150 svipu­högg fyrir þótta (Íslands­saga í Karíbahafi 7)

02.9.2019 ~ 5 mín

Fram­hald héðan.

Það er skrítið að lesa sögu þræla­halds. Öll hugtökin sem sagan byggir á eru óásætt­an­leg, en við lest­ur­inn stígur maður inn í heim þar sem þau eru ekki bara til heldur nauð­syn­legur lykill að skiln­ingi. Þó ekki væri nema orðið þræll, eitt og sér. Ég mun nota það hér, ég mun jafn­vel hafa það eftir eins og því var beitt í dönskum lögum og reglu­gerðum, til að greina á milli „þræla“ og „hvítra“. En það er kannski ágætt ef við getum verið meðvituð um það sameig­in­lega að þetta er svið og saga sem okkur skortir að einhverju leyti nothæfan orða­forða um í dag.

Saga danska þræla­halds­ins í Karíbahafi spannar tæpar tvær aldir, frá um 1665 til 1848. Þegar sykur­fram­leiðslan þar stóð hæst, undir lok þessa tíma­bils, bjuggu á eyjunum þremur og störf­uðu 20.000 til 30.000 þrælar: karlar, konur og börn, flest á eynni St. Croix, þar sem aðstæður til rækt­unar á sykur­reyr voru ákjósanlegastar.

Árið 1992 kom út fyrsta rit háskóla­út­gáfu Háskól­ans í Vestur-Indíum, bókin Slave Society in the Danish West Indies: St. Thomas, St. John and St. Croix, eftir Neville A.T. Hall. Hall lést í bílslysi árið 1986. Það kom í hlut ritstjóra að ganga frá ritinu til útgáfu. Kamau Brat­hwaite, ljóð­skáld og fræði­maður frá Barbados, skrifar formála rits­ins. Þar má lesa:

„For months we mour­ned the crashes, tinkle glass & metal fall­ing, pond­er­ing with dumb pogo sticks among the ashes of the bad, confu­sed handw­rit­ing of that “accident” while all the while a dark & mineral stain lay like his memory upon the grow­ing lawn. Comm­unities like ours cannot afford these losses, no?“

Gæsalapp­irnar utan um orðið accident virð­ast gefa til kynna að á eyjunum hafi þótt málum blandið hvernig andlát höfund­ar­ins bar að.

Það sem hér fer á eftir er að mestu byggt á þeim kafla í riti hans sem snýr að danskri löggjöf um þræla.


Að dönskum lögum voru þrælar skil­greindir sem eign húsbænda sinna í sama skiln­ingi og búfén­aður. Eigendum þræla var því heim­ilt að fara með þá að vild og refsi­laust ef eigandi kaus að myrða þræl sinn. Pynt­ingar voru tíðar.

Í bók Halls kemur fram að vegna þess hve Danir voru fálið­aðir á eyjunum og yfir­valdið þar í reynd veikt hafi mögu­legum þræla­upp­reisnum verið haldið í skefjum með því harð­ari refs­ingum við öllum agabrotum. Um refs­ing­arnar giltu að nafn­inu til skráð viðmið, reglu­gerðir, frá árinu 1733. Land­stjór­anum von Pröck var þó í sjálfs­vald sett hversu stóran hluta reglu­gerð­anna hann birti opin­ber­lega. Hann kaus að birta engan hluta þeirra, í von um velþóknun þræla­eig­enda. Þar með virð­ast þær takmark­anir á viður­lögum við brotum þræl­anna sem þar var þó að finna ekki hafa tekið gildi á eyjunum og hvítum í reynd hafa verið heim­ilt að beita jafn hörðum refs­ingum við brotum þræla og þeim sýnd­ist, fram undir lok 18. aldar.

Efna­hag eyjanna staf­aði mest ógn af mögu­legum undan­brögðum þræl­anna, ekki síst þeim alltaf yfir­vof­andi mögu­leika að þeir leystu sig úr ánauð­inni. Við stroki, tilraunum til stroks og samsæri um strok voru því alla tíð hörð viður­lög: pynt­ingar með glóandi járni, afskor­inn fótleggur eða eyra, brenni­merk­ing, húðstrýk­ing, dauði, eftir alvar­leika brots­ins eða lengd fjar­veru. Þetta er í kóðanum frá 1733, sem land­stjór­inn birti hvergi en ætti þó að fela í sér vísbend­ingu um viðmið. Refs­ingar við þótta, dóna­skap, látbragði sem þótti gefa til kynna annað en tilhlýði­lega virð­ingu og undir­gefni, voru samkvæmt reglu­gerð­inni litlu mild­ari, enda þótti alls­herj­ar­reglu eyjanna ekki stafa minni hætta af slíkum stæri­látum en stroki. Fyrir ógnandi tilburði eða móðg­andi orðfæri í garð hvítra skyldi refsa með heng­ingu í kjöl­far pynt­inga með glóandi járni. Hinum móðg­aða var þó frjálst að sýna miskunn, krefjast mildi og var þá hægri hönd þræls­ins skorin af. Þegar þrælar mættu hvítu fólki, hvort sem það fór um fótgang­andi eða á hest­baki, bar þræl­unum að sýna undir­gefni og stíga til hliðar þar til þau hvítu væru farin hjá. Ef það brást var hvítum heim­ilt að beita líkams­refs­ingum á staðnum.

Og svo fram­vegis, og svo fram­vegis. Og svo framvegis.

Árið 1783 er enn samin ný reglu­gerð um rétt­indi og skyldur þræla. Þessi kóði er kenndur við höfund­inn, Lindemann etaðs­ráð og nefndur Lindemann-kóðinn. 1783, það er eftir amer­ísku bylt­ing­una, dönsk stjórn­völd hafa í um hálfa öld verið undir sterkum áhrifum upplýs­ing­ar­innar, franska bylt­ingin er í nánd og aðeins níu ár þar til Danir ákveða að hætta þræla­sölu yfir Atlants­haf. Hvað sem líður þessum fram­fara­tímum er í Lindemann-kóðanum enn skýrt kveðið á um aga og undir­gefni: þegar hvítur maður fer hjá skyldu þrælar enn víkja úr vegi, ýmist ganga burt með hægð eða standa kyrrir þar til sá hvíti væri horf­inn á braut. Allir þrælar skyldu nú virða og hlýða fyrir­mælum frá öllum hvítum mönnum, óháð því hvort þar færu eigendur og húsbændur þeirra sjálfra. Fyrir ókurt­eisi eða óhlýðni skyldi refsa með 20–50 svipu­höggum, en ef þræll­inn lét um leið út úr sér óvið­ur­kvæmi­legan munn­söfnuð skyldi refs­ingin hækkuð í 150–200 högg. Lindemann getur þess sjálfur að í refsiramma sem settur var í New York 75 árum fyrr væri aðeins kveðið á um 40 högg fyrir sömu brot, en útskýrir:

„Í þessu samhengi ber að geta þess að þrælar Norður-Amer­íku sæta ekki jafn harka­legri meðferð og á eyjunum, þar sem strang­ari aga er þörf í ljósi fámennis hvítra í hlut­falli við fjölda þræla“.


Myndin sem fylgir færsl­unni sýnir brot úr korti af eynni St. Croix., sem gert var árið 1754 fyrir Adam Gott­lob Moltke, sem mér sýnist hafa verið greifi. Á kort­inu sést hvernig eynni var nær allri skipt upp í plantekrur, að mestu undir sykurrækt.

Fram­halds að vænta.