Banan­inn í eyra lýðveldisins

04.9.2019 ~ 3 mín

Síðast heim­sótti vara­for­seti Banda­ríkj­anna Ísland árið 1983, George Bush eldri, sem síðar varð forseti. Þann 11. júlí það ár birti Washington Post grein eftir blaða­mann að nafni Peter Osnos undir fyrir­sögn­inni „Iceland Guards Its Character Behind a Shield of U.S. Sent­inels“ sem virð­ist leikur að tvíræðni: Ísland felur og/eða varð­veitir skap­gerð sína bakvið varn­ar­lið Bandaríkjanna.

Greinin hefst á svofelldum orðum, í snöggri þýðingu:

„Hvaða listi sem gerður væri yfir lepp­ríki Banda­ríkj­anna myndi inni­halda umsetin lönd á við Ísrael og Suður-Kóreu, um hríð Suður-Víet­nam og Kambódíu eða, um þessar mundir, El Salvador. Þó er sjaldan rætt um hve land eitt, sem í reynd reiðir sig meira en nokk­urt annað á nærveru Banda­ríkja­hers, er háð Banda­ríkj­unum. Það er Ísland. Takmark­aður sýni­leiki þessa hlut­verks Banda­ríkj­anna er lykill­inn að farsælu sambandi sem skiptir sköpum fyrir báðar þjóðir.“

Grein­ar­höf­undur rekur síðan strategískt mikil­væga legu lands­ins á Norður-Atlants­hafi, nefnir að skip Land­helg­is­gæsl­unnar séu einu hergögn eyrík­is­ins sjálfs, tíundar hve íbúar þess eru fáir, og segir svo: „Með ábyrgð Banda­ríkj­anna“ – underw­ritten by the United States, það er ábyrgð hér í skiln­ingi láns­ábyrgða – „Með ábyrgð Banda­ríkj­anna, tekst því að eiga fullan þátt í Evrópu­ráð­inu en verja á sama tíma, af rómaðri, norrænni festu, sérstök þjóð­ar­ein­kenni sín.“

Vitnað er í Styrmi Gunn­ars­son, þá ritstjóra Morg­un­blaðs­ins, um að nærvera Banda­ríkja­hers sé ekki lengur deilu­efni í íslenskum stjórn­málum. Þá er vitnað í Stein­grím Hermanns­son, forsæt­is­ráð­herra, um að þó svo að ekkert sjálf­stætt ríki vilji erlendan her í landi sínu myndu Íslend­ingar aðspurðir heldur vilja banda­rískan her á land­inu en þýskan, franskan eða jafn­vel heri Norðurlanda.

Loks rekur grein­ar­höf­undur hvernig banda­ríski herafl­inn á Íslandi leggi sig fram um að draga úr sýni­leika sínum, þar sem „nati­onal sensi­bilities“ Íslend­inga séu helsta ástæða þess að um herstöð­ina í Kefla­vík hafi ekki ríkt alger sátt. Nati­onal sensi­bilities, hvað segir maður? Þjóð­ernis … kenndir?

„Aðeins einn banda­rískur fáni er við hún á vell­inum, og ekki sýni­legur borg­ara­legri umferð. Gestir á almanna­tengslaskrif­stofu Banda­ríkj­anna fá skyggnu­sýn­ingu með frásögn á ensku, en hún er lesin af rödd með greini­legan íslenskan hreim.

Utan vallar eru engir herbún­ingar leyfðir, og ungir karl­menn í herþjón­ustu sæta útgöngu­banni „niðri í bæ“. Í bæjunum Kefla­vík og Reykja­vík eru engar sóða­búllur eða vænd­is­hús til þess gerð að höfða til banda­rísks smekks, eins og finna má kringum herstöðvar Banda­ríkj­anna víða um heim.“

Höfundur rekur stutt­lega sögu Kana­sjón­varps­ins, sem var gert að kapal­stöð á 8. áratugnum til að íslensk menn­ing yrði ekki fyrir veru­legum banda­rískum áhrifum. Loks skrifar Osnos:

„Að öllu saman­lögðu er nærvera Banda­ríkj­anna jafn fyrir­ferð­ar­lítil og Banda­ríkja­mönnum er fært. Allt annað væri stórskað­legt. Gerðu því stríðn­is­lega skóna við Íslend­ing að landið hans sé svolítið banana­lýð­veldi, svolítið eins og Panama var áður en það krafð­ist þess að fá aftur skurð­inn sinn, og viðbragð hans verður húmor­laust og beitt.“

Mér þótti þessi grein svolítið forvitni­leg nú þegar Reykja­vík verður í hers höndum í einn dag vegna fyrstu heim­sóknar næstæðsta embætt­is­manns Banda­ríkj­anna í 36 ár. Í fylgd flug­hers, sjóhers, leyni­þjón­ustu­deilda, lífvarða og alls tiltæks lögreglu­liðs gengur Mike Pence inn á sviðið frá hægri, þvörusleikir Trump-stjórn­ar­innar. Utan­rík­is­ráð­herra Íslands víkur sér svo klunna­lega undan því að svara spurn­ingum um erindi vara­for­set­ans til lands­ins að frétta­menn flissa í viðtölum. Þetta er eitt af þessu furðu­legu leik­ritum: ráðherr­ann veit að við vitum að hann er að ljúga, en að segja satt væri samt að missa eitthvað.

Þessi tiltekna grein úr Washington Post er hálf­gert slembival. Það má finna fjölda annarra heim­ilda frá sama tíma sem varpa ljósi á að einmitt svona þvætt­ingur er eldri en ríkis­stjórnin. Don’t ask, don’t tell-stefnan, aðskiln­að­ar­stefna tungu og raunar, banan­inn í eyra lýðveld­is­ins er eldri en ráðherr­ann, mögu­lega eldri en sjálfur varnarsamningurinn. 

Sjá full­veld­is­bön­k­er­inn. Og allt hitt.