Ungur maður sem þegar var heilsuveill var sendur nauðugur frá Íslandi til vistar á götum Aþenu á 18. degi hungurverkfalls. Það gerðist nú á mánudag. Útlendingastofnun neitaði að taka umsókn hans um vernd til skoðunar, Kærunefnd útlendingamála neitaði að fresta brottvísun á meðan tekið væri til skoðunar hvort taka skyldi mál hans til skoðunar – svo að segja. Þetta er allt sjálfvirkt í dag, stimplarnir ganga í þessa átt. Þegar maðurinn, Amin, hóf hungurverkfall, synjaði heilsugæslan honum um læknisskoðun.
Einn læknir hjá Göngudeild sóttvarna útskýrði fyrir mér hvers vegna manninum væri neitað um læknisskoðun, með svofelldum orðum: „Við erum hluti af heilbrigðisþjónustunni og vinnum samkvæmt samningi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við Útlendingaeftirlitið. Það hvernig farið er að er í ákveðnum skorðum“. Sá læknir sem annaðist Amin fram að hungurverkfallinu var víst fámálli og svaraði fyrirspurn um skjólstæðinginn með orðunum: „Rest in peace“. Þá birtist heiti deildarinnar í nýju ljósi: „Göngudeild sóttvarna“ er nasistabrandari um aðkomufólk, sóttvarnir, skiljiði?
Á meðan á hungurverkfallinu stóð var Amin meinað að taka á móti gestum. Það átti við um séra Toshiki Toma, öryggisverðir á vegum Útlendingastofnunar héldu prestinum utan dyra jafn tryggilega og öðrum. Þar til á sunnudagskvöld, að Útlendingastofnun sendi Stoðdeild Ríkislögreglustjóra á vettvang og Stoðdeildin gerði sitt thing. Faglega og fumlaust, áreiðanlega. Án þess að gera lögmanni mannsins viðvart, hvað þá öðrum, var Amin handtekinn í skjóli nætur og færður um borð í flug til Aþenu nú á mánudagsmorgun.
Stuðningsfólk og vinir Amins á Íslandi hafa ekki heyrt frá honum eftir brottvísun. Er hann á lífi? Útlendingastofnun leggur sig fram um að fylgja ekki eftir málum eftir brottvísun. Raunar er það ekki aðeins svo að þau hafa ekki hugmynd um afdrif skjólstæðinga sinna eftir að þeir hverfa frá landinu, heldur eyðir stofnunin eigin gögnum um viðkomandi um leið og brottvísun á sér stað. Já, það er lögbrot, eins og Ríkisendurskoðun hefur bent á. Brotavilji kerfisins er einlægur og opinskár.
Þó eru brotaviljanum viss takmörk sett, meðal annars af ramma hegningarlaga. Íslensk yfirvöld drepa fólk ekki með fullvissu, aðeins með teningakasti. Ef við drápum Amin er ekki víst að við komumst nokkurn tíma að því. Líkurnar er erfitt að meta. Í þessu tilfelli virðast þær í hærri kantinum. Kannski má slumpa á 50/50. Fyrst og fremst er það þó aukaatriði, frá sjónarhóli hins opinbera.
Sameiginlega mynda Útlendingastofnun, Stoðdeild RLS, Kærunefnd útlendingamála og aðrir sem að málunum koma – hugsanlega Göngudeild sóttvarna – apparat sem mætti nefna Deild mannshvarfa. Á meðan einhverjar lögregludeildir rannsaka mannshvörf, sjá þessar stofnanir um að framleiða þau. Neitað um lækni, neitað um prest, sparkað úr landi, gögnunum eytt, næsti! Hvort skjólstæðingurinn lifir eða deyr er ekki relevant spurning fyrir bókhald þessarar einingar, breytir engu um bottomlæn skilvirkrar stjórnsýslu. Upp á bottomlænið nægir að vita – að tryggja og vita – að hann er horfinn.