Snemm­bærar hamingjuóskir

05.9.2019 ~ 5 mín

Þrisvar sinnum heyrði ég á miðviku­dag Mike Pence færa Íslend­ingum „snemm­búnar hamingjuóskir“ – „early congra­tulati­ons“ – vegna 75 ára afmælis lýðveld­is­ins. Fyrir framan Guðna Th., Katrínu Jakobs og Guðlaug Þór, auk síns eigin fylgd­arliðs og fjöl­miðla­fólks. En enginn leið­rétti hann, allan daginn. Enginn sagði honum að það hefði verið í júní. Aftur á móti tók auðvitað enginn eftir því á Íslandi heldur, stjórn­völd ákváðu að gera 100 ára afmæli konungs­veld­is­ins Íslands umtals­vert hærra undir höfði, í fyrra, en 75 ára afmæli lýðveld­is­ins í ár. Til dæmis með því að grafa sér bönker.

RÚV og Vísir eiga hrós skilið fyrir beina útsend­ingu frá þessum furðu­degi – og RÚV ekki síst fyrir hrámetið, útsend­ing­una úr fund­ar­sal Höfða, til dæmis, þar sem forkólfar íslensks viðskipta­lífs iðuðu í skinn­inu, stand­andi, bíðandi eftir Pence, þar til klukkan sló fund og þau sett­ust öll. Þar biðu þau þægari en skólakrakkar hafa nokk­urn tíma verið, með spenntar greipar við lang­borð, á meðan Pence tafð­ist um korter, 20 mínútur á leið­inni af efri hæðinni. Síðasta fundi hans var þá löngu lokið, Guðni farinn, en Pence kann þessa list, að láta fólk bíða, áreið­an­lega jafn vel og hann kann að veifa huldufólki.

Dagur­inn hófst á þessum veifum, úti á flug­velli. Herra og frú Pence stigu út úr þotunni og veif­uðu eins og þar stæði fjöl­menni og fagn­aði þeim. Stóðu þarna við exitið, Mike benti, brosti, gaf thumbs-up eins og hann kann­að­ist við gamla vini – en í þokunni var enginn nema lögg­urnar og sjón­varps­mynda­vél­arnar sem virð­ist svo hafa þurft að slökkva á í snar­hasti. Kannski þarf að girða vara­for­set­ann svona af til að hann geti haldið áfram þessu leik­riti, að veifa, benda og brosa eins og hann sé umkringdur fólki sem er ekki til. 

Undar­legt hlut­verk, skrítið leik­rit. Ég sá útundan mér á einhverjum miðli enn eitt viðtalið um að foreldrar geri börn að aumingjum með því að ofvernda þau, gæta þess að þau reki sig hvorki á né í. Hugsið ykkur hvað við erum að gera vara­for­seta Bandaríkjanna!

RÚV á í vand­ræðum með þá stað­reynd að Banda­ríkin eru herveldi, NATO hern­að­ar­banda­lag, að svonefnd þjóðarör­ygg­is­stefna Íslands snýst um þetta tvennt, og að erindi Pence snýst, eins og hann lagði þunga áherslu á sjálfur, um „örygg­is­hags­muni Banda­ríkj­anna“. Þunga áherslu, ekki bara í merk­ing­unni leyniskyttur í Borg­ar­túni, herþyrlur, herþotur og hugs­an­leg kjarna­vopn sem fylgdu honum úr hlaði, heldur í merk­ing­unni: orðin sem hann lét út úr sér. Hann sagði það mjög skýrt, mjög oft: hann kom til Íslands til að verja örygg­is­hags­muni Banda­ríkj­anna á Norð­ur­slóðum andspænis Rússlandi og Kína.

Á milli þess sem Pence endur­tók þetta stef hlustaði ég á frétta­mann RÚV leggja sig nokkuð fram um að drepa því á dreif, nefna í óspurðum fréttum og án rökstuðn­ings, að sér þætti ósenni­legt að B2-þoturnar sem lentu hér á dögunum hafi verið með kjarna­vopn um borð, tala um að Banda­ríkin væru svosem að leggja pening í að gera við einhverjar bygg­ingar í Kefla­vík, vildu svosem hafa einhverja aðstöðu þar til kafbáta­leitar, það bæri þó svosem ekki mikið á þessum kafbátum … 

„Vand­séð að menn ætli að ræða mjög viðkvæm mál“ sagði sami frétta­maður í þann mund sem Pence komst niður stig­ann og birt­ist í fund­ar­salnum í Höfða. Vonandi fyrir­gefst þeim frétta­manni RÚV sem sló upp fyrir­sögn­inni „Varn­ar­mál Pence efst í huga í Höfða“, sem var skömmu síðar látin víkja fyrir hinni íslensk­ari: „Borg­ar­stjóri á hjóli sýndi Pence Höfða“. Það gerð­ist auðvitað margt í Höfða þennan dag og erfitt að greina auka­at­riði frá aðal­at­riðum í öllu húll­um­hæ­inu. Á vef RÚV má nú finna frétt­ina „Ræddu norð­ur­slóðir og málefni hinsegin fólks“ um fund Pence og Katrínar Jakobs­dóttur. Þar er ekki minnst á varn­ar­mál, hernað, vígvæð­ingu eða annað af þeim toga. Þar finnst hins vegar orðið Norð­ur­slóðir sem mér var bent á að verður líklega úr þessu að líta á sem dulmál fyrir ofan­greint. Þegar haft er eftir forsæt­is­ráð­herra að „mikil­vægt væri að halda norð­ur­slóðum eins frið­sælum og mögu­legt væri“, þá er frétta­stofa í raun að reyna að koma orðum að því að Banda­ríkin stefna að mass­ífri uppbygg­ingu hern­að­ar­máttar á svæð­inu. Og svo fram­vegis. Hvað gerðir þú við pening­ana sem frúin í Hamborg gaf þér?

Forsæt­is­ráð­herra veit hvað klukkan slær, þó að henni virð­ist jafn annt um það og frétta­stof­unni að hafa um það sem fæst orð við almenn­ing. Þennan undar­lega miðviku­dag birt­ist Guðlaugur Þór sem viðvan­ingur í póli­tík, Katrín ekki. Guðlaugur fyrst:

Ásamt fyrr­nefndum forkólfum viðskipta­lífs­ins sat utan­rík­is­ráð­herra og beið í fyrr­nefndum fund­ar­sal í Höfða, þar til vara­for­set­inn gaf sér tíma til að líta þar við. Áður en frétta­fólki var ýtt út og dyrunum lokað flutti hvor um sig upphafs­ávarp, Guðlaugur og Pence, að fjöl­miðlum viðstöddum. Guðlaugur rataði sína leið gegnum skyldu­skjallið, öll þessi tengsl milli Íslands og Amer­íku, og stillti sér svo kurt­eis­is­lega upp til höggs­ins: það er ekkert laun­unga­mál, sagði hann, að mig langar í fríversl­un­ar­samn­ing við Banda­ríkin. Þegar Pence tók við orðinu skjall­aði hann Ísland umfram skyldu, óskaði land­inu til hamingju með lýðveldisaf­mælið, hagvaxt­ar­skeiðið, með Trump, með hitt og þetta og braut að því loknu vonir Guðlaugs snyrti­lega: vissu­lega væri gott að draga úr ákveðnum hömlum og hver veit nema stefna mætti að fríversl­un­ar­samn­ingi í fram­tíð­inni. Með öðrum orðum: ekki núna, ekki í bráð. Áður en hinn eigin­legi fundur hófst bakvið lokaðar dyr hafði vara­for­set­inn slegið helsta markmið íslenska ráðherr­ans af borð­inu, brosandi.

Forsæt­is­ráð­herra virt­ist aftur á móti meðvit­aðri um hverju hún myndi mæta, og vakandi fyrir því að herþot­urnar væru ekki aðeins á sveimi til að undir­strika mikil­vægi óhefts fiskút­flutn­ings. Þegar Pence lýsti því yfir í annað eða þriðja sinn þennan dag, fyrir framan blaða­menn og nú við hlið Katrínar Jakobs­dóttur, hversu þakk­lát Banda­ríkin væru Íslend­ingum fyrir að hafna Belti-og-braut-áformum Kínverja, þá leið­rétti Katrín vara­for­set­ann og sagði að íslensk stjórn­völd hefðu enn ekki tekið málið til skoð­unar. Þrátt fyrir allar bomburnar, skytt­urnar, allt stálið, álið og púðrið sem Pence lét fylgja orðum sínum, lét hún það ekki umorða­laust eftir honum að hrifsa utan­rík­is­stefn­una úr höndum hins meinta fullveldis.

Að því búnu flaug hinn keis­ara­legi hundur og hirð hans brott. Nákvæm­lega hvað er framundan kemur vænt­an­lega í ljós á næst­unni. Utan­rík­is­ráð­herra veit senni­lega ekki meira um það en við hin.