Tveir framámenn innan æðstu stofnana ríkisins skarta nú sama skegginu: seðlabankastjórinn Ásgeir Jónsson og þingmaðurinn sem segist aðeins hafa brugðið sér frá úr stóli forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Þetta er ekki sama skegg og eftirhrunsskeggið. Eftirhrunsskeggið var sveitaskegg, fól í sér ímyndaða tengingu við jörð og ákall um eða tilkall til alþýðlegs trausts. Traustið sem eftirhrunsskeggið vakti grundvallaðist á óreglu þess, það var nauðsynlega sótt út fyrir ramma stofnunarinnar. Hið nýja agaða, snyrtilega skorna og greidda skegg er þvert á móti eins og skegg á myndastyttu, á torgi, af manni með sverð. Ekki ótamið vistkerfi heldur plægðir akrar kringum herrabúgarðinn. Jafnvel Freud var með hótinu frjálslegra skegg en þetta.
Ég var smástund að koma því fyrir mig hvar ég hefði séð þetta skegg áður, hvar ég sá það síðast, svo sló það mig: Rússlandskeisari fyrir byltingu, tsarinn Nikulás annar. Þetta er skeggið hans. Eða þeir deildu því, Nikulás og frændi hans Georg fimmti, konungur Breta og keisari á Indlandi. Hið umdeilanlega keisarans skegg er snúið aftur, skegg sem hafði þar til nú síðsumars ekki sést í námunda við æðstu embætti frá árinu 1917.
Sigmundur Davíð og Ásgeir Jónsson eiga það sameiginlegt um þessar mundir að verkefni þeirra felst einkum í því að vekja eða endurheimta traust. Annað hvort eru þeir báðir svona seinheppnir – sem getur verið, að þeir beri ekkert skynbragð á aðstæður, lesi ekki herbergið – og skeggið mun þvælast fyrir þeim báðum; eða þeir eru einmitt svona næmir á tíðarandann, nú þegar allt er í húfi fyrir þá sjálfa, og gera sér grein fyrir að nokkurn fjölda fólks dreymi nú um, hvað, konunga? Keisara? Stiftamtmenn og konferensráð? Eitthvað ekki alfarið lýðræðislegt.
Á meðan þetta aftursækna skegg heldur velli birtast önnur lýðræðislegri og blíðmannlegri skegg einkum sem minna en það. Skegg sjónvarpsfréttamanna, álitsgjafa, fræðimanna, skegg þeirra sem vinna ekki við að virðast vera með allt á hreinu, jafnvel skegg þeirra ráðherra sem telja óhætt að láta dagsformið ráða hvort og hvernig þeir raka sig, þau eiga sig ekki sjálf um þessar mundir, heldur birtast sem frávik frá skúlptúrnum framan í raðskandalistunum tveimur upprisnum, skegginu sem segist vera með töglin og haldirnar.
Nú á miðvikudagskvöld birtist loks þriðji keisaralegi skegghafinn á opinberum vettvangi: ráðherrann í sjónvarpsþáttunum Ráðherrann, leikinn af Ólafi Darra. Allt er þá þrennt er, þetta skegg hefur þýðingu. Það eru góðar og slæmar fréttir. Slæmu fréttirnar fyrst? Ef ráðherrann í sjónvarpsþáttunum framundan kemur til með að njóta almennrar hylli og samúðar áhorfenda, þá verður Sigmundur Davíð næsti forsætisráðherra. (Þetta er spádómur sem augljóslega hlýtur að bregðast, enda fráleitt að lesa annað eins í umhirðu andlitshára.)
Góðu fréttirnar: Þetta er skegg frá því korter í byltingu. Ef það kemur upp um ólýðræðislegar þrár þess sem það ber, kemur það eins áreiðanlega upp um hitt um leið, hvað hann dreymir ákaft um að verða steypt af stóli.