Þessum áratug hinna miklu misbresta lýkur á lúmskum gleðitíðindum: rannsókn sem birtist í PNAS 6. desember en rataði ekki í aðra fjölmiðla fyrr en nú, nokkrum vikum síðar: á Íslandi sást lundi beita priki til að klóra sér. Hann er þá fyrsti sjófuglinn sem staðinn er að beitingu verkfæra, og fyrsta skepnan til viðbótar við prímata og fíla sem staðinn er að beitingu verkfæris í þessu augnamiði: að klóra sér. Þannig fjölgaði ekki aðeins í félagatali þessa klúbbs, klúbbs þeirra sem hafa klórað sér með priki, heldur einnig í klúbbi þeirra sem eru þróunarsögulega í stakk búin til að taka við af okkur, mannöpunum, ef við klúðrum okkar tækifæri jafn gjörsamlega og stefnir stundum í. Lífið spjarar sig, lundinn er næstur.
Það verður þó nokkru eftir okkar dag. Frá fyrstu ummerkjum um tækjanotkun forvera okkar til dagsins í dag, frá klóru til snjallsíma, liðu 2,8 milljónir ára. Og lundinn er ekki einu sinni með þumal, svo hann gæti verið lengur að bagsa þetta.
Klukkan er orðin heldur margt – mig langar að gera þetta einhvern veginn upp allt saman, pakka þessum áratug saman, hefja nýjan, en það gerist ekki hér og nú. Ég get þó reynt að greiða skuldir sem ég safnaði upp, með þögninni einni, á árinu.
Ein slík skuld er fyrir greinar ársins. Tvær greinar þóttu mér framúrskarandi en hef ekki minnst á áður. Í báðum lögðu höfundar sjálfa sig að nokkru leyti að veði til að koma mikilvægu viðfangsefni að í stóra samtalinu eða gera sýnilegt nokkuð sem þarf að sjást en enginn vill, hefðinni samkvæmt, láta sjást á sér. Stétt, fátækt, basl. Þann 5. febrúar birtist í Stundinni greinin „Þegar ég trúði því að ég væri í millistétt“ eftir Ölmu Mjöll Ólafsdóttur. 18. júní (daginn eftir 75 ára afmæli lýðveldisins sem fór fram hjá nær öllum nema varaforseta Bandaríkjanna) birtist í sama miðli greinin „Glerborg blankheitanna“ eftir Ásgeir H. Ingólfsson. Alma segir, í sinni grein, frá þeirri uppgötvun að hún hafi ekki fæðst í sömu millistétt og flestir sem hún umgengst, heldur í verkalýðsstétt. Ásgeir ræðir um fallið úr millistétt í fátæktarbasl. Ég hefði viljað taka ofan fyrir þeim báðum fyrr á árinu – en hér er loks minn ímyndaði hattur.
Ég læt þetta duga í dag, legg mig svo eftir að greiða aðrar skuldir eftir því sem verða vill, á meðan ég safna óhjákvæmilega nýjum. Þannig virkar velta. Vöggum og veltum inn í nýtt ár, nýjan tug, næsta rugl. Völvan segir: margt mun gerast. Og hún segir líka að hvað muni gerast velti að einhverju leyti á því hvort við þorum að segja til okkar. Eins og Alma og Ásgeir. Hún segir að án þess hafi bófarnir áfram yfirhöndina. Og þá styttist í að lundinn taki við, leysi okkur öll, bókstaflega, af hólmi.