Því hefur verið haldið fram að í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar megi finna loforð um að taka sérstakt tillit til barna þegar kemur að afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd. Það er ekki rétt. Í stjórnarsáttmálanum er ekkert slíkt. Raunar er þar ekkert að finna um málaflokkinn nema svolítið orðlanga en þó snyrtilega samansetta glufu fyrir fleiri og hraðari brottvísanir.
Samfella í þjónustu
Fyrst er nefnt að aldrei hafi „fleiri verið á flótta vegna stríðsátaka, ofsókna og umhverfisvár“. Síðan segir: „Ísland mun leggja sitt af mörkum til lausnar á flóttamannavandanum og taka á móti fleiri flóttamönnum“. Hér er ekki tilgreindur fjöldi (og ekki einu sinni fjölgun, strangt til tekið: að taka á móti „fleiri flóttamönnum“ má túlka sem svo að tekið verði á móti flóttamönnum yfirleitt, til viðbótar þeim sem þegar hafa komið til landsins. Eru ekki allir flóttamenn fleiri flóttamenn?). Þá birtist glufan:
„Mannúðarsjónarmið og alþjóðlegar skuldbindingar verða lögð til grundvallar og áhersla á góða og skilvirka meðhöndlun umsókna um alþjóðlega vernd.“
Lykilorðið hér er „skilvirk“ en allir sem fást við málaflokkinn vita að það er kóði fyrir hraðar brottvísanir, helst án þess að umsókn sé tekin til skoðunar. Því næst segir að tryggð verði „samfella í þjónustu og aðstoð við þá sem fá slíka vernd“ – sem þýðir allt næstum ekki neitt. Loks segir síðasta setning efnisgreinarinnar um flóttafólk: „Þverpólitískri þingmannanefnd verður falið að meta framkvæmd útlendingalaga og eftir atvikum endurskoða þau“. Það er nefndin sem Kolbeinn Óttarsson Proppé sagðist binda vonir við, þegar hann var ónáðaður í sumarfríinu, vitandi jafn vel og aðrir að nefnd er annað orð yfir blund.
Hér er með öðrum orðum ekkert. Og þar sem allt er í fullu samræmi við ekkert er í fullu samræmi við stjórnarsáttmálann að úthýsa börnum og fullorðnum sem hingað leita – með góðri og skilvirkri meðhöndlun umsókna og samfellu í þjónustu og aðstoð.
Jafnræði við pyntingar barna
Eftir sem áður eru heiðvirðir embættismenn og kjörnir fulltrúar um þessar mundir ofsóttir af vanstilltu fólki sem leggur fram dyntóttar kröfur um að þau skaði ekki börn. Þessu hefur nú dómsmálaráðherra svarað. Hún segir, samkvæmt frétt Vísis:
„að svo hægt sé að tryggja jafnræði í meðferð slíkra mála hafi hún ekki heimild til að stíga inn í einstaka mál.“
Hvaða orð er þetta, hvað þýðir jafnræði? Jöfnuður er alþekkt á öðrum tungum, ef við notum það til þýðingar á equality/égalité. Jöfnuður er forvitnilegt hugtak, meðal annars vegna þess hvað það virðist altækt, óendanlegt, eins og því verði aldrei fullnægt. Jöfnum allan rétt og hvað þá með tekjur? Jöfnum tekjur og hvað þá með eignir? Jöfnum eignirnar og hvað þá um sálarheill? Jöfnum aðgang að geðheilbrigðisþjónustu – og svo framvegis. Kannski er það þess vegna sem íslenskan virðist svona feimin við þetta hugtak, þess vegna sem við notum það varla heldur setjum því skorður. Segjum ekki frelsi, jöfnuður, bræðralag, sem væri bein þýðing á slagorði byltingarinnar, eða frelsi, jöfnuður, samstaða, sem væri betri þýðing – heldur frelsi, jafnrétti, bræðralag. Jafnréttið setur jöfnuðinum vissar skorður, gengur úr skugga um að hann gangi ekki of langt.
Samkvæmt ritmálssafni Árnastofnunar er jafnrétti orð frá miðri 19. öld. Jafnræði reynist enn eldra. Og enn sveigjanlegra. Í ritmálssafninu má finna þetta dæmi um notkun, í lögskýringum Páls Vídalíns frá því um 1700: „þeir kalla það hið fyrsta jafnræði, að karlmaður á tvo penínga móti einum peníngi konunnar“. Tveir á móti einum fyrir kallana, það fékk að heita jafnræði. Á 19. öld virðist hugtakið notað yfir jöfnuð að valdi og rétti: „í Austfirðingafjórðungi hafi í fornöld höfðingjaríkið verið minna, en jafnræði meira með mönnum, en annars staðar á landinu“. Minna höfðingjaríki var þá meira jafnræði. Það virðist nútímalegri skilningur. Langt fram á 20. öld virðist orðið þó einkum notað um samskipti hjóna. „Með lögum frá árinu 1923 var ákveðið fullkomið jafnræði hjóna yfir eignum sínum“ segir einhvers staðar árið 1958 og „Mjög þótti jafnræði með þeim hjónum að höfðingsbrag“ stendur í bók sem kom út 1965.
Síðan gerist það árið 1995 að svokölluð jafnræðisregla var innleidd í íslensku stjórnarskrána. Ég þykist áður hafa dvalið aðeins við afleiðingar af úrskurðum Mannréttindadómstóls Evrópu í málum sem Íslendingar höfðuðu gegn eigin stjórnvöldum um þær mundir. Eitt var að ekki skyldi sami maður rannsaka, ákæra og dæma í sakamálum. Fín regla. Annað var að tjáningarfrelsi almennings ætti líka við um gagnrýni á stjórnvöld. Mjög fín regla. En réttarbót þessara ára heldur áfram að koma svona aftan að manni. Það mætti jafnvel kalla hana heldur vanreifaða. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir þessu fyrr en nú, en það er semsagt árið 1995 sem íslensk stjórnvöld sjá sig tilknúin, vegna úrskurða Mannréttindadómstólsins, til að bæta þessari klausu í stjórnarskrána:
„Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“
Þaðan í frá hefur þetta staðið sem 65. grein stjórnarskrárinnar. „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum“. Fram til ársins 1995 var ekkert slíkt haft á orði í þessu merka plaggi. Jafnræðisreglan, eins og hún er síðan nefnd, þetta að allir skuli jafnir fyrir lögum, hefur nú verið gild í 24 ár. Ef til vill hefur það eitthvert skýringargildi, í annars óskyldum málum, að enn er ekki komin til valda fyrsta kynslóðin sem elst upp við þetta viðmið. Hún er rétt að ljúka námi.
Og það er augljóslega þetta sem dómsmálaráðherra skírskotar til þegar hún segir að það væri brot á jafnræði að forða barni frá skaða á meðan meginregla ríkisins er að skaða börn. Það þarf þá að skaða þau öll, annað væri brot á jafnræðisreglunni. Allir skuli jafnir fyrir lögum.
Lenínískur húmor dómsmálaráðherra
Að skírskota til jafnræðisreglunnar til að réttlæta jafna misþyrmingu barna í viðkvæmri stöðu minnir, að breyttu breytanda, á gamla grein frá Lenín, sótsvart grín sem í enskri þýðingu heitir „How to Organise Competition?“ eða „Hvernig skal skipuleggja samkeppni“. Þið viljið samkeppni, skrifar Lenín, ég skal sýna ykkur samkeppni, og útlistar síðan hvað samkeppni geti reynst gagnleg í byltingunni, samkeppni milli ólíkra aðferða við að koma gömlu valdastéttinni, letingjum, menntamönnum og öðrum óþurftarlýð fyrir kattarnef:
„Á einum stað má fangelsa hálfa tylft auðmanna, tylft óþokka, annað eins af verkamönnum sem svíkjast um að vinna störf sín …. Annars staðar má láta þá þrífa salernin. Á þriðja staðnum verða þeir merktir með „gulum miðum“ eftir að taka út sína refsingu, til að allir megi hafa auga á þeim, sem skaðvöldum, þar til þeir hafa látið betrast. Á fjórða staðnum verður tíundi hver slæpingi skotinn á staðnum. Á fimmta staðnum má beita blandaðri aðferð, til dæmis má veita reynslulausn og þannig tækifæri til hraðrar betrunar því efnafólki, borgaralegum menntamönnum, rónum og ruddum sem virðast forbetranlegir. Því meiri fjölbreytni, því betri og auðugri verður uppsöfnuð reynsla okkar …“
Því meiri samkeppni og nýsköpun, því fjölbreyttari aðferðir, því betri bylting. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir leynir á sér og virðist, sem dómsmálaráðherra, ekki gefa Lenín neitt eftir í gallsvörtum húmor – þó að þolendur brandarans séu auðvitað annar hópur, fólk í viðkvæmustu stöðu, og ásetningurinn þveröfugur: Þið viljið jöfnuð, segir hún, og skilvirka málsmeðferð, ég skal sýna ykkur jöfnuð og skilvirka málsmeðferð, og úthýsa öllum sem leita skjóls hjá okkur jafnt. (Burtséð frá inntaki og ásetningi er sá munur hér á að Lenín gekkst opinskátt við ásetningi sínum, á meðan mér er til efs að Þórdís og félagar myndu nokkurn tíma kannast við að hafa látið frá sér þennan brandara, hvað þá að hafa valdið fjölda raunverulegs fólks ómældu, beinu tjóni með faglegri og þverpólitískri stefnumótun ….)
Bigger, Better, Faster, More!
Allt er þetta í fullu samræmi við stjórnarsáttmálann. Og það er líka í fullu samræmi við stjórnarsáttmálann að yfirlýst höfuðmarkmið ríkisstjórnarinnar með þeim fyrirhuguðu breytingum á Útlendingalögum sem voru kynntar á þingi síðasta vetrar sé að neita öllum umsækjendum sjálfkrafa um vernd þegar tæknileg glufa finnst til. Ef einhver skyldi velkjast í vafa um þetta eru tekin af öll tvímæli í rökstuðningnum sem fylgir frumvarpinu:
„Er því meðal annars lagt til að skýrt verði kveðið á um að beita skuli Dyflinnarreglugerðinni þegar þess er nokkur kostur … Ástæða þykir til að bregðast við þessari fjölgun með því að styrkja stoð Dyflinnarreglugerðarinnar … Nauðsynlegt þykir að bregðast við þessari stöðu með því að styðja við þá stefnu að beita Dyflinnarreglugerðinni þegar þess er kostur … Ástæða þykir til að styrkja stoðir Dyflinnarreglugerðarinnar í lögunum …er mælt fyrir um breytingar sem ætlað er að styrkja stoð Dyflinnarreglugerðarinnar og árétta að henni skuli beitt þegar þess er nokkur kostur“.
Með þessari klifun á Dyflin er í hvert sinn átt við brottvísanir: umsækjendum um vernd skuli brottvísa hvenær sem Dyflinnarreglugerðin gefur kost á því. Reglugerðin útheimtir aldrei brottvísun, en heimilar hana í fjölda tilfella. Íslensk stjórnvöld ásetja sér opinskátt að beita henni til hins ítrasta, af meiri hörku héðan í frá en hingað til. Og ómældu jafnræði.
Njótum vafans
Allir er stórt orð. Eins og jöfnuður, það er óendanleiki í því. Mig rámar í að þessu orði hafi oft verið fleygt af stjórnmálamönnum, kannski var það fyrir 1995, og kannski litu þeir svo á að allir þýddi allir innfæddir Íslendingar eða allir ríkisborgarar landsins. Þegar betur var að gáð reyndust allir fleiri en svo. Eigi jafnræðisreglan að halda verður ríkisvaldið að gera það upp við sig hvort það vill heldur hafa það fyrir meginreglu að skaða börn, og þá öll börn, „án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti“ – eða að verja þau fyrir tjóni.
Hvort sem er, að skaða öll börn jafnt eða verja þau jafnt, væri í fullu samræmi við stjórnarsáttmálann. Verið getur að höfundar jafnræðisreglunnar hafi séð slíkt fyrir, og það sé þess vegna sem þar er ekki aðeins minnst á formlegan jöfnuð fyrir lögunum heldur mannréttindi í sömu mund:
„Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda …“
Þannig er mögulega nokkuð þrengt að valkostum stjórnvalda í þessum málaflokki: verið getur að mannréttindasáttmáli Evrópu, eins og hann hefur verið bæði lögfestur og bundinn í stjórnarskrá, meini íslenskum stjórnvöldum að pynta börn. Slík takmörkun væri viss aðför að fullveldinu, en á það hefur ekki reynt fyrir dómstólum. Brottvísuð börn hafa ekki lögfræðideildir. Á meðan óvissa ríkir um heimildir lýðveldisins til pyntinga á börnum njóta stjórnvöld vafans.