Síðast heimsótti varaforseti Bandaríkjanna Ísland árið 1983, George Bush eldri, sem síðar varð forseti. Þann 11. júlí það ár birti Washington Post grein eftir blaðamann að nafni Peter Osnos undir fyrirsögninni „Iceland Guards Its Character Behind a Shield of U.S. Sentinels“ sem virðist leikur að tvíræðni: Ísland felur og/eða varðveitir skapgerð sína bakvið varnarlið Bandaríkjanna.
Greinin hefst á svofelldum orðum, í snöggri þýðingu:
„Hvaða listi sem gerður væri yfir leppríki Bandaríkjanna myndi innihalda umsetin lönd á við Ísrael og Suður-Kóreu, um hríð Suður-Víetnam og Kambódíu eða, um þessar mundir, El Salvador. Þó er sjaldan rætt um hve land eitt, sem í reynd reiðir sig meira en nokkurt annað á nærveru Bandaríkjahers, er háð Bandaríkjunum. Það er Ísland. Takmarkaður sýnileiki þessa hlutverks Bandaríkjanna er lykillinn að farsælu sambandi sem skiptir sköpum fyrir báðar þjóðir.“
Greinarhöfundur rekur síðan strategískt mikilvæga legu landsins á Norður-Atlantshafi, nefnir að skip Landhelgisgæslunnar séu einu hergögn eyríkisins sjálfs, tíundar hve íbúar þess eru fáir, og segir svo: „Með ábyrgð Bandaríkjanna“ – underwritten by the United States, það er ábyrgð hér í skilningi lánsábyrgða – „Með ábyrgð Bandaríkjanna, tekst því að eiga fullan þátt í Evrópuráðinu en verja á sama tíma, af rómaðri, norrænni festu, sérstök þjóðareinkenni sín.“
Vitnað er í Styrmi Gunnarsson, þá ritstjóra Morgunblaðsins, um að nærvera Bandaríkjahers sé ekki lengur deiluefni í íslenskum stjórnmálum. Þá er vitnað í Steingrím Hermannsson, forsætisráðherra, um að þó svo að ekkert sjálfstætt ríki vilji erlendan her í landi sínu myndu Íslendingar aðspurðir heldur vilja bandarískan her á landinu en þýskan, franskan eða jafnvel heri Norðurlanda.
Loks rekur greinarhöfundur hvernig bandaríski heraflinn á Íslandi leggi sig fram um að draga úr sýnileika sínum, þar sem „national sensibilities“ Íslendinga séu helsta ástæða þess að um herstöðina í Keflavík hafi ekki ríkt alger sátt. National sensibilities, hvað segir maður? Þjóðernis … kenndir?
„Aðeins einn bandarískur fáni er við hún á vellinum, og ekki sýnilegur borgaralegri umferð. Gestir á almannatengslaskrifstofu Bandaríkjanna fá skyggnusýningu með frásögn á ensku, en hún er lesin af rödd með greinilegan íslenskan hreim.
Utan vallar eru engir herbúningar leyfðir, og ungir karlmenn í herþjónustu sæta útgöngubanni „niðri í bæ“. Í bæjunum Keflavík og Reykjavík eru engar sóðabúllur eða vændishús til þess gerð að höfða til bandarísks smekks, eins og finna má kringum herstöðvar Bandaríkjanna víða um heim.“
Höfundur rekur stuttlega sögu Kanasjónvarpsins, sem var gert að kapalstöð á 8. áratugnum til að íslensk menning yrði ekki fyrir verulegum bandarískum áhrifum. Loks skrifar Osnos:
„Að öllu samanlögðu er nærvera Bandaríkjanna jafn fyrirferðarlítil og Bandaríkjamönnum er fært. Allt annað væri stórskaðlegt. Gerðu því stríðnislega skóna við Íslending að landið hans sé svolítið bananalýðveldi, svolítið eins og Panama var áður en það krafðist þess að fá aftur skurðinn sinn, og viðbragð hans verður húmorlaust og beitt.“
Mér þótti þessi grein svolítið forvitnileg nú þegar Reykjavík verður í hers höndum í einn dag vegna fyrstu heimsóknar næstæðsta embættismanns Bandaríkjanna í 36 ár. Í fylgd flughers, sjóhers, leyniþjónustudeilda, lífvarða og alls tiltæks lögregluliðs gengur Mike Pence inn á sviðið frá hægri, þvörusleikir Trump-stjórnarinnar. Utanríkisráðherra Íslands víkur sér svo klunnalega undan því að svara spurningum um erindi varaforsetans til landsins að fréttamenn flissa í viðtölum. Þetta er eitt af þessu furðulegu leikritum: ráðherrann veit að við vitum að hann er að ljúga, en að segja satt væri samt að missa eitthvað.
Þessi tiltekna grein úr Washington Post er hálfgert slembival. Það má finna fjölda annarra heimilda frá sama tíma sem varpa ljósi á að einmitt svona þvættingur er eldri en ríkisstjórnin. Don’t ask, don’t tell-stefnan, aðskilnaðarstefna tungu og raunar, bananinn í eyra lýðveldisins er eldri en ráðherrann, mögulega eldri en sjálfur varnarsamningurinn.
Sjá fullveldisbönkerinn. Og allt hitt.