Íslands­saga í Karíbahafi 3

24.8.2019 ~ 5 mín

Fram­hald af síðustu færslu.

Á mynd­inni hér að ofan má sjá brjóst­mynd af Budd­hoe herfor­ingja, mann­inum sem leiddi uppreisn­ina gegn þræla­haldi Dana á eynni St. Croix þann 3. júlí 1848. Fréttin af uppp­reisn þræl­anna í Dönsku Vestur-Indíum berst til Íslands. Og þrátt fyrir að fréttir af uppreisnum, bylt­ingum og öðrum umhleyp­ingum í Evrópu geri það líka, virð­ist sem að fréttin af uppreisn­inni í Vestur-Indíum fái ákveðna sérstöðu í hugum, að minnsta kosti einhverra, íslenskra lesenda.

Mér sýnist – án þess að hafa bókina við hönd­ina – að sagn­fræð­ing­ur­inn Aðal­geir Kristjáns­son hafi helst haldið þessum þræði til haga, það er áhrifum atburð­anna í Karíbahafi, á stjórn­mála­þróun Íslands, í ritinu Endur­reisn Alþingis og Þjóð­fund­ur­inn.

Það væri forvitni­legt að sjá ítar­lega rann­sókn á því hvaða fréttir bárust til Íslands, og hvernig, af umrót­inu þetta ár. Stuttu eftir upphaf París­ar­komm­ún­unnar varð bylt­ing í Danmörku: eftir fjölda­mót­mæli við höll konungs þann 21. mars samþykkti Danakóngur að land­inu yrði sett ný stjórn­ar­skrá og einveldi hans afnumið. Um þetta var vita­skuld fjallað í íslenskum miðlum, en séu til rann­sóknir á því hvaða skiln­ingur á tíðind­unum var í boði innan íslensks orða­forða þess tíma, vildi ég gjarnan heyra af þeim. Orðið lýðræði birt­ist til dæmis ekki á prenti fyrr en hálfri öld síðar. Þing­ræði birt­ist nokkru fyrr en lýðræði, en þó ekki fyrr en upp úr 1880. Orðið stjórn­ar­skrá var til bylt­ing­ar­árið 1848, það sést á prenti bæði árin fyrir 1848 og árin á eftir, en einmitt á þessu tiltekna ári birt­ist það hvergi, megi marka timarit.is. Hvað sem veldur. Ég hef ekki þekk­ingu á þessu og er ekki í aðstöðu til að kanna það að ráði. 

Eftir stendur að þræla­upp­reisnin í Dönsku Vestur-Indíum fær ákveðna sérstöðu í stjórn­mála­átökum á Íslandi. Ólafur E. Johnsen hét maður, prestur á Stað á Reykja­nesi, og mágur Jóns Sigurðs­sonar. Hann skrifar ávarp til Íslend­inga – sem síðar var prentað undir þeim titli, Ávarp til Íslend­inga, í tíma­riti Jóns og félaga, Nýjum félags­ritum – en höfundur dreifir fyrst, og lesendur sjálfir sín á milli, einu sér. Ávarpið hefst á upphróp­un­inni „Íslend­ingar!“ og eggjar lands­menn til að gera uppreist gegn Dönum og láta ekki yfir sig ganga enda­lausar tafir vegna reglu­verks. Tafir á hverju, þá? Versl­un­ar­frelsi, virð­ist vera, fyrst og fremst, þó að fleira hafi sjálfsagt hangið á spýt­unni í hugum margra.

Höfundur, prest­ur­inn, hvetur lands­menn til að sýna drottn­urum sínum heldur minni þolin­mæði, láta ekki draga sig lengur á asna­eyr­unum. Og þessi hvatn­ing hans, þessi mönun, grund­vall­ast á skír­skotun til þræla­upp­reisn­ar­innar í Karíbahafi:

„Blökku­menn á Vest­ur­eyjum fengu frelsi sitt allt í einu, þegar þeir höfðu gjört upphlaup og þóttu hafa unnið til dráps, og þar voru engar undan­færslur, engar fyrir­spurnir, engar „mikil­vægar ítar­legar rann­sóknir“, sem aldrei taka enda; en vér, sem biðjum frelsis, og sýnum með rökum að vér bæði eigum það og þurfum þess við, sýnum það með hógværð og still­ingu, berum fram ósk vora samhuga, og skirr­umst jafn­vel við að ítreka hana, til að styggja ekki stjórn­ina, vér megum bíða fjögur ár, og það ervið og þúng­bær ár, án þess að njóta nokk­urrar áheyrnar, það er ekki án orsaka þó vér segðum: bænir vorar eru undir fótum troðnar og að engu hafðar, þær eru minna metnar en þó þær hefði komið frá herteknu landi Blökku­manna, sem engan rétt þætti eiga á að fá bæn sína nema fyrir sérlega, fáheyrða náð …“

Þegar þessi texti er dreg­inn inn í samtím­ann blasir við hvernig hann byggir á kerf­is­bundnum rasisma nýlendu­tím­ans: jafn­vel „Blökku­menn“ fá nú sínu fram­gengt, ekki ætlum við að vera eftir­bátar þeirra. Þó er freist­andi að skerpa aðeins á öðru sem birt­ist í text­anum líka, eða má sjá í honum með góðum vilja: í fyrsta lagi að orðið Blökku­menn er skrifað með stórum staf, sem veitir þeirri skil­grein­ingu á hópi að einhverju leyti hlið­stæðan sess við þjóð­erni eða ríkis­fang. Það virð­ist í öllu falli ekki alfarið virð­ing­ar­laust. Í öðru lagi talar höfundur um hertekið land Blökku­manna, sem virð­ist gefa til kynna að honum þyki þeir eiga rétt­mætt tilkall til lands síns. Um leið er ekki ljóst á lestri text­ans að höfundi þyki rétt­leysi fólks­ins vera eðli­legt ástand þó að það sé, eða hafi fram að uppreisn­inni verið, stað­reynd: „… þó þær hefði komið frá herteknu landi Blökku­manna, sem engan rétt þætti eiga á að fá bæn sína …“. Að lýsa stöðu mála sem svo að einhver hópur þyki ekki eiga tilkall til að yfir­völd verði við kröfum hans, felur ekki endi­lega í sér samþykki á þeirri afstöðu yfirvaldsins.

Með góðum vilja, sagði ég. Þó er öllu erfið­ara að víkja til hliðar orða­vali prests­ins síðar í erindinu:

„Það mætti því vera yður full­ljóst, Íslend­ingar! að bænar­skrár eintómar muni eigi einhlítar til að sann­færa Dani um rétt­indi vor. Þeir hafa í mörg hundruð ár inndrukkið með móður­mjólk­inni það álit á þjóð vorri, að hún sé í öllum líkam­legum efnum á borð við Skræl­ingja, geti ekki lifað nema með mildi­legri aðstoð og hjálp frá Danmörku, og föður­legri umönnum Dana, þeir halda það sé synd að sýna þessa aumingja nokk­urri annari þjóð en Dönum, því hinir hræð­ist þá og vilji ekki nærri þeim koma, Danir einir hafi hjarta­gæzku til þess.“

Það væri erfitt að andmæla því af nokk­urri sann­fær­ingu að prest­ur­inn geri hér rasisma að hreyfiafli í sjálf­stæð­is­bar­átt­unni. En sagan er slungin skepna: óháð því hvað höfund­inum bjó í huga að þessu leyti, hver afstaða hans var til íbúa nýlend­anna, þá stendur eftir, óyggj­andi, að hvatn­ing hans til Íslend­inga er innblásin af uppreisn svartra þræla á danskri nýlendu í Karíbahafi. Það er með vind­inn frá karab­ísku eynni St. Croix í bakið sem prest­ur­inn manar íbúa eylands í Norður-Atlants­hafi til að rísa upp gegn sömu erlendu valdhöfum.

Mönun prests­ins rataði víða. Fram­hald í næstu færslu.