Framhald af síðustu færslu.
„Fyrst skar bátsmaðurinn hægri hönd uppreisnarleiðtogans af, og var afskorin höndin sýnd öllum hinum þrælunum, ásamt þeirri alvarlegu hótun að uppreisnargjarnir þrælar myndu allir hljóta sömu örlög; þar eftir var vinstri höndin, og loks höfuðið, skorin af. Líkið var þá híft upp á siglurá og látið hanga þar fyrir augum þrælanna í tvo daga. Aðrir þrælar sem tekið höfðu þátt í uppreisninni voru hýddir og muldum Gíneupipar, salti og ösku nuddað yfir líkama þeirra. Þannig lauk afar háskalegri uppákomu.“
Þetta er úr lýsingu danska skipstjórans Johannesar Rask á uppreisnartilraun um borð í skipi hans, Fridericus Quartus, rétt eftir að það lagði úr höfn frá vesturströnd Afríku, nánar tiltekið frá danskri þrælamiðlun í bænum Keta, þar sem nú er Gana, til dönsku nýlendanna í Karíbahafi. Um borð voru, ásamt áhöfn, vistum og varningi, 435 manns í hlekkjum. Þetta var um miðjan september 1709. Einhverjum fanganna tókst að leysa sig, mölva hlekkina, leysa aðra, og höfðu í hyggju, að sögn skipstjórans, að yfirbuga áhöfnina. Uppreisnin misheppnast, fangarnir eru færðir í hlekki sína á ný. Daginn eftir er ofangreindum refsingum úthlutað til að koma í veg fyrir að uppátækið endurtaki sig.
Um þetta má lesa í The Danish Slave Trade and its Abolition eftir sagnfræðinginn Erik Gøbel, sem út kom árið 2016.
Á tæpum tveimur öldum fluttu Danir um 111.000 þræla frá Afríku til amerísku nýlendanna, þar af 86.000 til sinna eigin nýlenda, Dönsku Vestur-Indía. Þegar þrælahald á dönsku eyjunum í Karíbahafi náði hámarki, á seinni hluta 18. aldar, var þar um 30.000 þrælum haldið við störf.
Vitað er af einum Íslendingi sem tók beinan þátt í sögu þrælaverslunarinnar og þrælahaldsins í Vestur-Indíum: Ketill Jónsson Melstað, eða Ketil Melstedt eins og hann hét gagnvart Dönum, var bóndasonur frá Íslandi sem lauk bæði laganámi og herforingjanámi í Kaupmannahöfn. Árið 1799 varð hann „sekretær ved kommandantskabet“ á eynni St. Thomas, og var þar í tæpan áratug, til ársins 1808. Í bókinni Kaupmannahöfn sem höfuðborg Íslands leiðir sagnfræðingurinn Guðjón Friðriksson að því líkur að fleiri íslenskir menn hafi komið við þessa sögu, en þá úr annarri stétt: það tíðkaðist að manna áhöfn þrælaskipanna með föngum úr tugthúsum Danmerkur, enda var ferðin löng og dánartíðni há á leiðinni.
Vatnslitamyndin sem fylgir færslunni sýnir höfuðból einnar stærstu sykurplantekru dönsku nýlendanna, á eynni St. Croix. Plantekran var í eigu Heinrich Carl von Schimmelmann, fjármálaráðherra Dana, síðar utanríkisráðherra. Myndina málaði Frederik von Scholten, embættismaður danska tollsins, bróðir Peters von Scholten, landstjóra.
Framhald í næstu færslu.