Amin Ghayszadeh heitir ungur Írani sem leitað hefur alþjóðlegrar verndar á Íslandi. Honum var synjað um vernd og fyrir liggur að brottvísa honum til Grikklands. Hann segist heldur vilja deyja en lenda aftur á götunum þar og hóf fyrir tveimur vikum hungurverkfall.
Nú á föstudagsmorgun, 15. degi hungurverkfallsins, létu samtökin No Borders frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að íslenskir læknar neiti að sinna manninum. Leitað hafi verið læknis til að meta líkamlegt og andlegt ástand hans undanfarna tvo sólarhringa. „Okkur tekst ekki að finna einn einasta lækni sem vill taka við honum. Ekki einn einasta.“
Í tilkynningunni kemur fram að Göngudeild sóttvarna í Mjódd sé sú deild innan heilbrigðiskerfisins sem beri að sinna málum flóttafólks. Samtökin segja: „Margt flóttafólk hefur hinsvegar ekki góða sögu að segja af þjónustunni sem þau hafa fengið þar. Í örvæntingu hringdum við þó á göngudeild sóttvarna og báðum þau um að taka við honum og skrifa stutta skýrslu um ástand hans. Því var neitað með þeim orðum læknis þar á bæ að “þau tækju ekki þátt í svona svindli”.“
Ég hringdi í Göngudeild sóttvarna til að athuga hvort hér er rétt með farið eða um einhvers konar misskilning að ræða. Eftir átta mínútna bið í símkerfinu fékk ég samband við skiptiborð og kynnti mig. Þaðan var mér gefið samband við Þorstein Blöndal lækni. Eftir nokkurra mínútna bið tók hann símann. Ég greini Þorsteini frá tilkynningunni sem ég hafi lesið, og að ég hringi, sem sjálfstætt starfandi blaðamaður, til að fá þetta staðfest, hvort þetta geti verið satt. Eftir að ég ber fram spurninguna þegir Þorsteinn þar til ég segi halló, til að gá hvort sambandið hafi ef til vill slitnað.
„Já,“ segir hann loks. „Þú ert blaðamaður.“ Ég segi já. „Og við ræðum ekki það sem við gerum hérna. Við erum hluti af heilbrigðisþjónustunni og vinnum samkvæmt samningi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við Útlendingaeftirlitið.“ Hann á þá við stofnunina sem nú heitir Útlendingastofnun. „Þýðir það að þið neitið …“ byrjaði ég, en Þorsteinn greip orðið. „Það hvernig farið er að er í ákveðnum skorðum. Og við tjáum okkur ekki um atriði einstakra hælisleitenda sem búið hafa, búið er að veita réttláta meðferð, hjá Útlendingastofnun.“
Þannig að þið takið pólitíska afstöðu til meðferðar málsins, spurði ég lækninn, með skírskotun til þess sem hann hafði þá látið út úr sér, að málsmeðferð Útlendingastofnunar ráði því hvort stofnunin sinnir sjúklingi. „Nei, einmitt ekki,“ svaraði hann. „Við gerum læknisfræðilega hlutann og það hefur verið gert í tilviki hans“. Að því sögðu reyndist Þorsteinn þrátt fyrir allt tilbúinn að deila upplýsingum um þá heilbrigðisþjónustu sem sjúklingurinn hefði áður þegið og til hvaða deilda hann hefði leitað. Loks: „Hann hefur fengið alla þá þjónustu sem hann þurfti þann tíma sem hann hefur verið. Nú hefur hann tekið ákvörðun um það sjálfur að nærast ekki og drekka drykki og það er hans val. Ef hann er í lífshættu má fara með hann niður á bráðamóttöku Landspítalans. En meira hef ég ekki um þetta að segja.“
Ég nefndi þá að fyrir framan mig hefði ég reglugerð um útgáfu læknisvottorða, en fyrsta grein hennar segi að læknum beri skylda til að votta samskipti sín og sjúklings, óski sjúklingur eftir því. „Þar kemur ekkert fram …“ – byrja ég en viðmælandi minn grípur fram í og endurtekur að viðtalinu sé lokið. „Þar er enginn fyrirvari um uppruna eða ástæður veikinda,“ kem ég þó að. „Ég óska þér alls góðs,“ sagði þá læknirinn og skellti á.