Bylt­ing­ar­varnir

11.12.2019 ~ 2 mín

Hvað ef ég tæki upp á sömu ritræpu hér og ég hef átt til á Face­book? Hvað er unnið með því og hvað tapað? Nú eru þegar liðin ár og öld síðan ég hef nennt – þetta er lykil­orð, að nenna – ár og öld síðan ég hef nennt að elta ólar við komm­enta­þræði. Þið talið öll svo hratt!

Ég beiti því kannski til afsök­unar á þess­ari félags­styggð að ég var að einhverju leyti alinn upp innan heim­speki­deilda og heim­speki er einmitt ekki samtal, fyrst og fremst, heldur eintal. Eða segjum að þolgæði heim­spek­innar fyrir eintali sé tölu­vert meira en gengur og gerist á vett­vangi orða. Einn maður lætur frá sér 200 blað­síðna yrðingu og er ekki svarað af viti fyrr en áratugum síðar með 300 blað­síðna yrðingu. Þetta kemst enginn upp með yfir kaffi­bolla og væri ekki heldur vel séð á Facebook.

Ekki þar fyrir að ég lumi á neinu af því kali­beri – eða að inntak einnar einustu blogg­færslu hér verði bein­línis heim­speki­legt. Ég á ekki við það, heldur formið, vanann: eins þau orð sem hafa hérumbil ekkert inntak,  röflið sem ég tek stundum í misgripum fyrir sál, jafn­vel þau þyrstir í þetta svig­rúm. Að þurfa ekki að láta eins og þau séu að bíða eftir svari.

Ófélags­lynd­ustu orðin. Þau fá sitt pláss hér. Hvað sem þau vilja svo gera við það.

Sem var ekki það sem mér lá á hjarta – þetta var aðeins hálfafsak­andi undan­fari færslu, í ljósi þess að ég hef þegar látið frá mér annað smáræði um ekkert hér í kvöld. Það sem mér lá hins vegar á hjarta er ábend­ing sem mér barst og er ljúft og skylt að bera áfram: Einar bróðir minn benti mér fyrir allnokkru síðan á podcast – hlað­varp – sem heitir einfald­lega Revoluti­ons. Mike Duncan heitir áhuga­mað­ur­inn sem þar rekur sögu helstu bylt­inga heims­ins, ítar­lega og vel. Ég byrj­aði á frönsku bylt­ing­unni og entist rétt fram yfir þermidor, þegar Robespierre var færður undir fallöx­ina. Eftir það taka við lýsingar á stríðs­átökum milli landa, þar sem ég missti þráð­inn – en þá hafði frásögnin líka varað í um 40 þætti, hátt í 20 klukku­stundir hugsa ég. Duncan vinnur góða heim­ilda­vinnu, er fyrsta flokks sögu­maður, með þýða rödd og blæbrigðaríka.

Hér er síða þátt­anna en annars finnst þetta hvar sem þú sækir yfir­leitt hlað­vörpin þín. Mitt app benti mér á meðmæli frá þing­manni Pírata, sem þakk­aði þátta­gerð­ar­mann­inum fyrir saman­tekt­irnar og sagði mikil­vægt fyrir þing­menn eins og hann að kynn­ast sögu bylt­inga – til að vita hvernig megi afstýra þeim. Þætt­irnir eru hlut­lausir að því leyti, annað fólk gæti dregið af þeim annan lærdóm.