Svona verður ljós­bogi til – I. hluti

25.7.2019 ~ 9 mín

Ljós­bogi mynd­að­ist í einum af þremur kerskálum álvers­ins í Straums­vík, sem af þeim sökum var lokað, segir Rann­veig Rist, forstjóri alþjóð­lega námu­fyr­ir­tæk­is­ins Rio Tinto á Íslandi. Ljós­bogi mynd­ast þegar rafstraumur hleypur um gas. Vegna hins háa straums sem beitt er við álvinnsl­una er ljós­bogi sem þessi banvænn. Þann 22. júní 2001 lést einn starfs­maður álvers­ins vegna ljós­boga sem mynd­að­ist í kerskála þess, og annar brennd­ist alvarlega.

Hvað leiddi til óhapps­ins nú? Forstjóri Rio Tinto á Íslandi segir það, í viðtali við Vísi, eiga sér langan aðdraganda:

„Það eru búnir að vera erfið­leikar í áliðn­að­inum sem felast í því að það hefur verið erfitt að fá súrál, sem er grunn­hrá­efnið hér. Og við höfum undan­farið fengið súrál frá mjög óvenju­legum löndum og námum sem við höfum ekki notað áður. Það hefur haft þau áhrif að kerin hafa orðið veik, sem við köllum, ganga ekki eins vel og þau eru vön.“

Rann­veig segist bjart­sýn á að ástandið fari batn­andi, í fyrsta lagi ráði starfs­menn og búnaður betur við tvo skála en þrjá, undir þessum kring­um­stæðum, og:

„svo líka liggja hér við bryggju og komu í gærkvöldi súráls­skip með súrál frá stað sem við erum vön að nota. Og við erum búin að fá súrálsplan fyrir það sem eftir er af þessu ári, frekar langt fram í tímann, og það er allt frá stöðum sem við erum vön að nota.“

Undir lok viðtals­ins fetar forstjór­inn í þriðja sinn króka­leið fram­hjá heitum landanna:

„Já og það er líka mikill áhugi á þessu súráli sem er að koma, sem er frá stað sem við höfum átt viðskipti við oft og lengi. Farm­arnir hafa oftast verið góðir, ekki alltaf, þannig að við verðum bara að sjá hvað kemur núna og vinna í því.“

Frétta­maður Vísis reynir að komast gegnum þennan málfars­lega gadda­vír og nefnir Bras­ilíu, súráls­verk­smiðja sem þar hafi staðið lokuð sé nú aftur á leið í fullan rekstur, hvort þar með megi sjá fyrir endann á súráls­skort­inum. Stjórn­un­ar­stöður innan alþjóð­legra námu­fyr­ir­tækja fela í sér ramma þjálfun í frúnni í Hamborg, forstjór­inn lætur ekki narra sig, brosir aðeins og segist bjartsýn.

Eitur­drulla frá súráls­verk­smiðju Norsk Hydro, Alun­orte, þegar allt leikur í lyndi.

10 milljón sund­laugar af eiturdrullu

Ef litið er á innflutn­ing súráls í gögnum Hagstof­unnar, aftur til upphafs ársins 2017, þá var innflutn­ingur frá Bras­ilíu umfangs­mik­ill. Þaðan hafa íslensk álver að jafn­aði flutt á bilinu 50.000 til 100.000 tonn á mánuði, raunar helm­ingi minna á seinni hluta ársins 2018 en fyrri hluta ársins, þar til um síðustu áramót, að innflutn­ingur þaðan féll alveg niður. Í febrúar og mars á þessu ári birt­ist aftur á móti nýtt uppruna­land, „óvenju­legt land“, á innflutn­ings­skýrslum: Indland. Þaðan fluttu álver á Íslandi inn um 30.000 tonn af súráli í hvorum mánuði, 60.000 tonn alls. Þangað virð­ast þau annars ekki hafa sótt súrál áður. Ætla má að þetta séu löndin sem forstjór­inn hafði í huga, Bras­ilía færi okkur góða súrálið en Indland þetta óstýriláta.

Stóra súráls­verk­smiðjan í Bras­ilíu, sem frétta­maður Vísis nefndi til sögunnar, er reyndar stærsta súráls­verk­smiðja í heimi. Hún heitir Alun­orte og stendur við borg­ina Barcar­ena í suður­hluta lands­ins, raunar í grennd við ármynni Amazon-fljóts. Í febrúar 2018 lak þaðan rauð drulla, til bein­þýð­ingar á enska heit­inu red mud. Kannski væri rauð­aur fegurri íslenska. Efna­hagur Íslands er að veru­legu leyti háður þess­ari drullu: súráls­verk­smiðjur taka við báxít-setbergi, og skilja súrál þess, eða áloxíð, frá öðrum efnum. Súrálið er sent til álvera, en affallið, efnin sem hreinsuð hafa verið úr berg­inu, er semsagt þessi drulla. Segjum rauð­aur á meðan ég frétti ekki af hefð­bundn­ari þýðingu. Raunar mynd­ast ívið meira af rauð­aur en af súrál­inu sjálfu, 1 til 2 tonn á móti hverju tonni af súráli, eftir vinnslu­að­ferð og súráls­inni­haldi bergs­ins. Fyrir hvern mánað­ar­skammt af súráli sem fluttur er til álver­anna á Íslandi, um 150.000 tonn, liggja því einhvers staðar eftir, að ætla má, um 200.000 tonn af eitur­drullu. Það eru um 500 fullar sund­laugar af rauð­aur á mánuði, aðeins fyrir íslensku álverin. 

Rauð­aur er of hljóm­fag­urt orð – roða­svað? Í þessu sulli leyn­ist hvert það efni sem vildi svo til að lá í báxít-berg­inu, ásamt efna­sam­böndum sem verða til við hreins­un­ina. Þar á meðal eru, í veru­legum mæli, þung­málmar á við blý og krabba­meinsvald­andi efni á við títandíoxíð. Þrátt fyrir að álfram­leiðsla hafi um allnokkra hríð verið alþjóð­legur stór­iðn­aður virð­ist spurn­ingin hvað gera skuli við eitur­hratið enn vera meðhöndluð sem óvæntur vandi. Fram til um 1970 var um þriðj­ungi drull­unnar dælt út í sjó, en tveimur þriðju af rauð­drullu heims­ins var safnað í uppi­stöðu­lón. Um það leyti kom fram þriðja aðferðin við geymslu leðj­unnar: að þurrka hana til hálfs, nóg til að stafla megi henni í stæður. Í lóni ýmist eða stöflum, hafði áliðn­að­ur­inn árið 2007 safnað upp 2,7 millj­örðum tonna af eitr­aðri leðju, og jók um þær mundir 120 millj­ónum tonna við hlassið ár hvert. Fram­leiðslan hefur aukist síðan þá, og má ætla að heild­ar­drullu­birgð­irnar nemi nú nær 4 en 3 millj­örðum tonna.

Venju­leg norsk verk­smiðja í venju­lega land­inu Brasilíu

Jafn­vel þar sem drull­unni er staflað, þarf fyrst að þurrka hana í lóni. Þau lón eru grynnri, en pláss­frek þó. Viða­mikil lón af rauðri eitur­drullu eru þannig óhjá­kvæmi­legur fylgi­fiskur áliðn­að­ar­ins. Þess háttar lón er við vinnslu­stöð Norsk Hydro í Alun­orte. Og í febrúar 2018, þegar gerði úrhell­is­rign­ingu í suður­hluta Bras­ilíu, þá flæddi drullu­lón Norsk Hydro yfir bakka sína og lak yfir vegi, heim­ili og hluta Amazon-regn­skóg­ar­ins. Norsk Hydro neit­aði því í fyrstu að lekinn hefði átt sér stað, meðal annars með frétta­til­kynn­ingu sem síðan virð­ist hafa verið fjar­lægð af vef fyrirtækisins.

Alun­orte, febrúar 2019. Rauða eitur­leðjan sem full­trúar Norsk Hydro neit­uðu í lengstu lög að hefði lekið.

Þann 23. febrúar 2018 gaf lýðheilsu­stofnun Heil­brigð­is­ráðu­neytis Bras­ilíu út tilkynn­ingu um að íbúar Barcar­ena skyldu ekki neyta drykkjar­vatns þar sem ál- blý- og natrín­mengun hafði mælst yfir hættu­mörkum í allt að tveggja kíló­metra fjar­lægð frá verk­smiðj­unni. Hátt sýru­stig vatns­ins, pH 10, var rakið til vítis­sóda­meng­unar. Á sama tíma og Norsk Hydro tilkynnti að félagið myndi, í samstarfi við bras­il­ísk yfir­völd, hefja útdeil­ingu drykkjar­hæfs vatns í kútum til íbúa Barcar­ena, hélt félagið því þó enn til streitu að enginn leki hefði átt sér stað.

Norð­menn möld­uðu í móinn og reyndu að humma vand­ann burt en bras­il­ísk stjórn­völd brugð­ust nokkuð skjótt við tjón­inu: Þann 27. febrúar 2018 var Norsk Hydro gert að skera niður fram­leiðslu Alun­orte um helm­ing. Með fullum afköstum skilar verk­smiðjan um 10% af öllu súráli heims­mark­að­ar­ins utan Kína, en frá þessum tíma­punkti aðeins um 5%.

Spar­samir Norðmenn

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem súráls­verk­smiðjan olli tjóni af þessum toga. Samkvæmt umhverf­is­stofnun Bras­ilíu, IBAMA, hafði Norsk Hydro árið 2018 enn ekki greitt sektir sem félag­inu voru gerðar vegna sams konar leka úr sömu súráls­verk­smiðju árið 2009. Samkvæmt mati stofn­un­ar­innar skap­aði lekinn íbúum svæð­is­ins mikla hættu, ásamt því að draga veru­lega úr líffræði­legum fjöl­breyti­leika þess. Í viðtali við BBC árið 2016 sagði Bruno Valente, ríkis­sak­sókn­ari Bras­ilíu, að súráls­verk­smiðjan hefði að meðal­tali valdið einu umhverf­is­slysi á ári.

Meðal þeirra sem staðið hafa fremst í barátt­unni gegn umhverf­is­spjöllum og öðrum skaða af völdum súráls­verk­smiðj­unnar eru samtökin Cainquiama. Þar taka höndum saman samfé­lög frum­byggja í Amazon-skógi, afkom­endur afrískra þræla sem þar hafa byggt upp eigin samfé­lög í á fjórða hundrað ár, og samfé­lags­hópar af blönd­uðum uppruna. Þetta eru jaðar­settir hópar sem alþjóð­leg námu­fyr­ir­tæki og stjórn­mála­menn innan þeirra vébanda líta svo á að megi bókstaf­lega víkja til hliðar þegar uppræta þarf skóg og grafa upp jörð til að sækja málm. Það voru samtök þeirra sem höfð­uðu mál vegna aurflóðs­ins árið 2009, og enn voru það þau sem vöktu athygli á flóð­inu í febrúar 2018. Það er ekki hættulaust.

Tvö morð á þremur mánuðum

Þann 6. mars 2018 gaf Umhverf­is­stofnun Samein­uðu þjóð­anna út yfir­lýs­ingu sem hófst á þessum orðum: „Árið 2017 voru nær fjórar mann­eskjur drepnar á viku fyrir að verja rétt sinn til hreins og heil­næms umhverfis.“ Þetta var yfir­lýs­ing til stuðn­ings umhverf­is­vernd­ar­sinnum og áskorun til stjórn­valda um að verja rétt þeirra. Sex dögum síðar, þann 12. mars 2018, var Paulo Nascimento, tals­maður Cainquiama, myrtur á heim­ili sínu, skot­inn til bana.

Liggja fyrir einhverjar sann­anir um tengsl milli morðs­ins og barátt­unnar sem Nascimento háði? Áreið­an­lega ekki. Halvor Molland, upplýs­inga­ful­trúi Norsk Hydro, sagði í tilkynn­ingu að morðið væri harm­leikur en hafn­aði því að nokkur tengsl væru á milli starf­semi fyrir­tæk­is­ins og aðgerða gegn íbúum og samfé­lögum svæð­is­ins. Þegar Nascimento fannst látinn voru þó minna en þrír mánuðir liðnir frá því að annar baráttu­maður innan samtak­anna var myrtur, Fern­ando Pereira, þann 22. desem­ber 2017. Samtökin höfðu, í kjöl­far viðvar­andi hótana, óskað eftir lögreglu­vernd, en ekki fengið.

Um það leyti sem Nascimento var rutt úr vegi gekkst Norsk Hydro við því að hafa losað affall – rauða drullu – frá súráls­verk­smiðj­unni með leyni­legri pípu­lögn. Örstuttu síðar lét þáver­andi forstjóri Norsk Hydro, Svein Rich­ard Brand­tzæg, frá sér tilkynn­ingu sem mörgum þótti komast nálægt því að fela í sér afsök­un­ar­beiðni: „Hydro viður­kennir að íbúar Barcar­ena hafa raun­veru­legar áhyggjur af vatns­mengun. Nærsam­fé­lög svæð­is­ins hafa ekki fengið þær upplýs­ingar sem þau eiga skilið og þeim hefur ekki þótt við traust­vekj­andi,“ sagði hann meðal annars. Og: „Við föll­umst á að til að byggja upp traust þurfum við að breyta afstöðu okkar og athöfnum og þeim háttum sem við höfum á samstarfi við samfé­lög staðarins.“

Síðan þá hefur nýr forstjóri tekið við stjórn Norsk Hydro: Hilde Merete Aasheim. Það virð­ist vera undir hennar forystu sem samkomu­lag tókst milli fyrir­tæk­is­ins og bras­il­ískra stjórn­valda um að endur­gang­setja Alun­orte að fullu, samkomu­lag sem fékkst stað­fest fyrir dómstóli nú í maí. Afköstum verk­smiðj­unnar er ætlað að komast í fyrra horf fyrir árslok. Eða, eins og forstjóri Rio Tinto á Íslandi sagði við frétta­mann Vísis: „Við erum búin að fá súrálsplan fyrir það sem eftir er af þessu ári, frekar langt fram í tímann, og það er allt frá stöðum sem við erum vön að nota. Þannig að við vonumst nú til þess að það fari batnandi.“

Mögu­lega er þetta ástæða þess að forstjóri Rio Tinto á Íslandi leggur lykkju á leið sína til að forð­ast að nefna þau lönd eða verk­smiðjur sem fyrir­tækið verslar við: alvar­leg meng­un­ar­slys í Amazon-skógi, sem norskir samstarfs­að­ilar neita í lengstu lög að gang­ast við, ásamt óupp­lýstum morðum tveggja baráttu­manna fyrir rétti skóg­ar­ins, lífríkis hans og, ekki síst, íbúa.

Enn er þá óskoðað hvers vegna forstjór­inn vildi ekki heldur nefna Indland á nafn, „óvenju­lega landið“ sem álverið í Straums­vík virð­ist hafa leitað til.