Föstudagsþáttur Gísla Marteins er fyrir ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur einmitt það sem Spaugstofan var fyrir ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar og andstæða þess um leið.
Þetta var stutta samantektin. Í lengra máli:
Gegnum tíðina hefur ýmislegt verið ritað um vensl Spaugstofunnar við ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar og þá reifað hversu tvíþætt hlutverk hennar var, jafnvel mótsagnakennt. Annars vegar var Spaugstofan, frá sjónarhóli Spaugstofumanna sjálfra, í stjórnarandstöðu – og hvernig hefði hún getað verið nokkuð annað? Í lok hverrar viku birtist þetta Bítlagengi, fjórir eða fimm uppátækjasamir gaurar, og gerðu grín að stjórnmálalífinu, einkum æðstu ráðamönnum landsins. Í hálftíma á viku fékk almenningur yfirhöndina og fylgdist með hinum óforskömmuðu sparka í rassinn á efri lögum samfélagsins, fyrir sína hönd. Um leið, hins vegar, veitti hláturinn útrás sem gerði þessu samfélagi fært að hefja hverja nýja viku í stjórnmálum eins og sú síðasta væri afgreidd, búið væri að refsa ráðamönnum fyrir hvað sem almenningi þótti þeir hafa gert á sinn hlut, endurnýja umboðið, eftir flengingu máttu þeir þeir fara aftur út að ráða. A spoonful of sugar makes the medicine go down og Örn Árnason lék ekki bara Davíð Oddsson, hann var Davíð Oddsson, eða það sem vantaði upp á Davíð sjálfan til að við gætum áreiðanlega kyngt honum. (Á þessu sviði hefur síðan orðið nokkur þróun, nú koma æðstu ráðamenn þróaðri ríkja með innbyggðan svona trúð, bæði Bandaríkjaforseti og forsætisráðherra Bretlands eru gangandi spark í eigin rass. Svo að segja.)
Spaugstofan leiddi hlátur almennings að stjórnvöldum, hláturinn beindist þannig gegn þeim af ásettu ráði. Um leið var hún, óvart, í þjónustu sömu stjórnvalda. Þannig virkar það sem stundum er kallað hugmyndafræði, kannski má segja tíðarandi – það er ekki annar aðili ríkjandi þrætu sem skapar hana heldur þeir sem sameinast um hvar þrætan liggur, víglínan, átökin og um leið hláturinn.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er allt önnur ríkisstjórn en ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar voru, enda er Katrín allt önnur manneskja en Davíð, flokkur hennar allt annar en flokkur hans. Ég á ekki við pólitískt innihald og stefnumál, heldur fas og virkni. Kannski stjórnhætti. Davíð var átakastjórnmálamaður og óx af hverri raun – aftur, ekki í hvaða skilningi sem er, ég veit ekkert um hvort hann óx sem manneskja, en að valdi og áhrifum óx hann gegnum átök. Katrín er stjórnmálamaður sátta, hugsanlega hinna miklu sátta. Áður en þessi stjórn var mynduð var talað um „sögulegar sættir“ vinstri og hægri afla. Því raunverulegri sem þessi sátt verður, því minna er um hana rætt. Og því minna sem er um hana rætt, því raunverulegri er hún orðin.
Vald og áhrif Katrínar eflist eftir því sem fleiri eru sáttir. Við hana, en líka bara svona almennt, eftir því sem sáttin verður fyrirferðarmeiri og minna ber á átökum. Auðvitað er þetta ofureinföldun en mögulega gagnleg ofureinföldun. Þó að Davíð hafi verið uppnefndur Dabbi kóngur er Katrín að þessu leyti drottningarlegri en hann var konunglegur. Spaugstofan losaði um spennuna sem fylgdi átökum hverrar viku í valdatíð Davíðs, en um þessar mundir skýtur rótum sú ríkjandi skoðun eða stemning að við lok hverrar viku sé hreint engin spenna til að losa um. Ekki nema þá hugsanlega að þingmaður í stjórnarandstöðu hafi sagt eitthvað asnalegt.
Undir lok valdatíðar Davíðs talaði Samfylkingin um að leysa átakastjórnmál hans af hólmi með samræðustjórnmálum. Í sáttinni fann núverandi ríkisstjórn þriðju leiðina: stjórnmál sem almenningur verður ekki var við fyrr en átökunum eða samtalinu er lokið. Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur takast kannski á, og sjálfsagt tala þau saman, en þá fyrir luktum dyrum. Almenningur heyrir um ákvarðanir þeirra sem orðinn hlut, í sátt sem nær þá þegar endanna á milli á pólitíska litrófinu.
Og Gísli Marteinn gegnir því hlutverki, á meðan þing starfar, að leiða hlátur landsins í lok hverrar viku – án þess að losa um nokkra spennu. Í kvöld sat hann í sófa með þremur gestum sem áttu það sameiginlegt að hafa ekki fylgst sérstaklega með einu fréttinni sem hann spurði um, stefnuræðu forsætisráðherra. Þau reyndust eiga fleira sameiginlegt og eftir að hlæja að þingmanni stjórnarandstöðunnar fyrir að segja eitthvað asnalegt hlógu þau að því hvað þau væru sammála um alla hluti.
Eitt umfjöllunarefni skar sig þó úr. Ekki að upp kæmi ágreiningur eða ósætti, en einn gestanna hefur pólitíska ástríðu sem hin hafa ekki: hún, lögfræðingur, hefur barist fyrir því að stjórnvöld taki mark á þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin var um nýja stjórnarskrá lýðveldisins. Aðrir gestir luku á hana lofsorði fyrir þetta, yngsti gesturinn sagðist óska sér að lögfræðingurinn gæti orðið umboðsmaður, umboðsmaðurinn sinn, og sinnt umboðsmennskunni af sömu ástríðu og hún bæri greinilega til stjórnarskrárinnar. Allir hlógu og Gísli sagði eitthvað og þá hlógu allir aftur. Pólitískum átökum um grundvallaratriði var þannig pakkað inn í mildan hlátur að þessu tilfinningamáli viðmælandans, mögulega göfugri en þó fyrst og fremst krúttlegri þráhyggju hennar.
Þessi hláturskylda hefur áður sést í íslensku sjónvarpi. Hemmi Gunn hló líka svona opinmynntur framan í viðmælendur sína, krafði þá um hlátur, í sófanum hjá honum skyldi vera gaman. Verið hress, ekkert stress! En þáttur Hemma gegndi ekki sama hlutverki og þáttur Gísla, viðtölin í þætti Hemma snerust ekki um stjórnmál. Þess vegna gat hann tekið á móti gestum í beinni útsendingu fyrir framan fullan sal af áhorfendum, hvaða áhorfendum sem er: það var engin hætta á að salnum þætti sér misboðið, þætti eitthvað gruggugt við hláturskylduna, og gerðist tregur í taumi í beinni útsendingu. Gísli gæti aldrei tekið þá áhættu, að senda þennan þátt út í beinni útsendingu með salinn fullan af slembivöldu, ókunnugu fólki. (Ef hann vill afsanna þessa tilgátu og fylla salinn til að sýna okkur hvað við erum í raun og sanni hress, yrði sú rúlletta annað hvort rússnesk eða svikin: hann tæki sénsinn annað hvort í eitt einasta sinn – líkurnar væru mögulega með honum í eitt skipti – eða gestirnir yrðu handvaldir og salurinn aðeins fylltur af sáttu fólki.)
Hlutverk Gísla er að boða hina víðtæku sátt jafn reffilega um helgar og ríkisstjórnin gerir það á virkum dögum, gera ljóst að núverandi ríkisstjórn er ekki til að hlæja að, heldur með. Við hlæjum með Katrínu og Gísla. Við hlæjum að fyrrverandi ráðamönnum, að stjórnarandstöðunni, að ósáttum, að vælukjóum og þráhyggjusjúklingum. Við hlæjum að stöku embættismönnum. Og við hlæjum að þeim sem reyna að hlæja að forsætisráðherra. Því hér er sátt. Að þessu leyti er þátturinn andstæður Spaugstofunni.
En eins og gengur um andstæðupör ristir hitt dýpra sem þættirnir eiga þarmeð sameiginlegt: ríkisstjórn Katrínar þarf jafn mikið á Gísla að halda og stjórnir Davíðs þurftu Spaugstofuna. Þáttur Gísla er ekki spéspegill, hann er ekki einu sinni spegill, hann er bara rúða sem sýnir okkur inn í nákvæmlega sömu kaffistofuna og hver einasta sjónvarpsfrétt þar sem rætt er við ráðherra. Þátturinn er nauðsynlegur viðauki við stjórnmál hinnar miklu sáttar, og þáttastjórnandinn nauðsynlegur skemmtikraftur stjórnmálastéttar sem hefur nú gert sér grein fyrir kostum þess að halda alvarlegum deilum og djúpstæðum ágreiningi sem lengst frá sjónsviði almennings.
Þú og þessi stjórnarskrá! 🙂
Sáttinni miklu, stjórnarsamstarfinu og föstudagsþætti Gísla Marteins má öllum, held ég, spá sama langlífi.