Framhald af síðustu færslu.
Ári fyrir uppreisn þrælanna í Dönsku Vestur-Indíum hét Kristján áttundi Danakonungur því að þrælar í nýlendunum skyldu öðlast frelsi – innan tólf ára. Danmörk var, sem fyrr greinir, með allra síðustu Evrópulöndum til að stefna að frelsun þræla sinna. Frétt um þetta birtist í Skírni við upphaf ársins 1848:
„Danir eiga því láni að fagna, að konungur þeirra, Kristján áttundi, er vitur maður og góður höfðingi; þykir hann og í flestu láta á sannast, að hann er maður stjórnkænn og vill þegnum sínum vel.
Það er eitt til dæmis að taka um Kristján konung, að hann hefur þetta árið heitið frelsi öllum ófrjálsum mönnum, þeim sem eru í löndum Dana í Vestureyjum, og hefur hann í því gjört sitt til, að leysa þetta herfilega ánauðarok, er um langan aldur hefur svívirt kristnina, og svívirðir hana enn þann dag í dag víða hvar.
Brjef konungs um þetta efni er dagsett miðvikudaginn í fjórtándu viku sumars (28. d. júlím.), og er það orðað á þessa leið: „Eptir boði rjettvísi og mannúðar er það vor konunglegur vilji, til að auka og efla heill og hag þegna vorra á Vestureyjum, að yfirráð þau, er nýlendumenn vorir hafa nú sem stendur yfir þrælum sínum, skuli eigi lengur haldast; en til þess, að allt verði haganlega búið undir þessa breytingu, og eigi hallað á hluta nokkurs manns, þá skal þessi nýja skipan eigi fyr á komast, en að tólf árum liðnum hjeðan í frá, og skal til þess tíma allt vera í sama horfi og nú.“
„En það er og allrahæstur vilji vor, að börn ófrjálsra manna, þau er fæðast eptir þennan dag, skuli vera frjáls þegar eptir fæðingu sína, en þó skulu þau vera hjá mæðrum sínum eða foreldrum, og munum vjer síðar glögglegar á kveða, hversu með þau börn skal fara.“
Þetta brjef var sent jarli konungs á Vestur-eyjum, og honum boðið að birta það eyjamönnum; jarli var og boðið að kjósa nokkura menn í nefnd, og íhuga með þeim, hversu þessu máli yrði bezt komið fyrir, og eiga þeir síðan að skýra stjórninni frá áliti sínu.“
Þó að staða Íslendinga hafi ekki verið sú sama og staða þrælanna á dönsku sykurekrunum, þá má ef til vill ráða á þessari frétt hvaða hliðstæður hafa verið séra Ólafi í huga við ritun erindis síns, ásamt öðrum sem þáðu innblástur frá uppreisn þrælanna árið 1848 og kröfu þeirra um tafarlaust frelsi. Þrátt fyrir fögur fyrirheit fól yfirlýsing konungs í sér að frelsun þrælanna var sett í nefnd, þar skyldi ferlið þvælast næstu árin. Að sama skapi skrifar Ólafur um viðbrögð danskra yfirvalda við kröfugerð Íslendinga, í Ávarpi til Íslendinga: „vér, sem biðjum frelsis … vér megum bíða fjögur ár, og það ervið og þúngbær ár“.
Þessi þúngbæru ár hefðu ekki verið léttari fyrir byggð tugþúsunda þræla, sem hlotið hafa viðurkenningu konungs á ranglætinu – yfirlýsingu um þrældómur skuli ekki líðast og þeir eigi heimtingu á frelsi – en er í sömu mund sagt að bíða, una þrældómi sínum, bíða og vinna, á meðan stjórnsýslan útfæri frelsunina. Í tólf ár. Þegar haft er eftir konungi að það sé til að „allt verði haganlega búið undir þessa breytingu, og eigi hallað á hluta nokkurs manns“ á hann við þrælaeigendurna, viðskiptalífið: tólf ár kæmu sér vel til að útfæra frelsunina þannig að hún valdi viðskiptalífinu sem minnstu hnjaski.
Framhald í næstu færslu.