Á morgun vil ég vakna sem nýr maður. Ég meina gamall maður, minn fyrri maður. Að því er ég best man var sá maður fær um að hunsa hundrað aukaatriði á dag til að einbeita sér að einhverju einu eða tvennu sem honum þótti þess vert. Í það minnsta suma daga. Núna finnst mér of margt í heiminum á hverjum degi. Kannski er það vegna þess að ég starfa fyrir fjölmiðil. Áfallastreituröskun er varla rétta orðið en kannski þyrfti að efla ákveðna sálræna eftirtekt í þessu fagi, kannski sérstaklega á miðlum í landi sem er svo lítið að leyfa engum sérhæfingu, landi þar sem enginn kemst upp með að skrifa um ólíkar túlkanir á fiðlukonsertum eftirlætis svissneska tónskáldsins síns nema fletta þess á milli upp á síðasta fréttum af kynlífsskandal frægustu sjónvarpskokka í Sýrlandi, deila þeim með lesendum og vera svo tilbúinn að deila um þá á samfélagsmiðlum líka.
Hvernig geturðu beint athyglinni að einkahögum sýrlenskra sjónvarpskokka á meðan fimm eða fleiri íslenskir hvítvoðungar eiga árlega á hættu að vera umskornir!?
Ég vil vakna sem nýr maður, eitthvað í ætt við þann gamla eins og mér er tamt að ímynda mér hann (og skilja þó súrustu berin eftir, ef ég má fara í kirsuberjamó með þetta).