Hádegisfréttir RÚV, 3. september 2019. Utanríkisráðherra bregst við spurningum Brodda Broddasonar. Prentvillur eru mögulegar en málvillur eru ráðherrans sjálfs:
Broddi Broddason: En hingað er kominn Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. Tilgangurinn? Til hvers er Mike Pence að koma til Íslands? Það var talað um viðskiptamál í upphafi, nú tala þeir fyrir vestan haf um hernaðar‑, varnarsamstarf og Norðurslóðir.
Guðlaugur Þór Þórðarson: Ja, það sem er á dagskránni er málþing um tvíhliða viðskipti sem að bæði íslenskir og bandarískir kaupsýslumenn taka þátt í. Það er nokkuð sem hefur verið skipulagt í langan tíma, af Íslandsstofu og utanríkisþjónustunni og kemur til út af ákvörðun míns og Mike Pompeo um að fara í efnahagssamráð. Og við tókum okkur það í febrúar. Þannig að það er tilgangur ferðarinnar. En auðvitað munum við, ef færi gefst á, ræða ýmislegt fleira.
B: Er þetta fjölmenni, eru þetta margir íslenskir athafnamenn, skulum við segja, sem taka þátt í þessu?
G: Tja, nei, það eru nú ekki margir sem eru á þessu málþingi. En stóra einstaka málið er þetta, að við höfum farið í þetta efnahagssamráð, með það að markmiði að styrkja efnahagsleg tengsl ríkjanna. Viðskiptaleg tengsl. Og okkar markmið er mjög skýrt: við erum fríverslunarþjóð og við gerum allt hvað við getum til að styrkja samkeppnisstöðu okkar. Og ef við náum einhverjum árangri, við erum í þannig stakk komin, á þennan stað, og við höfum ekki komist á þann áður, að þá mun það hjálpa íslensku efnahagslífi.
B: Þannig að þetta skilar vonandi einhverjum árangri. En hefur varaforseti Bandaríkjanna boðað einhver útspil?
G: Ne, nei, það hefur nú ekkert slíkt sem hefur komið fram ennþá. En bara það að hann komi hingað og setur þarafleiðandi kastljós á Ísland fyrir, meðal annars fyrir bandarískt, bandarískt viðskiptalíf, að það eru góðar fréttir fyrir okkur Íslendinga.
B: Nú var Pompeo, kollegi þinn, hér fyrir skemmstu og nú kemur Pence, varaforsetinn. Hvaða ógnaráhugi er þetta? Er þetta hernaðarlegi þátturinn?
G: Ja, ég bara, loksins eru þeir búnir að átta sig á, eða ég veit ekki hvað á að segja, loksins – í það minnsta, þegar ég kom að málinu þá vakti ég athygli bæði bandarískra ráðamanna og sömuleiðis í Evrópu á mikilvægi Íslands því við erum mikilvægt land og mikilvægur bandamaður, meðal annars út af Norðurslóðum en ýmsu fleiru. Þannig að það er afskaplega ánægjulegt að við séum að sjá þessi viðbrögð því þetta eru ekki bara Bandaríkjamenn. Við erum búin að sjá líka í fyrsta skipti japanska utanríkisráðherrann koma hingað, við vorum hér með kanslara Þýskalands um daginn. Þannig að þetta er góð þróun og góðar fréttir fyrir okkur.
B: Nú kom það fram í pistlinum hér áðan að þetta er nánast eins og hersýning. Það eru alls konar herflugvélar og herþyrlur og hvaðeina. Skýrir það ef til vill þetta, að áherslan liggi þarna megin, eða er þetta bara til að passa upp á varaforsetann, sem hann er hérna í þessum feluleik sem hann virðist nú að vissu leyti vera?
G: Ja, hann er svosem ekki í neinum feluleik, en hins vegar eru öryggisviðbúnaður, þegar varaforseti Bandaríkjanna, er miklu meiri heldur en hjá þeim ráðamönnum sem við höfum séð koma hingað áður. Og það kemur auðvitað ekki til af góðu. Við þekkjum það úr sögunni að stundum hafa skelfilegir atburðir gerst. En við erum og þartilbærar stofnanir, íslenskar, eru að vinna með bandarískum stofnunum, að sjá til þess að öryggismálin verði í lagi.
B: Nú hefur dagskráin aðeins verið á reiki. Liggur fyrir núna, veistu það, hvort hann hittir forseta Íslands?
G: Ja það er, dagskráin hefur tekið miklum breytingum. Og miklum sviptingum, það er auðvitað ekkert nýtt, en bara það, svo menn setji, átti sig á því, að bara breytingar sem verða á ferðum hans, til dæmis í Evrópu, að þær hafa áhrif hér. Þannig að ég hef haft það fyrir reglu að segja sem allra minnst um, það getur breyst fljótt –
B: Segðu mér eða veistu það ekki?
G: Ja, endanlega nei, þá er það þannig að þetta er ekki, alls ekki endanlegt.
B: Takk fyrir þetta, Guðlaugur Þór Þórðarson.
Myndin sem fylgir færslunni birtist í Þjóðviljanum þann 7. júlí 1983, og er tekin á mótmælum í tilefni af heimsókn varaforseta Bandaríkjanna um þær mundir, George Bush eldri. Hvorki varaforsetar né forsetar Bandaríkjanna hafa heimsótt Ísland síðan þá, þar til nú. Myndin er ekki merkt ljósmyndara.