Íslands­saga í Karíbahafi 6

30.8.2019 ~ 2 mín

Fram­hald af síðustu færslu.

Lýsingar á því líkam­lega ofbeldi sem Danir beittu þræla sína, eða á fjölda­morð­unum sem þræla­sigl­ing­arnar fólu í sér, eru augljós hryll­ingur. Óvænt­ari hryll­ingur felst í að lesa um það sem þræla­salar, skip­verjar, dönsk yfir­völd eða þræla­eig­endur í nýlend­unum, gerðu eða hugð­ust gera í þágu þeirra sem þeir höfðu hneppt í ánauð.

Dæmi um augljósan hryll­ing er frásögnin úr síðustu færslu: að berja niður uppreisn þræl­anna, hlekkja þá á ný, taka uppreisn­ar­leið­tog­ann af lífi og hengja limlest líkið upp í siglurá til að félagar hans komist ekki hjá því að hafa það fyrir augunum næstu daga. Alls er vitað um átta uppreisn­ar­tilraunir á dönsku þræla­skip­unum. Dánar­tíðni um borð var þó einkum af öðrum sökum. Á leið­inni milli nýlenda Dana, frá Vest­ur­strönd Afríku til Karíbahafs, létust um 30 prósent þræl­anna um borð framan af 18. öld, um 20 prósent um miðja öldina og um 12 prósent síðustu ár þræla­sigl­ing­anna, fram til 1806. Dánar­or­sakir voru ekki vel skrá­settar, né heldur nákvæmur fjöldi, hvað þá nöfn hinna látnu. Dánar­tíðni meðal áhafn­ar­innar, skip­verja sem meðal annars voru sóttir í tugt­hús Dana, var jafn­vel hærri. Einar sér fólu þræla­sigl­ing­arnar í sér fjölda­morð, hægfara en jafn áreið­an­lega og skot­hríð í opnu rými. 

Óvænt­ari hryll­ingur: það var skjalfest viðmið hins danska Vestur-indíska versl­un­ar­fé­lags, Vest­indisk hand­els­s­elskab, að hleypa hinum hlekkj­uðu einu sinni eða tvisvar í viku upp á þilfar „svo þau megi dansa og hoppa á sinn hátt við trommuslátt, til að viðhalda skapi þeirra og líkamsþrótti“.


Myndin sem fylgir færsl­unni er brot úr vel þekktum uppdrætti skipu­lags við þræla­flutn­inga í breska skip­inu Brooks, í samræmi við reglu­gerð um slík efni, frá árinu 1788. Fjöldi nauð­ung­ar­fluttra í hverri ferð og gerð skipa var sambæri­leg milli landa og má gera ráð fyrir að myndin varpi ljósi á aðstæður í þræla­sigl­ingum Dana líkt og annarra nýlenduríkja.

Fram­hald í næstu færslu.