Í grennd við kjarnavopn reynast staðreyndir heldur teygjanlegar. Í DV stóð á þriðjudag: „Meðan að Bandaríkjaher hafði hér aðstöðu á tímum kalda stríðsins til ársins 2006, var í gildi varnarsamningur milli þjóðanna tveggja“. Varnarsamningurinn er enn í gildi og sagður hornsteinn þjóðaröryggisstefnu landsins sem Alþingi samþykkti árið 2016. Þá sagði í sömu frétt: „Hann kvað á um að engin kjarnavopn yrðu geymd hér á landi“. Það er ekki rétt. Varnarsamninginn má finna á netinu, hann má lesa, þar er ekki orð um kjarnavopn.
Nú á miðvikudag hefur RÚV það eftir Kolbeini Óttarssyni Proppé í „þjóðaröryggisstefnu Íslands sé sérstaklega kveðið á um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum“ og „ef friðlýsing Íslands fyrir kjarnavopnum eigi að vera einn af hornsteinum þjóðaröryggisstefnu landsins, að þá verði að framfylgja henni“. Hin svonefnda friðlýsing í 10. ákvæði stefnunnar er orðuð svo: „Að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga.“ Að teknu tilliti til. NATO-aðild Íslands og varnarsamningurinn við Bandaríkin teljast til alþjóðlegra skuldbindinga. Við tökum tillit til þeirra. Að öðru leyti er Ísland vissulega friðlýst fyrir kjarnavopnum. Sennilega nær friðlýsingin til kínverskra kjarnavopna og norður-kóreskra. Og rússneskra, auðvitað. Rússneskir kjarnaoddar eru bannaðir á Íslandi. Bandarískir ekki. Friðlýsingin inniheldur undanþágu fyrir bandamenn Íslendinga. Hún er blöff.