Klúður og klípa

14.10.2019 ~ 2 mín

Eins og stærð­fræð­ingur gerði frægt í ljóði er ekkert íslenskt orð til yfir failure. Þrot getur maður sagt í einhverju samhengi, mistök í öðru, og klúður kemst kannski næst því svona almennt. En það er eitt­hvað krútt­legt við klúður, og sjálf­tekið ábyrgð­ar­leysi: failure heitir það þegar eitt­hvað tókst alls ekki, óháð ástæðum, en klúður felur í sér að einhver hafi viljað vel en því miður bara ekki tekist nógu vel til.

Mig rámaði í þetta þegar ég var að leita að íslensku orði yfir það sem á ensku er kallað að vera compromised, nánar tiltekið morally eða ethically compromised. Dæmi um slíka stöðu blasir við nú eftir að Banda­ríkja­her sveik Kúrda í hendur Tyrk­lands: Evrópa hreyfir sig ekki gegn Tyrklandi, meðal annars vegna samkomu­lags við Erdogan, frá 2016, um að Tyrkir haldi sýrlensku flótta­fólki frá Evrópu. Erdogan hótar því nú að ef evrópsk stjórn­völd svo mikið sem kalla innrás­ina innrás eða hernámið hernám, þá muni hann rifta samkomu­lag­inu, opna hliðin og hleypa þeim sem vilja áfram til Evrópu­landa. Evrópu­ríkin vilja það ekki, en þau vilja ekki heldur hafa hátt um að þau vilji það ekki, enda ekki siðferði­lega verj­andi. Þau virð­ast því hafa valið þann kost­inn að þegja. Svona tiltölu­lega eða rela­tíft – þau humma og ræskja sig en þau byrsta sig ekki. Og þar sem þau eru í þessu vafa­sama slag­togi á þessum vafa­sömu forsendum er gagn­rýni þeirra í garð Banda­ríkj­anna, fyrir að svíkja Kúrda, innantóm.

Sýnist mér.

Og til að tala um þetta væri gagn­legt að hafa orð á því hvað Evrópa er compromised í málinu (að Íslandi meðtöldu, þó að það sé auka­leik­ari hér). En skásta orðið sem ég finn í fljótu bragði er klípa. Þetta er þá meiri klípan sem Evrópa hefur komið sér í, jafn­vel algjör klípa. Við erum öll í klípu. Sem á eitt­hvað skylt við klúður, eitt­hvert krútt­legt ábyrgð­ar­leysi. Klúður og Klípa gætu verið persónur í Stund­inni okkar. Klípa er eitt­hvað sem maður vonar að fólk rati úr, maður vonar að klípur leys­ist. En klípur varða einhvern veginn aðal­lega þann sem lendir í þeim. Kompró­mæsið varðar fleiri, og gerir það frá upphafi, óháð því hvernig staðan svo breyt­ist. Það er klúður að lenda í klípu. En að vera svona compromised, það er failure. Við erum að feila. Við erum að feila feitt.