Já, það eru of margar fréttir. Of margt gerist í heiminum. Ég las eina frétt um Trump og byssur, ál, stál, markaðina, markaðirnir eru í uppnámi vegna áforma forsetans um tolla, svo las ég aðra frétt, um May og Brexit og Blair og Major, þessa ræðu sem May var að halda og það sem aðrir hafa í kjölfarið sagt um ræðuna — og þegar ég ætlaði að snúa mér að þriðju fréttinni, þá sem hugsanlega væri mest relevant fyrir vefmiðilinn þar sem ég starfa, skýrslu um framkvæmd kosninga á Íslandi, þá hafði ég ekki headspeisið til að lesa meira. Headspeis — höfuðrými? Hauspláss? Hugrými? Hugrýmd mín er takmörkuð. Mín bíða mikilvæg skilaboð sem ég hef ekki svarað, og í ofanálag langar mig að heyra í foreldrum mínum, hitta vini mína og afa mína, lítil frændsystkin, ég á nokkur, ef fram heldur sem horfir ljúka þau fyrstu háskólagráðum sínum áður en mér gefst hedspeisið til að senda þeim afmælisgjafir á réttum tíma.
Of margar fréttir, of mörg atvik, of margir stórviðburðir, litlar uppákomur, krísur og klípur. Ef þið gætuð vinsamlegast stillt ykkur upp í röð við dyrnar þá gæti ég afgreitt ykkur öll í réttri röð. Ég skal sjá til þess að það verði kaffi á könnunni á meðan þið bíðið. Atvikin ykkar.
Ég er hættur að telja dagana niður að fertugu. Eins og við niðurtalningu fyrir eldlflaugaskot, þar sem hefðin virðist, ef marka má sjónvarpsefni, vera sú að teljarinn, maðurinn sem vinnur við þetta eitt, að telja niður að eldflaugaskotum, telur upphátt frá ten, nine, eight, niður að five, four, en þegir gegnum three, two, one, eins og til að halda niðri í sér andanum fyrir hönd áhorfenda, þetta eru viðkvæm tæki, auðvitað og hver veit hvað gæti farið úrskeiðis ef maður öskrar á eldflaug í miðju flugtaki.
Hver veit hvað gæti.
Þetta var fínn dagur, fín vika, þetta er fínt líf. En væri betra ef þættirnir sem það er sett saman úr gætu raðað sér í einfalda röð fyrir utan dyrnar eða tekið númer, þess vegna, beðið róleg eftir að röðin komi að sér.