„Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, verður fenginn til að skrifa nýja skýrslu þar sem gerðar verða tillögur um hvernig megi þróa samstarf Norðurlandanna enn frekar. Þetta var ákveðið á fundi norrænna utanríkisráðherra í Svíþjóð í dag.“
Þetta mátti lesa á vef RÚV á miðvikudag. Björn skrifar skýrslu. Hvað vantar í þessa frétt?
Bjarnason-skýrslan
Stór hluti norræns samstarfs snýst um „utanríkis- og öryggismál“ eða „öryggis- og varnarmál“ eins og það heitir í íslenskum miðlum. Hernaðarmál. Þegar Norðurlandaráðsþing valdi Björn Bjarnason til að skrifa skýrslu um „frekari eflingu norræns samstarfs á alþjóðavettvangi“ mátti gera ráð fyrir að átt væri við þetta samstarf öðru fremur. Sjálfsagt hefði verið að spyrja, til að fá úr því skorið, en jafnvel að óathuguðu máli var það langlíklegast: að þetta yrði skýrsla um hernaðarsamstarf. Fréttamanni hefði verið óhætt að skjóta á það.
Ef hann var feiminn við að spyrja hefði honum þó nægt að gúgla. Leitarstrengirnir Nordisk Råd og Björn Bjarnason skila strax hárnákvæmri niðurstöðu: „Nordisk råd: skal lages ny «Stoltenberg-rapport»“. Það er verkefnið sem Björn hefur valist til: að skrifa nýja Stoltenberg-skýrslu. Thorvald Stoltenberg, faðir Jens sem nú er aðalritari NATO, skilaði hinni upphaflegu Stoltenberg-skýrslu árið 2009. Hún hefur síðan þá legið til grundvallar hernaðarsamstarfi Norðurlandanna. Á grundvelli þeirrar skýrslu var meðal annars stofnað norræna hernaðarbandalagið NORDEFCO, sem Ísland á aðild að.
Hernaðarmál er það eina sem Stoltenberg-skýrslan snýst um. Hernaðarmál verða það eina sem skýrsla Björns Bjarnasonar mun snúast um. Hernaðarmál eru víðfeðmt svið, fjöldamargt annað kemur þar við sögu, bráðnun heimskautsins verður áreiðanlega fyrirferðarmikil – en þetta verður eftir sem áður ekki skýrsla um norrænt samstarf á sviði umhverfismála, heldur hernaðarmála.
Um allt þetta er svo skringilega rætt á íslensku, að kalla má dulmál. Mbl.is reynist setja hlutverk Björns í rétt samhengi, svo langt sem það nær, hann eigi að skrifa „nýja skýrslu svipaða þeirri og Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, vann“ – en þá tekur dulmálið við: „um norræna samvinnu“. Neðar í fréttinni er minnst á „aukið samstarf á sviði utanríkis- og öryggismála“, en þar finnast hvorki orðstofnarnir „her“ né „varnir“.
Björn hefur reyndar sjálfur skrifað um þetta dulmál. Í ræðutexta sem hann flutti árið 2009 má lesa:
„Ætli íslenska utanríkisráðuneytið að ræða efni Stoltenberg-skýrslunnar á sama dulmáli og notað var um varnarmálalögin, er hætt við, að efni hennar komist aldrei nægilega vel til skila hér á landi.“
Hafið, sjálfbærni og grænar lausnir
Fréttin af þessu nýja hlutverki Björns rifjaði upp fyrir mér aðra á sama sviði, sem ég sá rétt útundan mér á dögunum. Verkaskipting ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki er yfirleitt skýr: hægrið sér um hernaðinn. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, nú utanríkisráðherrann Guðlaugur Þór Þórðarson, sækja þá fundi sem snúast um hernaðarmál – nema þegar Arnór Sigurjónsson mætir, maður sem á íslensku nefnist skrifstofustjóri Varnarmálaskrifstofu Utanríkisráðuneytisins en kemur stundum fram á erlendum vettvangi sem varnarmálaráðherra eða ígildi varnarmálaráðherra. Hægrið sækir fundina og hægrið talar um herina. Svo kemur hægrið heim og þegir ýmist eða kallar það allt saman norrænt samstarf á meðan vinstrið hugsar og talar um annað.
En það gerðist semsagt á Arctic Circle samkomunni í Hörpu á dögunum, að Katrín Jakobsdóttir hóf opnunarávarp sitt á að ræða hernaðarmál. Á vef Forsætisráðuneytisins birtist bæði ræðan sjálf og fréttatilkynning um ræðuna. Ræðan er á ensku en fréttatilkynningin á íslensku. Í fréttatilkynningunni, það er á íslensku, er ekki orð að finna um heri, varnir eða einu sinni öryggi – þar hefst endursögn ræðunnar á þessum orðum:
„Forsætisráðherra minntist á áherslur Íslands í formennsku í Norðurskautsráðinu sem eru þær að huga sérstaklega að hafinu, fólkinu sem býr á Norðurslóðum, sjálfbærni og grænum lausnum.“
Undir venjulegum kringumstæðum láta innlendir fréttamiðlar sér nægja að endursegja það sem birtist í svona tilkynningum, því hitt væri of tímafrekt, að eltast við frumheimildir og þýða úr ensku. Ræðan sjálf hófst hins vegar ekki á hafinu og grænum lausnum, heldur svona:
„Increased geopolitical tensions in the region is a deplorable development and highlights the fact that there is no specific Arctic forum to deal with hard security, territorial disputes or the exploitation of natural resources.“
Á samráðsvettvangi Norðurslóðaríkja er með öðrum orðum þegar rætt um „mjúk öryggismál“ en nú er ef til vill tími til kominn, að sögn Katrínar, að ræða þessi hörðu. Hörð öryggismál, hér er dulmálið heldur tekið að þynnast: hörð öryggismál, það eru herirnir.
Hörð öryggismál
Sérfræðingar Nord-háskóla í Noregi eru læsari á tíðindin sem í þessu felast en ég. Í fréttamiðlinum High North News sem Hánorðurmiðstöð háskólans gefur út, birtist í kjölfarið á ræðu Katrínar fréttaskýring eftir Siri Gulliksen Tømmerbakke undir titlinum: This is Why Finland and Iceland Want Security Politics in the Arctic Council.
Hér þarf að greina á milli: Arctic Circle er þetta hringborð sem Ólafur Ragnar á veg og vanda að, og haldið er á Íslandi. Arctic Council, eða Norðurskautsráðið, er veigameiri vettvangur til formlegs samráðs og ákvarðanatöku aðildarríkjanna, sem eru átta talsins. Ísland fer með formennsku ráðsins til ársins 2021.
Samkvæmt höfundi greinarinnar hefur spurning Katrínar, hvort Norðurskautsráðið eigi að fjalla um hörð öryggismál, verið viðruð um árabil, en þó aðeins utan formlegrar dagskrár. Með opnunarávarpi Katrínar nú í október var pælingin hins vegar í fyrsta sinn færð á opinberan vettvang. Þá kemur fram að finnsk stjórnvöld hafi viljað bera hernaðarmál á borð Norðurskautsráðsins. Þau njóti nú fulltingis Íslands í málinu:
„Finland has tried to initiate an Arctic leadership meeting about this, an initiative to which Jakobsdottir lends Iceland’s full support.“
Við lestur greinarinnar verður ljóst að þessi nýja afstaða Íslands birtist þó skýrar eftir flutning opnunarávarpsins, í svari Katrínar Jakobsdóttur við spurningu Ólafs Ragnars á sviði hringborðsins. Ólafur stýrði þar umræðum sem voru knappar, hann spurði þau Katrínu og Antti Rinne, forsætisráðherra Finnlands, einnar spurningar og leyfði eina spurningu úr sal. Spurning Ólafs snerist um vaxandi áhuga stærri ríkja á Norðurskautinu. Hann sagði ráðherrana hafa diplomatically forðast viðfangsefnið í ræðum sínum og spurði síðan: „How are you and your governments beginning to deal with this new geopolitical transformation of the Arctic?“ Svar Katrínar var svohljóðandi – ég hef það hér í fullri lengd, til að allt standi það í réttu samhengi:
„Well, I mentioned this issue very briefly in my speech, but very briefly indeed. And of course, this is a very big challenge, because the Arctic Council has managed to be a forum where everyday geopolitical conflicts have been kept outside of the room.
And actually, that was something that Iceland, very much, was in favor of. Because we have thought that it is very important to have a forum where you have, not only the Nordic countries, but the big countries, Russia, the United States, Canada, sitting at the table, being able to leave the conflicts outside of the room and have a constructive dialogue about the Arctic. And I actually spoke about this, this morning, with Mr. Rick Perry, who is here. Because this has been our vision of the Arctic Council.
However —however— when we see these geopolitical tensions growing, and the challenges growing, I think it’s definitely a need that we discuss this. Should the Arctic Council become a forum for hard security? Or should we have another forum for that? Finland was actually trying to instigate a leaders’ meeting of the Arctic Council, and I would be very happy to continue with their efforts. Because I think we need that discussion. Our vision has been to keep those conflicts out of the room.“
Sú spurning hvort Norðurskautsráðið eigi að verða vettvangur fyrir umræðu um hernaðarmál var með öðrum orðum fyrsta efnisatriðið í opnunarræðu Katrínar, og eina efnisatriðið í svari hennar við einu spurningunni sem Ólafur Ragnar spurði hana í þessum knöppu umræðum á sviði opnunardagskrárinnar: að Ísland hafi fram til þessa verið mótfallið slíkri þróun, en hugi nú að stefnubreytingu. Samkvæmt norska miðlinum á Katrín, ásamt forsætisráðherra Finnlands, allt frumkvæði að þeirri mögulegu breytingu, þvert á vilja norskra og kanadískra stjórnvalda, að minnsta kosti. Í greininni er spurningin ekki borin undir ráðamenn annarra ríkja.
Dulmálstefnan
Fréttin er auðvitað forvitnileg, út af fyrir sig, og fyrirsagnarverð: að forsætisráðherra Íslands beiti sér fyrir því að Norðurskautsráðið verði vettvangur fyrir umræðu um hernaðarmál, sem það hefur gagngert ekki verið til þessa. Kannski er það snjallræði, kannski glapræði, ég hef ekki forsendur til að meta það – en hvort sem pælingin er góð eða slæm er hún fréttnæm.
Enn forvitnilegra finnst mér þó hvernig áhuga íslenskra stjórnvalda á hernaðarmálum, þátttaka Íslands í hernaðarsamstarfi, og jafnvel frumkvæði Íslendinga í þeim efnum, er haldið frá Íslendingum sjálfum. Á ensku er allt heila klabbið rætt nokkuð opinskátt. En í íslenskum endursögnum, hvort sem er í fréttatilkynningum ráðuneytanna eða frásögnum fréttamiðla, má varla sjá að málaflokkurinn sé til. Úr verður merkingarlaus vaðall um norrænt samstarf, sem hljómar alltaf einhvern veginn eins og ráðherrar hittist til að ræða prjónamynstur og skíðagöngur – svo ekki sé minnst á hafið, sjálfbærni og grænar lausnir.
Þegar ég var barn sýndi Sjónvarpið bíómyndir aðeins á föstudags- og laugardagskvöldum. Á laugardagskvöldum voru þær stundum tvær, sú síðari oftast bönnuð börnum. Þá kom fyrir að ég vakti með foreldrum mínum nógu lengi til að sjá að minnsta kosti hluta seinni myndarinnar. Skilyrðið fyrir því að ég fengi að sitja og horfa var að þegar eitthvað „ljótt“ kom á skjáinn, yrði ég að una því að fullorðna fólkið héldi fyrir augun á mér rétt á meðan. Eitthvað í þá veru virðist stýra málstefnu íslenskra stjórnvalda á þessu sviði: að halda ljótu hlutunum utan íslenskunnar.
Útgjöld Íslands til hernaðarmála hafa tvöfaldast í tíð núverandi ríkisstjórnar. Orðaforði okkar um málaflokkinn hefur á sama tíma staðið í stað. Og þó lengra væri litið. Það er ekki langt síðan forsætisráðherra hélt því fram að ráðherrafundur NATO-ríkja um gereyðingarvopn væri afvopnunarráðstefna – misskilningur sem aðeins ríkti á íslensku. Í þessu efni vita ráðamenn hvað þau gera, eins og Björn Bjarnason benti á í ræðunni 2009. Tilhneiging stjórnvalda til þagnar ýmist eða dulmáls um hernaðarmál er svo staðföst að líta ber á hana sem stefnu. Þessi málstefna, dulmálstefnan, dregur úr getu íslenskrar tungu til að fást við veröldina. Hún rýrir sameiginlegt raunveruleikaskyn okkar. Hún er slæm stefna.
Björn Bjarnason mun á næstu misserum ekki aðeins móta hernaðarstefnu Íslands heldur Norðurlandanna í sameiningu. Góðu fréttirnar: Björn mun þó hugsanlega sjá til þess að stefnan verði þýdd og birt á íslensku. Við gætum þá neyðst til að hegða okkur eins og fullorðið fólk og tala aðeins saman.
Heimildir
Tilkynning ráðuneytis um skýrslu Björns
Frétt norska hersins um skýrslu Björns
Frétt mbl.is um skýrslu Björns
Um skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu Utanríkisráðuneytisins
Frétt High North um ræðu Katrínar
Fréttatilkynning Stjórnarráðsins um ræðu Katrínar