Deild manns­hvarfa

10.9.2019 ~ 2 mín

Ungur maður sem þegar var heilsu­veill var sendur nauð­ugur frá Íslandi til vistar á götum Aþenu á 18. degi hung­ur­verk­falls. Það gerð­ist nú á mánu­dag. Útlend­inga­stofnun neit­aði að taka umsókn hans um vernd til skoð­unar, Kæru­nefnd útlend­inga­mála neit­aði að fresta brott­vísun á meðan tekið væri til skoð­unar hvort taka skyldi mál hans til skoð­unar – svo að segja. Þetta er allt sjálf­virkt í dag, stimpl­arnir ganga í þessa átt. Þegar maður­inn, Amin, hóf hung­ur­verk­fall, synj­aði heilsu­gæslan honum um læknisskoðun.

Einn læknir hjá Göngu­deild sótt­varna útskýrði fyrir mér hvers vegna mann­inum væri neitað um lækn­is­skoðun, með svofelldum orðum: „Við erum hluti af heil­brigð­is­þjón­ust­unni og vinnum samkvæmt samn­ingi við Heilsu­gæslu höfuð­borg­ar­svæð­is­ins við Útlend­inga­eft­ir­litið. Það hvernig farið er að er í ákveðnum skorðum“. Sá læknir sem annað­ist Amin fram að hung­ur­verk­fall­inu var víst fámálli og svar­aði fyrir­spurn um skjól­stæð­ing­inn með orðunum: „Rest in peace“. Þá birt­ist heiti deild­ar­innar í nýju ljósi: „Göngu­deild sótt­varna“ er nasista­brand­ari um aðkomu­fólk, sótt­varnir, skiljiði?

Á meðan á hung­ur­verk­fall­inu stóð var Amin meinað að taka á móti gestum. Það átti við um séra Toshiki Toma, örygg­is­verðir á vegum Útlend­inga­stofn­unar héldu prest­inum utan dyra jafn tryggi­lega og öðrum. Þar til á sunnu­dags­kvöld, að Útlend­inga­stofnun sendi Stoð­deild Ríkis­lög­reglu­stjóra á vett­vang og Stoð­deildin gerði sitt thing. Faglega og fumlaust, áreið­an­lega. Án þess að gera lögmanni manns­ins viðvart, hvað þá öðrum, var Amin hand­tek­inn í skjóli nætur og færður um borð í flug til Aþenu nú á mánudagsmorgun.

Stuðn­ings­fólk og vinir Amins á Íslandi hafa ekki heyrt frá honum eftir brott­vísun. Er hann á lífi? Útlend­inga­stofnun leggur sig fram um að fylgja ekki eftir málum eftir brott­vísun. Raunar er það ekki aðeins svo að þau hafa ekki hugmynd um afdrif skjól­stæð­inga sinna eftir að þeir hverfa frá land­inu, heldur eyðir stofn­unin eigin gögnum um viðkom­andi um leið og brott­vísun á sér stað. Já, það er lögbrot, eins og Ríkis­end­ur­skoðun hefur bent á. Brota­vilji kerf­is­ins er einlægur og opinskár.

Þó eru brota­vilj­anum viss takmörk sett, meðal annars af ramma hegn­ing­ar­laga. Íslensk yfir­völd drepa fólk ekki með full­vissu, aðeins með teningakasti. Ef við drápum Amin er ekki víst að við komumst nokk­urn tíma að því. Líkurnar er erfitt að meta. Í þessu tilfelli virð­ast þær í hærri kant­inum. Kannski má slumpa á 50/50. Fyrst og fremst er það þó auka­at­riði, frá sjón­ar­hóli hins opinbera.

Sameig­in­lega mynda Útlend­inga­stofnun, Stoð­deild RLS, Kæru­nefnd útlend­inga­mála og aðrir sem að málunum koma – hugs­an­lega Göngu­deild sótt­varna – apparat sem mætti nefna Deild manns­hvarfa. Á meðan einhverjar lögreglu­deildir rann­saka manns­hvörf, sjá þessar stofn­anir um að fram­leiða þau. Neitað um lækni, neitað um prest, sparkað úr landi, gögn­unum eytt, næsti! Hvort skjól­stæð­ing­ur­inn lifir eða deyr er ekki relevant spurn­ing fyrir bókhald þess­arar einingar, breytir engu um bottom­læn skil­virkrar stjórn­sýslu. Upp á bottom­lænið nægir að vita – að tryggja og vita – að hann er horfinn.