég best veit, að í dag fann ég hjól og festi mér það. Það kostaði andvirði 44 hamborgara. Ég framkvæmdi, í slagtogi við annan mann, þennan galdur sem gerir hluti að eign, við gerðum hjólið, sem var hans eign þar til í dag, að minni eign.
Hjól eru reyndar ekki jafn háð þessum galdri og margir aðrir hlutir. Eignarhald á hjólum virðist ekki síður felast í lásnum sem er á því: ef þú ert með lykilinn að lásnum áttu hjólið. Ef það stendur einhvers staðar ólæst á sá fund sem finnur. Löggan, þess vegna. Að löggan heldur ekki árlegt uppboð á stolnum sjónvörpum kemur upp um að meira að segja ríkisvaldið lítur svo á að um reiðhjól gildi önnur lögmál.
Við framkvæmdum engu að síður galdurinn og ég setti lás á hjólið, er með lykilinn í vasanum, og er þar með eigandi hjóls í öllum helsta skilningi. Þeirri leit er þá lokið og ég þarf að finna eitthvað annað til að fóðra frestunaráráttu mína. Og aðra flónsku.