Það skrítna við að lesa yfir, krota í, klippa út, breyta, bæta við, færa til — skrifa — eins konar skáldsögu einn daginn (og ég verð helst að segja eins konar því annars finnst mér verða svo þröngt um orðin og mig) og skrifa fréttir næsta dag — við sama eldhúsborð — hefur eitthvað að gera með takt, eitthvað með eftirtekt og eitthvað með verufræði.
Af þessu þrennu held ég að við mættum helst tala aðeins meira um verufræði.
Svo skrifaði ég ótal setningar, en ég er of þreyttur til að koma þeim heim og saman. Mergurinn málsins er kannski þessi: Fréttir eiga sér verufræði, það er ákveðið mengi hluta sem rúmast innan þeirra, eru til í umdæmi þeirra. Bílslys og nýir stjórnmálaflokkar, til dæmis. Skáldskapur á sér aðra verufræði.1 Og að flandra úr einni verufræði í aðra er lýjandi á mjög tiltekinn máta.2
Dæmi: eftir að skrifa fyrstu frétt míns fyrsta dags í nýju starfi, sem gekk nokkuð smurt fyrir sig, ætlaði ég að vinda mér beint í aðra frétt, smá umfjöllun um þau tíðindi að Oddi hyggist nú hætta prentun bóka. Mér þótti það allt svolítið vanreifað í frásögn Vísis og Stöðvar 2 á mánudag, þarna byggi viðameiri saga að baki. Áður en ég veit af er dagur kominn að kvöldi og ég sit spenntur yfir lokaritgerð í sagnfræði um tilkomu pappírs á Íslandi á 16. og 17. öld:
Fyrsta pappírsmyllan í Evrópu var sett á stofn nálægt Valencia á Spáni árið 1144. Á þeim tíma voru áhrif múslima á Suður-Spáni mikil, en Arabar höfðu lært listina að búa til pappír af Kínverjum. Pappír breiddist þó ekki út á Spáni á þessum tíma heldur var framleiðsla og notkun hans bundin við áhrifasvæði múslima í sunnanverðu landinu. Listin að framleiða pappír barst því ekki til annarra Evrópulanda frá Spáni heldur voru það Ítalir sem hófu framleiðslu pappírs meira en hundrað árum síðar.3
Mér sýnist þetta vera frábær ritgerð, vönduð og stórfróðleg. En fyrir starf mitt á fréttamiðli þjónar hún engu hlutverki. Ekkert sem kemur fram í henni rúmast innan verufræði frétta.
Það gerir auðvitað hugtak eins og verufræði ekki heldur. Þó að við ættum kannski að tala meira um verufræði þá þarf ég sjálfur líklega heldur að huga að takti. Breyta um takt. Snarlega. Og eftirtekt. Taka eftir.4
↑1 | Sennilega má ganga miklu lengra en þetta og segja að skáldskapur eigi sér ekki bara aðra verufræði en fréttir, heldur önnur verufræði, í fleirtölu. Og það er jafnvel freistandi að ganga enn lengra og segja að skáldskapur feli, þegar best lætur, í sér verufræðileg nýmæli: að í verkinu sjáist ekki bara fyrirbæri sem sást ekki áður heldur fyrirbæri af öðrum toga en áður, svo opnist heilt svið fyrirbæra. Fyrir lestur verksins vissirðu kannski bara að hlutir ættu sér lit og lögun en eftir það gerirðu þér grein fyrir að þeir lykta líka. Ég meina þetta auðvitað ekki bókstaflega, þú vissir alveg að hlutir lykta og hefur vitað það lengi. En ef skáldskapur er viðvarandi verkefni ótal höfunda og ótal lesenda í hæglátri en kappsamri leit að áður óþekktum hliðum tilverunnar — verufræðilegum viðaukum — þá má ganga enn lengra og tala um þetta verkefni í heild sinni sem verufræðilega útþenslustefnu (eða innþenslustefnu, sem kæmi hér í sama stað niður). Og það mætti jafnvel kalla viðleitnina imperíalíska: eins og heimsveldin vildu áður fyrr safna öllu sem bar fyrir augu í nýlendunum, færa það heim og stilla því upp til sýningar (dýrategundum, plöntum, nytjahlutum, mannfólki) er skáldskapur viðvarandi atlaga að því að færa til bókar hverja nýja vídd mannlegrar tilveru — hvern þann verufræðilega möguleika og hver verufræðilegu nýmæli — sem höfundur ber kennsl á og getur helst komið til skila með þeim hætti að lesandi beri kennsl á þau líka. Allt þetta mætti segja og hefur reyndar, held ég, verið sagt, svo það er óþarft að gera það hér og ég er auk þess of þreyttur, eins og fram mun koma, of þreyttur til að hugsa það til hlítar, hvað þá taka ábyrgð á því, nú í þessu hausti óttans miðju, þegar við hverri staðhæfingu liggur möguleg líflátshótun. Ég held að fleiri hljóti að fara að kjósa heldur að tala í neðanmálsgreinum, innan sviga, og í svo löngu máli, með svo mörgum fyrirvörum, að lesendur gefist flestir upp á miðri leið. Tala, ég meina auðvitað skrifa, skrifa í von um að það hafi engin áhrif á neinn. Undarleg viðleitni, víst er það. |
---|---|
↑2 | Ekki að ég ætli að barma mér fyrir álag. Í samanburði við hvaða hefðbundnu launavinnu sem er, er þetta ekki neitt. Ég aðstoðaði vin minn við ræstingastörf í tíu mínútur í sumar, tíu mínútur, og varð hugsað til Maós og menningarbyltingarinnar, hvers ég ætti að gjalda að púla svona, hvaða stórsögulegu öfl hlytu að búa þar að baki. Ræstingar eru líkamleg og andleg þolraun, og öll viðfangsefni þessa bloggs eru grín í samanburði. |
↑3 | Anna Björk Stefánsdóttir, Pappír sem ritfang: Yfirtaka pappírs á Íslandi á 16. og 17. öld, Reykjavík 2008, http://hdl.handle.net/1946/3344. |
↑4 | Ekki að ég geti sagt það sjálfum mér til varnar, eða starfsheiðri mínum, ég er víst ábyrgur fyrir hugarstarfi mínu og öðru athæfi, en erum við ekki öll að sóna út hérna? Í fyrsta sinn frá Hruni líður mér eins og það nenni þessu enginn, þessu dáðlausa brölti, að einhvers staðar lengst inni höfum við loks sæst á að lífið sé tröllamall. Í miðju brjálæðinu sé þannig þrátt fyrir allt, þvert á allar staðreyndir málsins, gúrka. Við gætum peppað hvert annað með hífopp! og koma svo! en það væri beinlínis síðri kosturinn, að fallast á að við séum teletubbies og fögnum hverri veltu niður hæðina með því að hrópa Aftur! |