Dulmál um hörð mál

31.10.2019 ~ 9 mín

„Björn Bjarna­son, fyrr­ver­andi ráðherra, verður feng­inn til að skrifa nýja skýrslu þar sem gerðar verða tillögur um hvernig megi þróa samstarf Norð­ur­land­anna enn frekar. Þetta var ákveðið á fundi norrænna utan­rík­is­ráð­herra í Svíþjóð í dag.“

Þetta mátti lesa á vef RÚV á miðviku­dag. Björn skrifar skýrslu. Hvað vantar í þessa frétt?

Bjarna­son-skýrslan

Stór hluti norræns samstarfs snýst um „utan­ríkis- og örygg­is­mál“ eða „öryggis- og varn­ar­mál“ eins og það heitir í íslenskum miðlum. Hern­að­ar­mál. Þegar Norð­ur­landa­ráðs­þing valdi Björn Bjarna­son til að skrifa skýrslu um „frek­ari eflingu norræns samstarfs á alþjóða­vett­vangi“ mátti gera ráð fyrir að átt væri við þetta samstarf öðru fremur. Sjálfsagt hefði verið að spyrja, til að fá úr því skorið, en jafn­vel að óathug­uðu máli var það langlík­leg­ast: að þetta yrði skýrsla um hern­að­ar­sam­starf. Frétta­manni hefði verið óhætt að skjóta á það.

Ef hann var feim­inn við að spyrja hefði honum þó nægt að gúgla. Leit­ar­streng­irnir Nordisk Råd og Björn Bjarna­son skila strax hárná­kvæmri niður­stöðu: „Nordisk råd: skal lages ny «Stolten­berg-rapport»“. Það er verk­efnið sem Björn hefur valist til: að skrifa nýja Stolten­berg-skýrslu. Thor­vald Stolten­berg, faðir Jens sem nú er aðal­rit­ari NATO, skil­aði hinni upphaf­legu Stolten­berg-skýrslu árið 2009. Hún hefur síðan þá legið til grund­vallar hern­að­ar­sam­starfi Norð­ur­land­anna. Á grund­velli þeirrar skýrslu var meðal annars stofnað norræna hern­að­ar­banda­lagið NORDEFCO, sem Ísland á aðild að.

Hern­að­ar­mál er það eina sem Stolten­berg-skýrslan snýst um. Hern­að­ar­mál verða það eina sem skýrsla Björns Bjarna­sonar mun snúast um. Hern­að­ar­mál eru víðfeðmt svið, fjölda­margt annað kemur þar við sögu, bráðnun heim­skauts­ins verður áreið­an­lega fyrir­ferð­ar­mikil – en þetta verður eftir sem áður ekki skýrsla um norrænt samstarf á sviði umhverf­is­mála, heldur hernaðarmála.

Um allt þetta er svo skringi­lega rætt á íslensku, að kalla má dulmál. Mbl.is reyn­ist setja hlut­verk Björns í rétt samhengi, svo langt sem það nær, hann eigi að skrifa „nýja skýrslu svip­aða þeirri og Thor­vald Stolten­berg, fyrr­ver­andi utan­rík­is­ráð­herra Noregs, vann“ – en þá tekur dulmálið við: „um norræna samvinnu“. Neðar í frétt­inni er minnst á „aukið samstarf á sviði utan­ríkis- og örygg­is­mála“, en þar finn­ast hvorki orðstofn­arnir „her“ né „varnir“.

Björn hefur reyndar sjálfur skrifað um þetta dulmál. Í ræðu­texta sem hann flutti árið 2009 má lesa:

„Ætli íslenska utan­rík­is­ráðu­neytið að ræða efni Stolten­berg-skýrsl­unnar á sama dulmáli og notað var um varn­ar­mála­lögin, er hætt við, að efni hennar komist aldrei nægi­lega vel til skila hér á landi.“

Hafið, sjálf­bærni og grænar lausnir

Fréttin af þessu nýja hlut­verki Björns rifj­aði upp fyrir mér aðra á sama sviði, sem ég sá rétt útundan mér á dögunum. Verka­skipt­ing ríkis­stjórn­ar­innar í þessum mála­flokki er yfir­leitt skýr: hægrið sér um hern­að­inn. Full­trúar Sjálf­stæð­is­flokks­ins, nú utan­rík­is­ráð­herr­ann Guðlaugur Þór Þórð­ar­son, sækja þá fundi sem snúast um hern­að­ar­mál – nema þegar Arnór Sigur­jóns­son mætir, maður sem á íslensku nefn­ist skrif­stofu­stjóri Varn­ar­mála­skrif­stofu Utan­rík­is­ráðu­neyt­is­ins en kemur stundum fram á erlendum vett­vangi sem varn­ar­mála­ráð­herra eða ígildi varn­ar­mála­ráð­herra. Hægrið sækir fund­ina og hægrið talar um herina. Svo kemur hægrið heim og þegir ýmist eða kallar það allt saman norrænt samstarf á meðan vinstrið hugsar og talar um annað.

En það gerð­ist semsagt á Arctic Circle samkom­unni í Hörpu á dögunum, að Katrín Jakobs­dóttir hóf opnun­ar­ávarp sitt á að ræða hern­að­ar­mál. Á vef Forsæt­is­ráðu­neyt­is­ins birt­ist bæði ræðan sjálf og frétta­til­kynn­ing um ræðuna. Ræðan er á ensku en frétta­til­kynn­ingin á íslensku. Í frétta­til­kynn­ing­unni, það er á íslensku, er ekki orð að finna um heri, varnir eða einu sinni öryggi – þar hefst endur­sögn ræðunnar á þessum orðum:

„Forsæt­is­ráð­herra minnt­ist á áherslur Íslands í formennsku í Norð­ur­skauts­ráð­inu sem eru þær að huga sérstak­lega að hafinu, fólk­inu sem býr á Norð­ur­slóðum, sjálf­bærni og grænum lausnum.“

Undir venju­legum kring­um­stæðum láta innlendir fréttamiðlar sér nægja að endur­segja það sem birt­ist í svona tilkynn­ingum, því hitt væri of tíma­frekt, að eltast við frum­heim­ildir og þýða úr ensku. Ræðan sjálf hófst hins vegar ekki á hafinu og grænum lausnum, heldur svona: 

„Increa­sed geopolitical tensi­ons in the region is a deplorable develop­ment and highlig­hts the fact that there is no specific Arctic forum to deal with hard secu­rity, territorial disp­u­tes or the exploitation of natural resources.“

Á samráðsvett­vangi Norð­ur­slóða­ríkja er með öðrum orðum þegar rætt um „mjúk örygg­is­mál“ en nú er ef til vill tími til kominn, að sögn Katrínar, að ræða þessi hörðu. Hörð örygg­is­mál, hér er dulmálið heldur tekið að þynn­ast: hörð örygg­is­mál, það eru herirnir.

Hörð örygg­is­mál

Sérfræð­ingar Nord-háskóla í Noregi eru læsari á tíðindin sem í þessu felast en ég. Í fréttamiðl­inum High North News sem Hánorð­ur­mið­stöð háskól­ans gefur út, birt­ist í kjöl­farið á ræðu Katrínar frétta­skýr­ing eftir Siri Gullik­sen Tømmer­bakke undir titl­inum: This is Why Finland and Iceland Want Secu­rity Politics in the Arctic Council.

Hér þarf að greina á milli: Arctic Circle er þetta hring­borð sem Ólafur Ragnar á veg og vanda að, og haldið er á Íslandi. Arctic Council, eða Norð­ur­skauts­ráðið, er veiga­meiri vett­vangur til form­legs samráðs og ákvarð­ana­töku aðild­ar­ríkj­anna, sem eru átta tals­ins. Ísland fer með formennsku ráðs­ins til ársins 2021.

Samkvæmt höfundi grein­ar­innar hefur spurn­ing Katrínar, hvort Norð­ur­skauts­ráðið eigi að fjalla um hörð örygg­is­mál, verið viðruð um árabil, en þó aðeins utan form­legrar dagskrár. Með opnun­ar­ávarpi Katrínar nú í októ­ber var pælingin hins vegar í fyrsta sinn færð á opin­beran vett­vang. Þá kemur fram að finnsk stjórn­völd hafi viljað bera hern­að­ar­mál á borð Norð­ur­skauts­ráðs­ins. Þau njóti nú fulltingis Íslands í málinu:

„Finland has tried to initiate an Arctic leaders­hip meet­ing about this, an initiative to which Jakobs­dottir lends Iceland’s full support.“

Við lestur grein­ar­innar verður ljóst að þessi nýja afstaða Íslands birt­ist þó skýrar eftir flutn­ing opnun­ar­ávarps­ins, í svari Katrínar Jakobs­dóttur við spurn­ingu Ólafs Ragn­ars á sviði hring­borðs­ins. Ólafur stýrði þar umræðum sem voru knappar, hann spurði þau Katrínu og Antti Rinne, forsæt­is­ráð­herra Finn­lands, einnar spurn­ingar og leyfði eina spurn­ingu úr sal. Spurn­ing Ólafs sner­ist um vaxandi áhuga stærri ríkja á Norð­ur­skaut­inu. Hann sagði ráðherr­ana hafa diplom­atically forð­ast viðfangs­efnið í ræðum sínum og spurði síðan: „How are you and your govern­ments beginn­ing to deal with this new geopolitical trans­formation of the Arctic?“ Svar Katrínar var svohljóð­andi – ég hef það hér í fullri lengd, til að allt standi það í réttu samhengi:

„Well, I menti­o­ned this issue very briefly in my speech, but very briefly indeed. And of course, this is a very big chal­lenge, because the Arctic Council has mana­ged to be a forum where everyday geopolitical conflicts have been kept outside of the room.

And actually, that was somet­hing that Iceland, very much, was in favor of. Because we have thought that it is very import­ant to have a forum where you have, not only the Nordic countries, but the big countries, Russia, the United States, Canada, sitt­ing at the table, being able to leave the conflicts outside of the room and have a constructive dialogue about the Arctic. And I actually spoke about this, this morn­ing, with Mr. Rick Perry, who is here. Because this has been our vision of the Arctic Council.

However —however— when we see these geopolitical tensi­ons grow­ing, and the chal­lenges grow­ing, I think it’s definitely a need that we discuss this. Should the Arctic Council become a forum for hard secu­rity? Or should we have anot­her forum for that? Finland was actually trying to instigate a leaders’ meet­ing of the Arctic Council, and I would be very happy to cont­inue with their efforts. Because I think we need that discussion. Our vision has been to keep those conflicts out of the room.“

Sú spurn­ing hvort Norð­ur­skauts­ráðið eigi að verða vett­vangur fyrir umræðu um hern­að­ar­mál var með öðrum orðum fyrsta efnis­at­riðið í opnun­ar­ræðu Katrínar, og eina efnis­at­riðið í svari hennar við einu spurn­ing­unni sem Ólafur Ragnar spurði hana í þessum knöppu umræðum á sviði opnun­ar­dag­skrár­innar: að Ísland hafi fram til þessa verið mótfallið slíkri þróun, en hugi nú að stefnu­breyt­ingu. Samkvæmt norska miðl­inum á Katrín, ásamt forsæt­is­ráð­herra Finn­lands, allt frum­kvæði að þeirri mögu­legu breyt­ingu, þvert á vilja norskra og kanadískra stjórn­valda, að minnsta kosti. Í grein­inni er spurn­ingin ekki borin undir ráða­menn annarra ríkja.

Dulmál­stefnan

Fréttin er auðvitað forvitni­leg, út af fyrir sig, og fyrir­sagn­ar­verð: að forsæt­is­ráð­herra Íslands beiti sér fyrir því að Norð­ur­skauts­ráðið verði vett­vangur fyrir umræðu um hern­að­ar­mál, sem það hefur gagn­gert ekki verið til þessa. Kannski er það snjall­ræði, kannski glapræði, ég hef ekki forsendur til að meta það – en hvort sem pælingin er góð eða slæm er hún fréttnæm.

Enn forvitni­legra finnst mér þó hvernig áhuga íslenskra stjórn­valda á hern­að­ar­málum, þátt­taka Íslands í hern­að­ar­sam­starfi, og jafn­vel frum­kvæði Íslend­inga í þeim efnum, er haldið frá Íslend­ingum sjálfum. Á ensku er allt heila klabbið rætt nokkuð opin­skátt. En í íslenskum endur­sögnum, hvort sem er í frétta­til­kynn­ingum ráðu­neyt­anna eða frásögnum fréttamiðla, má varla sjá að mála­flokk­ur­inn sé til. Úr verður merk­ing­ar­laus vaðall um norrænt samstarf, sem hljómar alltaf einhvern veginn eins og ráðherrar hitt­ist til að ræða prjóna­mynstur og skíða­göngur – svo ekki sé minnst á hafið, sjálf­bærni og grænar lausnir.

Þegar ég var barn sýndi Sjón­varpið bíómyndir aðeins á föstu­dags- og laug­ar­dags­kvöldum. Á laug­ar­dags­kvöldum voru þær stundum tvær, sú síðari oftast bönnuð börnum. Þá kom fyrir að ég vakti með foreldrum mínum nógu lengi til að sjá að minnsta kosti hluta seinni mynd­ar­innar. Skil­yrðið fyrir því að ég fengi að sitja og horfa var að þegar eitt­hvað „ljótt“ kom á skjá­inn, yrði ég að una því að full­orðna fólkið héldi fyrir augun á mér rétt á meðan. Eitt­hvað í þá veru virð­ist stýra málstefnu íslenskra stjórn­valda á þessu sviði: að halda ljótu hlut­unum utan íslenskunnar. 

Útgjöld Íslands til hern­að­ar­mála hafa tvöfald­ast í tíð núver­andi ríkis­stjórnar. Orða­forði okkar um mála­flokk­inn hefur á sama tíma staðið í stað. Og þó lengra væri litið. Það er ekki langt síðan forsæt­is­ráð­herra hélt því fram að ráðherra­fundur NATO-ríkja um gereyð­ing­ar­vopn væri afvopn­un­ar­ráð­stefna – misskiln­ingur sem aðeins ríkti á íslensku. Í þessu efni vita ráða­menn hvað þau gera, eins og Björn Bjarna­son benti á í ræðunni 2009. Tilhneig­ing stjórn­valda til þagnar ýmist eða dulmáls um hern­að­ar­mál er svo stað­föst að líta ber á hana sem stefnu. Þessi málstefna, dulmál­stefnan, dregur úr getu íslenskrar tungu til að fást við veröld­ina. Hún rýrir sameig­in­legt raun­veru­leika­skyn okkar. Hún er slæm stefna.

Björn Bjarna­son mun á næstu miss­erum ekki aðeins móta hern­að­ar­stefnu Íslands heldur Norð­ur­land­anna í samein­ingu. Góðu frétt­irnar: Björn mun þó hugs­an­lega sjá til þess að stefnan verði þýdd og birt á íslensku. Við gætum þá neyðst til að hegða okkur eins og full­orðið fólk og tala aðeins saman.

Heim­ildir

Frétt RÚV um skýrslu Björns

Tilkynn­ing ráðu­neytis um skýrslu Björns

Frétt norska hers­ins um skýrslu Björns

NORDEFCO

Björn um dulmálið

Frétt mbl.is um skýrslu Björns

Um skrif­stofu­stjóra varn­ar­mála­skrif­stofu Utan­rík­is­ráðu­neyt­is­ins

Frétt High North um ræðu Katrínar

Frétta­til­kynn­ing Stjórn­ar­ráðs­ins um ræðu Katrínar

Ræða Katrínar

Spurn­ing Ólafs Ragn­ars og svar Katrínar, myndband

Gereyð­ing­ar­vopna­ráð­stefnan