Atvikin

13.2.2019 ~ 1 mín

Nú sé ég að það er tæpt ár frá því ég skrif­aði hér inn færslu síðast. Það var 3. mars 2018 og ég var að kvarta yfir því að heim­ur­inn væri of fullur af atvikum, hvort þau gætu kannski raðað sér upp í snyrti­legri röð og beðið eftir að ég kalli á þau. Eitt­hvað í þá veru.

Þremur dögum síðar bárust hörm­ung­ar­fréttir. Það var ekki meðvitað þess vegna sem ég hef haldið mig héðan. Ég hafði reyndar ekki sett þetta tvennt í neitt samhengi fyrr en ég leit hér inn og rakst á dagsetn­ing­una, rétt núna.

Og fleira kom til. Orðin mín hafa viljað annað. Annars vegar hef ég teymt þau í frétta­flutn­ing á Kvenna­blað­inu, þar sem ég hef nú starfað í bráðum eitt og hálft ár. Hins vegar var ég að skrifa bók. Nú hef ég lokið við bókina, látið hana frá mér, ritstjór­inn er búin að bera undir mig kápu­text­ann og umbrotið, bráðum verður skjalið sent yfir sæstreng­inn til prent­smiðju – ég hef ekki einu sinni spurt hvar í heim­inum – þar sem fólk færir orðin á arkir, arkirnar í band, bindin á vöru­bretti, vöru­brettin í gám og gáminn loks til baka, samsíða sæstrengnum en ofan­sjávar, til Íslands.

Óbreytt er hins vegar frá því að ég skrif­aði síðustu færslu, 3. mars 2019, að það gerist heldur mikið í heim­inum, það gerist heldur hratt, það gerist heldur óskipu­lega. Það getur jafn­vel rifið heldur harka­lega í. Atvikin eru tillits­laus, skeyt­ing­ar­laus, agalaus, í þeirra heimi ríkir öngþveiti.

Þetta er rétt til að segja hæ. Og nefna að nú þegar verið er að búa þessa bók mína undir heim­inn, færa henni nesti og nýja skó, þá er ég satt að segja svolítið eirð­ar­laus. Man ekkert hvað það var sem ég var annars vanur að gera. Nema þá elda kjúk­ling. Það er kjúk­lingur í ofninum.