Tilveran er hótinu kyrrlátari utan Facebok.
Það er ekki bara að þar inni er alltaf havarí, og ekki bara að appið getur fyllt í hverja tómstund dagsins með einhverju, bara einhverju – Trump var að segja eitthvað! – hey, sætur köttur! – sérðu hvað er hægt að smíða úr blýöntum og epoxí!!? – heldur er mín upplifun sú að Facebook sé samheiti við Ísland. Að vera á Facebook er að vera á Íslandi. Að hætta að opna appið eða síðuna er að bregða undir sig betri fætinum, hleypa heimdraganum, skreppa aðeins frá.
Ég heyrði það viðkvæði fyrst tíu ára gamall, einn snjóþungan vetur á Núpi í Dýrafirði, að maður gæti ferðast um heiminn með því að sitja kyrr og lesa í bók. Mér fannst það ekki sannfærandi en þetta fannst bæði sem vísa og gáta, áreiðanlega í nokkrum útgáfum. Nú er fram komin enn einfaldari leið til að ferðast um heiminn án þess að færast úr stað: að opna ekki samfélagsmiðla.
Þessi upplifun er auðvitað háð sjónarhóli og kannski hættara við henni á Íslandi en annars staðar, í beinu hlutfalli við útbreiðslu kerfisins. Samkvæmt Eurostat eru 91% Íslendinga frá 16 til 74 ára virkir notendur samfélagsmiðla. Það er hærra hlutfall en í nokkru öðru Evrópuríki. Næst á eftir Íslandi er Noregur, með 82% notkun, en meðaltal ESB-ríkja er 56%. Í örfáum Evrópuríkjum notar minnihluti fólks samfélagsmiðla: Frakklandi, Bosníu og Hersegóvínu, Ítalíu og Slóveníu.
Að því gefnu að tæknistigi heimsins hraki ekki um áratugi eða aldir, ef allt heldur áfram sem horfir, þá er ég af síðustu kynslóðinni sem man hvernig það var að geta farið burt. Ferðast til ekkert svo fjarlægrar borgar, en vera þarmeð óínáanlegur, nema að því leyti sem maður lagði sig sérstaklega fram um að vera í sambandi. Ég rétt svo náði að finna lyktina af þessum möguleika (hún er mjög svipuð lyktinni af brenndu gúmmíi og svita í neðanjarðarlestum Parísar) á meðan millilandasímtöl voru dýr. Rétt svo náði að fara burt á meðan tók því að senda póstkort þaðan.
Og kannski voru það ekki margar kynslóðir sem gátu þetta. Yfirstéttir lengur en alþýðufólk – þorri almennings á Vesturlöndum ekki að ráði fyrr en upp úr miðri 20. öld. Það þarf ákveðið tæknistig, ákveðið stig í þróun kapítalismans og stéttabaráttu – lífskjör umfram nauðþurftir – til að geta auðveldlega brugðið sér burt. Á meðan möguleikinn varði óraði líklega ekki marga fyrir því að sama lógík myndi skömmu síðar binda endi á hann.
Enn er auðvitað hægt að komast burt, en það kostar. Áður var kostnaðarsamt að vera í sambandi, nú er kostnaðarsamara að finna ótengdan áfangastað. Eða slökkva. Hver veit hverju maður missir af ef maður slekkur, ef maður opnar ekki einu sinni póstinn sinn.
Fullt af fólki hefur skrifað af meira viti um þessa gjörbreytingu. Að hvar og hvaðan sem við erum komumst við ekki eða varla burt þaðan. Að aðrir staðir eru ekki lengur til. Bara þetta sívirka hér og nú sem fyrir vikið er einhvern veginn hvorugt.
Stundum verður það of mikið. Ég vel að opna ekki eitt appanna í nokkra daga. Glöggir lesendur sjá að ég er jafnharðan byrjaður aftur að blogga. En finnst það friðsælla sem stendur, líkara póstkorti. Veðrið leikur við okkur.