Netpúsl: Kirill Medvedev heitir rússneskt ljóðskáld, pólitískt skáld, hérumbil jafnaldri minn, held ég. Eftir að hrífast af ritgerð sem ég las frá honum, fyrst, síðar nokkrum ljóðum sem birst hafa í enskum þýðingum, hef ég lagt mig eftir að vita af því sem hann lætur frá sér. Fyrir einhverjum árum síðan sagðist hann vera hættur að birta á prenti, hann myndi þaðan í frá aðeins birta texta á netinu. Þá hefur hann afsalað sér höfundarrétti eða sæmdarrétti eða hvað sem maður kallar tilkall skálds til að ráða yfir þýðingum og birtingu texta sinna – í krafti þess allsherjar(ó)leyfis kom út bók með enskum þýðingum ljóða hans, árið 2012, It’s No Good. Fitzcarraldo Editions gáfu út, þýðandi og ritstjóri er Keith Gessen og ég mæli með ritinu. Eins og svo margt sem hefur rekið á fjörur mínar gegnum tíðina finnst mér þetta órafjarri mér í dag – en þegar ég fletti í gegnum það núna rámar mig í – ég finn lyktina af – gamalli uppgötvun. Gömlum nýmælum. Það er eitthvað í því hvernig honum er alvara og um hvað honum er alvara sem er fágætt.
En þar sem Medvedev lætur nú annars aðallega, eða eingöngu, frá sér texta netleiðis felst það að fylgjast með verkum hans – að því er ég best veit – í því að fylgja honum á Facebook. Svo það geri ég, ég fylgi honum á Facebook. Og endrum og eins stingur upp kollinum færsla frá honum, á færibandinu mínu. Færslurnar eru líklega alltaf á rússnesku, ég man ekki eftir öðru, en þýðingarvél Facebook er ágæt. Í kvöld smellti ég á þýðingahnappinn undir texta sem Medvedev birti við mynd af Jeremy Corbyn á göngu með nokkrum félögum í Verkamannaflokknum. Og hnappurinn þýddi:
„The man who carried the ideas of Tony Benn and the left, extremely ideological socialists through the thatcherist 80 s, major 90 s and blarist 00 s, who waited for his hour in 2017, obviously knows how to wait well and firmly To believe.
Many of his activities as leader were dedicated to the preparation of ” plan b ” so that in case of failure, no one could come and rewrite the canons, creating a new ” new ” new labour “, inflatable and empty inside.
Grandfather also distributed the keys to the kingdom to ordinary mortals — after the change of internal rules, the parliamentary party no longer controls the “big” Labour Party, on the contrary, it is accountable to it.
Now not two hundred or three hundred deputies sitting in the Westminster Ivory Tower are considered the main and most valuable — and the mass movement from below. The party has grown from 200 000 to 500 000 people in the past five years.
Now this call should make a transfer of power if you call things with your names “.“
Það sem skilar sér gegnum þýðingarvélina segir mér meira um hvað Corbyn hefur verið að aðhafast eftir að hann tók við formennsku í Verkamannaflokknum en flest sem ég hef rekist á í breskum fjölmiðlum – að því gefnu að hér sé rétt farið með. Að Corbyn hafi, sem formaður, lagt áherslu á tilfærslu valdsins innan flokksins, frá þingflokki til almennra félagsmanna, þannig að þingflokkurinn leggi ekki lengur línuna sem flokksmenn hreyfi sig eftir heldur öfugt: þingflokkurinn standi fyrir svörum gagnvart breiðfylkingunni. Á sama tíma hafi flokksmeðlimum fjölgað úr 200 þúsund í 500 þúsund. Það er ekki fjarstæðukennt að þetta geti reynst vinstrinu mikilvægara, til lengri tíma litið, en úrslit kosninga hér og nú.
En þá að púslinu: undir færsluna skrifaði Medvedev, í þýðingu Facebook-hnappsins: „From Wheat Fields of Theresa May TG channel“. Sem ég leitaði að í von um að finna þá upprunalega textann sem hvarflaði að mér að væri jafnvel á ensku. Svo var ekki.
Wheat Fields of Theresa May reyndist vera heitið á rás eða herbergi í samskiptakerfinu/spjallappinu Telegram. Að því er ég best fæ séð fara öll samskip þar fram á rússnesku. Án þess að hafa þýtt neitt fleira þaðan geri ég ráð fyrir, í ljósi yfirskriftarinnar, að viðfangsefni rásarinnar séu bresk stjórnmál. En hvers vegna ræða 1.586 Rússar bresk stjórnmál undir yfirskriftinni hveitiakrar Theresu May?
Hveitiakrar Theresu May reynast, við gúglun, vísa til tveggja frétta. Í fyrsta lagi til viðtals sem tekið var við Theresu May, þá forsætisráðherra, sumarið 2017. Í viðtalinu var hún spurð hvað væri mesta óþekkt sem hún hefði gerst sek um: „What’s the naughtiest thing you ever did?“. Jidúddamía, svaraði forsætisráðherrann, eða „oh, goodness me“ á frummálinu, og sagðist síðan hafa hlaupið gegnum hveitiakra, bændum til nokkurs ama: „I have to confess, when me and my friend, sort of, used to run through the fields of wheat, the farmers weren’t too pleased about that“.
Hin fréttin birtist þremur vikum síðar, þegar Jeremy Corbyn var boðið að halda ræðu á Glastonbury tónlistarhátíðinni. Í viðtali við blaðamann NME, baksviðs, sagðist hann aðspurður aldrei hafa hlaupið gegnum hveitiakra, til þess væri hann alltof ábyrgur borgari. Hann bætti því við að sem barni hefði honum verið kennt hvernig ganga beri um akra til að skemma ekki uppskeruna, og sagðist hneykslaður á að nokkrum dytti viðlíka athæfi í hug. Að öllu samanlögðu virðist óhætt að álykta að þetta hafi Corbyn sagt sposkur ef það er nothæf þýðing á tongue-in-cheek.
Þessar þannig séð hversdagslegu alþjóðavæddu íróníutrillur eru það markverðasta sem varð á vegi mínum í dag. Nei, það er ekki satt, en þær eru það sem helst er í frásögur færandi – hitt allt, öll atvik dagsins, voru ýmist of fáfengileg, jafnvel sjálfsögð, á allra vörum hvort eð er eða einkamál. Sum atvik tilheyrðu fleiri en einum þessara flokka, ekkert tilheyrði þeim öllum.