Gamli hrotta­skapur; dagar 300–293

07.9.2017 ~ 11 mín

Yfir matnum nú í kvöld1 sagði Dísa mér frá grein sem hún las eftir Ninu Power, þar sem minnst er á bókina Male Fantasies eftir Klaus Theweleit. Grein Power fjallar um það sem hún og fleiri kalla nú „the new brutality“ — hið nýja hvað? Hinn nýja hrotta­skap, kannski. Þetta sem Trump er kenni­leiti fyrir, ásamt Duterte á Filipps­eyjum, Farage og félögum í Bretlandi, AfD í Þýskalandi o.s.frv. — ekki bara útlend­inga­styggð heldur opin­ská útlend­inga­styggð, ekki bara kven­fyr­ir­litn­ing heldur opin­ská kven­fyr­ir­litn­ing, ekki bara óbeit á þekk­ingu og stað­reyndum heldur opin­ská óbeit á þekk­ingu og stað­reyndum — vilj­inn til að þjösn­ast áfram með yfir­gangi og um leið dásömun þess vilja, vilj­inn sem dásömun á honum sjálfum, upphafn­ing heimsk­unnar. Segi ég án þess að hafa lesið grein­ina, endur­segi þetta eins og ég hef numið það útundan mér, þið hin getið lesið, ég tek bara mark á slúðr­inu við eldhúsborðið.

Hvað um það — Male Fantasies las ég fyrir löngu. Þegar fólk las bækur.2 Hún er unnin upp úr dagbókum og birtum endur­minn­ingum brúnstakka í Þýskalandi frá mill­i­stríðs­ár­unum, manna sem margir urðu síðar nasistar, en eru á þeim tíma­punkti eitt­hvað óskipu­lagð­ara, ómót­aðra og þannig séð mein­laus­ara.3 Bókin leggur í sálgrein­ingu út frá þessum textum og fjallar um ótta karl­anna við hið kven­lega eins og það birt­ist þeim, um sjálfs­mynd hins harða, beina, skipu­lagða og helst ferkant­aða andspænis öllu sem er mjúkt, ávalt eða fljót­andi og sem þeir, samkvæmt höfundi, þeir brúnstakk­arnir, óttast að geti leyst allt upp: þá sjálfa, samfé­lag þeirra, siðmenn­ing­una alla.4

Eitt eftir­minni­leg­asta brotið úr bókinni er erótísk lýsing eins karl­anna á líkama í tölu­verðum smáat­riðum: lærvöðv­arnir stæltir, viðkoman mjúk, hlýjan ómót­stæði­leg — eitt­hvað í þá veru yfir heila blað­síðu, sem kemur síðan í ljós að er lýsing á hesti. Þetta var ekki eins­dæmi í skrifum þessa hóps, heldur nokkuð algengt, samkvæmt höfundi: í nálgun við skepnur, samvistum við þær og lýsingum á þeim gæfu þeir hinum mýkri hliðum sjálfra sín lausan taum­inn, sýndu bæði alúð og virð­ingu, svo ekki sé minnst á ástríðu, sem birt­ist aftur á móti aldrei í tengslum við konur. Eigin­konur sínar reynd­ust menn­irnir raunar yfir­leitt ekki nefna á nafn. Þeir sem minnt­ust á annað borð á tilvist þeirra nefndu þá stundum tengda­föður sinn á nafn og sögð­ust hafa kvænst dóttur þessa eða hins, án þess að nefna nafn konunnar sjálfrar.

Þessi upprifjun leiddi aftur hugann að Sjálf­stæðu fólki, sem hefur setið í mér nú frá lestri. Hefði Bjartur í Sumar­húsum verið Þjóð­verji milli stríða, þá hefði hann að líkindum verið brúnstakkur. Ekki þar fyrir sagt að hann hefði áreið­an­lega gengið í nasista­flokk­inn, en það virð­ist ekki heldur margt því til fyrirstöðu.

Tal Bjarts um heims­styrj­öld­ina (þá fyrri) sem eykur eftir­spurn eftir íslensku rollu­kjöti svo um munar er aðeins fyndið í krafti þess að vera svo brútalt að almennt er það bannað: óskandi að þeir geti haldið áfram að murka lífið hver úr öðrum, nóg er af útlend­ingum til að drepa, og svo fram­vegis — svona má hugsa og starfa en svona má ekki tala. En það eru hinir dýpri, langvar­andi og persónu­legri þræðir sem fella Bjart eins og flís að rassi heims­myndar mann­anna sem Theweleit tók til skoð­unar. Að breyttu breyt­anda.5

Þegar fyrri kona Bjarts fellur frá, við barns­burð, er hann sjálfur á fjalli að leita kindar sem hafði birst honum í draumi og hann þótt­ist því viss um hvar væri að finna, óvit­andi þess að konan, Rósa, hafði þá þegar slátrað henni og verkað, fyrr á árinu, á meðan Bjartur var í göngum. Bjartur kemur, eftir nokkk­urra daga fjar­vistir, heim að konu sinni látinni á baðstofugólf­inu. Hún liggur þar í blóði sínu en við hlið hennar hefur hund­tíkin á bænum hringað sig utan um barnið sem kom í heim­inn í sömu mund. Nú er úr vöndu að ráða því Bjartur veit ekki hvernig best er að annast korna­barn en kann því aftur á móti ekki heldur vel að leita aðstoðar annarra. Hann lætur sig þó hafa það að leita á næsta bæ, til fyrrum yfir­boð­ara sinna, og upphefjast þá einhverjar undra­verð­ustu blað­síður bókar­innar, þar sem Don Kíkóti og Góði dátinn Svejk fara tímaflakki um bæði Konur og Kötu: blað­síðu eftir blað­síðu eftir blað­síðu rausar Bjartur um svað­il­för sína, leit­ina að kind­inni, sem hann bæði nefnir á nafn og lýsir af velþóknun, áður en hann kemur sér að efninu sem hann kallar, ef ég man rétt, lítil­ræði og ekki þess vert að ómaka húsbónd­ann yfir: að konan hans sé látin og það sem verra er, henni hafi fæðst þetta barn …

Hryll­ings­sagan heldur áfram:6 önnur kona Bjarts, Guðfinna, fellur frá þegar hann ákveður að slátra einu kúnni á bænum til að bjarga eftir­lif­andi sauðfé frá heyskorti. Þegar hann fyrst tilkynnti um þetta áform sitt sagði konan að hann skyldi þá drepa hana líka, enda hafði kýrin verið eini gleði­gjafi hennar og barna þeirra undan­liðna vetur, en allt­umþað mundar bónd­inn hníf­ana, gengur til verks og konan deyr, að skilja má, úr harmi.

Fráfall hennar virð­ist Bjarti jafn lítið áfall og fráfall Rósu. En þegar sonur þeirra tekur til hefnda fyrir móður sína og kind­urnar á bænum týna tölunni með dular­fullum hætti sýnir Bjartur loks viðbragð: hann öskrar, kaupir kött til að veiða skoll­ann sem hann grunar að sé að verki, þiggur aðstoð sveit­unga sinna sem halda vökur á bænum og ræða hina dular­fullu atburði uns Bjartur fær nóg af dulspeki, snýr sér til verald­legra yfir­valda og kallar eftir sýslu­manni og hrepp­stjóra til rann­sóknar. Öllu lýkur því með stroki sonar­ins, sem verður úti, það er sjálfs­morð — en þar með ríkir friður á ný. Að kindur séu drepnar — í órétti, utan slát­ur­tíðar — varðar bæði tilfinn­ingar, samfé­lag, dulræn öfl og rétt­lætið — að sonur fyrir­fari sér kemur á nýju jafn­vægi. Þegar Bjartur rekst á sund­ur­tætt og vargétið lík drengs­ins með vorinu verður það honum hvorki tilefni til uppnáms né umstangs.

Og svo fram­vegis. Enn einni hlið á málinu, tilfinn­ingum Bjarts til fóst­ur­dótt­ur­innar Ástu Sóllilju, gerði Einar Kára­son skil á dögunum. Í saman­tekt Einars á því hvernig Bjartur missir, gegnum bókina, allt, nefnir hann að eini sonur­inn sem eftir dvelst með föður sínum er athlægi sveit­ar­innar. Og fyrir hvað verður hann að athlægi? Hann ætlaði burt til Amríku en varð skot­inn í stelpu og lét tilfinn­ingar sínar til hennar trufla áform sín.

Síðustu konuna sem reynir að sýna Bjarti hlýju, ráðs­kon­una sem virð­ist að hefði getað bjargað honum frá helstu hremm­ingum, lætur bónd­inn ekki setja sig út af spor­inu með góðu kaffi eða öðrum gylli­boðum, heldur rekur hana burt og brunar áfram bein­ustu leið í ræsið.

Meðal þýskra brúnstakka voru það einkum hestar sem mátti elska, í huga Bjarts er það sauðfé, en að breyttu breyt­anda er hann eftir sem áður nokk­urs konar frum­mynd íslenska brúnstakks­ins. Eitr­aðri karl­mennska, svo notað sé orðfæri úr samtím­anum, er vand­fundin í íslenskum bókmenntum.

Kannski er það þess vegna sem tónn­inn virð­ist örlítið falskur, sem sleg­inn er undir lok bókar­innar, þegar Bjartur, nú umkomu­laus umrenn­ingur í bænum, hittir hóp ungra komm­ún­ista sem stela brauði og leggja á ráðin um uppreisn. Þrátt fyrir að hafa loks glatað sjálfu búfénu, svo ekki sé minnst á bæinn, öllu því sem Bjartur taldi gera sig að sjálf­stæðum manni, er ekki fylli­lega sann­fær­andi hvernig hann mild­ast svo í afstöðu sinni til annars mann­fólks að honum finn­ist þessir þorp­arar hafa nokkuð til síns máls. Lesand­inn, í það minnsta einn lesandi, stendur sig að grun­semdum, hann sé ekki lengur að lesa skáld­sögu heldur einhvers konar agit-prop — passar þetta? Gengur þetta? Þarf þetta? Eða er það ég, lesand­inn, sem er of þröng­sýnn, bæði á Bjart sem persónu og skáld­sög­una sem vett­vang? Þetta gerist allt svo hratt. Eru óþæg­indin sem rísa í mér borg­ara­leg og úrkynjuð, skáld­skap­ar­lega mark­tæk, bæði eða hvor­ugt? Spurn­ing­arnar sem vakna eru í það minnsta svolítið áþekkar þeim sem hafa verið settar fram um endinn á The Dictator eftir Chaplin, þegar leik­stjór­inn brýst fram úr hlut­verkum einræð­is­herra og tvífara hans og flytur sjálfur hjart­næma ræðu um fram­tíð­ar­horfur mann­kyns: það blasir ekki við hvort kafl­inn bætir eða rýrir verkið, ef þá nokkuð.

Með þessum fyrir­vörum, og kannski fimm til tíu í viðbót, virð­ist mér í fljótu bragði nær lagi, mér finnst það myndi meika meira tilfinn­inga­legt sens, hefði jarð­lausi og skap­styggi flæk­ing­ur­inn Bjartur, undir lok bókar, rambað á sveit ungra þjóð­ern­is­sinna, sem útskýrðu fyrir honum að hrak­farir hans væru útlend­ingum að kenna og linkind borg­ara­legra afla í þeirra garð: að landið væri í þann mund að renna á haus­inn, leys­ast upp jafn­vel, með takmarka­lausum velgjörðum yfir­valda við rétt­lausa ræfla sem sigldu þangað í stríðum straumum til að láta draga úr sér tennur á kostnað heið­virðra bænda, án þess að vita nokk­urn skap­aðan hlut um sauð­fjár­rækt eða soðið kjöt. Að Bjartur myndi, einmitt eftir þrotið, heyra betur, eða í það minnsta hraðar, í Trump en í Sand­ers. Hvað þá No Borders eða Antifa.

References
1 Þetta var ommeletta sem við vorum að borða. Eða í það minnsta fóru í hana öll helstu hráefni spænskrar ommelettu, en pannan var svolítið stór, stærri en disk­arnir á heim­il­inu, of þung til að snúa bökunni með sveiflu um úlnlið og olnboga. Ég ákvað að snúa henni með hjálp ofnplötu og bökun­ar­papp­írs, með subbu­legum afleið­ingum, matur­inn leyst­ist upp í öreindir sínar (kart­öflu­ör­eindir, eggör­eindir, púrru­ör­eindir). Við sett­umst samt til borðs og sópuðum öreind­unum upp í munn­ana á okkur, þar sem ommelettan hefði hvort eð er leysts upp og ef við lokuðum augunum á meðan var eins og ekkert hefði í skorist. Að þessu loknu vissi ég ekki hvað ég vildi af mér gera, eða jú, ég ætlaði að koma mér að verki við svolítið, ljúka við svolítið, en hvers­dag­ur­inn rústar hófsöm­ustu og skyn­sam­leg­ustu áformum, eins og óþarf­lega stórar pönnur rústa ommelettum, vilji ég varpa ábyrgð­inni alfarið frá sjálfum mér (– já, ég vil, ég vil!) Spurn­ingar um þarnæstu máltíð læðast suma daga með veggjum en hlamma sér stundum í besta sætið í stof­unni og manspreada allt mann­fólkið burt: hvaðan kemur þarnæsta máltíð, félagi, hvaðan kemur þarnæsta leiga … hvort kom á undan, lykla­borðs­fælnin eða áhyggj­urnar með dólgs­lætin? Á meðan ég festi ekki athygli við annað þáði ég boð frá Amazon um að skrifa álit mitt á nokkrum vörum sem ég pant­aði þaðan síðustu miss­eri, einhvern veginn hljóta þau að launa mér greið­vikn­ina, kannski skrifar Amazon einn daginn álit sitt á mér, svo las ég grein, deildi henni á Face­book, og leit loks hingað inn, tækla frest­un­ar­áráttu mína með útilok­un­ar­að­ferð: ef ég held áfram nógu lengi að gera allt annað en ég ætla mér, skrifa allt annað en ég hef í hyggju, ég á við allt, verður að lokum ekkert eftir óskrifað nema einmitt þetta sem ég ætlaði mér að vinna að, og þá hlýt ég loks að koma mér að verki.
2 Fari ég með fleipur í einhverju skrifa ég þær allar á þennan tíma sem hefur liðið, ég er ekki með bókina við hönd­ina og tek litla sem enga ábyrgð á mistökum mínum sjálfur.
3 Eins og það er inni­haldsrýr lýsing, þar sem hérumbil allt er auðvitað mein­laus­ara en nasistar.
4 Auðvitað er hugmyndin ekki að þýskir brúnstakkar milli stríða séu einir um þennan ótta, sbr. titilinn.
5 Meðal þess frábrugðna er raunar forvitni­leg afstaða Bjarts til vætu. Þegar hann leggur sig, í fjórar mínútur daglega, vill hann vakna, segir sögu­maður, við það að detta af heysátu og helst ofan í poll. Hann á eina hlífð­ar­flík sem hann notar hins vegar aldrei til starfa heldur aðeins við mann­fögn­uði. Máltækið að enginn sé verri þótt hann vökni tekur hann svo bókstaf­lega að þegar aðrir heim­il­is­menn kvarta undan vosbúð­inni kallar hann það sérvisku að vilja vera þurr, hann hafi aldrei verið þurr en honum hafi heldur aldrei orðið misdæg­urt. Að þessu leyti leysir persóna Bjarts upp þá einföldu samsömun, svo ég segi ekki tvíhyggju, Theweleits og brúnstakk­anna, að karl­inn standi fyrir skýrar línur en konan fyrir það sem flýtur og rýfur þar með markalín­urnar. Hvort veður­far og saga bygg­ingalistar í land­inu þykir nægja til skýr­ingar á þessu fráviki frá kynja­myndum megin­lands­ins, eða hvort hér er tilefni til ítar­legri grein­ingar veltur líklega bæði á lund­arfari og styrkveitingum.
6 Líklega er of seint að veita spoiler alert, en að því er ég best veit er bara einn maður á Íslandi sem hefur ekki lesið þessa bók, ég sendi honum bara línu og vara hann við.