Það er skrítið að lesa sögu þrælahalds. Öll hugtökin sem sagan byggir á eru óásættanleg, en við lesturinn stígur maður inn í heim þar sem þau eru ekki bara til heldur nauðsynlegur lykill að skilningi. Þó ekki væri nema orðið þræll, eitt og sér. Ég mun nota það hér, ég mun jafnvel hafa það eftir eins og því var beitt í dönskum lögum og reglugerðum, til að greina á milli „þræla“ og „hvítra“. En það er kannski ágætt ef við getum verið meðvituð um það sameiginlega að þetta er svið og saga sem okkur skortir að einhverju leyti nothæfan orðaforða um í dag.
Saga danska þrælahaldsins í Karíbahafi spannar tæpar tvær aldir, frá um 1665 til 1848. Þegar sykurframleiðslan þar stóð hæst, undir lok þessa tímabils, bjuggu á eyjunum þremur og störfuðu 20.000 til 30.000 þrælar: karlar, konur og börn, flest á eynni St. Croix, þar sem aðstæður til ræktunar á sykurreyr voru ákjósanlegastar.
Árið 1992 kom út fyrsta rit háskólaútgáfu Háskólans í Vestur-Indíum, bókin Slave Society in the Danish West Indies: St. Thomas, St. John and St. Croix, eftir Neville A.T. Hall. Hall lést í bílslysi árið 1986. Það kom í hlut ritstjóra að ganga frá ritinu til útgáfu. Kamau Brathwaite, ljóðskáld og fræðimaður frá Barbados, skrifar formála ritsins. Þar má lesa:
„For months we mourned the crashes, tinkle glass & metal falling, pondering with dumb pogo sticks among the ashes of the bad, confused handwriting of that “accident” while all the while a dark & mineral stain lay like his memory upon the growing lawn. Communities like ours cannot afford these losses, no?“
Gæsalappirnar utan um orðið accident virðast gefa til kynna að á eyjunum hafi þótt málum blandið hvernig andlát höfundarins bar að.
Það sem hér fer á eftir er að mestu byggt á þeim kafla í riti hans sem snýr að danskri löggjöf um þræla.
Að dönskum lögum voru þrælar skilgreindir sem eign húsbænda sinna í sama skilningi og búfénaður. Eigendum þræla var því heimilt að fara með þá að vild og refsilaust ef eigandi kaus að myrða þræl sinn. Pyntingar voru tíðar.
Í bók Halls kemur fram að vegna þess hve Danir voru fáliðaðir á eyjunum og yfirvaldið þar í reynd veikt hafi mögulegum þrælauppreisnum verið haldið í skefjum með því harðari refsingum við öllum agabrotum. Um refsingarnar giltu að nafninu til skráð viðmið, reglugerðir, frá árinu 1733. Landstjóranum von Pröck var þó í sjálfsvald sett hversu stóran hluta reglugerðanna hann birti opinberlega. Hann kaus að birta engan hluta þeirra, í von um velþóknun þrælaeigenda. Þar með virðast þær takmarkanir á viðurlögum við brotum þrælanna sem þar var þó að finna ekki hafa tekið gildi á eyjunum og hvítum í reynd hafa verið heimilt að beita jafn hörðum refsingum við brotum þræla og þeim sýndist, fram undir lok 18. aldar.
Efnahag eyjanna stafaði mest ógn af mögulegum undanbrögðum þrælanna, ekki síst þeim alltaf yfirvofandi möguleika að þeir leystu sig úr ánauðinni. Við stroki, tilraunum til stroks og samsæri um strok voru því alla tíð hörð viðurlög: pyntingar með glóandi járni, afskorinn fótleggur eða eyra, brennimerking, húðstrýking, dauði, eftir alvarleika brotsins eða lengd fjarveru. Þetta er í kóðanum frá 1733, sem landstjórinn birti hvergi en ætti þó að fela í sér vísbendingu um viðmið. Refsingar við þótta, dónaskap, látbragði sem þótti gefa til kynna annað en tilhlýðilega virðingu og undirgefni, voru samkvæmt reglugerðinni litlu mildari, enda þótti allsherjarreglu eyjanna ekki stafa minni hætta af slíkum stærilátum en stroki. Fyrir ógnandi tilburði eða móðgandi orðfæri í garð hvítra skyldi refsa með hengingu í kjölfar pyntinga með glóandi járni. Hinum móðgaða var þó frjálst að sýna miskunn, krefjast mildi og var þá hægri hönd þrælsins skorin af. Þegar þrælar mættu hvítu fólki, hvort sem það fór um fótgangandi eða á hestbaki, bar þrælunum að sýna undirgefni og stíga til hliðar þar til þau hvítu væru farin hjá. Ef það brást var hvítum heimilt að beita líkamsrefsingum á staðnum.
Og svo framvegis, og svo framvegis. Og svo framvegis.
Árið 1783 er enn samin ný reglugerð um réttindi og skyldur þræla. Þessi kóði er kenndur við höfundinn, Lindemann etaðsráð og nefndur Lindemann-kóðinn. 1783, það er eftir amerísku byltinguna, dönsk stjórnvöld hafa í um hálfa öld verið undir sterkum áhrifum upplýsingarinnar, franska byltingin er í nánd og aðeins níu ár þar til Danir ákveða að hætta þrælasölu yfir Atlantshaf. Hvað sem líður þessum framfaratímum er í Lindemann-kóðanum enn skýrt kveðið á um aga og undirgefni: þegar hvítur maður fer hjá skyldu þrælar enn víkja úr vegi, ýmist ganga burt með hægð eða standa kyrrir þar til sá hvíti væri horfinn á braut. Allir þrælar skyldu nú virða og hlýða fyrirmælum frá öllum hvítum mönnum, óháð því hvort þar færu eigendur og húsbændur þeirra sjálfra. Fyrir ókurteisi eða óhlýðni skyldi refsa með 20–50 svipuhöggum, en ef þrællinn lét um leið út úr sér óviðurkvæmilegan munnsöfnuð skyldi refsingin hækkuð í 150–200 högg. Lindemann getur þess sjálfur að í refsiramma sem settur var í New York 75 árum fyrr væri aðeins kveðið á um 40 högg fyrir sömu brot, en útskýrir:
„Í þessu samhengi ber að geta þess að þrælar Norður-Ameríku sæta ekki jafn harkalegri meðferð og á eyjunum, þar sem strangari aga er þörf í ljósi fámennis hvítra í hlutfalli við fjölda þræla“.
Myndin sem fylgir færslunni sýnir brot úr korti af eynni St. Croix., sem gert var árið 1754 fyrir Adam Gottlob Moltke, sem mér sýnist hafa verið greifi. Á kortinu sést hvernig eynni var nær allri skipt upp í plantekrur, að mestu undir sykurrækt.
Framhalds að vænta.