Eins og stærðfræðingur gerði frægt í ljóði er ekkert íslenskt orð til yfir failure. Þrot getur maður sagt í einhverju samhengi, mistök í öðru, og klúður kemst kannski næst því svona almennt. En það er eitthvað krúttlegt við klúður, og sjálftekið ábyrgðarleysi: failure heitir það þegar eitthvað tókst alls ekki, óháð ástæðum, en klúður felur í sér að einhver hafi viljað vel en því miður bara ekki tekist nógu vel til.
Mig rámaði í þetta þegar ég var að leita að íslensku orði yfir það sem á ensku er kallað að vera compromised, nánar tiltekið morally eða ethically compromised. Dæmi um slíka stöðu blasir við nú eftir að Bandaríkjaher sveik Kúrda í hendur Tyrklands: Evrópa hreyfir sig ekki gegn Tyrklandi, meðal annars vegna samkomulags við Erdogan, frá 2016, um að Tyrkir haldi sýrlensku flóttafólki frá Evrópu. Erdogan hótar því nú að ef evrópsk stjórnvöld svo mikið sem kalla innrásina innrás eða hernámið hernám, þá muni hann rifta samkomulaginu, opna hliðin og hleypa þeim sem vilja áfram til Evrópulanda. Evrópuríkin vilja það ekki, en þau vilja ekki heldur hafa hátt um að þau vilji það ekki, enda ekki siðferðilega verjandi. Þau virðast því hafa valið þann kostinn að þegja. Svona tiltölulega eða relatíft – þau humma og ræskja sig en þau byrsta sig ekki. Og þar sem þau eru í þessu vafasama slagtogi á þessum vafasömu forsendum er gagnrýni þeirra í garð Bandaríkjanna, fyrir að svíkja Kúrda, innantóm.
Sýnist mér.
Og til að tala um þetta væri gagnlegt að hafa orð á því hvað Evrópa er compromised í málinu (að Íslandi meðtöldu, þó að það sé aukaleikari hér). En skásta orðið sem ég finn í fljótu bragði er klípa. Þetta er þá meiri klípan sem Evrópa hefur komið sér í, jafnvel algjör klípa. Við erum öll í klípu. Sem á eitthvað skylt við klúður, eitthvert krúttlegt ábyrgðarleysi. Klúður og Klípa gætu verið persónur í Stundinni okkar. Klípa er eitthvað sem maður vonar að fólk rati úr, maður vonar að klípur leysist. En klípur varða einhvern veginn aðallega þann sem lendir í þeim. Komprómæsið varðar fleiri, og gerir það frá upphafi, óháð því hvernig staðan svo breytist. Það er klúður að lenda í klípu. En að vera svona compromised, það er failure. Við erum að feila. Við erum að feila feitt.