Mín fyrstu pólitísku skrif, eða þau fyrstu sem ég man beinlínis eftir, voru árið 2003, þegar ég tók saman greinasafnið Af stríði, andmælarit gegn innrásinni í Írak sem Ísland tók þátt í, bæði táknrænt og með einhverju efnislegu liðsinni, aðstöðu á vellinum og fleira. Þá var mörgum ljóst, en þó ekki staðfest eins og það er nú, að afstaða Íslands byggði alfarið á efnahagslegum forsendum: Davíð Oddsson lofaði stuðningi landsins við innrásina gegn því að Bandaríkjaher héldi áfram rekstri herstöðvar á Miðnesheiði. Öllum öðrum, öllum sem ekki höfðu slíka hagsmuni að verja eða kærðu sig ekki um þá, var ljóst eða mátti vera ljóst að innrásin var byggð á fölskum forsendum, lygi, og að af henni myndi hljótast ófyrirsjáanlegt en ómælt tjón.
Það var ekki erfitt að finna góðar greinar í þessa bók. Arundhati Roy átti þar grein og Slavoj Zizek, ásamt minna þekktum höfundum og handfylli íslenskra. Um stríðið var enginn vitur eftir á, allir vissu að það væri galið. En það breytti engu.
Sjö árum síðar unnu Chelsea Manning og Julian Assange, ásamt samstarfsfólki sínu, þarfara verk en nokkrir aðrir blaðamenn eða ritstjórar, gerðu meira til að sýna okkur öllum hvað hér var í húfi, þegar Wikileaks birti myndbandsupptöku hersins af morðum, þyrluárás bandarískra hermanna á óbreytta borgara og blaðamenn í Bagdad. Á upptökunni mátti heyra hermennina hlæja að ódæðunum. Morðin voru framin árið 2007, upptökurnar birtust árið 2010.
Árið 2019 leggja bandarísk stjórnvöld sig fram um að murka líftóruna úr Julian Assange. Þau njóta reyndar dyggrar aðstoðar bandamanna sinna við þetta, og njóta góðs af furðulegu ástandi á fjölmiðlum. Þess er nú krafist að Assange verði framseldur til Bandaríkjanna. Samstaða með Assange hefur að verulegu leyti verið óvirk, hálfpartinn óhugsandi, vegna meintra kynferðisbrota hans. En í Bandaríkjunum yrði alls ekki réttað yfir honum vegna þeirra, heldur fyrir ritstjórn og útgáfu frétta, sem þarlend stjórnvöld hafa nú endurskilgreint sem njósnir.
Assange er ekki bandarískur ríkisborgari. Óháð framsalskröfunni hefur nú þegar skapast það hrikalega fordæmi að óháð því hvar þú fæddist, elur manninn, hvaðan sem þú færð vegabréfið þitt, munu bandarísk stjórnvöld hundelta þig ef þú birtir fréttir sem skaða ímyndaða eða raunverulega hagsmuni þeirra. Í því að þegja yfir þessu viðbragði, láta það viðgangast, gerumst við samsek um ýmislegt. Kúgun okkar sjálfra. Myrkvun og forheimskun fjölmiðla, yfirhylmingu stríðsglæpa. Og afmáun sendiboðans, hvort sem hann yrði látinn dúsa í fangelsi fram á gamals aldur eða dagar þar uppi fyrr.
Þetta er ekki boðlegt. Íslensk stjórnvöld munu ekki andmæla hrottafullu viðbragði bandarískra stjórnvalda við fréttamiðlun að fyrra bragði. En ef þrýstingur frá almenningi getur hróflað við afstöðu þeirra er okkur í reynd í lófa lagið að gegna ákveðnu lykilhlutverki. Í fyrsta lagi eru tengsl Wikileaks við Ísland vel þekkt. Ekki aðeins er ritstjóri samtakanna nú Kristinn Hrafnsson, heldur var það fyrir hans tilstilli, og fréttastofu Ríkisútvarpsins, þar sem hann starfaði áður, sem myndbandið af þyrluárásinni í Bagdad komst fyrir almenningssjónir. Af þessu má RÚV vera hreykið. Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður, var náinn samstarfsmaður Assange um hríð. Fleira mætti telja. Að því leyti má segja að Ísland sé þegar aðili að málinu.
Eftir að Vinstri græn samþykktu aðild Íslands að NATO og allt það, með svokallaðri „þjóðaröryggisstefnu“, mætti í öðru lagi hugsa sér það sem eins konar varnarsigur flokksins að krefja þó samstarfsflokka sína í ríkisstjórn um að verða við því eina skilyrði fyrir aðild landsins að hernaðarapparötum að standa ekki í vegi þess að almenningur verði upplýstur um stríðsglæpi. Í stað þess að segja bara „ókei“ gætu Vinstri græn sagt „ókei en“: ókei en þá aðeins að þið takið höndum saman með okkur til að mótmæla ofsóknum gegn uppljóstrurum, blaðamönnum og dugandi fjölmiðlum.
Í þriðja lagi leikur Ísland nú á nýjan leik eitthvert hlutverk í yfirstandandi hernaðaruppbyggingu og vígvæðingu. Bandaríkin virðast telja þörf á nokkurri aðstöðu hér til kafbátaeftirlits, hið minnsta, til að halda siglingaleiðum yfir Atlantshaf opnum, komi til beinna eða óbeinna átaka við Rússa. Strategískt er Ísland með öðrum orðum í stöðu til að gera kröfur, setja skilyrði. Fyrst allir flokkar þingsins eru nú í reynd samstíga um aðild Íslands að NATO – og það allt – gætu þeir hugsanlega reynt að koma sér saman um forsendur þess. Þau gætu beitt hugsanlegri úrsögn fyrir sig eins og í þorskastríðunum áður, en í þetta sinn ekki til að færa út landhelgi heldur mannhelgi.
Þessir orðaleikir eru andstyggilegir en kannski ná þeir einhverjum eyrum. Ég læt þennan standa. Mannhelgi. Það má ekki murka úr fólki líftóruna. Útfærslan gæti verið með ýmsu móti. Á almennum forsendum, með þeirri lágmarkshótun sem varla er ein og sér siðferðilega fullnægjandi en gæti þó skilað einhverju, gæti Ísland tilkynnt þá stefnu að ríki sem ofsækir blaðamann fyrir fréttaflutning af stríðsglæpum þess sé ekki heimilt að hafa nokkra hernaðartengda aðstöðu á landinu. Jafnvel Sjálfstæðisflokknum ætti ekki að þykja það öfgafull afstaða.