Ljósbogi myndaðist í einum af þremur kerskálum álversins í Straumsvík, sem af þeim sökum var lokað, segir Rannveig Rist, forstjóri alþjóðlega námufyrirtækisins Rio Tinto á Íslandi. Ljósbogi myndast þegar rafstraumur hleypur um gas. Vegna hins háa straums sem beitt er við álvinnsluna er ljósbogi sem þessi banvænn. Þann 22. júní 2001 lést einn starfsmaður álversins vegna ljósboga sem myndaðist í kerskála þess, og annar brenndist alvarlega.
Hvað leiddi til óhappsins nú? Forstjóri Rio Tinto á Íslandi segir það, í viðtali við Vísi, eiga sér langan aðdraganda:
„Það eru búnir að vera erfiðleikar í áliðnaðinum sem felast í því að það hefur verið erfitt að fá súrál, sem er grunnhráefnið hér. Og við höfum undanfarið fengið súrál frá mjög óvenjulegum löndum og námum sem við höfum ekki notað áður. Það hefur haft þau áhrif að kerin hafa orðið veik, sem við köllum, ganga ekki eins vel og þau eru vön.“
Rannveig segist bjartsýn á að ástandið fari batnandi, í fyrsta lagi ráði starfsmenn og búnaður betur við tvo skála en þrjá, undir þessum kringumstæðum, og:
„svo líka liggja hér við bryggju og komu í gærkvöldi súrálsskip með súrál frá stað sem við erum vön að nota. Og við erum búin að fá súrálsplan fyrir það sem eftir er af þessu ári, frekar langt fram í tímann, og það er allt frá stöðum sem við erum vön að nota.“
Undir lok viðtalsins fetar forstjórinn í þriðja sinn krókaleið framhjá heitum landanna:
„Já og það er líka mikill áhugi á þessu súráli sem er að koma, sem er frá stað sem við höfum átt viðskipti við oft og lengi. Farmarnir hafa oftast verið góðir, ekki alltaf, þannig að við verðum bara að sjá hvað kemur núna og vinna í því.“
Fréttamaður Vísis reynir að komast gegnum þennan málfarslega gaddavír og nefnir Brasilíu, súrálsverksmiðja sem þar hafi staðið lokuð sé nú aftur á leið í fullan rekstur, hvort þar með megi sjá fyrir endann á súrálsskortinum. Stjórnunarstöður innan alþjóðlegra námufyrirtækja fela í sér ramma þjálfun í frúnni í Hamborg, forstjórinn lætur ekki narra sig, brosir aðeins og segist bjartsýn.
10 milljón sundlaugar af eiturdrullu
Ef litið er á innflutning súráls í gögnum Hagstofunnar, aftur til upphafs ársins 2017, þá var innflutningur frá Brasilíu umfangsmikill. Þaðan hafa íslensk álver að jafnaði flutt á bilinu 50.000 til 100.000 tonn á mánuði, raunar helmingi minna á seinni hluta ársins 2018 en fyrri hluta ársins, þar til um síðustu áramót, að innflutningur þaðan féll alveg niður. Í febrúar og mars á þessu ári birtist aftur á móti nýtt upprunaland, „óvenjulegt land“, á innflutningsskýrslum: Indland. Þaðan fluttu álver á Íslandi inn um 30.000 tonn af súráli í hvorum mánuði, 60.000 tonn alls. Þangað virðast þau annars ekki hafa sótt súrál áður. Ætla má að þetta séu löndin sem forstjórinn hafði í huga, Brasilía færi okkur góða súrálið en Indland þetta óstýriláta.
Stóra súrálsverksmiðjan í Brasilíu, sem fréttamaður Vísis nefndi til sögunnar, er reyndar stærsta súrálsverksmiðja í heimi. Hún heitir Alunorte og stendur við borgina Barcarena í suðurhluta landsins, raunar í grennd við ármynni Amazon-fljóts. Í febrúar 2018 lak þaðan rauð drulla, til beinþýðingar á enska heitinu red mud. Kannski væri rauðaur fegurri íslenska. Efnahagur Íslands er að verulegu leyti háður þessari drullu: súrálsverksmiðjur taka við báxít-setbergi, og skilja súrál þess, eða áloxíð, frá öðrum efnum. Súrálið er sent til álvera, en affallið, efnin sem hreinsuð hafa verið úr berginu, er semsagt þessi drulla. Segjum rauðaur á meðan ég frétti ekki af hefðbundnari þýðingu. Raunar myndast ívið meira af rauðaur en af súrálinu sjálfu, 1 til 2 tonn á móti hverju tonni af súráli, eftir vinnsluaðferð og súrálsinnihaldi bergsins. Fyrir hvern mánaðarskammt af súráli sem fluttur er til álveranna á Íslandi, um 150.000 tonn, liggja því einhvers staðar eftir, að ætla má, um 200.000 tonn af eiturdrullu. Það eru um 500 fullar sundlaugar af rauðaur á mánuði, aðeins fyrir íslensku álverin.
Rauðaur er of hljómfagurt orð – roðasvað? Í þessu sulli leynist hvert það efni sem vildi svo til að lá í báxít-berginu, ásamt efnasamböndum sem verða til við hreinsunina. Þar á meðal eru, í verulegum mæli, þungmálmar á við blý og krabbameinsvaldandi efni á við títandíoxíð. Þrátt fyrir að álframleiðsla hafi um allnokkra hríð verið alþjóðlegur stóriðnaður virðist spurningin hvað gera skuli við eiturhratið enn vera meðhöndluð sem óvæntur vandi. Fram til um 1970 var um þriðjungi drullunnar dælt út í sjó, en tveimur þriðju af rauðdrullu heimsins var safnað í uppistöðulón. Um það leyti kom fram þriðja aðferðin við geymslu leðjunnar: að þurrka hana til hálfs, nóg til að stafla megi henni í stæður. Í lóni ýmist eða stöflum, hafði áliðnaðurinn árið 2007 safnað upp 2,7 milljörðum tonna af eitraðri leðju, og jók um þær mundir 120 milljónum tonna við hlassið ár hvert. Framleiðslan hefur aukist síðan þá, og má ætla að heildardrullubirgðirnar nemi nú nær 4 en 3 milljörðum tonna.
Venjuleg norsk verksmiðja í venjulega landinu Brasilíu
Jafnvel þar sem drullunni er staflað, þarf fyrst að þurrka hana í lóni. Þau lón eru grynnri, en plássfrek þó. Viðamikil lón af rauðri eiturdrullu eru þannig óhjákvæmilegur fylgifiskur áliðnaðarins. Þess háttar lón er við vinnslustöð Norsk Hydro í Alunorte. Og í febrúar 2018, þegar gerði úrhellisrigningu í suðurhluta Brasilíu, þá flæddi drullulón Norsk Hydro yfir bakka sína og lak yfir vegi, heimili og hluta Amazon-regnskógarins. Norsk Hydro neitaði því í fyrstu að lekinn hefði átt sér stað, meðal annars með fréttatilkynningu sem síðan virðist hafa verið fjarlægð af vef fyrirtækisins.
Þann 23. febrúar 2018 gaf lýðheilsustofnun Heilbrigðisráðuneytis Brasilíu út tilkynningu um að íbúar Barcarena skyldu ekki neyta drykkjarvatns þar sem ál- blý- og natrínmengun hafði mælst yfir hættumörkum í allt að tveggja kílómetra fjarlægð frá verksmiðjunni. Hátt sýrustig vatnsins, pH 10, var rakið til vítissódamengunar. Á sama tíma og Norsk Hydro tilkynnti að félagið myndi, í samstarfi við brasilísk yfirvöld, hefja útdeilingu drykkjarhæfs vatns í kútum til íbúa Barcarena, hélt félagið því þó enn til streitu að enginn leki hefði átt sér stað.
Norðmenn mölduðu í móinn og reyndu að humma vandann burt en brasilísk stjórnvöld brugðust nokkuð skjótt við tjóninu: Þann 27. febrúar 2018 var Norsk Hydro gert að skera niður framleiðslu Alunorte um helming. Með fullum afköstum skilar verksmiðjan um 10% af öllu súráli heimsmarkaðarins utan Kína, en frá þessum tímapunkti aðeins um 5%.
Sparsamir Norðmenn
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem súrálsverksmiðjan olli tjóni af þessum toga. Samkvæmt umhverfisstofnun Brasilíu, IBAMA, hafði Norsk Hydro árið 2018 enn ekki greitt sektir sem félaginu voru gerðar vegna sams konar leka úr sömu súrálsverksmiðju árið 2009. Samkvæmt mati stofnunarinnar skapaði lekinn íbúum svæðisins mikla hættu, ásamt því að draga verulega úr líffræðilegum fjölbreytileika þess. Í viðtali við BBC árið 2016 sagði Bruno Valente, ríkissaksóknari Brasilíu, að súrálsverksmiðjan hefði að meðaltali valdið einu umhverfisslysi á ári.
Meðal þeirra sem staðið hafa fremst í baráttunni gegn umhverfisspjöllum og öðrum skaða af völdum súrálsverksmiðjunnar eru samtökin Cainquiama. Þar taka höndum saman samfélög frumbyggja í Amazon-skógi, afkomendur afrískra þræla sem þar hafa byggt upp eigin samfélög í á fjórða hundrað ár, og samfélagshópar af blönduðum uppruna. Þetta eru jaðarsettir hópar sem alþjóðleg námufyrirtæki og stjórnmálamenn innan þeirra vébanda líta svo á að megi bókstaflega víkja til hliðar þegar uppræta þarf skóg og grafa upp jörð til að sækja málm. Það voru samtök þeirra sem höfðuðu mál vegna aurflóðsins árið 2009, og enn voru það þau sem vöktu athygli á flóðinu í febrúar 2018. Það er ekki hættulaust.
Tvö morð á þremur mánuðum
Þann 6. mars 2018 gaf Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna út yfirlýsingu sem hófst á þessum orðum: „Árið 2017 voru nær fjórar manneskjur drepnar á viku fyrir að verja rétt sinn til hreins og heilnæms umhverfis.“ Þetta var yfirlýsing til stuðnings umhverfisverndarsinnum og áskorun til stjórnvalda um að verja rétt þeirra. Sex dögum síðar, þann 12. mars 2018, var Paulo Nascimento, talsmaður Cainquiama, myrtur á heimili sínu, skotinn til bana.
Liggja fyrir einhverjar sannanir um tengsl milli morðsins og baráttunnar sem Nascimento háði? Áreiðanlega ekki. Halvor Molland, upplýsingafultrúi Norsk Hydro, sagði í tilkynningu að morðið væri harmleikur en hafnaði því að nokkur tengsl væru á milli starfsemi fyrirtækisins og aðgerða gegn íbúum og samfélögum svæðisins. Þegar Nascimento fannst látinn voru þó minna en þrír mánuðir liðnir frá því að annar baráttumaður innan samtakanna var myrtur, Fernando Pereira, þann 22. desember 2017. Samtökin höfðu, í kjölfar viðvarandi hótana, óskað eftir lögregluvernd, en ekki fengið.
Um það leyti sem Nascimento var rutt úr vegi gekkst Norsk Hydro við því að hafa losað affall – rauða drullu – frá súrálsverksmiðjunni með leynilegri pípulögn. Örstuttu síðar lét þáverandi forstjóri Norsk Hydro, Svein Richard Brandtzæg, frá sér tilkynningu sem mörgum þótti komast nálægt því að fela í sér afsökunarbeiðni: „Hydro viðurkennir að íbúar Barcarena hafa raunverulegar áhyggjur af vatnsmengun. Nærsamfélög svæðisins hafa ekki fengið þær upplýsingar sem þau eiga skilið og þeim hefur ekki þótt við traustvekjandi,“ sagði hann meðal annars. Og: „Við föllumst á að til að byggja upp traust þurfum við að breyta afstöðu okkar og athöfnum og þeim háttum sem við höfum á samstarfi við samfélög staðarins.“
Síðan þá hefur nýr forstjóri tekið við stjórn Norsk Hydro: Hilde Merete Aasheim. Það virðist vera undir hennar forystu sem samkomulag tókst milli fyrirtækisins og brasilískra stjórnvalda um að endurgangsetja Alunorte að fullu, samkomulag sem fékkst staðfest fyrir dómstóli nú í maí. Afköstum verksmiðjunnar er ætlað að komast í fyrra horf fyrir árslok. Eða, eins og forstjóri Rio Tinto á Íslandi sagði við fréttamann Vísis: „Við erum búin að fá súrálsplan fyrir það sem eftir er af þessu ári, frekar langt fram í tímann, og það er allt frá stöðum sem við erum vön að nota. Þannig að við vonumst nú til þess að það fari batnandi.“
Mögulega er þetta ástæða þess að forstjóri Rio Tinto á Íslandi leggur lykkju á leið sína til að forðast að nefna þau lönd eða verksmiðjur sem fyrirtækið verslar við: alvarleg mengunarslys í Amazon-skógi, sem norskir samstarfsaðilar neita í lengstu lög að gangast við, ásamt óupplýstum morðum tveggja baráttumanna fyrir rétti skógarins, lífríkis hans og, ekki síst, íbúa.
Enn er þá óskoðað hvers vegna forstjórinn vildi ekki heldur nefna Indland á nafn, „óvenjulega landið“ sem álverið í Straumsvík virðist hafa leitað til.