Veru­fræðin

16.10.2019 ~ 2 mín

Á dögunum var mér bent á að lesa René Girard, mann­fræð­ing sem lést fyrir nokkrum árum en hefur verið að trenda svolítið upp á síðkastið. Og ég held að það hafi verið í hans eigin texta, þó var það mögu­lega í viðtali við hann, sem minnst var á jóla­guð­spjallið, hvernig þar er vikið frá mann­tal­inu sem keis­ar­inn lét fara fram um þær mundir, beint inn í hlöð­una þar sem ung, eigna­laus kona fæðir barn. Og hann benti á bíóið, klipp­ing­una hér, frá þessu víða skoti af hinu opin­bera mann­tali keis­ar­ans yfir í nærmynd af þátt­tak­endum í þessum einka­við­burði, og sagði eða skrif­aði eitt­hvað á þá leið að þetta væri hið mikil­væg­asta, að veita því athygli og leggja rækt við það í tilver­unni sem heimsveldið kemur ekki auga á.

Mér skilst að Girard hafi ekki alls­kostar verið neinn komm­ún­isti en eitt­hvað alveg hlið­stætt hefur þó komm­ún­ist­inn Alain Badiou sagt, franskur heim­spek­ingur sem enn er á lífi, að ég best veit, um hlut­verk lista: að gefa gaum að og leggja rækt við það sem heimsveldið kemur ekki auga á. – Ég fann línuna, hún var svona (í þýðingu sem birt­ist einhvern tíma einhvers staðar): „Í dag er aðeins hægt að gera list frá upphafs­reit þess sem, hvað heimsveldið varðar, er ekki til“. Hann hefur annað heimsveldi í huga, en það hefur Girard svosem líka, báðir tala til samtíma síns. Við getum allt eins kallað það hið opinbera.

Í gær hlustaði ég á upptöku af ræðu sem Leon­ard Cohen flutti þegar hann tók á móti verð­launum á Spáni fyrir höfund­ar­verk sitt, árið 2011. Ég hafði ekki heyrt hana áður. Þetta er falleg ræða, eins og búast mátti við – ég myndi kalla hana hjart­næma ef ekki væri löngu búið að tuska það orð til. Þar segir Cohen frá þakk­ar­skuld­inni sem hann standi í við Spán, fyrst fyrir skáldið Lorca, síðan fyrir mann­inn sem kenndi honum að leika á gítar. Og þegar hann segir frá því sem hann vill þakka Lorca, leyfið til að finna rödd kallar hann það, þá bætir hann því við að rödd­inni hafi fylgt leið­bein­ingar, eða fyrir­mæli. Þau hafi verið þessi: „never to lament casually“. Að barma sér aldrei billega.

Það er nótt og þessar línur, tvær eða þrjár, fannst mér sýna einhvern vilja eða tilhneig­ingu til að leika saman. En ég kann ekki við að þvinga þær nær hver annarri hér og nú, það er nóg að kynna þær, eigi þær erindi hver við aðra ráða þær fram úr því sjálfar.