Íslands­saga í Karíbahafi 5

28.8.2019 ~ 2 mín

Fram­hald af síðustu færslu.

„Fyrst skar báts­mað­ur­inn hægri hönd uppreisn­ar­leið­tog­ans af, og var afskorin höndin sýnd öllum hinum þræl­unum, ásamt þeirri alvar­legu hótun að uppreisn­ar­gjarnir þrælar myndu allir hljóta sömu örlög; þar eftir var vinstri höndin, og loks höfuðið, skorin af. Líkið var þá híft upp á siglurá og látið hanga þar fyrir augum þræl­anna í tvo daga. Aðrir þrælar sem tekið höfðu þátt í uppreisn­inni voru hýddir og muldum Gíneupipar, salti og ösku nuddað yfir líkama þeirra. Þannig lauk afar háska­legri uppákomu.“

Þetta er úr lýsingu danska skip­stjór­ans Johann­esar Rask á uppreisn­ar­tilraun um borð í skipi hans, Fridericus Quartus, rétt eftir að það lagði úr höfn frá vest­ur­strönd Afríku, nánar tiltekið frá danskri þrælamiðlun í bænum Keta, þar sem nú er Gana, til dönsku nýlend­anna í Karíbahafi. Um borð voru, ásamt áhöfn, vistum og varn­ingi, 435 manns í hlekkjum. Þetta var um miðjan sept­em­ber 1709. Einhverjum fang­anna tókst að leysa sig, mölva hlekk­ina, leysa aðra, og höfðu í hyggju, að sögn skip­stjór­ans, að yfir­buga áhöfn­ina. Uppreisnin misheppn­ast, fang­arnir eru færðir í hlekki sína á ný. Daginn eftir er ofan­greindum refs­ingum úthlutað til að koma í veg fyrir að uppá­tækið endur­taki sig.

Um þetta má lesa í The Danish Slave Trade and its Abolition eftir sagn­fræð­ing­inn Erik Gøbel, sem út kom árið 2016. 

Á tæpum tveimur öldum fluttu Danir um 111.000 þræla frá Afríku til amer­ísku nýlend­anna, þar af 86.000 til sinna eigin nýlenda, Dönsku Vestur-Indía. Þegar þræla­hald á dönsku eyjunum í Karíbahafi náði hámarki, á seinni hluta 18. aldar, var þar um 30.000 þrælum haldið við störf.

Vitað er af einum Íslend­ingi sem tók beinan þátt í sögu þræla­versl­un­ar­innar og þræla­halds­ins í Vestur-Indíum: Ketill Jóns­son Melstað, eða Ketil Melstedt eins og hann hét gagn­vart Dönum, var bónda­sonur frá Íslandi sem lauk bæði laga­námi og herfor­ingj­a­námi í Kaup­manna­höfn. Árið 1799 varð hann „sekretær ved komm­andant­ska­bet“ á eynni St. Thomas, og var þar í tæpan áratug, til ársins 1808. Í bókinni Kaup­manna­höfn sem höfuð­borg Íslands leiðir sagn­fræð­ing­ur­inn Guðjón Frið­riks­son að því líkur að fleiri íslenskir menn hafi komið við þessa sögu, en þá úr annarri stétt: það tíðk­að­ist að manna áhöfn þræla­skip­anna með föngum úr tugt­húsum Danmerkur, enda var ferðin löng og dánar­tíðni há á leiðinni. 


Vatns­lita­myndin sem fylgir færsl­unni sýnir höfuð­ból einnar stærstu sykurplantekru dönsku nýlend­anna, á eynni St. Croix. Plantekran var í eigu Heinrich Carl von Schimmelmann, fjár­mála­ráð­herra Dana, síðar utan­rík­is­ráð­herra. Mynd­ina málaði Frederik von Scholten, embætt­is­maður danska tolls­ins, bróðir Peters von Scholten, landstjóra.

Fram­hald í næstu færslu.