Hagnýtt gildi ritningarversa

08.12.2019 ~ 1 mín

Jæja … ég tók aðeins til hér og fegr­aði, held ég. Dagur­inn var laug­ar­dag­ur­inn 7. desem­ber, klukkan er alltof margt aðfaranótt sunnu­dags. Og daga­talið, það er orðið hræði­lega margt líka. Allar þekktar tíma­ein­ingar líða of hratt – við bindum vonir okkar við ímynd­aðan tíma, að í kvaðr­at­rót­inni af neikvæðri klukku­stund ljúk­ist upp óend­an­leik­inn sem vantar hérna.

Ég á ekkert vantalað við ykkur hér og nú og hef engar fréttir að færa – þessi færsla er bara til að heilsa nýja umbrot­inu og/eða kveðja nótt­ina. En kveðjum nótt­ina með þjóð­legum fróð­leik: orðið „spill­ing“ birt­ist fyrst á prenti, samkvæmt ritmálssafni Árna­stofn­unar, í Nýja­testa­ment­is­þýð­ingu Odds Gott­skálks­sonar, um miðja 16. öld: „til huers er þessi smyrsla spill­ing gjor“ spyrja þar menn – í nýrri þýðingu: „Til hvers er þessi sóun á smyrslum?“ Markús 14:4 heitir versið þar sem menn gerast gramir yfir því að „ómeng­uðum, dýrum narduss­myrslum“ sé sóað til að gleðja Jesúm, þegar þau hefði mátt selja fyrir fullt af pening og gefa fátækum. Þessar ávirð­ingar þekkja allir aðdá­endur söng­leiks­ins Jesus Christ Super­star – og svar frels­ar­ans: „Látið hana í friði! Hvað eruð þið að angra hana? Gott verk gerði hún mér. Fátæka hafið þið jafnan hjá ykkur og getið gert þeim gott nær þið viljið en mig hafið þið ekki ávallt.“

Þetta er heldur vannýtt ritn­ing­ar­vers sem gæti áreið­an­lega komið í góðar þarfir hverjum þeim sem verður uppvís að sér yndis­auk­andi, óhóf­legu arðráni.