Ég er ekki guðfræðingur og hef ekki lesið verk guðfræðinga að neinu ráði. Ég þekki lítið til trúarbragða, alinn upp í fjölgyðislegu íslensk-kalifornísku kæruleysi um það allt saman.
En mér þykir forvitnilegt að svona framarlega í þeirri umræðu um trúarbrögð sem fer fram opinberlega skuli vera átök milli trúar og vísinda. Eða meint átök, ég veit ekki hvort þau fara fram víðar en í Bandaríkjunum og hvort þátttakendur í þeim eru fleiri en tíu, fleiri en hundrað manns. Kannski er þetta eitthvað sem fjölmiðlar magna.
Að, til dæmis, það sé deiluefni hvort veröldin er svo og svo margra milljarða ára gömul, eins og ótal rannsóknir leiða í ljós, eða fimm til sjö þúsund ára gömul, eins og sagt er leiða af ættartölum Biblíunnar, frá Adam og Evu til síðari daga.
“Í upphafi var orðið.” Tungumálið er það sem gerir mannverur úr okkur. Án þess merkingarvefnaðar sem verður til með því að fleyta orð á heiminum væri tilvera okkar ekki mannleg tilvera. “Gerir mannverur úr okkur” — nánar tiltekið er þetta samstofna. Við og orðin. Mannleg tilvera er tilvera í tungumáli, í orðum.
Ég er auðvitað bullandi biased hérna, þar sem ég sit og skrifa einmitt, orð. En það ert þú líka. Mannleg tilvera er biased í garð orðanna.
Alheimurinn er viðfangsefni raunvísinda. Heimurinn, hins vegar, er það ekki endilega. Heimurinn verður til um leið og maðurinn, í orðunum. Landslag væri lítils virði ef það héti ekki neitt, orti skáld. Sem afmarkað brot úr heiminum er Ísland reyndar ágætt dæmi: það stóð þarna í svo og svo margar milljónir ára og var athvarf fuglum og refum, en afmælin sem við fögnum eru ekki þessi jarðsögulegu, ekki afmæli hrauna og gosa, heldur hin pólitísku: afmæli landnáms og fullveldis. Þúsund ár, hundrað ár.
Ég fletti þessu upp — eyjan er talin hafa tekið að mótast, eða náð yfir sjávarflöt, fyrir á milli 16 og 18 milljón árum síðan. Segjum 17 milljón árum, til einföldunar. Væri ekki tilvalið að stofna til deilu á milli jarðfræðinga og sagnfræðinga, um hvort Ísland er 17 milljón ára eða 1100 ára gamalt? Helst harðvítugrar deilu, láta hana ná til námskrárgerðar og veitingu styrkja úr opinberum sjóðum, og helst ekki hleypa neinum inn sem væri vís til að benda á hið augljósa: að þeir eru að tala um sitt hvorn hlutinn?
Þetta er líklega það sem heitir shower thought á Reddit. Sturtuþankar. Ég á þó eftir að fara í sturtu.
Það er 3. janúar. Árið er 2018. Ég er að ná mér eftir áramótin. Árið er 4.540.002.018. Hvers vegna teljum við ekki dagana frá því jörðin mótaðist? Eða frá miklahvelli? Klukkan er þá að verða hálfníu að morgni 3. janúar árið 13.799.002.018.