Hvað ef ég tæki upp á sömu ritræpu hér og ég hef átt til á Facebook? Hvað er unnið með því og hvað tapað? Nú eru þegar liðin ár og öld síðan ég hef nennt – þetta er lykilorð, að nenna – ár og öld síðan ég hef nennt að elta ólar við kommentaþræði. Þið talið öll svo hratt!
Ég beiti því kannski til afsökunar á þessari félagsstyggð að ég var að einhverju leyti alinn upp innan heimspekideilda og heimspeki er einmitt ekki samtal, fyrst og fremst, heldur eintal. Eða segjum að þolgæði heimspekinnar fyrir eintali sé töluvert meira en gengur og gerist á vettvangi orða. Einn maður lætur frá sér 200 blaðsíðna yrðingu og er ekki svarað af viti fyrr en áratugum síðar með 300 blaðsíðna yrðingu. Þetta kemst enginn upp með yfir kaffibolla og væri ekki heldur vel séð á Facebook.
Ekki þar fyrir að ég lumi á neinu af því kaliberi – eða að inntak einnar einustu bloggfærslu hér verði beinlínis heimspekilegt. Ég á ekki við það, heldur formið, vanann: eins þau orð sem hafa hérumbil ekkert inntak, röflið sem ég tek stundum í misgripum fyrir sál, jafnvel þau þyrstir í þetta svigrúm. Að þurfa ekki að láta eins og þau séu að bíða eftir svari.
Ófélagslyndustu orðin. Þau fá sitt pláss hér. Hvað sem þau vilja svo gera við það.
Sem var ekki það sem mér lá á hjarta – þetta var aðeins hálfafsakandi undanfari færslu, í ljósi þess að ég hef þegar látið frá mér annað smáræði um ekkert hér í kvöld. Það sem mér lá hins vegar á hjarta er ábending sem mér barst og er ljúft og skylt að bera áfram: Einar bróðir minn benti mér fyrir allnokkru síðan á podcast – hlaðvarp – sem heitir einfaldlega Revolutions. Mike Duncan heitir áhugamaðurinn sem þar rekur sögu helstu byltinga heimsins, ítarlega og vel. Ég byrjaði á frönsku byltingunni og entist rétt fram yfir þermidor, þegar Robespierre var færður undir fallöxina. Eftir það taka við lýsingar á stríðsátökum milli landa, þar sem ég missti þráðinn – en þá hafði frásögnin líka varað í um 40 þætti, hátt í 20 klukkustundir hugsa ég. Duncan vinnur góða heimildavinnu, er fyrsta flokks sögumaður, með þýða rödd og blæbrigðaríka.
Hér er síða þáttanna en annars finnst þetta hvar sem þú sækir yfirleitt hlaðvörpin þín. Mitt app benti mér á meðmæli frá þingmanni Pírata, sem þakkaði þáttagerðarmanninum fyrir samantektirnar og sagði mikilvægt fyrir þingmenn eins og hann að kynnast sögu byltinga – til að vita hvernig megi afstýra þeim. Þættirnir eru hlutlausir að því leyti, annað fólk gæti dregið af þeim annan lærdóm.