Íslenskum stjórnvöldum virðist þykja það nokkuð brýnt að halda áfram að brjóta á fólkinu sem haft var fyrir rangri sök, svipt æru, frelsi og pyntuð í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Þetta voru framúrskarandi pyntingar, pyntingar á heimsmælikvarða. Meinbugirnir á málsmeðferðinni voru það líka – hvað er aftur íslenska orðið yfir meinbugi? Klösterfökk – allt gæti þetta átt langan aldur fyrir höndum sem skólabókardæmi um klösterfökk við rannsókn sakamáls og réttarfar.
Og kannski, bara kannski, er auðveldara fyrir okkur að skilja það allt, hvers vegna stjórnvöld halda þessum djöfulgangi til streitu út yfir gröf og dauða, í því ljósi að á Íslandi voru fangelsisrefsingar frá upphafi til þess ætlaðar að taka úr umferð fólk sem yfirvöld og sómakærir þegnar litu á sem ónytjunga. Og að ef ekki hefði verið fyrir erlend afskipti hefðu Íslendingarnir heldur kosið að spara við sig kostnaðinn af því að læsa fólk inni og hengt það án málalenginga. Og kannski, bara kannski, er þá eitthvað sérdeilis viðeigandi að það sé einmitt í húsinu sem var reist undir þessar frelsissviptingar sem stjórnvöld landsins kjósa að hafa aðsetur – kannski felst í því eitthvað einlægt, opinskátt og uppljóstrandi um hvað þetta vald þeirra er, á hverju það grundvallast. En bara kannski, ég veit það ekki, mér hættir til oftúlkana og sit hér svolítið syfjaður í þokkabót.
Nær allar heimildir um sögu Stjórnarráðshússins vísa til sömu grunnrannsóknar, sem er doktorsritgerð Björns Þórðarsonar, Refsivist á Íslandi 1761–1925. Ritgerðin er raunar fyrsta doktorsrannsókn við lagadeild Háskóla Íslands, þaðan sem Björn var fyrsti brautskráði doktorinn. Hann varð síðar fyrsti forsætisráðherra lýðveldisins, skipaður árið 1942 og sat í embætti fram að fyrstu kosningum. Um höfundinn veit ég annars umtalsvert minna en tilefni virðist til. Heimildin sýnist mér í öllu falli jafn áreiðanleg og kostur er. Það sem hér fer á eftir er allt úr henni fengið, og öll blaðsíðutöl innan sviga vísa til hennar, í útgáfu Prentsmiðjunnar Gutenberg frá árinu 1926. Þetta er samantekt, tiltölulega þurr, á fyrsta kafla ritgerðarinnar af níu, með beinum tilvitnunum eftir því sem við á.
Fyrstu þreifingar um hegningarhús
Refsingar sem getið var í íslenskum lögum fram til 18. aldar voru dauðarefsing, missir æru, eigna og embættis, sektir, útlegðir úr landi, fjórðungi eða héraði og líkamsrefsingar að meðtalinni brennimerkingu og gapastokksrefsing. Þá eru ótaldar refsingar kirkjunnar. En fangelsisdómar fyrirfundust ekki. Fangelsis var því ekki þörf eftir að dómur féll, heldur var mönnum aðeins haldið föngnum á meðan mál voru til rannsóknar. Til þess nægðu iðulega vistarverur í húsum embættismanna. Á Bessastöðum var varðhaldshús sem nefndist Bramshús. Það var að sama skapi notað til gæsuvarðhalds, en ekki refsinga að föllnum dómi, eða í það minnsta ekki skipulega: heimildir eru um að menn hafi verið látnir dúsa þar eftir geðþótta Bessastaðavaldsins, en eftir rannsókn voru menn að jafnaði ýmist teknir af lífi eða þeim sleppt lausum, þá að undangenginni líkamlegri hegningu ef svo bar við.
Fyrsta þekkta heimild þar sem birtast vangaveltur um að reisa hegningarhús á Íslandi er í bréfi Henriks Ocksen stiftamtmanns til amtmannsins Joachim Henriksen Lafrenz, frá árinu 1733. Katrín Ingjaldsdóttir nokkur hafði þá verið dæmd til dauða á Íslandi en náðuð af konungi, sem mildaði dóm hennar í ævilanga hegningarhúsvinnu. Slík náðun var ekki óalgeng. Þar sem engin aðstaða var á landinu til að halda mönnum föngnum um aldur og ævi voru fangar sendir til refsivistar í Danmörku. Karlar tóku út refsinguna á Brimarhólmi en kvenfangar í Spunahúsinu í Kaupmannahöfn. Þetta voru þá einu tvö eiginlegu hegningarhúsin í Danmörku.
Ocksen stiftamtmaður leggur það til í bréfi til amtmannsins Lafrenz, í tilefni af máli Katrínar, að reist verði hegningarhús á Íslandi til að ekki þurfi að flytja glæpamenn úr landi eftir náðun. Ocksen lagði fyrir Lafrenz að bera málið fram á Alþingi. Það náði ekki lengra í það sinn, eftir að grennslast fyrir á þingi skrifaði amtmaður stiftamtmanni að á Íslandi séu ekki nógu margir sakamenn dæmdir til hegningarvinnu til að vinnuframlag þeirra gæti svarað kostnaði við rekstur hegningarhúss. Amtmaðurinn nefndi þó að ef danskir fangar yrðu sendir til refsivistar á Íslandi gæti rekstur hegningarhúss frekar staðið undir sér. Ocksen stiftamtmaður skrifar amtmanni til baka og segist þá vilja rannsaka hvort ef til vill mætti fylla hegningarhúsið með flökkurum, betlurum, og þeim sem ættu ógreiddar sektir, meðal annars fyrir legorðsbrot. Hann fól amtmanninum að flytja málið aftur fyrir Alþingi. Amtmaður gerir það en skrifar til baka að lögmenn og sýslumenn hafi enn reynst áhugalausir um það.
Í þriðja sinn bað Ocksen amtmanninn þá um að leita eftir tillögum íslenskra ráðamanna um útfærslu á mögulegu hegningarhúsi, nú óháð því hvort fjárhagur landsins gæti staðið undir því einn sér, og virðist þá ýja að mögulegri aðkomu konungsríkisins, en ekkert varð úr því heldur og féll hugmyndin þar með niður að sinni.
Ekki bara kagstrýkingar og brennimerkingar
Þessar þráfelldu þreifingar stiftamtmanns stöfuðu ekki síst af því að um þær sömu mundir var fangelsisvist innleidd í refsingar á Íslandi, með konungsbréfi þann 18. febrúar 1734. Enn lá þá dauðarefsing við manndrápum, en fyrir fjórða þjófnað eða annan stórþjófnað skyldi þaðan í frá refsað „ekki að eins með kagstrýking og brennimerking, heldur og með hegningarvinnu æfilangt“ (3). Þeir fangar sem þar eftir voru dæmdir til refsivistar voru þá ferjaðir til Kaupmannahafnar, eins og þeir áður sem konungur náðaði til sömu refsingar. Kaupmenn höfðu löngum annast þessa fangaflutninga með skipum sínum og gerðu það framan af endurgjaldslaust, eins eftir þessa lagabreytingu sem áður. Sum árin var enginn fangi fluttur til Danmerkur, en þrír þegar mest lét, fram á miðja öld.
Um og upp úr 1740 tók að bera á stofnun betrunarhúsa í Danmörku og Noregi. Þar skyldu, segir í ritgerð Björns:
„settir vinnufærir umrenningar og betlarar, óhlýðin og þrjósk vinnuhjú, lauslátt kvenfólk og fleira af líku tagi, t.d. annað eða bæði hjóna, sem lágu í stöðugum illindum eða höfðu ósæmilegt háttaleg.“ (8)
Með vottun sóknarprests gátu yfirvöld á hverjum stað skikkað fólk til vistar í betrunarhúsi án aðkomu dómstóla eða annarra málalenginga, enda lutu slík mál stjórn fátækra- og uppeldismála en ekki dómsmála. Með öðrum orðum voru betrunarhúsin ekki ætluð til refsivistar heldur var þetta tvennt aðgreint: hegningarhúsin voru ætluð sakamönnum, betrunarhúsin óbreyttum fátæklingum. Ekki að munurinn hafi endilega öllu breytt fyrir vistfólk sem var jafn læst inni í hvoru gerðar húsinu sem er, og í þeim báðum til nauðungarvinnu. Í betrunarhúsunum var unnið að spuna, vefnaði, litun og öðrum iðnaði, og ætlast til að tekjur af framleiðslu vistfólks stæði undir kostnaði vegna vistarinnar.
Þegar fangelsisdómar urðu tíðari önnuðu hin eiginlegu hegningarhús ekki eftirspurn og fjölgaði þá þeim sem látnir voru sitja af sér refsinguna í betrunarhúsunum:
„Meinleysis fátæklingar, sem ekkert höfðu til saka unnið, en leitað þangað skjóls vegna eymdarskapar, eða þeim hafði verið komið þangað af flækingi, voru þarna innan um óknyttafólk af ýmsu tagi, jafnvel óbótamenn, sem látnir voru þar um stundarsakir vegna rúmleysis á hinum eiginlega ákvörðunarstað þeirra. Og loks voru ætíð í betrunarhúsunum fleiri og færri börn, sem komið hafði verið þangað af verðgangi eða til þess að nema kristindóminn.“ (10)
Segir Björn lítinn vafa á að íslenskir forystumenn hafi álitið betrunarhúsin þjóðþrifastofnanir sem „vel mættu gera gagn hjér á landi“. Þá tilgreinir hann að iðnrekstur betrunarhúsanna hafi verið fyrirmyndir Innrjettinganna, iðnfyrirtækja Skúla Magnússonar. Meðal heimilda um það tilgreinir hann bréf frá Ólafi Stefánssyni stiftamtmanni til danskra yfirboðara sinna í ágúst 1805, þar sem stendur að hugmyndin um stofnun Innrjettinganna hafi átt rætur að rekja þangað, og nefnir sérstaklega ullarverksmiðju fyrirtækisins í því samhengi, hún hafi verið stofnaða með vinnuafl fólks í betrunarvist í huga. (11)
Í leit að lausn á flakkaraplágunni
En enn er öldin átjánda, og árið 1753, tveimur áratugum eftir að stiftamtmaður nefndi fyrst stofnun hegningarhúss á Íslandi en mætti fálæti, leitar Skúli Magnússon, landfógeti, eftir styrk frá konungi til að reisa betrunarhús, „sem tekið geti við ungum og hraustum umrenningum og beiningamönnum, sem renni um landið í hópum“, þar sem megi kenna þeim kristindóm og venja þá við vinnu. Vinnan yrði unnin fyrir iðnfyrirtæki þau sem hann hugðist setja á laggirnar, og fælist ekki síst í ullarvinnu (11–12). Rentukammerið, ígildi fjármálaráðuneytis í konungsveldinu, tekur hugmyndinni vel og biður um nánari greinargerð. Skúli tekur slíka greinargerð saman, ásamt þremur öðrum forsprökkum Innrjettinganna, og sendir konungi í ágúst 1754.
Hið fyrsta sem frumkvöðlarnir nefna í þeirri greinargerð er „hvílík plága stafi af umrenningum og betlurum og hver nauðsyn sje á betrunarhúsi til að stemma stig fyrir slíkum ófögnuði“ 13). Í skjalinu bera þeir fram hugmynd að betrunarhúsi fyrir 30 vistmenn í senn, karla og konur. Greinargerðinni til Rentukammersins fylgdi ekki ítarleg fjárhagsáætlun, heldur lagði Skúli og teymi hans áherslu á þann mannauð sem fælist í annars verklausum umrenningum landsins. Ef ekki yrði af áformum um betrunarhús í Reykjavík skyldi konungur eftir sem áður færa sér þetta fólk í nyt:
„Alla þessa umrenninga ættu sýslumenn að fanga og setja yfir þeim gestarjett og dæma þá umsvifalaust til betrunarhúsvistar í Kaupmannahöfn, eða senda karlmennina þangað í herþjónustu, hvern eftir því, hversu lengi hann hefði verið flakkari. Kvenþersónur, sem þektar væru að hvinsku, óhróðri, lygi og öðrum þess háttar pörum, sem og þær, er ekki væru í vist, ætti að dæma í Spunahúsið. Og enn fremur ætti að senda til vinnu í Kaupmannahöfn þá kvenmenn, er sökum leti og þrjósku vildu ekki ráðast í vist, því að þar mundu þær á skömmum tíma geta orðið vandar við vinnu.“ (14–15)
Á þessari áherslu í greinargerð fjórmenninganna, segir Björn, sést að hugmynd þeirra var „að hreinsa landið, eftir því sem kostur væri, fyrir flökkurum og lausingjalýð og nota starfskrafta þessa fólks til nytja landinu“ enda hafi „flakkaraplágan“ verið ærið megn um þær mundir – „en versnaði þó um allan helming síðar“. Ekki var, skrifar hann, „að ræða um þá menn, sem gerst höfðu sekir um glæpi, heldur að eins um þá, er með hátterni sínu voru hinum vinnandi lýð í landinu til byrði og brutu bág við allsherjarreglu, án þess að vinna nein sjerstök óhæfuverk, er illvirki mætti kalla. Þetta var fólk sem eftir nútíðar málvenju gerði sig sekt um smávegis lögreglubrot, en ekki hegningarlagabrot,“ og hafi málinu, það er stofnun betrunarhúss á Íslandi, verið stefnt gegn „lausamensku, förumensku og flakkaralýð“ og þannig verið „liður í fátækrastjórn landsins“:
„Þeim, er að málinu stóðu, kom það ekki til hugar að reisa hegningarhús fyrir stórþjófa og eiginlega glæpamenn, sem annaðhvort voru dæmdir til þrælkunar æfilangt eða náðaðir frá dauða með æfilöngu erfiði í hegningarhúsi.“ (16)
Björn tilgreinir aftur að upphafleg hugmynd danskra stjórnvalda hafi að þessu leyti verið ólík hugmyndum hinna íslensku frumkvöðla: Danir hafi viljað reisa hegningarhús á Íslandi til að hýsa dæmda glæpamenn. Hins vegar hafi íslenskum embættismönnum þótt sú tilhugsun kostnaðarsöm, enda ekki viðgengist „hjer á landi að fóðra stórglæpamenn æfilangt, heldur hitt að stytta þeim aldur svo fljótt sem kostur var á.“ Íslenskir sýslumenn hafi litið svo á að stórglæpamenn sem „konungur náðaði frá dauða með æfilangri þrælkun“ skyldu þá líka tóra á kostnað konungs. Í fyrstu var ekki greitt úr þessum ólíku áformum yfirvaldanna, heldur málinu stungið undir stól, þar til forsendur breyttust.
Fangaflutningarnir eru aldrei ókeypis
Árið 1752, þ.e. ári áður en Skúli og teymi hans báru upp erindi sitt við stjórnvöld í Kaupmannahöfn, var leidd í lög á Íslandi konungstilskipun frá árinu 1751, sem átti eftir að leiða til fjölgunar fanga á landinu: þeir sem dæmdir voru til kagstroku og brennimerkingar skyldu um leið dæmdir til ævilangrar erfiðisvinnu í járnum, „karlmenn í næsta kastala, en kvenmenn í spuna- og hegningarhúsum“ (17). Þessi ævilanga nauðungarvinna myndi þar með vera refsing þeirra, til dæmis, sem á Íslandi voru dæmd í fyrsta sinn fyrir stórþjófnað eða annað sinn fyrir smærri þjófnað. Um sömu mundir hófst hallæri á landinu:
„Harðindi, grasleysi, skepnufellir og fiskileysi, er hafði í för með sjer hungur, vesöld og mannfelli. Bændur flosnuðu upp og flökkuðu með hyski sínu og þá ekki síður tómthúsfólk við sjávarsíðuna. Flakkara- og þjófnaðaröldin komst í algleyming. Þessi farandlýður stal öllu steini ljettara og reif alt í sig, sem tönn á festi, til að svala hungri sínu og firra sig dauða, en fólk fjell, svo að hundruðum skifti, úr hor og harðrjetti árlega. Þjófar voru hýddir, og fjölmargir dæmdir til æfilangrar þrælkunar.“ (18)
Nokkrum árum síðar metur Magnús Gíslason amtmaður það svo að á Íslandi flakki að minnsta kosti 300 menn heimilislausir, á besta skeiði. (27) Danskt kaupmannafélag, Hörmangarafélagið, annaðist eitt öll vöruskipti Íslands á þessum tíma, undir stjórn kaupmannsins Niels Ryberg. Nú þegar dæmdum þjófum fjölgaði heimtuðu kaupmennirnir greiðslu fyrir fangaflutningana, og neituðu yfirvöldum annars um þjónustuna. Íslenskir sýslumenn neituðu að borga og hótuðu kaupmönnum að stöðva siglingar kaupskipanna ef þeir ekki hlýddu og ferjuðu fangana frítt. Kaupmenn gerðu að endingu þá eins og fyrir þá var lagt, en kvörtuðu til stjórnvalda í Kaupmannahöfn og kröfðust endurgreiðslu á kostnaði við fæði fanganna á leiðinni. Yfir árabilið 1753 til 1755 kröfðust þeir greiðslu vegna sjö fluttra fanga.
Dönsk stjórnvöld bera þessa kröfu kaupmanna undir stiftamtmann og amtmann á Íslandi, hvort sýslumenn eigi ekki að bera þennan kostnað, eins og annan kostnað við „sakamenn, ákæru, rannsókn, viðurværi þeirra og varðhald, dómsálagning og fullnustu dóms og annað sem að því laut“. (19) Björn gerir því skóna, í ritgerð sinni, að sýslumennirnir hafi kannast við þetta, vitað að lögum samkvæmt bæri þeim að greiða fyrir fangaflutningana, en þótt sér „íþyngt um of með því“ og umstangið allt orðið þeim byrði, enda ekki verið reiknað með þessum kostnaði í samkomulagi embættanna um sakareyri. Á þau rök féllust Danir og greiddu að lokum kostnað kaupmanna úr konungssjóði, en báðu amtmenn að finna út úr því hvernig konungur gæti „losast við að greiða framvegis þenna kostnað“. (19)
Sýslumenn biðja konung um leyfi til að hengja menn í sparnaðarskyni
Kostnaður sýslumanna vegna fangelsisdóma fólst ekki aðeins í flutningsgjöldum til Danmerkur, heldur og í að halda í föngunum lífi, og gæta þeirra, þar til að flutningi kom, stundum um margra mánaða skeið eftir að dómur féll. Þegar sýslumenn fréttu að stjórnvöld í Kaupmannahöfn hefðu málið til skoðunar rituðu þeir sameiginlega undir þegnlega beiðni sem þeir báðu amtmann að koma til konungs um mitt sumar 1757. Þar gerðu þeir það að tillögu sinni að:
„hengdur verði mikill hluti þeirra er gera sig seka um þjófnað, og á þann hátt komist hjá því að borga fyrir flutning sakamanna úr landi, og sýslumenn þá jafnframt lausir við að fæða þá og geyma, eftir að dómur var fallinn“. (20)
Í riti sínu dregur Björn Þórðarson saman í sex aðalatriði þau afbrot sem sýslumennirnir vildu að leiða myndu til hengingar. „Þeir þjófar skyldu hengdir:
1) er dæmdir væru í fyrsta sinn fyrir stjórþjófnað, er næmi 20 rdl.,
2) er í annað sinn væru dæmdir fyrir venjulegan stórþjófnað, er næmi yfir 10 rdl. verðs,
3) er í fjórða sinn væru dæmdir fyrir einfaldan þjófnað, hversu lítilfjörlegur sem hann væri, sem og allir þeir, er áður höfðu verið kagstrýktir og brennimerktir og síðan væru staðnir að þjófnaði,
4) allir er brytust inn í geymsluhús og sölubúðir kaupmanna, þegar þær (að vetrinum) væru læstar og lokaðar,
5) er á fjöllum stælu kvikfjenaði, hvort heldur nautgripum, hestum eða sauðfje,
6) og loks lögðu þeir til, að hjer á landi væri úr gildi numin tilsk. 19. nóv 1751, að þeir, er dæmdir væru til brennimerkingar, skyldu einnig dæmdir til hegningarvinnu, eða með öðrum orðum, að þeir skyldu látnir lausir, er þeir hefðu verið kagstrýktir og brennimerktir.“ (20–21)
Um þessa tillögu sýslumannanna ritar Björn Þórðarson:
„Þegar nú þess er gætt, hvílík óskapar bágindi ríktu hjer á landi um þessar mundir og allur þjófnaður var mestmegnis afleiðing af þeim, fólkið stal til að seðja hungur sitt og forða sjer frá hungurdauða, enda nær alt, sem stolið var, matarkyns, þá má fara nærri um það, hverjar afleiðingar hefðu orðið af tillögum sýslumanna, ef þær hefðu náð lagagildi; allur hinn hungraði sægur hefði á skömmum tíma verið hengdur og að líkindum nokkrir að auki.“ (21)
Björn ítrekar að því sögðu eiginhagsmuni sýslumanna í málinu, sem hafi viljað:
„reisa skorður við því, að þeir yrðu etnir út á húsgang af þessum stelandi lýð. Því skemmri sem varðhaldsvist hvers sakamanns var, því minni varð kostnaður sýslumanns. Takmark sýslumanna var það að hespa rannsókn þjófnaðarmáls af í snatri, kveða upp dóm og fullnægja honum þegar í stað.“ (21)
Kóngur segir nei, það verður tugthús
Magnús Gíslason, amtmaður, áframsendir þessa tillögu sýslumanna um fjölgun henginga í sparnaðarskyni til dönsku stjórnarinnar, með bréfi, haustið 1757. Magnús útskýrir málstað sýslumanna og hvers vegna honum þyki tillaga þeirra skiljanleg en mælir þó ekki með því að eftir henni verði farið enda gangi hún of langt. Sjálfur segist hann vilja láta það nægja að hengja menn sem gerist sekir um þjófnað húsdýra. Til að ráða úr því ástandi sem stafi af flökkulýð landsins mælir hann með að reist verði „tugthús“ þar sem stinga megi flækingum inn. Vorið 1758 tekur stiftamtmaður, nú danski greifinn Otto von Rantzau, undir þessi tillögu amtmanns við dönsku stjórnina, og mælir um leið með því að tilskipunin sem valdið hafði fjölgun fangelsisdóma verði numin úr gildi á Íslandi, brennimerking og kagstrýking látin nægja til refsingar fyrir verulegan þjófnað, án fangelsisvistar í kjölfarið. (24)
Henrik Stampe hét aðalráðgjafi kansellísins um þær mundir, æðsti embættismaður Danaveldis. Stampe var áður prófessor í heimspeki, síðar lögfræði, og telst einn áhrifamesti boðberi upplýsingarinnar í Danmörku. Hann móttók erindið frá Íslandi og hafnaði tillögum allra, bæði tillögu sýslumanna um hengingar nær allra þjófa, tillögu amtmanns um hengingu dýraþjófa eingöngu og tillögu stiftamtmanns um fækkun fangelsisdóma með afnámi tilskipunarinnar frá 1751. Björn Þórðarson segir Stampe rita um málið „af miklum skilningi … og af mannúð“, gera ljóst:
„hversu varhugavert það sje að herða þjófnaðarrefsinguna, eins og þá var ástatt hjer á landi, þar sem menn sjeu knúðir til að leita sjer bjargar með öllum ráðum, jafnt leyfilegum sem óleyfilegum, til þess að komast hjá því að verða hungurmorða.“ (24)
Björn segir Stampe einnig sýna fram á:
„hversu afar óheppilegt það sje, að sýslumenn, sem sjeu bæði yfirvöld og dómarar í hjeraði sínu, og eigi að gæta laga og rjettar, sem og þess, að hver einstaklingur nái rjetti sínum og sje ekki misboðið af valdi hins opinbera, hafi hag af því, að hverju sakamáli sje ráðið sem skjótast til lykta og með svo litlum kostnaði, sem framast er unt.“ (25)
Að því sögðu lagði aðalráðgjafinn áherslu á það, í álitsgerð sinni, að breyta fyrirkomulagi við greiðslur til sýslumanna, leigu sakareyris, sem svo var nefnd, til að sýslumenn hefðu framvegis hvorki hag af því að sakamenn væru dæmdir til hárra sekta, né bæru tjón af gæslu fanga eða rekstri sakamála. Þá lagði hann til að við næsta uppboð verslunarleyfis á Íslandi yrði kaupmönnum gert skylt að flytja fanga frá landinu án endurgjalds. Síðast en ekki síst vildi Stampe að tekin yrði til athugunar sú hugmynd amtmanns að reisa tugthús á Íslandi, og að ekki yrði tafið við það. (25)
Erindi íslensku sýslumannanna virðist hafa gert stjórninni ljóst að aðgerða væri þörf vegna hengingafýsnar yfirvalda á Íslandi: nær umsvifalaust, strax í apríl 1758, barst Alþingi konungsúrskurður um að engum dauðadómi skyldi framfylgja án staðfestingar konungs. Þetta var samhljóða þeim lögum sem þegar höfðu gilt í Noregi og Danmörku í tæpan aldarfjórðung. Rúmum tveimur mánuðum síðar, það er í júlí, féllst kansellíð á allar framangreindar tillögur Stampes í málinu og fyrirskipaði rentukammerinu að gera viðeigandi ráðstafanir.
Sýslumenn kvörtuðu yfir konungsúrskurðinum, og áfram var bitist um það á Íslandi hvernig deila skyldi niður kostnaðinum sem af því hlytist að hengja ekki menn án málalenginga. Magnús amtmaður stakk upp á að bygging og rekstur tugthúss yrði fjármögnuð með skatti á landareignir. Stiftamtmaður tók undir tillöguna, og útfærði nánar í samráði við Skúla Magnússon, landfógetann sem hugðist, eins og fyrr greinir, virkja starfskrafta handsamaðra flækinga við Innrjettingar sínar, svonefndar. Með konungsúrskurði þann 20. mars 1759 féllst kansellíið loks á tillögur stiftamtmanns og fógeta. Reist skyldi tugthús á Íslandi. (29)
Þetta var samantekt á fyrsta kafla doktorsritgerðar Björns Þórðarsonar um sögu refsivistar á Íslandi, frá árinu 1926. Kannski er nóttunum betur varið í eitthvað allt annað, ég veit það ekki. Ég hef hafið fleiri frásagnir hér upp á síðkastið en ég hef lokið við, en þetta er blogg og ekkert því til fyrirstöðu að ég lofi enn einu sinni upp í ermina á mér og segi hreinlega: Framhald. Kannski í næstu færslu. Kannski.