Íslands­saga í Karíbahafi 4

26.8.2019 ~ 3 mín

Fram­hald af síðustu færslu.

Ári fyrir uppreisn þræl­anna í Dönsku Vestur-Indíum hét Kristján áttundi Dana­kon­ungur því að þrælar í nýlend­unum skyldu öðlast frelsi – innan tólf ára. Danmörk var, sem fyrr greinir, með allra síðustu Evrópu­löndum til að stefna að frelsun þræla sinna. Frétt um þetta birt­ist í Skírni við upphaf ársins 1848:

„Danir eiga því láni að fagna, að konungur þeirra, Kristján áttundi, er vitur maður og góður höfð­ingi; þykir hann og í flestu láta á sann­ast, að hann er maður stjórnkænn og vill þegnum sínum vel.

Það er eitt til dæmis að taka um Kristján konung, að hann hefur þetta árið heitið frelsi öllum ófrjálsum mönnum, þeim sem eru í löndum Dana í Vest­ur­eyjum, og hefur hann í því gjört sitt til, að leysa þetta herfi­lega ánauð­arok, er um langan aldur hefur svívirt kristn­ina, og svívirðir hana enn þann dag í dag víða hvar.

Brjef konungs um þetta efni er dagsett miðviku­dag­inn í fjór­tándu viku sumars (28. d. júlím.), og er það orðað á þessa leið: „Eptir boði rjett­vísi og mann­úðar er það vor konung­legur vilji, til að auka og efla heill og hag þegna vorra á Vest­ur­eyjum, að yfir­ráð þau, er nýlendu­menn vorir hafa nú sem stendur yfir þrælum sínum, skuli eigi lengur hald­ast; en til þess, að allt verði hagan­lega búið undir þessa breyt­ingu, og eigi hallað á hluta nokk­urs manns, þá skal þessi nýja skipan eigi fyr á komast, en að tólf árum liðnum hjeðan í frá, og skal til þess tíma allt vera í sama horfi og nú.“

„En það er og allra­hæstur vilji vor, að börn ófrjálsra manna, þau er fæðast eptir þennan dag, skuli vera frjáls þegar eptir fæðingu sína, en þó skulu þau vera hjá mæðrum sínum eða foreldrum, og munum vjer síðar glögg­legar á kveða, hversu með þau börn skal fara.“

Þetta brjef var sent jarli konungs á Vestur-eyjum, og honum boðið að birta það eyja­mönnum; jarli var og boðið að kjósa nokkura menn í nefnd, og íhuga með þeim, hversu þessu máli yrði bezt komið fyrir, og eiga þeir síðan að skýra stjórn­inni frá áliti sínu.“

Þó að staða Íslend­inga hafi ekki verið sú sama og staða þræl­anna á dönsku syku­rekr­unum, þá má ef til vill ráða á þess­ari frétt hvaða hlið­stæður hafa verið séra Ólafi í huga við ritun erindis síns, ásamt öðrum sem þáðu innblástur frá uppreisn þræl­anna árið 1848 og kröfu þeirra um tafar­laust frelsi. Þrátt fyrir fögur fyrir­heit fól yfir­lýs­ing konungs í sér að frelsun þræl­anna var sett í nefnd, þar skyldi ferlið þvæl­ast næstu árin. Að sama skapi skrifar Ólafur um viðbrögð danskra yfir­valda við kröfu­gerð Íslend­inga, í Ávarpi til Íslend­inga: „vér, sem biðjum frelsis … vér megum bíða fjögur ár, og það ervið og þúng­bær ár“.

Þessi þúng­bæru ár hefðu ekki verið létt­ari fyrir byggð tugþús­unda þræla, sem hlotið hafa viður­kenn­ingu konungs á rang­læt­inu – yfir­lýs­ingu um þræl­dómur skuli ekki líðast og þeir eigi heimt­ingu á frelsi – en er í sömu mund sagt að bíða, una þræl­dómi sínum, bíða og vinna, á meðan stjórn­sýslan útfæri frels­un­ina. Í tólf ár. Þegar haft er eftir konungi að það sé til að „allt verði hagan­lega búið undir þessa breyt­ingu, og eigi hallað á hluta nokk­urs manns“ á hann við þræla­eig­end­urna, viðskipta­lífið: tólf ár kæmu sér vel til að útfæra frels­un­ina þannig að hún valdi viðskipta­líf­inu sem minnstu hnjaski.

Fram­hald í næstu færslu.