Framhald af síðustu færslu.
Á myndinni hér að ofan má sjá brjóstmynd af Buddhoe herforingja, manninum sem leiddi uppreisnina gegn þrælahaldi Dana á eynni St. Croix þann 3. júlí 1848. Fréttin af upppreisn þrælanna í Dönsku Vestur-Indíum berst til Íslands. Og þrátt fyrir að fréttir af uppreisnum, byltingum og öðrum umhleypingum í Evrópu geri það líka, virðist sem að fréttin af uppreisninni í Vestur-Indíum fái ákveðna sérstöðu í hugum, að minnsta kosti einhverra, íslenskra lesenda.
Mér sýnist – án þess að hafa bókina við höndina – að sagnfræðingurinn Aðalgeir Kristjánsson hafi helst haldið þessum þræði til haga, það er áhrifum atburðanna í Karíbahafi, á stjórnmálaþróun Íslands, í ritinu Endurreisn Alþingis og Þjóðfundurinn.
Það væri forvitnilegt að sjá ítarlega rannsókn á því hvaða fréttir bárust til Íslands, og hvernig, af umrótinu þetta ár. Stuttu eftir upphaf Parísarkommúnunnar varð bylting í Danmörku: eftir fjöldamótmæli við höll konungs þann 21. mars samþykkti Danakóngur að landinu yrði sett ný stjórnarskrá og einveldi hans afnumið. Um þetta var vitaskuld fjallað í íslenskum miðlum, en séu til rannsóknir á því hvaða skilningur á tíðindunum var í boði innan íslensks orðaforða þess tíma, vildi ég gjarnan heyra af þeim. Orðið lýðræði birtist til dæmis ekki á prenti fyrr en hálfri öld síðar. Þingræði birtist nokkru fyrr en lýðræði, en þó ekki fyrr en upp úr 1880. Orðið stjórnarskrá var til byltingarárið 1848, það sést á prenti bæði árin fyrir 1848 og árin á eftir, en einmitt á þessu tiltekna ári birtist það hvergi, megi marka timarit.is. Hvað sem veldur. Ég hef ekki þekkingu á þessu og er ekki í aðstöðu til að kanna það að ráði.
Eftir stendur að þrælauppreisnin í Dönsku Vestur-Indíum fær ákveðna sérstöðu í stjórnmálaátökum á Íslandi. Ólafur E. Johnsen hét maður, prestur á Stað á Reykjanesi, og mágur Jóns Sigurðssonar. Hann skrifar ávarp til Íslendinga – sem síðar var prentað undir þeim titli, Ávarp til Íslendinga, í tímariti Jóns og félaga, Nýjum félagsritum – en höfundur dreifir fyrst, og lesendur sjálfir sín á milli, einu sér. Ávarpið hefst á upphrópuninni „Íslendingar!“ og eggjar landsmenn til að gera uppreist gegn Dönum og láta ekki yfir sig ganga endalausar tafir vegna regluverks. Tafir á hverju, þá? Verslunarfrelsi, virðist vera, fyrst og fremst, þó að fleira hafi sjálfsagt hangið á spýtunni í hugum margra.
Höfundur, presturinn, hvetur landsmenn til að sýna drottnurum sínum heldur minni þolinmæði, láta ekki draga sig lengur á asnaeyrunum. Og þessi hvatning hans, þessi mönun, grundvallast á skírskotun til þrælauppreisnarinnar í Karíbahafi:
„Blökkumenn á Vestureyjum fengu frelsi sitt allt í einu, þegar þeir höfðu gjört upphlaup og þóttu hafa unnið til dráps, og þar voru engar undanfærslur, engar fyrirspurnir, engar „mikilvægar ítarlegar rannsóknir“, sem aldrei taka enda; en vér, sem biðjum frelsis, og sýnum með rökum að vér bæði eigum það og þurfum þess við, sýnum það með hógværð og stillingu, berum fram ósk vora samhuga, og skirrumst jafnvel við að ítreka hana, til að styggja ekki stjórnina, vér megum bíða fjögur ár, og það ervið og þúngbær ár, án þess að njóta nokkurrar áheyrnar, það er ekki án orsaka þó vér segðum: bænir vorar eru undir fótum troðnar og að engu hafðar, þær eru minna metnar en þó þær hefði komið frá herteknu landi Blökkumanna, sem engan rétt þætti eiga á að fá bæn sína nema fyrir sérlega, fáheyrða náð …“
Þegar þessi texti er dreginn inn í samtímann blasir við hvernig hann byggir á kerfisbundnum rasisma nýlendutímans: jafnvel „Blökkumenn“ fá nú sínu framgengt, ekki ætlum við að vera eftirbátar þeirra. Þó er freistandi að skerpa aðeins á öðru sem birtist í textanum líka, eða má sjá í honum með góðum vilja: í fyrsta lagi að orðið Blökkumenn er skrifað með stórum staf, sem veitir þeirri skilgreiningu á hópi að einhverju leyti hliðstæðan sess við þjóðerni eða ríkisfang. Það virðist í öllu falli ekki alfarið virðingarlaust. Í öðru lagi talar höfundur um hertekið land Blökkumanna, sem virðist gefa til kynna að honum þyki þeir eiga réttmætt tilkall til lands síns. Um leið er ekki ljóst á lestri textans að höfundi þyki réttleysi fólksins vera eðlilegt ástand þó að það sé, eða hafi fram að uppreisninni verið, staðreynd: „… þó þær hefði komið frá herteknu landi Blökkumanna, sem engan rétt þætti eiga á að fá bæn sína …“. Að lýsa stöðu mála sem svo að einhver hópur þyki ekki eiga tilkall til að yfirvöld verði við kröfum hans, felur ekki endilega í sér samþykki á þeirri afstöðu yfirvaldsins.
Með góðum vilja, sagði ég. Þó er öllu erfiðara að víkja til hliðar orðavali prestsins síðar í erindinu:
„Það mætti því vera yður fullljóst, Íslendingar! að bænarskrár eintómar muni eigi einhlítar til að sannfæra Dani um réttindi vor. Þeir hafa í mörg hundruð ár inndrukkið með móðurmjólkinni það álit á þjóð vorri, að hún sé í öllum líkamlegum efnum á borð við Skrælingja, geti ekki lifað nema með mildilegri aðstoð og hjálp frá Danmörku, og föðurlegri umönnum Dana, þeir halda það sé synd að sýna þessa aumingja nokkurri annari þjóð en Dönum, því hinir hræðist þá og vilji ekki nærri þeim koma, Danir einir hafi hjartagæzku til þess.“
Það væri erfitt að andmæla því af nokkurri sannfæringu að presturinn geri hér rasisma að hreyfiafli í sjálfstæðisbaráttunni. En sagan er slungin skepna: óháð því hvað höfundinum bjó í huga að þessu leyti, hver afstaða hans var til íbúa nýlendanna, þá stendur eftir, óyggjandi, að hvatning hans til Íslendinga er innblásin af uppreisn svartra þræla á danskri nýlendu í Karíbahafi. Það er með vindinn frá karabísku eynni St. Croix í bakið sem presturinn manar íbúa eylands í Norður-Atlantshafi til að rísa upp gegn sömu erlendu valdhöfum.
Mönun prestsins rataði víða. Framhald í næstu færslu.