Það hefur verið eitthvert vesen á framkvæmdunum, arkitektastofan sem lenti í öðru sæti í samkeppninni kærði niðurstöðuna, mér sýnist í fljótu bragði að enn sé málið í biðstöðu – en viðbyggingin sem fyrirhugað er að reisa við Stjórnarráðshúsið, og kynnt hefur verið sem eins konar gjöf ríkisins til sjálfs sín í tilefni af 100 ára afmæli fullveldisins, 2018, hún er bönker. Neðanjarðarbyrgi.
Mér sýnist þetta hlutverk byggingarinnar ekki hafa farið hátt. Ofanjarðar verður eitthvað bjart og hvítt og gluggar, jafnvel gróður. Það mun líta út í takt við ávarp forsætisráðherra, sem birtist í formála samkeppnislýsingarinnar:
„Við hönnun byggingarinnar verður horft til hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og vistvænnar hönnunar. Í samræmi við það verður m.a. litið til orkunýtni, efnisvals og heilsuverndar við hönnun og lögð áhersla á að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif í öllu ferlinu. Ákveðnir þættir vistvænnar hönnunar verða í fyrirrúmi, t.a.m. vellíðan þeirra sem eiga að nýta byggingarnar, en þar þarf meðal annars að horfa til nýtingar dagsbirtu, góðrar útfærslu á lýsingu og loftræsingu og vel útfærðrar hljóðvistar.“
Í samkeppnislýsingunni sjálfri er öryggisatriðum aftur á móti veittur forgangur, þeim er lýst á undan umhverfisþáttunum, og öllu ítarlegar. Rýmum byggingarinnar er skipt upp eftir öryggiskröfum, frá innganginum, Ö0, yfir í fundaraðstöðu Þjóðaröryggisráðs, í kjallara, með öryggiseinkunnina Ö3:
„Svæði í mismunandi öryggisflokkum (Ö0 til Ö3) mega aðeins hafa aðgengi að svæðum í sama eða næsta öryggisflokki (Ö0 með tengingu við Ö1, Ö1 við Ö2 og Ö2 við Ö3). Inngangar í byggingar að öruggu svæði (Ö2) þurfa að vera með öryggisstúku (sér rými, a.m.k. 2 metrar að lengd) í flokki Ö1. Viðkvæm öryggissvæði Ö3 skulu ekki vera yfir eða við móttöku.“
Bönkernum sjálfum, það er fundarherbergi Þjóðaröryggisráðs, er lýst tvisvar í samkeppnislýsingunni. Fyrri lýsingin hljóðar svo:
„Fundarherbergi þjóðaröryggisráðs (Ö3) verði (gluggalaust) í kjallara, með öruggri tengingu við flóttaleið.“
Síðari lýsingin segir:
„Fundarrými Þjóðaröryggisráðs fyrir 30 manns í kjallara. Öruggt rými sem gæti þjónað sem neyðarstjórnstöð. Gera þarf ráð fyrir snyrtingum og kaffiaðstöðu. Samtals 50 m².“
Öryggiskröfur til byrgisins og umhverfis þess eru margvíslegar. Meðal annars er gert ráð fyrir að byggingin standist sprengjuárásir og efnavopnaárásir:
„Möguleikar þurfa að vera á óháðum flóttaleiðum frá viðbyggingu vegna bruna og annarra ógna (t.d. ytri sprenginga). Æskilegt er að stigahús verði steinsteypt og gluggalaust. … Gera þarf ráð fyrir að í byggingunni verði mjög öflug skelvörn. Form nýbygginga auki ekki áhrif sprenginga og því er óæskilegt að efri hæðir nái lengra fram en neðri hæðir. Kröfur verða um öryggisvarnir á öllum hliðum byggingarinnar og á þaki. Tillögurnar þurfa að miðast við að öryggisgler verði sett í allar hliðar byggingarinnar. … Útfæra þarf inntök loftræsingar þannig að sem minnst hætta sé á að menguð eða hættuleg efni í umhverfinu komist inn í bygginguna, æskilegt er að þau verði á þaki. Tengigangur þarf að uppfylla miklar öryggiskröfur. Einnig þurfa að vera öryggisskil (öryggishurðir) að báðum byggingum sem hann tengist.“
Boðað var til keppninnar í apríl 2018, og samkeppnislýsingu dreift til arkitekta. Alls kemur öryggi fyrir 59 sinnum í samkeppnislýsingunni, eitt og sér eða í orðasamsetningum. Dómnefnd lauk störfum og birti niðurstöður sínar í nóvember sama ár. Í texta dómnefndar um sigurtillöguna má finna orð á við „bjart, létt og áreynslulaust“, „skýr“, „hógværð og yfirlætisleysi“. Þar er aftur á móti ekki orð um öryggi eða fundarrými Þjóðaröryggisráðs og engin lýsing á þeim hluta byggingarinnar sem liggja mun neðanjarðar. Fullveldisbyrginu.
Myndin sem fylgir þessari færslu sýnir tillögu stofunnar Thor Architects að útfærslu nýbyggingarinnar. Tillagan bar ekki sigur úr býtum.