Dagur 174

03.1.2018 ~ 2 mín

Ég er ekki guðfræð­ingur og hef ekki lesið verk guðfræð­inga að neinu ráði. Ég þekki lítið til trúar­bragða, alinn upp í fjöl­gyð­is­legu íslensk-kali­forn­ísku kæru­leysi um það allt saman.

En mér þykir forvitni­legt að svona framar­lega í þeirri umræðu um trúar­brögð sem fer fram opin­ber­lega skuli vera átök milli trúar og vísinda. Eða meint átök, ég veit ekki hvort þau fara fram víðar en í Banda­ríkj­unum og hvort þátt­tak­endur í þeim eru fleiri en tíu, fleiri en hundrað manns. Kannski er þetta eitt­hvað sem fjöl­miðlar magna.

Að, til dæmis, það sé deilu­efni hvort veröldin er svo og svo margra millj­arða ára gömul, eins og ótal rann­sóknir leiða í ljós, eða fimm til sjö þúsund ára gömul, eins og sagt er leiða af ættar­tölum Biblí­unnar, frá Adam og Evu til síðari daga.

“Í upphafi var orðið.” Tungu­málið er það sem gerir mann­verur úr okkur. Án þess merk­ing­ar­vefn­aðar sem verður til með því að fleyta orð á heim­inum væri tilvera okkar ekki mann­leg tilvera. “Gerir mann­verur úr okkur” — nánar tiltekið er þetta samstofna. Við og orðin. Mann­leg tilvera er tilvera í tungu­máli, í orðum.

Ég er auðvitað bullandi biased hérna, þar sem ég sit og skrifa einmitt, orð. En það ert þú líka. Mann­leg tilvera er biased í garð orðanna.

Alheim­ur­inn er viðfangs­efni raun­vís­inda. Heim­ur­inn, hins vegar, er það ekki endi­lega. Heim­ur­inn verður til um leið og maður­inn, í orðunum. Lands­lag væri lítils virði ef það héti ekki neitt, orti skáld. Sem afmarkað brot úr heim­inum er Ísland reyndar ágætt dæmi: það stóð þarna í svo og svo margar millj­ónir ára og var athvarf fuglum og refum, en afmælin sem við fögnum eru ekki þessi jarð­sögu­legu, ekki afmæli hrauna og gosa, heldur hin póli­tísku: afmæli land­náms og full­veldis. Þúsund ár, hundrað ár.

Ég fletti þessu upp — eyjan er talin hafa tekið að mótast, eða náð yfir sjáv­ar­flöt, fyrir á milli 16 og 18 milljón árum síðan. Segjum 17 milljón árum, til einföld­unar. Væri ekki tilvalið að stofna til deilu á milli jarð­fræð­inga og sagn­fræð­inga, um hvort Ísland er 17 milljón ára eða 1100 ára gamalt? Helst harð­vítugrar deilu, láta hana ná til námskrár­gerðar og veit­ingu styrkja úr opin­berum sjóðum, og helst ekki hleypa neinum inn sem væri vís til að benda á hið augljósa: að þeir eru að tala um sitt hvorn hlutinn?

Þetta er líklega það sem heitir shower thought á Reddit. Sturtu­þankar. Ég á þó eftir að fara í sturtu.

Það er 3. janúar. Árið er 2018. Ég er að ná mér eftir áramótin. Árið er 4.540.002.018. Hvers vegna teljum við ekki dagana frá því jörðin mótað­ist? Eða frá mikla­hvelli? Klukkan er þá að verða hálf­níu að morgni 3. janúar árið 13.799.002.018.