Allir út!

04.7.2019 ~ 8 mín

Því hefur verið haldið fram að í stjórn­arsátt­mála núver­andi ríkis­stjórnar megi finna loforð um að taka sérstakt tillit til barna þegar kemur að afgreiðslu umsókna um alþjóð­lega vernd. Það er ekki rétt. Í stjórn­arsátt­mál­anum er ekkert slíkt. Raunar er þar ekkert að finna um mála­flokk­inn nema svolítið orðlanga en þó snyrti­lega saman­setta glufu fyrir fleiri og hrað­ari brottvísanir.

Samfella í þjónustu

Fyrst er nefnt að aldrei hafi „fleiri verið á flótta vegna stríðs­átaka, ofsókna og umhverf­is­vár“. Síðan segir: „Ísland mun leggja sitt af mörkum til lausnar á flótta­manna­vand­anum og taka á móti fleiri flótta­mönnum“. Hér er ekki tilgreindur fjöldi (og ekki einu sinni fjölgun, strangt til tekið: að taka á móti „fleiri flótta­mönnum“ má túlka sem svo að tekið verði á móti flótta­mönnum yfir­leitt, til viðbótar þeim sem þegar hafa komið til lands­ins. Eru ekki allir flótta­menn fleiri flótta­menn?). Þá birt­ist glufan:

„Mann­úð­ar­sjón­ar­mið og alþjóð­legar skuld­bind­ingar verða lögð til grund­vallar og áhersla á góða og skil­virka meðhöndlun umsókna um alþjóð­lega vernd.“

Lykil­orðið hér er „skil­virk“ en allir sem fást við mála­flokk­inn vita að það er kóði fyrir hraðar brott­vís­anir, helst án þess að umsókn sé tekin til skoð­unar. Því næst segir að tryggð verði „samfella í þjón­ustu og aðstoð við þá sem fá slíka vernd“ – sem þýðir allt næstum ekki neitt. Loks segir síðasta setn­ing efnis­grein­ar­innar um flótta­fólk: „Þver­póli­tískri þing­manna­nefnd verður falið að meta fram­kvæmd útlend­ingalaga og eftir atvikum endur­skoða þau“. Það er nefndin sem Kolbeinn Óttars­son Proppé sagð­ist binda vonir við, þegar hann var ónáð­aður í sumar­frí­inu, vitandi jafn vel og aðrir að nefnd er annað orð yfir blund.

Hér er með öðrum orðum ekkert. Og þar sem allt er í fullu samræmi við ekkert er í fullu samræmi við stjórn­arsátt­mál­ann að úthýsa börnum og full­orðnum sem hingað leita – með góðri og skil­virkri meðhöndlun umsókna og samfellu í þjón­ustu og aðstoð. 

Jafn­ræði við pynt­ingar barna

Eftir sem áður eru heið­virðir embætt­is­menn og kjörnir full­trúar um þessar mundir ofsóttir af vanstilltu fólki sem leggur fram dynt­óttar kröfur um að þau skaði ekki börn. Þessu hefur nú dóms­mála­ráð­herra svarað. Hún segir, samkvæmt frétt Vísis:

„að svo hægt sé að tryggja jafn­ræði í með­ferð slíkra mála hafi hún ekki heim­ild til að stíga inn í ein­staka mál.“

Hvaða orð er þetta, hvað þýðir jafn­ræði? Jöfn­uður er alþekkt á öðrum tungum, ef við notum það til þýðingar á equality/égalité. Jöfn­uður er forvitni­legt hugtak, meðal annars vegna þess hvað það virð­ist altækt, óend­an­legt, eins og því verði aldrei full­nægt. Jöfnum allan rétt og hvað þá með tekjur? Jöfnum tekjur og hvað þá með eignir? Jöfnum eign­irnar og hvað þá um sálar­heill? Jöfnum aðgang að geðheil­brigð­is­þjón­ustu – og svo fram­vegis. Kannski er það þess vegna sem íslenskan virð­ist svona feimin við þetta hugtak, þess vegna sem við notum það varla heldur setjum því skorður. Segjum ekki frelsi, jöfn­uður, bræðra­lag, sem væri bein þýðing á slag­orði bylt­ing­ar­innar, eða frelsi, jöfn­uður, samstaða, sem væri betri þýðing – heldur frelsi, jafn­rétti, bræðra­lag. Jafn­réttið setur jöfn­uð­inum vissar skorður, gengur úr skugga um að hann gangi ekki of langt.

Samkvæmt ritmálssafni Árna­stofn­unar er jafn­rétti orð frá miðri 19. öld. Jafn­ræði reyn­ist enn eldra. Og enn sveigj­an­legra. Í ritmálssafn­inu má finna þetta dæmi um notkun, í lögskýr­ingum Páls Vídalíns frá því um 1700: „þeir kalla það hið fyrsta jafn­ræði, að karl­maður á tvo penínga móti einum peníngi konunnar“. Tveir á móti einum fyrir kall­ana, það fékk að heita jafn­ræði. Á 19. öld virð­ist hugtakið notað yfir jöfnuð að valdi og rétti: „í Aust­firð­inga­fjórð­ungi hafi í forn­öld höfð­ingja­ríkið verið minna, en jafn­ræði meira með mönnum, en annars staðar á land­inu“. Minna höfð­ingja­ríki var þá meira jafn­ræði. Það virð­ist nútíma­legri skiln­ingur. Langt fram á 20. öld virð­ist orðið þó einkum notað um samskipti hjóna. „Með lögum frá árinu 1923 var ákveðið full­komið jafn­ræði hjóna yfir eignum sínum“ segir einhvers staðar árið 1958 og „Mjög þótti jafn­ræði með þeim hjónum að höfð­ings­brag“ stendur í bók sem kom út 1965.

Síðan gerist það árið 1995 að svokölluð jafn­ræð­is­regla var innleidd í íslensku stjórn­ar­skrána. Ég þykist áður hafa dvalið aðeins við afleið­ingar af úrskurðum Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evrópu í málum sem Íslend­ingar höfð­uðu gegn eigin stjórn­völdum um þær mundir. Eitt var að ekki skyldi sami maður rann­saka, ákæra og dæma í saka­málum. Fín regla. Annað var að tján­ing­ar­frelsi almenn­ings ætti líka við um gagn­rýni á stjórn­völd. Mjög fín regla. En rétt­ar­bót þess­ara ára heldur áfram að koma svona aftan að manni. Það mætti jafn­vel kalla hana heldur vanreif­aða. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir þessu fyrr en nú, en það er semsagt árið 1995 sem íslensk stjórn­völd sjá sig tilknúin, vegna úrskurða Mann­rétt­inda­dóm­stóls­ins, til að bæta þess­ari klausu í stjórnarskrána:

„Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mann­rétt­inda án tillits til kynferðis, trúar­bragða, skoð­ana, þjóð­ern­is­upp­runa, kynþáttar, litar­háttar, efna­hags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“

Þaðan í frá hefur þetta staðið sem 65. grein stjórn­ar­skrár­innar. „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum“. Fram til ársins 1995 var ekkert slíkt haft á orði í þessu merka plaggi. Jafn­ræð­is­reglan, eins og hún er síðan nefnd, þetta að allir skuli jafnir fyrir lögum, hefur nú verið gild í 24 ár. Ef til vill hefur það eitt­hvert skýr­ing­ar­gildi, í annars óskyldum málum, að enn er ekki komin til valda fyrsta kynslóðin sem elst upp við þetta viðmið. Hún er rétt að ljúka námi.

Og það er augljós­lega þetta sem dóms­mála­ráð­herra skír­skotar til þegar hún segir að það væri brot á jafn­ræði að forða barni frá skaða á meðan megin­regla ríkis­ins er að skaða börn. Það þarf þá að skaða þau öll, annað væri brot á jafn­ræð­is­regl­unni. Allir skuli jafnir fyrir lögum.

Lenín­ískur húmor dómsmálaráðherra

Að skír­skota til jafn­ræð­is­regl­unnar til að rétt­læta jafna misþyrm­ingu barna í viðkvæmri stöðu minnir, að breyttu breyt­anda, á gamla grein frá Lenín, sótsvart grín sem í enskri þýðingu heitir „How to Organise Compe­tition?“ eða „Hvernig skal skipu­leggja samkeppni“. Þið viljið samkeppni, skrifar Lenín, ég skal sýna ykkur samkeppni, og útlistar síðan hvað samkeppni geti reynst gagn­leg í bylt­ing­unni, samkeppni milli ólíkra aðferða við að koma gömlu valda­stétt­inni, letingjum, mennta­mönnum og öðrum óþurft­ar­lýð fyrir kattarnef:

„Á einum stað má fang­elsa hálfa tylft auðmanna, tylft óþokka, annað eins af verka­mönnum sem svíkj­ast um að vinna störf sín …. Annars staðar má láta þá þrífa salernin. Á þriðja staðnum verða þeir merktir með „gulum miðum“ eftir að taka út sína refs­ingu, til að allir megi hafa auga á þeim, sem skað­völdum, þar til þeir hafa látið betr­ast. Á fjórða staðnum verður tíundi hver slæp­ingi skot­inn á staðnum. Á fimmta staðnum má beita bland­aðri aðferð, til dæmis má veita reynslu­lausn og þannig tæki­færi til hraðrar betr­unar því efna­fólki, borg­ara­legum mennta­mönnum, rónum og ruddum sem virð­ast forbetr­an­legir. Því meiri fjöl­breytni, því betri og auðugri verður uppsöfnuð reynsla okkar …“

Því meiri samkeppni og nýsköpun, því fjöl­breytt­ari aðferðir, því betri bylt­ing. Þórdís Kolbrún R. Gylfa­dóttir leynir á sér og virð­ist, sem dóms­mála­ráð­herra, ekki gefa Lenín neitt eftir í gallsvörtum húmor – þó að þolendur brand­ar­ans séu auðvitað annar hópur, fólk í viðkvæm­ustu stöðu, og ásetn­ing­ur­inn þver­öfugur: Þið viljið jöfnuð, segir hún, og skil­virka máls­með­ferð, ég skal sýna ykkur jöfnuð og skil­virka máls­með­ferð, og úthýsa öllum sem leita skjóls hjá okkur jafnt. (Burt­séð frá inntaki og ásetn­ingi er sá munur hér á að Lenín gekkst opin­skátt við ásetn­ingi sínum, á meðan mér er til efs að Þórdís og félagar myndu nokk­urn tíma kann­ast við að hafa látið frá sér þennan brand­ara, hvað þá að hafa valdið fjölda raun­veru­legs fólks ómældu, beinu tjóni með faglegri og þver­póli­tískri stefnumótun ….)

Bigger, Better, Faster, More!

Allt er þetta í fullu samræmi við stjórn­arsátt­mál­ann. Og það er líka í fullu samræmi við stjórn­arsátt­mál­ann að yfir­lýst höfuð­markmið ríkis­stjórn­ar­innar með þeim fyrir­hug­uðu breyt­ingum á Útlend­inga­lögum sem voru kynntar á þingi síðasta vetrar sé að neita öllum umsækj­endum sjálf­krafa um vernd þegar tækni­leg glufa finnst til. Ef einhver skyldi velkj­ast í vafa um þetta eru tekin af öll tvímæli í rökstuðn­ingnum sem fylgir frumvarpinu:

„Er því meðal annars lagt til að skýrt verði kveðið á um að beita skuli Dyfl­inn­ar­reglu­gerð­inni þegar þess er nokkur kostur … Ástæða þykir til að bregð­ast við þess­ari fjölgun með því að styrkja stoð Dyfl­inn­ar­reglu­gerð­ar­innar … Nauð­syn­legt þykir að bregð­ast við þess­ari stöðu með því að styðja við þá stefnu að beita Dyfl­inn­ar­reglu­gerð­inni þegar þess er kostur … Ástæða þykir til að styrkja stoðir Dyfl­inn­ar­reglu­gerð­ar­innar í lögunum …er mælt fyrir um breyt­ingar sem ætlað er að styrkja stoð Dyfl­inn­ar­reglu­gerð­ar­innar og árétta að henni skuli beitt þegar þess er nokkur kostur“.

Með þess­ari klifun á Dyflin er í hvert sinn átt við brott­vís­anir: umsækj­endum um vernd skuli brott­vísa hvenær sem Dyfl­inn­ar­reglu­gerðin gefur kost á því. Reglu­gerðin útheimtir aldrei brott­vísun, en heim­ilar hana í fjölda tilfella. Íslensk stjórn­völd ásetja sér opin­skátt að beita henni til hins ítrasta, af meiri hörku héðan í frá en hingað til. Og ómældu jafnræði.

Njótum vafans

Allir er stórt orð. Eins og jöfn­uður, það er óend­an­leiki í því. Mig rámar í að þessu orði hafi oft verið fleygt af stjórn­mála­mönnum, kannski var það fyrir 1995, og kannski litu þeir svo á að allir þýddi allir innfæddir Íslend­ingar eða allir ríkis­borg­arar lands­ins. Þegar betur var að gáð reynd­ust allir fleiri en svo. Eigi jafn­ræð­is­reglan að halda verður ríkis­valdið að gera það upp við sig hvort það vill heldur hafa það fyrir megin­reglu að skaða börn, og þá öll börn, „án tillits til kynferðis, trúar­bragða, skoð­ana, þjóð­ern­is­upp­runa, kynþáttar, litar­háttar, efna­hags, ætternis og stöðu að öðru leyti“ – eða að verja þau fyrir tjóni.

Hvort sem er, að skaða öll börn jafnt eða verja þau jafnt, væri í fullu samræmi við stjórn­arsátt­mál­ann. Verið getur að höfundar jafn­ræð­is­regl­unnar hafi séð slíkt fyrir, og það sé þess vegna sem þar er ekki aðeins minnst á form­legan jöfnuð fyrir lögunum heldur mann­rétt­indi í sömu mund:

„Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mann­rétt­inda …“

Þannig er mögu­lega nokkuð þrengt að valkostum stjórn­valda í þessum mála­flokki: verið getur að mann­rétt­inda­sátt­máli Evrópu, eins og hann hefur verið bæði lögfestur og bund­inn í stjórn­ar­skrá, meini íslenskum stjórn­völdum að pynta börn. Slík takmörkun væri viss aðför að full­veld­inu, en á það hefur ekki reynt fyrir dómstólum. Brott­vísuð börn hafa ekki lögfræði­deildir. Á meðan óvissa ríkir um heim­ildir lýðveld­is­ins til pynt­inga á börnum njóta stjórn­völd vafans.