Þrisvar sinnum heyrði ég á miðvikudag Mike Pence færa Íslendingum „snemmbúnar hamingjuóskir“ – „early congratulations“ – vegna 75 ára afmælis lýðveldisins. Fyrir framan Guðna Th., Katrínu Jakobs og Guðlaug Þór, auk síns eigin fylgdarliðs og fjölmiðlafólks. En enginn leiðrétti hann, allan daginn. Enginn sagði honum að það hefði verið í júní. Aftur á móti tók auðvitað enginn eftir því á Íslandi heldur, stjórnvöld ákváðu að gera 100 ára afmæli konungsveldisins Íslands umtalsvert hærra undir höfði, í fyrra, en 75 ára afmæli lýðveldisins í ár. Til dæmis með því að grafa sér bönker.
RÚV og Vísir eiga hrós skilið fyrir beina útsendingu frá þessum furðudegi – og RÚV ekki síst fyrir hrámetið, útsendinguna úr fundarsal Höfða, til dæmis, þar sem forkólfar íslensks viðskiptalífs iðuðu í skinninu, standandi, bíðandi eftir Pence, þar til klukkan sló fund og þau settust öll. Þar biðu þau þægari en skólakrakkar hafa nokkurn tíma verið, með spenntar greipar við langborð, á meðan Pence tafðist um korter, 20 mínútur á leiðinni af efri hæðinni. Síðasta fundi hans var þá löngu lokið, Guðni farinn, en Pence kann þessa list, að láta fólk bíða, áreiðanlega jafn vel og hann kann að veifa huldufólki.
Dagurinn hófst á þessum veifum, úti á flugvelli. Herra og frú Pence stigu út úr þotunni og veifuðu eins og þar stæði fjölmenni og fagnaði þeim. Stóðu þarna við exitið, Mike benti, brosti, gaf thumbs-up eins og hann kannaðist við gamla vini – en í þokunni var enginn nema löggurnar og sjónvarpsmyndavélarnar sem virðist svo hafa þurft að slökkva á í snarhasti. Kannski þarf að girða varaforsetann svona af til að hann geti haldið áfram þessu leikriti, að veifa, benda og brosa eins og hann sé umkringdur fólki sem er ekki til.
Undarlegt hlutverk, skrítið leikrit. Ég sá útundan mér á einhverjum miðli enn eitt viðtalið um að foreldrar geri börn að aumingjum með því að ofvernda þau, gæta þess að þau reki sig hvorki á né í. Hugsið ykkur hvað við erum að gera varaforseta Bandaríkjanna!
RÚV á í vandræðum með þá staðreynd að Bandaríkin eru herveldi, NATO hernaðarbandalag, að svonefnd þjóðaröryggisstefna Íslands snýst um þetta tvennt, og að erindi Pence snýst, eins og hann lagði þunga áherslu á sjálfur, um „öryggishagsmuni Bandaríkjanna“. Þunga áherslu, ekki bara í merkingunni leyniskyttur í Borgartúni, herþyrlur, herþotur og hugsanleg kjarnavopn sem fylgdu honum úr hlaði, heldur í merkingunni: orðin sem hann lét út úr sér. Hann sagði það mjög skýrt, mjög oft: hann kom til Íslands til að verja öryggishagsmuni Bandaríkjanna á Norðurslóðum andspænis Rússlandi og Kína.
Á milli þess sem Pence endurtók þetta stef hlustaði ég á fréttamann RÚV leggja sig nokkuð fram um að drepa því á dreif, nefna í óspurðum fréttum og án rökstuðnings, að sér þætti ósennilegt að B2-þoturnar sem lentu hér á dögunum hafi verið með kjarnavopn um borð, tala um að Bandaríkin væru svosem að leggja pening í að gera við einhverjar byggingar í Keflavík, vildu svosem hafa einhverja aðstöðu þar til kafbátaleitar, það bæri þó svosem ekki mikið á þessum kafbátum …
„Vandséð að menn ætli að ræða mjög viðkvæm mál“ sagði sami fréttamaður í þann mund sem Pence komst niður stigann og birtist í fundarsalnum í Höfða. Vonandi fyrirgefst þeim fréttamanni RÚV sem sló upp fyrirsögninni „Varnarmál Pence efst í huga í Höfða“, sem var skömmu síðar látin víkja fyrir hinni íslenskari: „Borgarstjóri á hjóli sýndi Pence Höfða“. Það gerðist auðvitað margt í Höfða þennan dag og erfitt að greina aukaatriði frá aðalatriðum í öllu húllumhæinu. Á vef RÚV má nú finna fréttina „Ræddu norðurslóðir og málefni hinsegin fólks“ um fund Pence og Katrínar Jakobsdóttur. Þar er ekki minnst á varnarmál, hernað, vígvæðingu eða annað af þeim toga. Þar finnst hins vegar orðið Norðurslóðir sem mér var bent á að verður líklega úr þessu að líta á sem dulmál fyrir ofangreint. Þegar haft er eftir forsætisráðherra að „mikilvægt væri að halda norðurslóðum eins friðsælum og mögulegt væri“, þá er fréttastofa í raun að reyna að koma orðum að því að Bandaríkin stefna að massífri uppbyggingu hernaðarmáttar á svæðinu. Og svo framvegis. Hvað gerðir þú við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér?
Forsætisráðherra veit hvað klukkan slær, þó að henni virðist jafn annt um það og fréttastofunni að hafa um það sem fæst orð við almenning. Þennan undarlega miðvikudag birtist Guðlaugur Þór sem viðvaningur í pólitík, Katrín ekki. Guðlaugur fyrst:
Ásamt fyrrnefndum forkólfum viðskiptalífsins sat utanríkisráðherra og beið í fyrrnefndum fundarsal í Höfða, þar til varaforsetinn gaf sér tíma til að líta þar við. Áður en fréttafólki var ýtt út og dyrunum lokað flutti hvor um sig upphafsávarp, Guðlaugur og Pence, að fjölmiðlum viðstöddum. Guðlaugur rataði sína leið gegnum skylduskjallið, öll þessi tengsl milli Íslands og Ameríku, og stillti sér svo kurteisislega upp til höggsins: það er ekkert launungamál, sagði hann, að mig langar í fríverslunarsamning við Bandaríkin. Þegar Pence tók við orðinu skjallaði hann Ísland umfram skyldu, óskaði landinu til hamingju með lýðveldisafmælið, hagvaxtarskeiðið, með Trump, með hitt og þetta og braut að því loknu vonir Guðlaugs snyrtilega: vissulega væri gott að draga úr ákveðnum hömlum og hver veit nema stefna mætti að fríverslunarsamningi í framtíðinni. Með öðrum orðum: ekki núna, ekki í bráð. Áður en hinn eiginlegi fundur hófst bakvið lokaðar dyr hafði varaforsetinn slegið helsta markmið íslenska ráðherrans af borðinu, brosandi.
Forsætisráðherra virtist aftur á móti meðvitaðri um hverju hún myndi mæta, og vakandi fyrir því að herþoturnar væru ekki aðeins á sveimi til að undirstrika mikilvægi óhefts fiskútflutnings. Þegar Pence lýsti því yfir í annað eða þriðja sinn þennan dag, fyrir framan blaðamenn og nú við hlið Katrínar Jakobsdóttur, hversu þakklát Bandaríkin væru Íslendingum fyrir að hafna Belti-og-braut-áformum Kínverja, þá leiðrétti Katrín varaforsetann og sagði að íslensk stjórnvöld hefðu enn ekki tekið málið til skoðunar. Þrátt fyrir allar bomburnar, skytturnar, allt stálið, álið og púðrið sem Pence lét fylgja orðum sínum, lét hún það ekki umorðalaust eftir honum að hrifsa utanríkisstefnuna úr höndum hins meinta fullveldis.
Að því búnu flaug hinn keisaralegi hundur og hirð hans brott. Nákvæmlega hvað er framundan kemur væntanlega í ljós á næstunni. Utanríkisráðherra veit sennilega ekki meira um það en við hin.