Alþjóð­legu fáfengileikarnir

13.12.2019 ~ 5 mín

Netpúsl: Kirill Medvedev heitir rúss­neskt ljóð­skáld, póli­tískt skáld, hérumbil jafn­aldri minn, held ég. Eftir að hríf­ast af ritgerð sem ég las frá honum, fyrst, síðar nokkrum ljóðum sem birst hafa í enskum þýðingum, hef ég lagt mig eftir að vita af því sem hann lætur frá sér. Fyrir einhverjum árum síðan sagð­ist hann vera hættur að birta á prenti, hann myndi þaðan í frá aðeins birta texta á netinu. Þá hefur hann afsalað sér höfund­ar­rétti eða sæmd­ar­rétti eða hvað sem maður kallar tilkall skálds til að ráða yfir þýðingum og birt­ingu texta sinna – í krafti þess allsherjar(ó)leyfis kom út bók með enskum þýðingum ljóða hans, árið 2012, It’s No Good. Fitzcarr­aldo Editi­ons gáfu út, þýðandi og ritstjóri er Keith Gessen og ég mæli með ritinu. Eins og svo margt sem hefur rekið á fjörur mínar gegnum tíðina finnst mér þetta órafjarri mér í dag – en þegar ég fletti í gegnum það núna rámar mig í – ég finn lykt­ina af – gamalli uppgötvun. Gömlum nýmælum. Það er eitt­hvað í því hvernig honum er alvara og um hvað honum er alvara sem er fágætt.

En þar sem Medvedev lætur nú annars aðal­lega, eða eingöngu, frá sér texta netleiðis felst það að fylgj­ast með verkum hans – að því er ég best veit – í því að fylgja honum á Face­book. Svo það geri ég, ég fylgi honum á Face­book. Og endrum og eins stingur upp koll­inum færsla frá honum, á færi­band­inu mínu. Færsl­urnar eru líklega alltaf á rúss­nesku, ég man ekki eftir öðru, en þýðing­ar­vél Face­book er ágæt. Í kvöld smellti ég á þýðinga­hnapp­inn undir texta sem Medvedev birti við mynd af Jeremy Corbyn á göngu með nokkrum félögum í Verka­manna­flokknum. Og hnapp­ur­inn þýddi:

„The man who carried the ideas of Tony Benn and the left, extremely ideological social­ists through the thatcher­ist 80 s, major 90 s and blar­ist 00 s, who waited for his hour in 2017, obvi­ously knows how to wait well and firmly To believe.

Many of his acti­vities as leader were dedica­ted to the preparation of ” plan b ” so that in case of failure, no one could come and rewrite the canons, creating a new ” new ” new labour “, inflata­ble and empty inside.

Grand­fat­her also distri­bu­ted the keys to the kingdom to ordin­ary mortals — after the change of internal rules, the parlia­ment­ary party no longer controls the “big” Labour Party, on the contr­ary, it is accounta­ble to it.

Now not two hundred or three hundred deputies sitt­ing in the West­minster Ivory Tower are consi­d­ered the main and most valua­ble — and the mass movement from below. The party has grown from 200 000 to 500 000 people in the past five years.

Now this call should make a trans­fer of power if you call things with your names “.“

Það sem skilar sér gegnum þýðing­ar­vél­ina segir mér meira um hvað Corbyn hefur verið að aðhaf­ast eftir að hann tók við formennsku í Verka­manna­flokknum en flest sem ég hef rekist á í breskum fjöl­miðlum – að því gefnu að hér sé rétt farið með. Að Corbyn hafi, sem formaður, lagt áherslu á tilfærslu valds­ins innan flokks­ins, frá þing­flokki til almennra félags­manna, þannig að þing­flokk­ur­inn leggi ekki lengur línuna sem flokks­menn hreyfi sig eftir heldur öfugt: þing­flokk­ur­inn standi fyrir svörum gagn­vart breið­fylk­ing­unni. Á sama tíma hafi flokks­með­limum fjölgað úr 200 þúsund í 500 þúsund. Það er ekki fjar­stæðu­kennt að þetta geti reynst vinstr­inu mikil­væg­ara, til lengri tíma litið, en úrslit kosn­inga hér og nú.

En þá að púsl­inu: undir færsl­una skrif­aði Medvedev, í þýðingu Face­book-hnapps­ins: „From Wheat Fields of Theresa May TG channel“. Sem ég leit­aði að í von um að finna þá uppruna­lega text­ann sem hvarfl­aði að mér að væri jafn­vel á ensku. Svo var ekki.

Wheat Fields of Theresa May reynd­ist vera heitið á rás eða herbergi í samskiptakerfinu/spjallappinu Telegram. Að því er ég best fæ séð fara öll samskip þar fram á rúss­nesku. Án þess að hafa þýtt neitt fleira þaðan geri ég ráð fyrir, í ljósi yfir­skrift­ar­innar, að viðfangs­efni rásar­innar séu bresk stjórn­mál. En hvers vegna ræða 1.586 Rússar bresk stjórn­mál undir yfir­skrift­inni hveitiakrar Theresu May?

Hveitiakrar Theresu May reyn­ast, við gúglun, vísa til tveggja frétta. Í fyrsta lagi til viðtals sem tekið var við Theresu May, þá forsæt­is­ráð­herra, sumarið 2017. Í viðtal­inu var hún spurð hvað væri mesta óþekkt sem hún hefði gerst sek um: „What’s the naug­htiest thing you ever did?“. Jidúdda­mía, svar­aði forsæt­is­ráð­herr­ann, eða „oh, good­ness me“ á frum­mál­inu, og sagð­ist síðan hafa hlaupið gegnum hveitiakra, bændum til nokk­urs ama: „I have to confess, when me and my friend, sort of, used to run through the fields of wheat, the farmers weren’t too plea­sed about that“.

Hin fréttin birt­ist þremur vikum síðar, þegar Jeremy Corbyn var boðið að halda ræðu á Glast­on­bury tónlist­ar­há­tíð­inni. Í viðtali við blaða­mann NME, baksviðs, sagð­ist hann aðspurður aldrei hafa hlaupið gegnum hveitiakra, til þess væri hann alltof ábyrgur borg­ari. Hann bætti því við að sem barni hefði honum verið kennt hvernig ganga beri um akra til að skemma ekki uppsker­una, og sagð­ist hneyksl­aður á að nokkrum dytti viðlíka athæfi í hug. Að öllu saman­lögðu virð­ist óhætt að álykta að þetta hafi Corbyn sagt sposkur ef það er nothæf þýðing á tongue-in-cheek.

Þessar þannig séð hvers­dags­legu alþjóða­væddu írón­íu­trillur eru það mark­verð­asta sem varð á vegi mínum í dag. Nei, það er ekki satt, en þær eru það sem helst er í frásögur færandi – hitt allt, öll atvik dags­ins, voru ýmist of fáfengi­leg, jafn­vel sjálf­sögð, á allra vörum hvort eð er eða einka­mál. Sum atvik tilheyrðu fleiri en einum þess­ara flokka, ekkert tilheyrði þeim öllum.