Framhald af síðustu færslu.
Ókei, ég ætla að reyna að halda þessu áfram hérna án þess að bugast undir þeirri ímynduðu, heimatilbúnu og fjarstæðukenndu kröfu til sjálfs míns að bloggið uppfylli allar kröfur til fræðilegra skrifa – það er betra að þetta rati út með einhverju móti en að það geri það alls ekki. Blogg er skissublokk. Eitt skref í einu.
Árið 2017 voru hundrað ár liðin frá því að Danmörk seldi Bandaríkjunum Vestur-Indíurnar sínar, sem frá þeim tíma hafa heitið American Virgin Islands, á íslensku Bandarísku Jómfrúreyjur. Í aðdraganda þessa hundrað ára afmælis virðist hafa orðið til áhugi á að kanna sögu eyjanna. Sagnfræðingarnir Niklas Thode Jensen og Gunvor Simonsen skrifa um það í inngangi sínum að sérriti tímaritsins Scandinavian Journal of History um þetta efni, hve umfjöllun um þrælahald Norðurlandanna í Karíbahafi hafi í fyrsta lagi verið takmörkuð, í öðru lagi bundin norrænu tungunum, ekki ratað að ráði í umræðu um nýlendutímann á alþjóðavettvangi, og í þriðja lagi, fram til þessa, einkennst af sjónarhóli nýlenduherranna sjálfra. Sú margfalda endurskoðun sem hafi orðið á söguritun nýlendutímans víða annars staðar hafi skilað sér seint til Norðurlanda. Það er þá kannski ekki furða að meðvitund um þátt þrælanna í sjálfstæðisbaráttu Íslands hafi verið heldur rýr.
Danir voru fyrstir nýlenduherra til að banna innflutning á þrælum, árið 1803. Sala þræla innan nýlendanna sjálfra var bönnuð fjórum árum síðar. Þeir sem þegar voru hnepptir í þrældóm voru aftur á móti ekki frelsaðir á þessum tímapunkti: þrælahald í dönsku nýlendunum varði, löglega, til ársins 1848. Danir, fyrstir til að banna þrælasölu, voru með allra síðustu evrópsku nýlenduherrunum til að aflétta þrælahaldinu sjálfu. Og þegar það gerðist kom það ekki til af góðu, ekki að frumkvæði þrælahaldaranna. Eins og lesa má í septemberhefti tímaritsins Reykjavíkurpósturinn, haustið 1848:
„Á eylandi Dana í Vestur-Indíum, St. Croix, gjörðu Blökkumenn uppreist og heimtuðu þegar í stað fullt frelsi, en að öðrum kosti kváðust þeir mundi beita ofbeldi og eyða öllu sem fyrir yrði. Sá landstjórinn, Scholten, sér þá ekki annað fært enn að gángast undir það, sem Blökkumenn fóru fram á, og lýsti því hátíðlega yfir þann 3. júlí, að allir Blökkumenn á eylöndum Dana í Vestur-Indíum upp frá þeim deigi væru frjálsir menn, og voru það fljót umskipti. Við þetta sefaðist uppreistin að miklu leyti, en þó gjörðu Blökkumenn eftir það töluverðar óspektir og hervirki, og varð að því mikið tjón mörgum manni, en þó tókst að sefa óróann með liðstyrk Enskra, sem láu þar á herskipum við eyarnar. Stjórnin hefur síðan lagt samþykki sitt á það, sem landstjórinn gjörði, enda var þá orðið úr vöndu að ráða, en skipað hefur hún annan til yfirstjórnar þar á eyunum og hnígur það að því, að henni hafi ekki að öllu geðjast að því er gjörst hafði, en búinn var landstjóri Scholten, að vísu um stundarsakir, að seigja af sér stjórninni vegna heilsu lasleika.
Þessi umskipti þar á eyunni hljóta að hafa mikilvægar afleiðingar, bæði hvað stjórn og atvinnuveigi þar snertir, og er því atburður þessi með merkilegri tíðindum.“
Framhald í næstu færslu.