Frá því að ég bloggaði síðast hefur liðið rúmur ársfjórðungur, og þann ársfjórðung hef ég unnið launaða vinnu upp á hér um bil hvern dag. Ég skila hálfu dagsverki gegn greiðslu, reyni að vinna hálft dagsverk fyrir eins manns munkaregluna sem ég tilheyri einhvern veginn, og á svo einkalíf í ofanálag. Munkareglan er ekki ströng, svo því sé til haga haldið, hún er voða frjálslynd fyrir utan hvað hún er trúlaus og ístöðulaus í ofanálag, reikul í trúleysinu, en hún snýst samt um iðju og uppskeru sem er ekki alveg ljóst hverju skilar í þessum heimi, svo stundum veit ég ekki hvað ég ætti að kalla hana annað. Ómunkaregla er kannski nær lagi. Eða munkaóregla. Til að valda ekki misskilningi. Stundum hef ég verið ómunkur í fullu starfi, sem getur verið heldur kvíðavaldandi, nú er ég ómunkur í hlutastarfi á móti öðrum verkum. Á meðan ég kynnist þessum nýja takti hefur hitt og þetta fallið milli skips og bryggju, ýmislegt sem er aldrei aðkallandi en kannski mikilvægt fyrir því.
En í gær gerði ég mér grein fyrir öðrum hugsanlegum orsakaþætti í þessu bloggfalli. Skilningurinn barst úr átt sem mér þótti óvænt en er það kannski ekki: Mark Zuckerberg tilkynnti að á næstunni verði gerðar verulegar breytingar á Facebook flæðilínunni: þú munt á næstunni sjá umtalsvert minna efni frá fréttavefum og fyrirtækjum á Facebook og meira af persónulegum færslum vina og kunningja. Zuckerberg sjálfur segir að þetta sé liður í að “laga Facebook”, því allt frá síðustu forsetakosningum í Bandaríkjunum sé ljóst að eitthvað sé að. Aðrir hafa hins vegar sett breytingarnar í samhengi við það sem nefnt hefur verið “context collapse”, samhengishrun eða samhengisfall. Hugtakið er sagt upprunnið hjá Dr. Michael Welsch, mannfræðingi við Kansas State háskólann, sem skilgreindi það í grein árið 2008.
Í samskiptum augliti til auglitis vinnur mannfólk látlausa ómeðvitaða eða lausmeðvitaða greiningarvinnu á félagslegu samhengi, og á meðal annars í stöðugum samningaviðræðum við viðmælanda með andliti sínu, um andlit sitt, þar sem svipir og látbragð gefa til kynna forsendur og mögulega viðtöku þess sem sagt er. Eins og mannfræðingurinn bloggaði:
Þó svo að einstaklingurinn eigi virkan þátt í framsetningu, varðveislu og stundum aðlögun andlits síns, þá er það ekki höfundarverk eins höfundar. Andlit skilgreinist ekki eingöngu af athöfnum persónunnar heldur hvaða augum aðrir aðilar samskiptanna líta þær og dæma eftir því sem samskiptunum vindur fram. Andlitsvinna er flókinn dans þar sem allir þátttakendur, hvert orð þeirra, svipbrigði, látbragð, stelling, afstaða, augnatillit og búkhljóð á sinn hlut. Í stuttu máli er hvernig við berum sjálf okkur fram (og, í framhaldi af því, hver við “erum”) að miklu leyti háð samhengi; hvar við erum, með hverjum við erum, hvað við erum að bardúsa, ásamt öðrum þáttum.
Welsch hefur kanadíska félagsfræðinginn Erving Goffmann fyrir þessu, sem virðist heillandi höfundur. En ég ætla að halda mig við efnið: vandinn við stafræn rými blasir þegar við. Þegar þú lætur eitthvað frá þér á netið er það ekki bundið tilteknum aðstæðum í þessum skilningi, heldur getur dúkkað upp kollinum við hvaða aðstæður sem er, í hvaða samhengi sem er. Með orðum Welsch:
Hvað segir maður við heiminn og framtíðina? Frammi fyrir svo yfirþyrmandi spurningu kemur ekki á óvart að margir þeir sem hafa í hyggju að v‑logga í fyrsta sinn standa gáttaðir frammi fyrir vefmyndavélinni, og greina iðulega frá því að þeir hafi varið nokkrum klukkustundum steinrunnir fyrir framan vélina, reynandi að átta sig á því hvað þeir vilja segja.
Vandinn er ekki að samhengi skorti. Það er samhengisfall: óendanlegur fjöldi samhengis sem fellur saman, hvert ofan í annað, á þessu eina augnabliki sem tekið er upp. Myndirnar, athafnirnar og orðin sem linsan nær hverja stund geta flust hvert sem er á jörðu og varðveist (að gera má ráð fyrir) um ómunatíð. Litla glerlinsan verður gátt að svartholi sem dregur til sín allan tíma og allt rúm — svo gott sem allt hugsanlegt samhengi.
Auðvitað er þetta ekki alveg nýtilkomið: meira eða minna allt höfundarstarf einkennist af hliðstæðu, hugsanlegu, samhengisfalli. En iðulega er höfundarstarf samt ekki samhengislaust með öllu: sumar bækur skrifa menn með einn lesanda í huga, aðrar með einn samfélagshóp, enn aðrar með engan tiltekinn í huga en þó fyrirfram bundnir tilteknu tungumáli á tilteknum tíma sem afmarkar viðtakendur. Sumir höfundar hreiðra um sig í senum, sellum, klúbbum eða félögum þar sem tengsl við annað fólk með andlit, lesendur og höfunda með andlit, geta veitt fótfestu í tilteknu samhengi (upplestrarviðburði og hlutverk þeirra er kannski forvitnilegt að skoða í þessu samhengi). Bókmenntahefðin, bókmenntahefðir, ólíkar bókmenntagreinar og merkimiðar í hillu skapa tilteknar forsendur viðtöku. Mögulegir lesendur bóka eru aldrei í reynd allir, mögulega allir eða hver sem er hvenær sem er. Við lesum enn Íslendingasögurnar en ef höfundar þeirra hefðu gert sér grein fyrir því á meðan þeir rituðu þær hefðu þeir áreiðanlega varið lengri tíma í að stara á kálfskinnið fyrir framan sig strax frá byrjun og velt fyrir sér hvort þessar ættartölur þeirra meika eitthvert sens, hvort lesendur muni hafa af þeim nokkurt gagn eða gaman eftir 800 ár.
Og Facebook? Nú segja semsagt sumir að framan af notkun miðilsins hafi hann einkum þrifist á því að lesendahópur hvers og eins notanda afmarkast af vinahópi hans eða hennar, þeim 50 eða 100 eða 5.000 manns sem viðkomandi á oftar en ekki einhver tengsl við utannets: þannig hafi hver notandi, við hverja færslu, getað gert ráð fyrir einu og öðru andliti, meira eða minna ómeðvitað, gert ráð fyrir ákveðnu neti mögulegra viðbragða, ákveðnu samskiptamynstri sem hann eða hún hefur lag á og fyllir upp í þær gloppur í merkingu og skilningi sem textinn einn og sér skilur eftir. Með sívaxandi samskiptum við ókunnuga, utan slíks samhengis, gegnum kommentaþræði fjölmiðla til dæmis, hafi hins vegar átt sér stað svona samhengisfall á miðlinum, notendur segi fyrir vikið minna frá eigin högum en áður, deili þar heldur því sem á heima á torgum úti en því sem þeir tala um undir fjögur augu í eldhúsinu heima hjá sér eða með vinum á barnum.
Og það er vandamál fyrir Facebook, því persónulega efnið séu gögnin sem nýtist fyrirtækinu til að selja auglýsingar og beina þeim að réttum viðtakendum. Hvort þú kýst Trump eða Hillary segi þegar upp er staðið miklu minna um þig sem neytanda en hvort þér, segjum, þykir svolítið vænt um kaffibolla með áprentaðri mynd af kettlingi sem þið hjónin keyptuð undir jólin 2017.
Þess vegna hafi Facebook upp á síðkastið lagt sig svona mikið fram um það að minna þig á persónulegar hliðar tilverunnar, með því að draga upp minningar úr gömlum færslum, spyrja hvort þú viljir ekki deila þessu aftur, minna þig á hversu lengi þú hafir verið Facebook-vinur pabba þíns og mömmu, sýna þér myndaalbúm með öllu sem þið vinirnir gerðuð saman á þarsíðasta ári. Fyrirtækið leiti logandi ljósi að leiðum til að afturkalla samhengisfallið og fá þig þar með til að tjá þig minna um, til dæmis, pólitík, þar inni og meira um ferðalög. Og kettlinga og kaffibolla og það allt.
Allt um það: mér sýnist þetta orð, samhengisfall, til margra hluta nýtilegt. Ég sé hvernig það á við um hitt og þetta sem ég hef upplifað. Ég held ekki að það sé nýtt af nálinni og ég held ekki að það sé, út af fyrir sig, einfaldlega slæmt, en ég held að það geti hæglega falið í sér áskoranir, jafnvel krísur, sem þarf þá að mæta með einum eða öðrum hætti. Ég held að það sé ágætt orð yfir muninn á upplifun fjölda fólks af því að blogga, segjum, fyrir árið 2005, þegar lesendur blogga voru fáir og gátu meira eða minna vitað hver af öðrum, og í dag, þegar blogg er líkara hverri annari útgáfustarfsemi að því leyti að höfundur hefur ekki hugmynd um hver les eða í hvaða samhengi. Ég held að sjálfur beiti ég helst því bragði að láta mig gleyma þessu, og skrifa þá eitthvað sem raunverulegur eða ímyndaður vinahópur minn hefði áhuga á, og mér bregði síðan ótæpilega þegar ég rek mig á það sem ég veit þó vel, og vil jafnvel, að meðal lesenda getur fundist eitthvert allt annað fólk, með allt önnur andlit, sem tæki mig óratíma að semja við um forsendur samskipta ef við skyldum einhvern tíma sjást. Þá verður mér stundum orða vant.