Sáttin mikla

14.9.2019 ~ 6 mín

Föstu­dags­þáttur Gísla Marteins er fyrir ríkis­stjórn Katrínar Jakobs­dóttur einmitt það sem Spaug­stofan var fyrir ríkis­stjórnir Davíðs Odds­sonar og andstæða þess um leið.

Þetta var stutta saman­tektin. Í lengra máli:

Gegnum tíðina hefur ýmis­legt verið ritað um vensl Spaug­stof­unnar við ríkis­stjórnir Davíðs Odds­sonar og þá reifað hversu tvíþætt hlut­verk hennar var, jafn­vel mótsagna­kennt. Annars vegar var Spaug­stofan, frá sjón­ar­hóli Spaug­stofu­manna sjálfra, í stjórn­ar­and­stöðu – og hvernig hefði hún getað verið nokkuð annað? Í lok hverrar viku birt­ist þetta Bítla­gengi, fjórir eða fimm uppá­tækja­samir gaurar, og gerðu grín að stjórn­mála­líf­inu, einkum æðstu ráða­mönnum lands­ins. Í hálf­tíma á viku fékk almenn­ingur yfir­hönd­ina og fylgd­ist með hinum óforskömm­uðu sparka í rass­inn á efri lögum samfé­lags­ins, fyrir sína hönd. Um leið, hins vegar, veitti hlát­ur­inn útrás sem gerði þessu samfé­lagi fært að hefja hverja nýja viku í stjórn­málum eins og sú síðasta væri afgreidd, búið væri að refsa ráða­mönnum fyrir hvað sem almenn­ingi þótti þeir hafa gert á sinn hlut, endur­nýja umboðið, eftir fleng­ingu máttu þeir þeir fara aftur út að ráða. A spoon­ful of sugar makes the medic­ine go down og Örn Árna­son lék ekki bara Davíð Odds­son, hann var Davíð Odds­son, eða það sem vant­aði upp á Davíð sjálfan til að við gætum áreið­an­lega kyngt honum. (Á þessu sviði hefur síðan orðið nokkur þróun, nú koma æðstu ráða­menn þróaðri ríkja með innbyggðan svona trúð, bæði Banda­ríkja­for­seti og forsæt­is­ráð­herra Bret­lands eru gang­andi spark í eigin rass. Svo að segja.)

Spaug­stofan leiddi hlátur almenn­ings stjórn­völdum, hlát­ur­inn beind­ist þannig gegn þeim af ásettu ráði. Um leið var hún, óvart, í þjón­ustu sömu stjórn­valda. Þannig virkar það sem stundum er kallað hugmynda­fræði, kannski má segja tíðar­andi – það er ekki annar aðili ríkj­andi þrætu sem skapar hana heldur þeir sem samein­ast um hvar þrætan liggur, víglínan, átökin og um leið hláturinn.

Ríkis­stjórn Katrínar Jakobs­dóttur er allt önnur ríkis­stjórn en ríkis­stjórnir Davíðs Odds­sonar voru, enda er Katrín allt önnur mann­eskja en Davíð, flokkur hennar allt annar en flokkur hans. Ég á ekki við póli­tískt inni­hald og stefnu­mál, heldur fas og virkni. Kannski stjórn­hætti. Davíð var átaka­stjórn­mála­maður og óx af hverri raun – aftur, ekki í hvaða skiln­ingi sem er, ég veit ekkert um hvort hann óx sem mann­eskja, en að valdi og áhrifum óx hann gegnum átök. Katrín er stjórn­mála­maður sátta, hugs­an­lega hinna miklu sátta. Áður en þessi stjórn var mynduð var talað um „sögu­legar sættir“ vinstri og hægri afla. Því raun­veru­legri sem þessi sátt verður, því minna er um hana rætt. Og því minna sem er um hana rætt, því raun­veru­legri er hún orðin.

Vald og áhrif Katrínar eflist eftir því sem fleiri eru sáttir. Við hana, en líka bara svona almennt, eftir því sem sáttin verður fyrir­ferð­ar­meiri og minna ber á átökum. Auðvitað er þetta ofur­ein­földun en mögu­lega gagn­leg ofur­ein­földun. Þó að Davíð hafi verið uppnefndur Dabbi kóngur er Katrín að þessu leyti drottn­ing­ar­legri en hann var konung­legur. Spaug­stofan losaði um spenn­una sem fylgdi átökum hverrar viku í valda­tíð Davíðs, en um þessar mundir skýtur rótum sú ríkj­andi skoðun eða stemn­ing að við lok hverrar viku sé hreint engin spenna til að losa um. Ekki nema þá hugs­an­lega að þing­maður í stjórn­ar­and­stöðu hafi sagt eitt­hvað asnalegt. 

Undir lok valda­tíðar Davíðs talaði Samfylk­ingin um að leysa átaka­stjórn­mál hans af hólmi með samræð­u­stjórn­málum. Í sátt­inni fann núver­andi ríkis­stjórn þriðju leið­ina: stjórn­mál sem almenn­ingur verður ekki var við fyrr en átök­unum eða samtal­inu er lokið. Vinstri græn og Sjálf­stæð­is­flokkur takast kannski á, og sjálfsagt tala þau saman, en þá fyrir luktum dyrum. Almenn­ingur heyrir um ákvarð­anir þeirra sem orðinn hlut, í sátt sem nær þá þegar endanna á milli á póli­tíska litrófinu.

Og Gísli Marteinn gegnir því hlut­verki, á meðan þing starfar, að leiða hlátur lands­ins í lok hverrar viku – án þess að losa um nokkra spennu. Í kvöld sat hann í sófa með þremur gestum sem áttu það sameig­in­legt að hafa ekki fylgst sérstak­lega með einu frétt­inni sem hann spurði um, stefnuræðu forsæt­is­ráð­herra. Þau reynd­ust eiga fleira sameig­in­legt og eftir að hlæja að þing­manni stjórn­ar­and­stöð­unnar fyrir að segja eitt­hvað asna­legt hlógu þau að því hvað þau væru sammála um alla hluti.

Eitt umfjöll­un­ar­efni skar sig þó úr. Ekki að upp kæmi ágrein­ingur eða ósætti, en einn gest­anna hefur póli­tíska ástríðu sem hin hafa ekki: hún, lögfræð­ingur, hefur barist fyrir því að stjórn­völd taki mark á þjóð­ar­at­kvæða­greiðslu sem haldin var um nýja stjórn­ar­skrá lýðveld­is­ins. Aðrir gestir luku á hana lofs­orði fyrir þetta, yngsti gest­ur­inn sagð­ist óska sér að lögfræð­ing­ur­inn gæti orðið umboðs­maður, umboðs­mað­ur­inn sinn, og sinnt umboðs­mennsk­unni af sömu ástríðu og hún bæri greini­lega til stjórn­ar­skrár­innar. Allir hlógu og Gísli sagði eitt­hvað og þá hlógu allir aftur. Póli­tískum átökum um grund­vall­ar­at­riði var þannig pakkað inn í mildan hlátur að þessu tilfinn­inga­máli viðmæl­and­ans, mögu­lega göfugri en þó fyrst og fremst krútt­legri þráhyggju hennar.

Þessi hlát­ur­skylda hefur áður sést í íslensku sjón­varpi. Hemmi Gunn hló líka svona opin­mynntur framan í viðmæl­endur sína, krafði þá um hlátur, í sófanum hjá honum skyldi vera gaman. Verið hress, ekkert stress! En þáttur Hemma gegndi ekki sama hlut­verki og þáttur Gísla, viðtölin í þætti Hemma sner­ust ekki um stjórn­mál. Þess vegna gat hann tekið á móti gestum í beinni útsend­ingu fyrir framan fullan sal af áhorf­endum, hvaða áhorf­endum sem er: það var engin hætta á að salnum þætti sér misboðið, þætti eitt­hvað grugg­ugt við hlát­ur­skyld­una, og gerð­ist tregur í taumi í beinni útsend­ingu. Gísli gæti aldrei tekið þá áhættu, að senda þennan þátt út í beinni útsend­ingu með salinn fullan af slembivöldu, ókunn­ugu fólki. (Ef hann vill afsanna þessa tilgátu og fylla salinn til að sýna okkur hvað við erum í raun og sanni hress, yrði sú rúll­etta annað hvort rúss­nesk eða svikin: hann tæki séns­inn annað hvort í eitt einasta sinn – líkurnar væru mögu­lega með honum í eitt skipti – eða gest­irnir yrðu hand­valdir og salur­inn aðeins fylltur af sáttu fólki.)

Hlut­verk Gísla er að boða hina víðtæku sátt jafn reffi­lega um helgar og ríkis­stjórnin gerir það á virkum dögum, gera ljóst að núver­andi ríkis­stjórn er ekki til að hlæja , heldur með. Við hlæjum með Katrínu og Gísla. Við hlæjum fyrr­ver­andi ráða­mönnum, að stjórn­ar­and­stöð­unni, að ósáttum, að vælukjóum og þráhyggju­sjúk­lingum. Við hlæjum að stöku embætt­is­mönnum. Og við hlæjum að þeim sem reyna að hlæja að forsæt­is­ráð­herra. Því hér er sátt. Að þessu leyti er þátt­ur­inn andstæður Spaugstofunni.

En eins og gengur um andstæðupör ristir hitt dýpra sem þætt­irnir eiga þarmeð sameig­in­legt: ríkis­stjórn Katrínar þarf jafn mikið á Gísla að halda og stjórnir Davíðs þurftu Spaug­stof­una. Þáttur Gísla er ekki spéspeg­ill, hann er ekki einu sinni speg­ill, hann er bara rúða sem sýnir okkur inn í nákvæm­lega sömu kaffi­stof­una og hver einasta sjón­varps­frétt þar sem rætt er við ráðherra. Þátt­ur­inn er nauð­syn­legur viðauki við stjórn­mál hinnar miklu sáttar, og þátta­stjórn­and­inn nauð­syn­legur skemmtikraftur stjórn­mála­stéttar sem hefur nú gert sér grein fyrir kostum þess að halda alvar­legum deilum og djúp­stæðum ágrein­ingi sem lengst frá sjón­sviði almennings.

Þú og þessi stjórnarskrá! 🙂

Sátt­inni miklu, stjórn­ar­sam­starf­inu og föstu­dags­þætti Gísla Marteins má öllum, held ég, spá sama langlífi.