Færsla

19.5.2019 ~ 2 mín

Síðustu vikur fór ég nokkra hringi á þessu bloggi, setti upp ný þemu, skipti, breytti og stað­færði, þar til ég lenti aftur á þeirri hönnun sem var hér fyrir, en færði hana aðeins nær mínum smekk einmitt þessa stund­ina. Aðeins ljós­ari bakgrunnur, aðeins tiltekn­ara blek í letrið, aðeins tiltekn­ara letur – monospace, vel að merkja. 

Það varðar þig auðvitað ekkert um. Þér er slétt sama. Ég veit það og geri þess vegna ráð fyrir að þú sért þegar hætt(ur) að lesa. Og hér ertu þó enn. Fyrr eða síðar hlýt ég að leggja mig fram um að segja eitt­hvað sem þú gætir haft áhuga á, gætir hugs­an­lega auðg­ast, á einhvern hátt, af því að lesa.

Einmitt þessar setn­ingar eru þó ekki bein­línis til þess ætlaðar. Þær eru meira fyrir sjálfan mig, að gera mig aftur heima­kom­inn hér inni. Ég hætti að mestu að blogga í um eitt og hálft ár, á meðan ég starf­aði, annars vegar, á fréttamiðli, en lauk um leið, hins vegar, við ritun bókar­innar sem nú er komin út undir titl­inum Ó – um þegn­rétt tegund­anna í íslenskri nátt­úru.

Kvenna­blaðið, þar sem ég starf­aði, var lagt niður þremur dögum áður en bókin kom út. Þannig lauk tíma­bili, nokkuð skýrt og greini­lega. Þetta nýja tíma­bil sem hófst þá í mínu lífi er enn ekki með skýra lögun, það saman­stendur af þreif­ingum, mögu­leikum. Það er að verða, það er ekki orðið.

Ég hef gert nokkrar atrennur að því að skrifa færslu til að koma mér fyrir hér aftur, brúa jafn­vel bilið frá því síðast, en frá því ég var síðast virkur hér, seinni hluta árs 2017, hefur of margt gerst sem skiptir mig máli til að þær tilraunir meiki sens. Það eru bil í þessum heimi. Þessi heimur er gerður úr bilum. Bilin verða ekki brúuð. Hér verður ekki brúað í bili. 

En bloggað. Blogg verða blogguð.

Vel að merkja breytti ég um nafn á blogg­inu. Nú heitir það Hérna,.