Fliss

18.10.2019 ~ 10 mín

Þú bakka­fulli lækur, here I come!

Ótví­rætt falleg­asta mómentið, besta bíóið, í Joker, er þegar lánleys­ing­inn og aðal­per­sónan Arthur Fleck svindlar sér sjálfur í bíósal, þar sem ríka fólkið í Gotham er saman komið á viðhafn­ar­sýn­ingu, karl­arnir í smók­ing og konurnar í síðkjólum, til að horfa á Modern Times eftir Chaplin við live undir­leik sinfón­íu­hljóm­sveitar. Sleppum fyrir­vörum og fínni blæbrigðum, tölum í teikni­mynda­dráttum: Modern Times er besta ádeilu­verk á kapí­tal­ismann sem birst hefur í kvik­mynd. Alþýða er annað orð en almenn­ingur og þarf að halda til haga hér: Modern Times er hápunktur á ferli manns sem samein­aði alþýðu­fólk yfir landa­mæri, átti jafn­vel veiga­mik­inn þátt í að skapa alþjóð­lega stétta­vit­und, í hlátri að harm­inum sem þeim/okkur var/er búin. Og þarna í salnum í Gotham-borg var yfir­stétt borg­ar­innar saman komin og skemmti sér konung­lega á viðhafn­ar­sýn­ingu einmitt þess­arar myndar, á meðan lögreglu­lið hélt mótmælum alþýð­unnar í skefjum fyrir utan bíóið. Mögnuð uppstill­ing, sönn mynd og skelfi­lega kunnugleg.

En hvað segir þessi skeyt­ing: Jóker | flæk­ingur? Hvað hafa þessir tveir trúðar hvor með annan að gera? Eru þeir andstæðir? Er Jóker­inn arftaki flæk­ings­ins? Þá svona „No more Mr. Nice Guy“-arftaki? Hvað eiga þeir, þessir tveir trúðar, vansagt hvor við annan? 


Charlie Chaplin var ekki bara andkapítalisti. Ef þú spyrð Joseph McCarthy árið 1952 var Chaplin komm­ún­isti, en anarkisti ef þú ert blaða­mað­ur­inn Ella Winter og spyrð Chaplin sjálfan, árið 1957. Einhvers konar anarkó­kommi. Það skiptir máli því andkapítal­ismi er ekki, út af fyrir sig, vinstri­stefna. Forseti Banda­ríkj­anna og ritstjóri Morg­un­blaðs­ins eiga það sameig­in­legt um þessar mundir að hafa veru­legar efasemdir um ágæti alþjóða­við­skipta. Stál­heið­ar­legt íhalds­fólk hefur efasemdir um vald fjár­magns­mark­aða; hefð­arsinnar vilja hverfa aftur til þeirra tíma þegar fólk bar meiri virð­ingu fyrir mannasiðum en peningum; og alls kyns prim­i­tíf­istar, jafn­vel yfir­lýstir nasistar, segj­ast vilja sjá mann­inn lifa á ný í samhljómi við nátt­úr­una. Andkapítal­ismi er ekki, einn og sér, vinstrineitt.

Andkapítal­ismi Joker birt­ist einhvern veginn svona: Aðal­per­sóna mynd­ar­innar, Arthur Fleck, er skilj­an­lega ósáttur við hlut­skipti sitt, einhvers staðar rétt við botn­lagið í samfé­lagi mikils ójöfn­uðar. Ójöfn­uður þessa samfé­lags er svo róttækur að Arthur nýtur ekki verndar laganna í frum­stæð­asta skiln­ingi: ofbeldi sem hann er beittur á götu úti er eftir­mála­laust fyrir þá sem beita því. Arthur nýtur ekki heldur aðgangs að heil­brigð­is­þjón­ustu: snemma í sögu­þræði mynd­ar­innar hefur niður­skurður hins opin­bera af honum bæði viðtals­stundir og lyf. En það er ekki aðeins ríkið sem hunsar Arthur: hann nýtur ekki heldur þeirrar hugg­unar, miskunnar eða blíðu sem gæti falist í mann­legri nánd. Öldruð móðir hans, sem hann annast um, er ekki fær um að sýna honum umhyggju. Sjálfur virð­ist hann ófær um að stofna til náinna kynna við jafn­ingja. Mikil eymd.

Svo fer að Arthur springur á limm­inu og myrðir þrjá unga menn í jakka­fötum, sem abbast upp á hann í neðanjarð­ar­lest. Hluti alþýð­unnar í Gotham-borg fagnar, samkvæmt fjöl­miðlum borg­ar­innar, þessum morðum. Yfir­stétt borg­ar­innar tekur að óttast um hag sinn og hefur ástæðu til: það verða óeirðir, það verða uppþot. Þannig brýst krísan fram, ekki lengur sem einkakrísa Jókers­ins heldur krísa samfélags.


Nú spilli ég endinum: Í loka­at­riði mynd­ar­innar situr Arthur Fleck inni í hvítu herbergi, á geðdeild, virð­ist nauð­ung­ar­vistaður, andspænis geðlækni. Arthur hlær, það skríkir í honum yfir einhverju. Lækn­ir­inn spyr: hvað er svona fyndið? Arthur svarar: You wouldn’t get it. Þú myndir ekki skilja það. Síðan er klippt í svolitla dans­rútínu sem sumir hafa til marks um að Arthur hafi drepið lækn­inn en hver veit.

Nú mætti halda því fram að í þessu atriði séu húð og kyn auka­at­riði, hend­ing ein að lækn­ir­inn sé svört kona en Arthur hvítur karl, og í það minnsta ekki póli­tískt merk­ing­ar­bært (nema þá til marks um að aðstand­endur mynd­ar­innar hafa gætt sín á að skipa í hlut­verk með fjöl­breyti­leika til hlið­sjónar, eins og víða hefur verið nefnt). Þegar Arthur segir að hún fatti ekki djókið, þá sé það sjúk­lingur að ávarpa lækni, uppreisn­ar­maður kerfið eða illmenni góðmenni. En ekki hvítur karl svarta konu.

En þetta trufl­aði mig þó nóg til að ég leit yfir það hvernig annars er skipað í hlut­verk mynd­ar­innar. Flestar persónur verks­ins eru í stuttu máli hvítir kallar. Það er út af fyrir sig ekki óvenju­legt. Kven­per­sónur mynd­ar­innar, það er allar þær þrjár konur sem eru sýni­lega yngri en móðir Arth­urs, eru hins vegar svartar. Þær tilheyra alls ekki efri lögum Gotham-borgar. Í samtölum þeirra við Arthur leggja höfund­arnir jafn­vel lykkju á leið sína til að undir­strika hvernig tvær þeirra, hið minnsta, eru í grund­vall­ar­at­riðum í sömu sveit settar og Arthur sjálfur. En þó eru þær hver og ein í tilteknum, afmörk­uðum skiln­ingi í yfir­burða­stöðu gagn­vart honum, ýmist hlut­lægt eða huglægt: félags­ráð­gjaf­ann ber honum ekki aðeins að hitta reglu­bundið vegna veik­inda sinna og veita munn­lega skýrslu um eigin líðan, heldur lætur hún hann afhenda sér dagbók sem hann heldur og flettir í henni fyrir framan hann. Nágrann­inn er hérumbil jafn fátæk og Arthur, og ósátt við ýmis­legt, en virð­ist þó óklikkuð að mestu og eiga sína sátt. Arthur hrífst af henni svo nærri lagi virð­ist að tala um þráhyggju en hún lítur á hann sem vafa­saman furðu­fugl og hafnar honum. Þriðja og síðasta kven­per­sónan er lækn­ir­inn á geðdeild­inni í lok myndar. Hér og nú er óþarft að fjöl­yrða um valda­hlut­föllin á milli læknis og nauð­ung­ar­vistaðs sjúklings.

Heimur Arth­urs er heimur hvítra karl­manna en konurnar í þeim heimi – fyrir utan mæður ofur­hetj­unnar og skálks­ins – eru svartar. Kynþáttapóli­tík er of fyrir­ferð­ar­mikil í Banda­ríkj­unum, og þessi uppröðun mynd­ar­innar of skýr, til að vísa henni á bug sem hend­ingu. En þar sem ég hef hvorki beina aðkomu né sérþekk­ingu á svið­inu var ég feim­inn við að nefna hvernig þetta trufl­aði mig. Mér þætti ekki sann­fær­andi að lesa athuga­semd frá sjálfum mér um kynþáttapóli­tík, spurn­ingar um fínlega rasíska þræði, í svona verki. Væri ég ekki bara að vóka yfir mig? Betla smá siðferð­isk­link, með heima­smíð­aðri ofur­við­kvæmni fyrir hönd undir­skip­aðra og jaðar­settra í allt öðru landi, sem hljóta, burt­séð frá öllu öðru, að geta talað sínu máli betur sjálf?

Og þar koma til sögunnar hinar trúverð­ugri heim­ildir. New York Times birti grein um þessa þræði mynd­ar­innar eftir Lawrence Ware, prófessor í heim­speki við Okla­homa State University og vara­for­seta Center for Africana Studies. Greinin birt­ist á prenti þann 10. októ­ber undir titl­inum „A Maniacal Killer Shielded by His White Skin“ en degi síðar á netinu undir hinni tölu­vert mild­ari fyrir­sögn: „The Real Threat of ‘Joker’ Is Hiding in Plain Sight“. Greinin fjallar um hvít­leika Arth­urs Fleck sem forsendu sögu­þráð­ar­ins í mynd­inni. Ware nefnir þetta, hvernig fyrr­nefndar kven­per­sónur eru allar svartar, og leggur áherslu á að Arthur lendir í útistöðum við þær allar. Þá gefur hann gaum að frásagn­ar­máta kvik­mynd­ar­innar og hvernig óvissu er beitt þegar skilið er við konurnar: að Arthur skilur við bæði nágrann­ann, eftir að brjót­ast inn í íbúð hennar, og við geðlækn­inn, á máta sem gefur til kynna að hann hafi hugs­an­lega myrt þær báðar, án þess þó að taka af tvímæli um það. Um þetta segir Ware:

„Fleck drepur hvíta karl­menn vegna þess að hann hefur ekki aðgang að stöðu þeirra og hefur verið útskúfað af þeim, en hin svörtu kven­fórn­ar­lömb hans eru svo ósýni­leg að myndin leggur sig ekki einu sinni eftir því að sýna dauð­daga þeirra.“

Ég leyfi mér þá að minnsta kosti að halda þessum óþæg­indum til haga: Þegar mynd­inni lýkur á þeim orðum frá hvítum karl­manni til svartrar konu að það taki því ekki að segja henni hverju hann er að hlæja að, hún myndi ekki fatta djókið, þá sitja þau orð eftir, ekki aðeins sem stað­hæf­ing einnar persónu við aðra heldur yrðing kvik­mynd­ar­innar til áhorf­enda – í eftir­mála sem gegnir eigin­lega aðeins því hlut­verki að koma þess­ari athuga­semd til skila. Uppreisn Arth­urs sjálfs er ekki uppreisn gegn því að í Gotham-borg ríkir misskipt­ing, að alþýðu­fólk lifir við óþarfa fátækt og er útundan, heldur að rangt fólk er útundan. Að hann er útundan. Þetta tekur hann skýrt fram sjálfur, og endur­tekið. Ef Joker væri póli­tískt mani­festó myndi ég segja að andkapítal­ismi þess benti ekki eindregið til vinstri. Ekki afdrátt­ar­a­laust. Í besta falli séu höfundar verks­ins heldur óvar­kárir og gæti þess ekki að baráttan sem það boðar sé barátta allrar alþýðu. Í versta falli, hins vegar, mætti sjá nokkrar list­rænar ákvarð­anir í verk­inu sem hundaflautupóli­tík, merkja­send­ingar sem fela í sér meðvit­aðan leik að útilok­unum – undir radar en greini­legar hinum móttækilegu.

En Joker er ekki mani­festó, hún er kvik­mynd, vill jafn­vel vera það sem Scorsese kallar bíó. Ef myndin tekur afstöðu yfir­leitt, þá er ekki sjálf­gefið að það sé afstaða Arth­urs. Er ekki jafn auðveld­lega hægt að kinka kolli frammi fyrir óeirð­unum í Gotham og segja: „Akkúrat, hún er grimm þessi veröld og miskunn­ar­laus – en skárri þó en sú sem biði ef fátæk­lingar og fáráðlingar á við þennan Arthur færu með völd. Eins gott að vopna lögg­una vel og halda skrílnum í skefjum.“ 


Ef Joker er ekki mani­festó heldur kvik­mynd, hversu góð kvik­mynd er hún þá? Hún á sín augna­blik. Hún fer áreið­an­lega nær því að snerta við list­rænni þörf full­orð­ins fólks en aðrar aðsókn­ar­mestu myndir ársins í Banda­ríkj­unum hingað til – sem eru, í þess­ari röð: Avengers Endgame, The Lion King, Toy Story 4, Captain Marvel, Spider-Man: Far From Home, Aladdin og loks, í sjöunda sæti, Joker. Stór hluti ástæð­unnar fyrir hinni miklu athygli sem hefur beinst að Joker hlýtur að vera þessi þurrkur og þorsti okkar í bíó – það sem Scorsese kallar bíó.

Joker minnir åð mörgu leyti á bíó. Góður leik­ari, frábært tónskáld, fullt af hæfu fagfólki. Að frátöldu Chaplin-atrið­inu verð ég þó að viður­kenna að ég man ekki hverju hún bætti við trailer­inn: trúður sem á mjög bágt verður mjög reiður. Og ég ætla að leyfa mér saman­burð sem væri ósann­gjarn ef myndin virt­ist ekki heimta hann sjálf:

Það er sameig­in­legt Joker og Modern Times að bæði flæk­ing­ur­inn og Arthur lenda í því að leiða fjölda­hreyf­ingu. Í Modern Times gerist það svona: Flæk­ing­ur­inn er á sínum þvæl­ingi um göturnar þegar hann sér rauðan fána falla af vöru­bíl­spalli. Sagan segir að fáninn hafi á sínum tíma verið hand­mál­aður rauður í hverjum ramma á frum­sýn­ing­arein­taki þess­arar annars svart­hvítu myndar. Flæk­ing­ur­inn veifar þessum fána á miðri götu, hrópar og kallar til að ná athygli bílstjór­ans, og arkar af stað á eftir bílnum – þegar kröfu­ganga kemur aftan að honum og okkar maður verður, sjálfur grun­laus, fána­beri fylkingarinnar. 

Jóker­inn, aftur á móti, banar þremur leið­inda­dólgum með skamm­byssu. Í kjöl­farið dansar hann í einrúmi. Upp úr því fara mergðir um göturnar og kveikja í bílum. Loks heyr­ist frétta­þulur halda því fram að þetta tvennt teng­ist – eða hvort það voru blaða­úrklippur – að morðin hafi verið kveikja uppþot­anna. Hver veit.

Er Jóker­inn tægj­urnar af sund­ur­tættum flæk­ingnum, heims­styrj­öld, atóm­sprengju, köldu stríði, Víet­nam og Írak síðar? Varla leynd­ist þetta lánlausa skrímsli í barka flæk­ings­ins um leið og hann opnaði munn­inn til að tala?

Ég er með góðar og slæmar fréttir. Slæmu fyrst? Ókei: Ég sé ekki hvað trúð­arnir tveir eiga vantalað hvor við annan. Kannski dansar Phoenix svona mikið, í hlut­verki sínu, til að bæta fyrir það að myndin sjálf, Joker, gerir það eigin­lega ekki.


Góðu frétt­irnar: Leik­stjóri Joker, Todd Phillips, hefur meðal annars leik­stýrt mynd­unum Hango­ver I, Hango­ver II og Hango­ver III. Með aðal­hlut­verk þess­ara mynda fór Zach Galifi­anakis. Frá árinu 2016 hefur Galifi­anakis skrifað, fram­leitt og leikið aðal­hlut­verk í sjón­varps­þátt­unum Baskets. Þætt­irnir fjalla um banda­rískan lágstétt­ar­ræfil sem á við alvar­lega skap­gerð­ar­bresti að stríða og dreymir um að verða trúður. Þeir gerast í Kali­forníu en stemn­ingin á eitt­hvað skylt við miðvest­ur­ríkja­stemn­ingu Coen-bræðra, Fargo og það allt – þó morð­mála­laust. Þaðan kemur myndramm­inn sem fylgir þess­ari færslu. Á köflum eru þetta svo vel heppn­aðir þættir, eymdin svo nærandi, og skimunin yfir hinar fínni fell­ingar stétt­skipt­ingar í síðkapítal­ism­anum svo átak­an­lega fyndin, svo hlægi­lega dapur­leg, að mig langar að benda og segja: Þarna er Chaplin! Og hef Phillips jafn­vel grun­aðan um trúðaeymdaröfund.

„Ég ætla að fá rétt númer 57.“
„Það er verðið, herra.“
„Ó, verðið. Þá ætla ég að fá númer 4.“
„Gulrót?“
„Já, eina gulrót, takk.“