„Auknar líkur á raforkuskorti vegna gagnavera“ segir fyrirsögn frá RÚV á laugardag, og vísar í skýrslu Landsnets um „líkur á aflskorti yfir viðmiðunarmörkum“ á næstu árum. Skýrslan er ekki alfarið gegnsæ, eiginlega varla ívitnanleg umfram það sem fram kemur í fréttinni, en í frétt RÚV er bent á eina ástæðu fyrir aukinni orkunotkun: fjölgun „gagnavera“. Þá eru nefnd nokkur dæmi um nýleg gagnaver, síðast en ekki síst eitt sem rís nú við Korputorg, með orkuþörf „á við öll heimili landsins samanlagt“. Fram kemur að helsta verkefni gagnaveranna sé „mestmegnis Bitcoin-gröftur“.
Milljón samningar á sekúndu
Af umfjöllun fjölmiðla um sýndarmyntina Bitcoin má yfirleitt ráða tvennt, að minnsta kosti: í fyrsta lagi þykir mörgum myntin varasöm þar sem hún auðveldar viðskipti utan eftirlits opinberra aðila. Þannig nýtist hún við fjármögnun ólöglegrar starfsemi, auk þess sem skattyfirvöld virðast varla ná í skottið á henni. Um þessa hlið málsins verður ekki fjallað hér.
Í öðru lagi kemur oft fram að myntin byggi á svonefndri blockchain-tækni, eða bitakeðjum. Bitakeðjur eru hugbúnaðarlausn sem er ætlað að leysa traust af hólmi: leið til að halda utan um skrár og staðfesta sanngildi þeirra án þess að þurfa að reiða sig á trúverðugleika tiltekinna persóna eða stofnana. Bjartsýnismenn segja að í krafti bitakeðjanna verða rafrænir samningar ekki bara framfylgjanlegir heldur muni þeir uppfylla sig sjálfir. Þegar þörfin á trausti er úr sögunni geti samningagerð loks farið fram á ljóshraða, tölvur muni gera samninga sín á milli án beinnar aðkomu mannfólks, og þessi þrotlausa samningagerð muni nýtast á ótal sviðum. Bitakeðjurnar verði brátt hljóðlátur lykilþáttur í hversdagslífi okkar allra. Bjartsýnismennirnir segja til dæmis að sjálfakandi bílar muni gera hver öðrum tilboð í framúrakstur, fallast á tilboðin eða hafna þeim, ná samkomulagi og greiða út í hönd, á sama tíma og þeir greiða sjálfrukkandi vegum fyrir afnotin en þú, farþeginn, lest í bók eða hvað maður gerir í aldingarðinum. Bitakeðjurnar eru þannig, segja hinir bjartsýnu, tæknileg forsenda fyrir næsta skrefi okkar í átt að því sem Snorri Páll nefndi um daginn alræði örgjörvanna. Allt kemur þetta málinu við en hér verður samt ekki fjallað um bitakeðjur sem slíkar.
Nefna má þriðja atriðið sem nýverið ber nokkuð á í þessu samhengi: Facebook hefur tilkynnt áform um að hleypa á næsta ári af stokkunum sinni eigin mynt, Libra. Libra verður sýndarmynt í afar almennum skilningi, við þróun hennar er horft til reynslunnar af Bitcoin, en hún er strangt til tekið ekki „cryptocurrency“ af sama toga: virði hennar mun ekki grundvallast á sams konar dreifingu ábyrgðar og Bitcoin, heldur hyggst fyrirtækið, ásamt samstarfsaðilum, stofna eitthvað líkara nýjum seðlabanka. Afleiðingar þessa frumkvöðlastarfs geta áreiðanlega verið allnokkrar. Ef stjórnvöld, til að mynda á Íslandi, hafa ekki brugðist við að neinu ráði er ástæðan hugsanlega sú að þeim finnist enn heldur hjákátleg tilhugsun að hafa sérstakan „áhuga á internetinu“ eins og flissað var yfir þegar Píratar buðu fyrst fram. Libra er eftir sem áður annað viðfangsefni og ekki heldur til umfjöllunar hér.
Bjartsýnismennirnir vita kannski ekki hvað þeir eru að gera – en þeir kunna það. Gerum ráð fyrir, í bili, að bitakeðjur séu komnar til að vera, þar á meðal Bitcoin, þeim muni enn vaxa ásmegin, og þær muni gegna hlutverki í næsta hagvaxtarskeiði. Ein skuggahliðin á þeirri Eden er umhverfisslys af stóriðjustærð sem er þegar hafið. Slys, eða svona. Hörmungin er hönnuð, kerfið grundvallast á henni.
Happdrætti andskotans
Að baki bitakeðjum býr flókin hugbúnaðarverkfræði, en umhverfistjónið sem getur hlotist af Bitcoin er einfalt að skilja. Til að mynt hafi verðgildi þarf magn hennar að vera takmarkað. Magn Bitcoin-mynta er takmarkað með föstum takti í útgáfu þeirra: aðeins ein Bitcoin-mynt er gefin út í einu, á tíu mínútna fresti. Hvert fer hún? Það ræðst með lottódrætti. Svokölluð Bitcoin-námuvinna eða Bitcoin-gröftur felst í þessu lottói: á tíu mínútna fresti ákveður Bitcoin-kerfið tölu sem Bitcoin-verin í heiminum keppast þá um að giska á. Sú tölva sem er fyrst til að giska á rétta tölu vinnur og eigandi hennar fær eitt Bitcoin.
Til að halda verðbólgu í skefjum og tryggja stöðugleika myntarinnar lagar þetta kerfi sig að heildargetu þátttakenda. Ímyndum okkur að engin tölva taki þátt í þessum leik, heldur aðeins lítill vinahópur, þrír menn sem koma saman og hrópa hver í kapp við annan náttúrulegu tölurnar frá einum og upp. Þá væri happatalan einhvers staðar á bilinu 1 og 10.000, nógu lág til að innan tíu mínútna sé sennilegt að einhver hafi giskað á hana. Þegar vinunum fer að leiðast leikurinn láta þeir meðalgóðar fartölvur giska fyrir sig, en beina sjálfir athyglinni annað á meðan. Takturinn í keppninni hækkar, það tekur tölvurnar aðeins sekúndubrot að giska á fyrstu 10.000 tölurnar. Kerfið bregst við með því að hækka bilið sem happatalan liggur á, sennilega upp í einhverjar billjónir.
Einn vinanna er mikill keppnismaður og fjölgar tölvunum sínum um tvær. Nú keppir hann á þremur tölvum en hinir láta sér nægja eina hvor. Enn er aðeins einn vinningur í boði, á tíu mínútna fresti, en maðurinn með keppnisskapið fær þá nú flesta, þrjár myntir af hverjum fimm. Á meðan Bitcoin var hérumbil einskis virði skipti þetta sérviskulega áhugamál mannanna augljóslega engu máli. En virði myntar felst í tiltrúnni á hana. Þrátt fyrir miklar sveiflur í tiltrú á Bitcoin hefur hún í það heila vaxið nóg, frá því að leikurinn var gangsettur, til að ofvirkja samkeppnislögmálin: enginn grefur lengur eftir Bitcoin með fartölvu heldur keppast fjárfestar síðustu ár um að reisa það sem fjölmiðlar og ráðamenn kalla enn „gagnaver“, skemmur utan um fjölda tölva sem eru sérhannaðar til að giska sem hraðast á happatöluna. Þar hefst þessi bilun sem við stöndum nú frammi fyrir.
Fjórtán Kárahnjúkavirkjanir í rotþró
Í heild notar Bitcoin-kerfið nú þegar tæpar 65 terawattstundir (TWh) á ári. Það er á við orkuframleiðslu fjórtán Kárahnjúkavirkjana. (Nú milli laugardags og sunnudags hækkaði mat Cambridge-háskóla á áætlaðri ársnotkun kerfisins úr 62 í 65 TWh. Milli daga tók kerfið því fram úr Tékklandi og Austurríki í orkunotkun, en var fyrir helgi metið í námunda við Sviss). Vegna aðlögunarhæfni kerfisins, hvernig vinningslíkurnar í þessu lottói laga sig að fjölda prentaðra miða, sér ekki fyrir endann á þessum óðavexti í orkuneyslu þess. Að slá upp skemmu og fylla hana af þessum lottómiðavélum er nógu ódýrt til að enn virðast fjárfestar telja það borga sig að reisa eina skemmu til. Þó að hagfræðingar geti og hafi sjálfsagt teiknað upp kúrvur til að finna skurðpunktinn, þar sem væntur ávinningur af nýrri skemmu verður minni en tilkostnaðurinn, þá virðist ekki útilokað að sá skurðpunktur liggi einhvers staðar lengst hinu megin við Gullfoss.
Gagnaver er ónothæft orð yfir þessi lottófjós. Á Íslandi er þegar fjöldi þeirra starfandi, og vöxturinn hraður. Í frægum þjófnaði á síðasta ári var 600 tölvueiningum stolið úr svona skemmu. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um algengasta búnað má ætla að hvern mánuð sem reksturinn tafðist vegna þjófnaðarins hafi sparast tæp 900 MWh af raforku, eða sem jafngildir orkunotkun um 3.000 heimila. Í upphafi síðasta árs spáði fulltrúi HS Orku því í viðtali við BBC að rafnámuvinnsla á Íslandi myndi nota meira rafmagn en heimili landsins síðar á því ári. Eins og fram kom í fyrrnefndri frétt RÚV stefnir nú, rúmu ári síðar, í að eitt einasta ver, þetta við Korputorg, muni neyta meiri orku en heimilin samanlagt.
Foss
Málið varðar Ísland sérstaklega vegna þess að kostnaðurinn við rekstur þessara gagnavera felst í tvennu: að keyra tölvurnar og að kæla þær. Landfræðilega er Ísland ekki heppilega staðsett fyrir gagnaver þeirra fyrirtækja sem veita þjónustu á netinu og krefjast viðbragðssnerpu. Millisekúndur skipta máli fyrir leitarvélar, míkrósekúndur á Wall Street. Í því samhengi tefur strengurinn yfir hafið tilfinnanlega. En námugröfturinn er af öðrum toga. Bitcoin-vélarnar geta verið hérumbil hvar sem er. Þá vega kostir landsins þyngra: billegt rafmagn og „umhverfisvænt“, fyrir þá sem vilja flagga slíku, ásamt hinu, að á Íslandi er kalt. Því kaldara loftslag, því minni kostnaður við kælingu vélanna. Og því lengur borgar sig að bæta við einu veri enn.
Satoshi Nakamoto heitir höfundur Bitcoin-kerfisins. Ekkert er vitað um Nakamoto, ekki einu sinni hvort þar fer einstaklingur eða hópur, aðeins að undir þessu nafni hleypti einhver myntinni af stokkunum. Hver eða hvað sem Nakamoto er, orti hann þessa galdraþulu. Gamlir fútúristar mega öfunda hann af þessari höfundarlausu ljóðrænu fegurð, knöppum kóða sem eftir útgáfu arkar um heiminn, að því er virðist sjálfala, og breytir kolum, úrani, ám og fossum í ekkert. Hreint ekki neitt. Proof-of-work er þetta kallað sem tölvurnar fást við, lottómiðaframleiðslan. Sönnun-á-vinnu sem enginn vinnur þó og engu skilar. Sama umhverfisspor og stóriðja, án þess að neitt sé framleitt.
Ekki neitt? Er enginn ávinningur af allri þessari vinnusönnun? Jú, auðvitað er ávinningur. Einhverjum áskotnast tækifæri til að eiga viðskipti utan sjónsviðs stjórnvalda. Til að svo megi verða gætu amma og afi þurft að lækka aðeins í ofnunum hjá sér þarnæsta vetur, segja þeir nú í skýrslu Landsnets. Línuritin í skýrslunni eiga að sýna líkur á aflskorti á köldu dögunum næstu árin. Þeir kalla það tíu ára vetrardag:
„Tíu ára vetrardagur er kaldur vetrardagur sem er líklegur til að eiga sér stað einu sinni á tíu ára fresti. Á tíu ára vetrardegi er reiknað með að aflþörf almennings sé 10% meiri en þegar um er að ræða meðalár í hitastigi. Orkufrekur iðnaður er ekki háður veðri og breytist því ekki.“
Orkufrekur iðnaður er ekki háður veðri. Orkufrekur iðnaður á við sönnun-á-vinnu. Sönnun á vinnu er óháð veðri og því mun eitthvað annað verða undan að láta, segja þeir. Á köldu dögunum. Lækka aðeins í ofnunum. Slökkva ljósin. Þurfið þið öll að brasa jólasteikina á sama tíma? Hvað er að því að dreifa aðfangadegi betur um desember? Nema auðvitað … nema við virkjum. Foss? Einn foss? Var ekki foss hérna einhvers staðar?