Manni í hung­ur­verk­falli neitað um læknisskoðun

06.9.2019 ~ 3 mín

Amin Ghaysza­deh heitir ungur Írani sem leitað hefur alþjóð­legrar verndar á Íslandi. Honum var synjað um vernd og fyrir liggur að brott­vísa honum til Grikk­lands. Hann segist heldur vilja deyja en lenda aftur á götunum þar og hóf fyrir tveimur vikum hungurverkfall.

Nú á föstu­dags­morgun, 15. degi hung­ur­verk­falls­ins, létu samtökin No Borders frá sér tilkynn­ingu þar sem fram kemur að íslenskir læknar neiti að sinna mann­inum. Leitað hafi verið læknis til að meta líkam­legt og andlegt ástand hans undan­farna tvo sólar­hringa. „Okkur tekst ekki að finna einn einasta lækni sem vill taka við honum. Ekki einn einasta.“

Í tilkynn­ing­unni kemur fram að Göngu­deild sótt­varna í Mjódd sé sú deild innan heil­brigðis­kerf­is­ins sem beri að sinna málum flótta­fólks. Samtökin segja: „Margt flótta­fólk hefur hins­vegar ekki góða sögu að segja af þjón­ust­unni sem þau hafa fengið þar. Í örvænt­ingu hringdum við þó á göngu­deild sótt­varna og báðum þau um að taka við honum og skrifa stutta skýrslu um ástand hans. Því var neitað með þeim orðum læknis þar á bæ að “þau tækju ekki þátt í svona svindli”.“

Ég hringdi í Göngu­deild sótt­varna til að athuga hvort hér er rétt með farið eða um einhvers konar misskiln­ing að ræða. Eftir átta mínútna bið í símkerf­inu fékk ég samband við skipti­borð og kynnti mig. Þaðan var mér gefið samband við Þorstein Blön­dal lækni. Eftir nokk­urra mínútna bið tók hann símann. Ég greini Þorsteini frá tilkynn­ing­unni sem ég hafi lesið, og að ég hringi, sem sjálf­stætt starf­andi blaða­maður, til að fá þetta stað­fest, hvort þetta geti verið satt. Eftir að ég ber fram spurn­ing­una þegir Þorsteinn þar til ég segi halló, til að gá hvort sambandið hafi ef til vill slitnað.

„Já,“ segir hann loks. „Þú ert blaða­maður.“ Ég segi já. „Og við ræðum ekki það sem við gerum hérna. Við erum hluti af heil­brigð­is­þjón­ust­unni og vinnum samkvæmt samn­ingi Heilsu­gæslu höfuð­borg­ar­svæð­is­ins við Útlend­inga­eft­ir­litið.“ Hann á þá við stofn­un­ina sem nú heitir Útlend­inga­stofnun. „Þýðir það að þið neitið …“ byrj­aði ég, en Þorsteinn greip orðið. „Það hvernig farið er að er í ákveðnum skorðum. Og við tjáum okkur ekki um atriði einstakra hælis­leit­enda sem búið hafa, búið er að veita rétt­láta meðferð, hjá Útlendingastofnun.“

Þannig að þið takið póli­tíska afstöðu til meðferðar máls­ins, spurði ég lækn­inn, með skír­skotun til þess sem hann hafði þá látið út úr sér, að máls­með­ferð Útlend­inga­stofn­unar ráði því hvort stofn­unin sinnir sjúk­lingi. „Nei, einmitt ekki,“ svar­aði hann. „Við gerum lækn­is­fræði­lega hlut­ann og það hefur verið gert í tilviki hans“. Að því sögðu reynd­ist Þorsteinn þrátt fyrir allt tilbú­inn að deila upplýs­ingum um þá heil­brigð­is­þjón­ustu sem sjúk­ling­ur­inn hefði áður þegið og til hvaða deilda hann hefði leitað. Loks: „Hann hefur fengið alla þá þjón­ustu sem hann þurfti þann tíma sem hann hefur verið. Nú hefur hann tekið ákvörðun um það sjálfur að nærast ekki og drekka drykki og það er hans val. Ef hann er í lífs­hættu má fara með hann niður á bráða­mót­töku Land­spít­al­ans. En meira hef ég ekki um þetta að segja.“

Ég nefndi þá að fyrir framan mig hefði ég reglu­gerð um útgáfu lækn­is­vott­orða, en fyrsta grein hennar segi að læknum beri skylda til að votta samskipti sín og sjúk­lings, óski sjúk­lingur eftir því. „Þar kemur ekkert fram …“ – byrja ég en viðmæl­andi minn grípur fram í og endur­tekur að viðtal­inu sé lokið. „Þar er enginn fyrir­vari um uppruna eða ástæður veik­inda,“ kem ég þó að. „Ég óska þér alls góðs,“ sagði þá lækn­ir­inn og skellti á.