Listin að breyta fossi í lottómiða

14.7.2019 ~ 8 mín

Auknar líkur á raforku­skorti vegna gagna­vera“ segir fyrir­sögn frá RÚV á laug­ar­dag, og vísar í skýrslu Landsnets um „líkur á aflskorti yfir viðmið­un­ar­mörkum“ á næstu árum. Skýrslan er ekki alfarið gegnsæ, eigin­lega varla ívitn­an­leg umfram það sem fram kemur í frétt­inni, en í frétt RÚV er bent á eina ástæðu fyrir aukinni orku­notkun: fjölgun „gagna­vera“. Þá eru nefnd nokkur dæmi um nýleg gagna­ver, síðast en ekki síst eitt sem rís nú við Korpu­torg, með orku­þörf „á við öll heim­ili lands­ins saman­lagt“. Fram kemur að helsta verk­efni gagna­ver­anna sé „mest­megnis Bitcoin-gröftur“.

Milljón samn­ingar á sekúndu

Af umfjöllun fjöl­miðla um sýnd­ar­mynt­ina Bitcoin má yfir­leitt ráða tvennt, að minnsta kosti: í fyrsta lagi þykir mörgum myntin vara­söm þar sem hún auðveldar viðskipti utan eftir­lits opin­berra aðila. Þannig nýtist hún við fjár­mögnun ólög­legrar starf­semi, auk þess sem skattyf­ir­völd virð­ast varla ná í skottið á henni. Um þessa hlið máls­ins verður ekki fjallað hér.

Í öðru lagi kemur oft fram að myntin byggi á svonefndri blockchain-tækni, eða bita­keðjum. Bita­keðjur eru hugbún­að­ar­lausn sem er ætlað að leysa traust af hólmi: leið til að halda utan um skrár og stað­festa sann­gildi þeirra án þess að þurfa að reiða sig á trúverð­ug­leika tiltek­inna persóna eða stofn­ana. Bjart­sýn­is­menn segja að í krafti bita­keðj­anna verða rafrænir samn­ingar ekki bara fram­fylgj­an­legir heldur muni þeir uppfylla sig sjálfir. Þegar þörfin á trausti er úr sögunni geti samn­inga­gerð loks farið fram á ljós­hraða, tölvur muni gera samn­inga sín á milli án beinnar aðkomu mann­fólks, og þessi þrot­lausa samn­inga­gerð muni nýtast á ótal sviðum. Bita­keðj­urnar verði brátt hljóð­látur lykil­þáttur í hvers­dags­lífi okkar allra. Bjart­sýn­is­menn­irnir segja til dæmis að sjálf­a­k­andi bílar muni gera hver öðrum tilboð í framúrakstur, fall­ast á tilboðin eða hafna þeim, ná samkomu­lagi og greiða út í hönd, á sama tíma og þeir greiða sjálfrukk­andi vegum fyrir afnotin en þú, farþeg­inn, lest í bók eða hvað maður gerir í aldingarð­inum. Bita­keðj­urnar eru þannig, segja hinir bjart­sýnu, tækni­leg forsenda fyrir næsta skrefi okkar í átt að því sem Snorri Páll nefndi um daginn alræði örgjörv­anna. Allt kemur þetta málinu við en hér verður samt ekki fjallað um bita­keðjur sem slíkar.

Nefna má þriðja atriðið sem nýverið ber nokkuð á í þessu samhengi: Face­book hefur tilkynnt áform um að hleypa á næsta ári af stokk­unum sinni eigin mynt, Libra. Libra verður sýnd­ar­mynt í afar almennum skiln­ingi, við þróun hennar er horft til reynsl­unnar af Bitcoin, en hún er strangt til tekið ekki „cryptocur­rency“ af sama toga: virði hennar mun ekki grund­vall­ast á sams konar dreif­ingu ábyrgðar og Bitcoin, heldur hyggst fyrir­tækið, ásamt samstarfs­að­ilum, stofna eitt­hvað líkara nýjum seðla­banka. Afleið­ingar þessa frum­kvöðl­a­starfs geta áreið­an­lega verið allnokkrar. Ef stjórn­völd, til að mynda á Íslandi, hafa ekki brugð­ist við að neinu ráði er ástæðan hugs­an­lega sú að þeim finn­ist enn heldur hjákát­leg tilhugsun að hafa sérstakan „áhuga á inter­net­inu“ eins og flissað var yfir þegar Píratar buðu fyrst fram. Libra er eftir sem áður annað viðfangs­efni og ekki heldur til umfjöll­unar hér.

Bjart­sýn­is­menn­irnir vita kannski ekki hvað þeir eru að gera – en þeir kunna það. Gerum ráð fyrir, í bili, að bita­keðjur séu komnar til að vera, þar á meðal Bitcoin, þeim muni enn vaxa ásmegin, og þær muni gegna hlut­verki í næsta hagvaxt­ar­skeiði. Ein skugga­hliðin á þeirri Eden er umhverf­is­slys af stór­iðju­stærð sem er þegar hafið. Slys, eða svona. Hörm­ungin er hönnuð, kerfið grund­vall­ast á henni.

Happ­drætti andskotans

Að baki bita­keðjum býr flókin hugbún­að­ar­verk­fræði, en umhverf­istjónið sem getur hlot­ist af Bitcoin er einfalt að skilja. Til að mynt hafi verð­gildi þarf magn hennar að vera takmarkað. Magn Bitcoin-mynta er takmarkað með föstum takti í útgáfu þeirra: aðeins ein Bitcoin-mynt er gefin út í einu, á tíu mínútna fresti. Hvert fer hún? Það ræðst með lottódrætti. Svokölluð Bitcoin-námu­vinna eða Bitcoin-gröftur felst í þessu lottói: á tíu mínútna fresti ákveður Bitcoin-kerfið tölu sem Bitcoin-verin í heim­inum kepp­ast þá um að giska á. Sú tölva sem er fyrst til að giska á rétta tölu vinnur og eigandi hennar fær eitt Bitcoin.

Til að halda verð­bólgu í skefjum og tryggja stöð­ug­leika mynt­ar­innar lagar þetta kerfi sig að heild­ar­getu þátt­tak­enda. Ímyndum okkur að engin tölva taki þátt í þessum leik, heldur aðeins lítill vina­hópur, þrír menn sem koma saman og hrópa hver í kapp við annan nátt­úru­legu tölurnar frá einum og upp. Þá væri happa­talan einhvers staðar á bilinu 1 og 10.000, nógu lág til að innan tíu mínútna sé senni­legt að einhver hafi giskað á hana. Þegar vinunum fer að leið­ast leik­ur­inn láta þeir meðal­góðar fartölvur giska fyrir sig, en beina sjálfir athygl­inni annað á meðan. Takt­ur­inn í keppn­inni hækkar, það tekur tölvurnar aðeins sekúndu­brot að giska á fyrstu 10.000 tölurnar. Kerfið bregst við með því að hækka bilið sem happa­talan liggur á, senni­lega upp í einhverjar billjónir. 

Einn vinanna er mikill keppn­ismaður og fjölgar tölv­unum sínum um tvær. Nú keppir hann á þremur tölvum en hinir láta sér nægja eina hvor. Enn er aðeins einn vinn­ingur í boði, á tíu mínútna fresti, en maður­inn með keppn­is­skapið fær þá nú flesta, þrjár myntir af hverjum fimm. Á meðan Bitcoin var hérumbil einskis virði skipti þetta sérvisku­lega áhuga­mál mann­anna augljós­lega engu máli. En virði myntar felst í tiltrúnni á hana. Þrátt fyrir miklar sveiflur í tiltrú á Bitcoin hefur hún í það heila vaxið nóg, frá því að leik­ur­inn var gang­settur, til að ofvirkja samkeppn­is­lög­málin: enginn grefur lengur eftir Bitcoin með fartölvu heldur kepp­ast fjár­festar síðustu ár um að reisa það sem fjöl­miðlar og ráða­menn kalla enn „gagna­ver“, skemmur utan um fjölda tölva sem eru sérhann­aðar til að giska sem hrað­ast á happa­töl­una. Þar hefst þessi bilun sem við stöndum nú frammi fyrir.

Fjór­tán Kára­hnjúka­virkj­anir í rotþró

Í heild notar Bitcoin-kerfið nú þegar tæpar 65 terawatt­stundir (TWh) á ári. Það er á við orku­fram­leiðslu fjór­tán Kára­hnjúka­virkj­ana. (Nú milli laug­ar­dags og sunnu­dags hækk­aði mat Cambridge-háskóla á áætl­aðri ársnotkun kerf­is­ins úr 62 í 65 TWh. Milli daga tók kerfið því fram úr Tékklandi og Aust­ur­ríki í orku­notkun, en var fyrir helgi metið í námunda við Sviss). Vegna aðlög­un­ar­hæfni kerf­is­ins, hvernig vinn­ings­lík­urnar í þessu lottói laga sig að fjölda prent­aðra miða, sér ekki fyrir endann á þessum óðavexti í orku­neyslu þess. Að slá upp skemmu og fylla hana af þessum lottómiða­vélum er nógu ódýrt til að enn virð­ast fjár­festar telja það borga sig að reisa eina skemmu til. Þó að hagfræð­ingar geti og hafi sjálfsagt teiknað upp kúrvur til að finna skurð­punkt­inn, þar sem væntur ávinn­ingur af nýrri skemmu verður minni en tilkostn­að­ur­inn, þá virð­ist ekki útilokað að sá skurð­punktur liggi einhvers staðar lengst hinu megin við Gullfoss.

Gagna­ver er ónot­hæft orð yfir þessi lottófjós. Á Íslandi er þegar fjöldi þeirra starf­andi, og vöxt­ur­inn hraður. Í frægum þjófn­aði á síðasta ári var 600 tölvu­ein­ingum stolið úr svona skemmu. Miðað við fyrir­liggj­andi upplýs­ingar um algeng­asta búnað má ætla að hvern mánuð sem rekst­ur­inn tafð­ist vegna þjófn­að­ar­ins hafi spar­ast tæp 900 MWh af raforku, eða sem jafn­gildir orku­notkun um 3.000 heim­ila. Í upphafi síðasta árs spáði full­trúi HS Orku því í viðtali við BBC að rafnámu­vinnsla á Íslandi myndi nota meira rafmagn en heim­ili lands­ins síðar á því ári. Eins og fram kom í fyrr­nefndri frétt RÚV stefnir nú, rúmu ári síðar, í að eitt einasta ver, þetta við Korpu­torg, muni neyta meiri orku en heim­ilin samanlagt.

Foss

Málið varðar Ísland sérstak­lega vegna þess að kostn­að­ur­inn við rekstur þess­ara gagna­vera felst í tvennu: að keyra tölvurnar og að kæla þær. Land­fræði­lega er Ísland ekki heppi­lega stað­sett fyrir gagna­ver þeirra fyrir­tækja sem veita þjón­ustu á netinu og krefjast viðbragðs­snerpu. Millisek­úndur skipta máli fyrir leit­ar­vélar, míkró­sek­úndur á Wall Street. Í því samhengi tefur streng­ur­inn yfir hafið tilfinn­an­lega. En námugröft­ur­inn er af öðrum toga. Bitcoin-vélarnar geta verið hérumbil hvar sem er. Þá vega kostir lands­ins þyngra: bill­egt rafmagn og „umhverf­i­s­vænt“, fyrir þá sem vilja flagga slíku, ásamt hinu, að á Íslandi er kalt. Því kald­ara lofts­lag, því minni kostn­aður við kælingu vélanna. Og því lengur borgar sig að bæta við einu veri enn.

Satoshi Nakamoto heitir höfundur Bitcoin-kerf­is­ins. Ekkert er vitað um Nakamoto, ekki einu sinni hvort þar fer einstak­lingur eða hópur, aðeins að undir þessu nafni hleypti einhver mynt­inni af stokk­unum. Hver eða hvað sem Nakamoto er, orti hann þessa galdra­þulu. Gamlir fútúristar mega öfunda hann af þess­ari höfund­ar­lausu ljóð­rænu fegurð, knöppum kóða sem eftir útgáfu arkar um heim­inn, að því er virð­ist sjálf­ala, og breytir kolum, úrani, ám og fossum í ekkert. Hreint ekki neitt. Proof-of-work er þetta kallað sem tölvurnar fást við, lottómiða­fram­leiðslan. Sönnun-á-vinnu sem enginn vinnur þó og engu skilar. Sama umhverf­is­spor og stór­iðja, án þess að neitt sé framleitt.

Ekki neitt? Er enginn ávinn­ingur af allri þess­ari vinnu­sönnun? Jú, auðvitað er ávinn­ingur. Einhverjum áskotn­ast tæki­færi til að eiga viðskipti utan sjónsviðs stjórn­valda. Til að svo megi verða gætu amma og afi þurft að lækka aðeins í ofnunum hjá sér þarnæsta vetur, segja þeir nú í skýrslu Landsnets. Línu­ritin í skýrsl­unni eiga að sýna líkur á aflskorti á köldu dögunum næstu árin. Þeir kalla það tíu ára vetr­ar­dag:

„Tíu ára vetr­ar­dagur er kaldur vetr­ar­dagur sem er líklegur til að eiga sér stað einu sinni á tíu ára fresti. Á tíu ára vetr­ar­degi er reiknað með að aflþörf almenn­ings sé 10% meiri en þegar um er að ræða meðalár í hita­stigi. Orku­frekur iðnaður er ekki háður veðri og breyt­ist því ekki.“

Orku­frekur iðnaður er ekki háður veðri. Orku­frekur iðnaður á við sönnun-á-vinnu. Sönnun á vinnu er óháð veðri og því mun eitt­hvað annað verða undan að láta, segja þeir. Á köldu dögunum. Lækka aðeins í ofnunum. Slökkva ljósin. Þurfið þið öll að brasa jóla­steik­ina á sama tíma? Hvað er að því að dreifa aðfanga­degi betur um desem­ber? Nema auðvitað … nema við virkjum. Foss? Einn foss? Var ekki foss hérna einhvers staðar?