Irrelevansí; dagar 163–162

15.1.2018 ~ 3 mín

Lögin sem komu út þegar maður var 16 ára eru svolítið svaka­leg. Líklega plús mínus tvö-þrjú ár. En maður minn. Er einhver hrollur til sem jafn­ast á við hroll­inn að vera 16 ára plús mínus tvö-þrjú ár? Ekki að ég ætli að … en maður minn. Zombí. Zohombí.

Svona er lífið þá héðan í frá, færi­band ofan í gröf­ina, enginn tími til að paufa með ljá, dauð­inn stendur bara með telj­ara eins og dyra­vörður og klikkar við hvern sem rambar yfir þar til er húsfyllir og einhver þarf aðeins að bíða, ekki ryðj­ast fram fyrir!


Eftir­lætis karakt­er­inn minn í Sjálf­stæðu fólki er bónd­inn sem birt­ist aðeins á manna­mótum til að minn­ast á að nýjustu vísinda­rann­sóknir hans leiði í ljós að mann­skepnum sé vanreikn­aður lífaldur, hann dugi ekki til að vinna sig upp úr skuld­inni við kaup­mann­inn, kaup­fé­lagið, bank­ann, mafíuna …

Nýverið hafa verið gerðar nokkrar tilraunir til að ræða stéttir. Á Íslandi. Og á íslensku. Hvers vegna verða Íslend­ingar svona reiðir þegar sú hugmynd er viðruð að stéttir séu til? Ekki í merk­ing­unni fagstétt, ekki í merk­ing­unni kyn, ekki í merk­ing­unni uppruna­land, heldur í merk­ing­unni stétt. Ég meina reiðir. Allar varnir gjósa upp. Eins og vegið sé að sæmd þinni, persónu­lega, með annars frekar solid, viður­kenndri pælingu. Stétt er ekki skoðun, ekki frekar en þróun­ar­kenn­ingin, þyngd­araflið eða loftslagsbreytingar.


Það er heldur lágskýjað í dag.

– Og hvað með það? Ég hef séð þoku­bakka læðast eftir dalverpum, meira að segja þoku í borg, ég flaug einu sinni gegnum ský og raunar skýjum ofar, ég hef horft ofan frá niður á ský sem voru tölu­vert hærri en þessi og margoft, ég segi margoft, séð enn lægri ský, þétt­ari ský, gisn­ari ský, ský eru gagn­leg, hvar værum við án skýja, eitt­hvað þarf að ferja allt þetta regn­vatn, hefurðu ekki séð hvernig rakinn getur sest á rúður, bara venju­legar rúður heima hjá þér, það er sama lögmál, bara spurn­ing um uppgufun og þétt­leika, það er ekkert flókið við þetta, væri ekki nær lagi að skoða myglu­svepp­inn heima hjá sér áður en menn fara að þusa um skýja­far út og suður? Hver veit nema það verði hreint skýlaust á morgun, það gekk hér á með skýlausum himni dag eftir dag sumarið 2014, ég meina hreint alveg skýlausum. Það vant­aði ekki dögg­ina fyrir því.


Í komm­enta­þræði um þessi mál inni á Face­book-hópnum Menn­ingar­átökin minn­ist einn maður á að það hefði að ósekju mátt þýða meira af verkum Pier­res Bour­dieu á íslensku. Ég held að það sé rétt. Og ég mætti lesa aðeins meira af honum sjálfur.


Um helg­ina leit ég í göngu sem er haldin árlega, kringum daginn sem Rosa Luxemburg var myrt. Það var 15. janúar 1919, gangan var í þetta sinn haldin þann fjór­tánda. Hell­ingur af barm­næluprýddum, fána­ber­andi komm­ún­istum. Kannski óttast fólk að það vaxi á það svona barm­nælur ef það fellst á hugtakið stétt. Springi út á þeim eins og bólur, barm­nælur með skamm­stöf­unum sem marka ágrein­ing milli ólíkra hópa marx-lenín­ista sem öllum öðrum er alveg sama um.


Einn maður spyr: hvað ertu alltaf að blanda Engeyjarætt­inni í málið, þótt­istu ekki vera að tala um stéttir?


Annar minn­ist á gúlagið.


Ég kann ekki lengur að halda þræði í lengri greinum. Kann ekki að skrifa þær, á ég við. Einu sinni gerði ég ekkert nema það. Breyt­ingar eru skrítnar, eins og Zenó frá Eleu sagði.


Í dag lærði ég að af þremur og hálfri milljón íbúa Berlín­ar­borgar eru aðeins um 300.000 fædd og uppalin í borg­inni. Undir 10%.


Kannski óttast sumir Gúlagið. Ég held að fleiri óttist að komm­ún­istar (les: þeir sem segja að stéttam­is­munur sé til og vilja gera eitt­hvað í því) hafi rétt fyrir sér og einmitt þess vegna þurfi að gæta þess að heyra ekki röksemdir þeirra, þá gæti maður endað á að vera irrelevant. Rétt­mæti einhvers konar komm­ún­isma, það er bara veikróma grunur. Irrelevansí komm­ún­ista er grjót­hörð stað­reynd, svo lengi sem við stöndum saman um að leggja ekki við hlustir. Og það gerum við, því það eina sem er verra en Gúlagið er að vera irrelevant.


Hann var svo irrev­erent að hann varð irrelevant. Og öfugt. Málinu óviðkomandi.