Framhald af síðustu færslu.
Lýsingar á því líkamlega ofbeldi sem Danir beittu þræla sína, eða á fjöldamorðunum sem þrælasiglingarnar fólu í sér, eru augljós hryllingur. Óvæntari hryllingur felst í að lesa um það sem þrælasalar, skipverjar, dönsk yfirvöld eða þrælaeigendur í nýlendunum, gerðu eða hugðust gera í þágu þeirra sem þeir höfðu hneppt í ánauð.
Dæmi um augljósan hrylling er frásögnin úr síðustu færslu: að berja niður uppreisn þrælanna, hlekkja þá á ný, taka uppreisnarleiðtogann af lífi og hengja limlest líkið upp í siglurá til að félagar hans komist ekki hjá því að hafa það fyrir augunum næstu daga. Alls er vitað um átta uppreisnartilraunir á dönsku þrælaskipunum. Dánartíðni um borð var þó einkum af öðrum sökum. Á leiðinni milli nýlenda Dana, frá Vesturströnd Afríku til Karíbahafs, létust um 30 prósent þrælanna um borð framan af 18. öld, um 20 prósent um miðja öldina og um 12 prósent síðustu ár þrælasiglinganna, fram til 1806. Dánarorsakir voru ekki vel skrásettar, né heldur nákvæmur fjöldi, hvað þá nöfn hinna látnu. Dánartíðni meðal áhafnarinnar, skipverja sem meðal annars voru sóttir í tugthús Dana, var jafnvel hærri. Einar sér fólu þrælasiglingarnar í sér fjöldamorð, hægfara en jafn áreiðanlega og skothríð í opnu rými.
Óvæntari hryllingur: það var skjalfest viðmið hins danska Vestur-indíska verslunarfélags, Vestindisk handelsselskab, að hleypa hinum hlekkjuðu einu sinni eða tvisvar í viku upp á þilfar „svo þau megi dansa og hoppa á sinn hátt við trommuslátt, til að viðhalda skapi þeirra og líkamsþrótti“.
Myndin sem fylgir færslunni er brot úr vel þekktum uppdrætti skipulags við þrælaflutninga í breska skipinu Brooks, í samræmi við reglugerð um slík efni, frá árinu 1788. Fjöldi nauðungarfluttra í hverri ferð og gerð skipa var sambærileg milli landa og má gera ráð fyrir að myndin varpi ljósi á aðstæður í þrælasiglingum Dana líkt og annarra nýlenduríkja.