Ó, 23. apríl 2019

23.4.2019 ~ 2 mín

Nú þegar tvær vikur eru liðnar frá útgáfu Ó hefur eftir­far­andi gerst: bókin hefur sést út um hvipp­inn og hvapp­inn, í höndum velvilj­aðra lesenda sem hafa sent mér myndir. Það finnst mér gaman, ég fylg­ist með bókinni fara um landið eins og aðflutta fiður­féð flögrar um í henni sjálfri. Nokkrar bækur spreyttu sig meira að segja á flugi aftur til megin­lands­ins en voru stöðv­aðar í tolli, sem mér myndi þykja í skemmti­legu samræmi við efni bókar­innar líka, ef þetta væru ekki eintökin mín, þau sem ég ætlaði að koma í hendur vina hérna í grennd við mig og annars staðar utan Íslands. Bækurnar verða sendar til baka, aftur yfir hafið, það verður þá annað flugið sem þær þreyta, en þriðja ferða­lag þeirra milli landa. Fyrst sigldu þær. Ef til vill eru sigl­ingar nátt­úru­legri ferða­máti fyrir bækur. Einn maður skrif­aði mér skeyti, sagð­ist hálfn­aður með bókina og að honum þætti hún í alla staði mögnuð. Það var fyrir um viku síðan, hann sagð­ist myndu láta betur í sér heyra þegar hann hefði lokið við hana en ég bíð þess enn. Nokkrum dögum áður hafði spurði blaða­maður Frétta­blaðs­ins spurt mig nokk­urra spurn­inga, fínna spurn­inga miðað við að hún hafði ekki, á þeim tíma­punkti, lesið bókina. Úr varð viðtal í prent­miðl­inum sem rataði þó ekki á vef blaðs­ins. Á prent­miðlum er enginn lækhnappur, enginn telj­ari og ég veit því ekki bein­línis hvort nokkur las viðtalið. Nema mamma, ég veit að mamma las það. Það þykir mér vænt um. Og ég veit líka að hún er að lesa bókina, ég heyrði í henni á páska­dag, þá var hún komin á blað­síðu 178. Ég hugga mig við að með sama áfram­haldi mun þó mamma lesa bókina til enda fyrir næstu helgi. Þannig sat ég yfir pásk­ana, og sit senni­lega fram á sumar­dag­inn fyrsta, ýmist við tölvu eða síma, bíðandi eftir viðbragði fyrstu lesenda, hvort sem er ósvíf­inna gagn­rýn­enda eða umhyggju­samra ættingja og ástvina. Eftir þennan Óapríl stefnir í Ómaí. Ómaí, slómaí. Mér líður eins og ég hafi lagt af stað í göngu, reimað á mig prýði­lega skó, lyft upp fæti til að taka fyrsta skref – og stað­næmst þar með fótinn í lausu lofti. Ekki kominn út, ekki fet frá skrif­borð­inu, í eins manns myndastyttuleik.