Til eru viðfangsefni sem eru alltof stór til að fást við þau á bloggi. Blogg er kærulaus miðill, eða kæruleysislegur, lausamál í sama skilingi og lausamöl, eitthvað sem má sparka í og þyrlast þá kannski aðeins um en það breytir ekki öllu, þetta liggur bara svona einhvern veginn.
Sum viðfangsefni útheimta vandaðri blaðamennsku. Eða fræðilegar rannsóknir. Myndlistarsýningu eða epíska kvikmynd, ef út í það er farið. En sum gætu jafnvel viljað allt þetta, og þá er kannski í lagi að blogga um þau líka.
Dísa tók þátt í listahátíðinni Cycle í Gerðarsafni í fyrra og sýndi þar verkið Af vopnum. Rannsóknarvinnan að baki verkinu var þannig allt í kringum mig um nokkra hríð, fór fram í Danmörku, Þýskalandi og á Íslandi, og fól í sér uppgötvun sem ég er eiginlega ekki að meðtaka fyrr en um þessar mundir, rúmu ári síðar: meðal tilfinnanlegra áhrifaþátta á sjálfstæðisbaráttu Íslendinga var uppreisn svartra þræla á sykurplantekrum Dana í Karíbahafi árið 1848.
Þarna eru auðvitað nokkrar uppgötvanir – og allar því marki brenndar að vera löngu þekktar. Svolítið eins á dögunum þegar Íslendingar lærðu af fréttatilkynningu Hvíta hússins að varaforseti Bandaríkjanna vildi einkum ræða hernaðarmál í Íslandsferðinni framundan, sem íslenskir ráðherrar höfðu ekki haft hátt um fram að því: þegar ekki var hjá því vikist að nefna þetta, í ljósi tilkynningar Hvíta hússins, svaraði utanríkisráðherra því til að það segi sig nú sjálft, hann þurfi ekki að staglast á því, auðvitað ræði þeir hernaðarmál, þeir ræði alltaf hernaðarmál.
Ekkert nýtt, segir sig sjálft, allir vita það, óþarft að ræða það. Þannig mætti bregðast við þeirri einföldu og þannig séð vel þekktu staðreynd, til dæmis, að Danir hafi átt þrælanýlendu í Karíbahafi, þar hafi þrælar frá Afríku ræktað sykurinn í sætabrauðið þeirra – og okkar – um langa hríð. Dönsku Vestur-Indíur hét nýlendan, þrjár eyjar, alls um 350 ferkílómetrar. Floti á vegum danska sprotafyrirtækisins Vestindisk-guineisk Kompagni tók eyjarnar eignanámi árið 1672. Þegar fyrirtækið varð gjaldþrota árið 1755 tók konungur eyjarnar yfir. Árið 1778 var áætlað að Danir flyttu um 3.000 manneskjur frá Afríku í þrældóm á eyjunum árlega. Þrælasala var bönnuð árið 1802 en þrælahaldið ekki afnumið fyrr en árið 1848. Það eru tæpar tvær aldir af þrælahaldi og sykri.
Þetta er ekkert nýtt, þetta mega allir vita, þetta liggur allt ljóst fyrir, þetta er á Wikipediu – en einhvern veginn er þetta ekki beinlínis hluti af sjálfsmynd Norðurlanda. Konungurinn yfir Danmörku var lungann af þessum tíma einnig konungur yfir Noregi, og vitaskuld Íslandi, Grænlandi og Færeyjum. Vistarbandið, húsagatilskipun, allt það fól í sér svæsna kúgun, þorri íslensks alþýðufólks lifði sannarlega ekki við mikla velsæld eða frelsi – en þó ekki bókstaflega við þrældóm. Ekki bókstaflega í hlekkjum. Og sumir lifðu hlekkjalausu lífi með öllu: Íslendingar voru aldrei allir í sömu sveit settir, þar var líka að finna stétt sem samsamaði sig konungsvaldinu og hirðinni og hreykir sér enn í dag af því að hafa flutt inn saffran í miðjum móðuharðindum. Plantekruþrælarnir í Karíbahafi voru ekki bara þrælar Dana heldur þrælar Norðurlanda, þrælarnir okkar, sköffuðu sykurinn okkar og bómullina okkar. Saga þeirra er, þó ekki kæmi annað til, líka saga okkar, líka Íslandssaga.
Það er ein uppgötvun, ef ekki nokkrar uppgötvanir, á einhverju sem allir mega vita en við höfum ekki beinlínis mikið rætt um.
En fleira kemur semsagt til. Og ég er að spá í að kaflaskipta þessu efni, segi: framhald í næstu færslu.