Íslands­saga í Karíbahafi 2

23.8.2019 ~ 3 mín

Fram­hald af síðustu færslu.

Ókei, ég ætla að reyna að halda þessu áfram hérna án þess að bugast undir þeirri ímynd­uðu, heima­til­búnu og fjar­stæðu­kenndu kröfu til sjálfs míns að bloggið uppfylli allar kröfur til fræði­legra skrifa – það er betra að þetta rati út með einhverju móti en að það geri það alls ekki. Blogg er skissu­blokk. Eitt skref í einu.

Árið 2017 voru hundrað ár liðin frá því að Danmörk seldi Banda­ríkj­unum Vestur-Indí­urnar sínar, sem frá þeim tíma hafa heitið American Virgin Islands, á íslensku Banda­rísku Jómfrúreyjur. Í aðdrag­anda þessa hundrað ára afmælis virð­ist hafa orðið til áhugi á að kanna sögu eyjanna. Sagn­fræð­ing­arnir Niklas Thode Jensen og Gunvor Simon­sen skrifa um það í inngangi sínum að sérriti tíma­rits­ins Scandi­navian Journal of History um þetta efni, hve umfjöllun um þræla­hald Norð­ur­land­anna í Karíbahafi hafi í fyrsta lagi verið takmörkuð, í öðru lagi bundin norrænu tung­unum, ekki ratað að ráði í umræðu um nýlendu­tím­ann á alþjóða­vett­vangi, og í þriðja lagi, fram til þessa, einkennst af sjón­ar­hóli nýlendu­herr­anna sjálfra. Sú marg­falda endur­skoðun sem hafi orðið á sögu­ritun nýlendu­tím­ans víða annars staðar hafi skilað sér seint til Norð­ur­landa. Það er þá kannski ekki furða að meðvit­und um þátt þræl­anna í sjálf­stæð­is­bar­áttu Íslands hafi verið heldur rýr.

Danir voru fyrstir nýlendu­herra til að banna innflutn­ing á þrælum, árið 1803. Sala þræla innan nýlend­anna sjálfra var bönnuð fjórum árum síðar. Þeir sem þegar voru hnepptir í þræl­dóm voru aftur á móti ekki frels­aðir á þessum tíma­punkti: þræla­hald í dönsku nýlend­unum varði, löglega, til ársins 1848. Danir, fyrstir til að banna þræla­sölu, voru með allra síðustu evrópsku nýlendu­herr­unum til að aflétta þræla­hald­inu sjálfu. Og þegar það gerð­ist kom það ekki til af góðu, ekki að frum­kvæði þræla­hald­ar­anna. Eins og lesa má í sept­em­ber­hefti tíma­rits­ins Reykja­vík­ur­póst­ur­inn, haustið 1848:

„Á eylandi Dana í Vestur-Indíum, St. Croix, gjörðu Blökku­menn uppreist og heimt­uðu þegar í stað fullt frelsi, en að öðrum kosti kváð­ust þeir mundi beita ofbeldi og eyða öllu sem fyrir yrði. Sá land­stjór­inn, Scholten, sér þá ekki annað fært enn að gáng­ast undir það, sem Blökku­menn fóru fram á, og lýsti því hátíð­lega yfir þann 3. júlí, að allir Blökku­menn á eylöndum Dana í Vestur-Indíum upp frá þeim deigi væru frjálsir menn, og voru það fljót umskipti. Við þetta sefað­ist uppreistin að miklu leyti, en þó gjörðu Blökku­menn eftir það tölu­verðar óspektir og hervirki, og varð að því mikið tjón mörgum manni, en þó tókst að sefa óróann með liðstyrk Enskra, sem láu þar á herskipum við eyarnar. Stjórnin hefur síðan lagt samþykki sitt á það, sem land­stjór­inn gjörði, enda var þá orðið úr vöndu að ráða, en skipað hefur hún annan til yfir­stjórnar þar á eyunum og hnígur það að því, að henni hafi ekki að öllu geðj­ast að því er gjörst hafði, en búinn var land­stjóri Scholten, að vísu um stund­ar­sakir, að seigja af sér stjórn­inni vegna heilsu lasleika.

Þessi umskipti þar á eyunni hljóta að hafa mikil­vægar afleið­ingar, bæði hvað stjórn og atvinnu­veigi þar snertir, og er því atburður þessi með merki­legri tíðindum.“

Fram­hald í næstu færslu.