Læsi sem dómgreind

14.12.2019 ~ 11 mín

Tvö sjón­ar­mið virð­ast uppi um lestur og læsi í umræð­unni sem hófst þegar niður­stöður PISA-könn­un­ar­innar birt­ust. Annars vegar lestur í þeirri merk­ingu að bera kennsl á bókstafi og orð, geta stautað sig fram úr þeim og meðtekið merk­ingu heilla setn­inga. Þetta virð­ist kallað að „lesa sér til gagns“. Hins vegar lestur í þeirri merk­ingu að njóta þess að lesa bækur, njóta bókmennta, helst fagur­bók­mennta. Að lesa sér ekki til gagns heldur gamans, mætti þá segja, með veru­legri einföldun og skír­skotun til gamallar lestrarbókar.

Hvort tveggja kemur við sögu en fer þó á mis, sýnist mér, við það sem prófað er í PISA-könn­un­inni. Prófið sem lagt var fyrir nemendur er aðgengi­legt hér, á ensku og frönsku og hér á öðrum málum – en reyndar hafa aðeins tveir hlutar þess af fimm verið birtir á íslensku.

Í fljótu bragði virð­ist ekkert út á þýðing­arnar að setja – þær eru liprar, hæfa samheng­inu, stað­færslur virð­ast hæfi­legar. „Chicken Forum“ verður „Spjallsíða um kjúk­linga“ og notand­inn Ivana_88 verður Inga_88. Þegar Monie skrifar, á enska spjallsvæðinu:

„I gave an aspirin to one of my hens when she was hurt. There was no problem. The next day I went to the vet but she was already better. I think it might be dangerous if you give too much, so don’t exceed the dose limits! I hope she feels better!“

– skrifar María á því íslenska:

„Ég gaf einni hænunni minni aspi­rín þegar hún meidd­ist. Það var ekkert vanda­mál. Daginn eftir fór ég til dýra­lækn­is­ins en hún var strax orðin betri. Ég held að það gæti verið hættu­legt að gefa henni of mikið, svo þú skalt ekki gefa stærri skammt en er hámark! Ég vona að henni líði betur!“

Avian_Deals ryðst inn í samræð­una til að segja: „Hi! Don’t forget to check out my super low deals on all bird supp­lies. I’m having a great sale right now!“ Í íslenska próf­inu heitir notand­inn Tilboð_Fuglavörur og minnir á sig með þessum orðum: „Hæ! Ekki gleyma að athuga frábæru tilboðin mín á öllum fugla­vörum. Núna er ég með risaútsölu!“

Þessar útgáfur virð­ast í stuttu máli mjög sambæri­legar. En hvað er verið að prófa hér, hvers konar textar eru þetta?

Er mjólk góð?

Lestr­ar­könnun PISA skipt­ist í fimm hluta. Einn þeirra má segja að fari næst því að prófa læsi í þrengsta skiln­ingi. Þeim hluta var bætt við prófið, árið 2018, til að kanna leshraða þeirra nemenda sem lakast standa. Þar eru eins konar hraða­spurn­ingar á ferð, um stakar setn­ingar, sem nemand­anum ber að svara hvort „meika sens“ eða ekki. Make sense er enska orða­lagið, auðvitað, í íslensku útgáf­unni hefur líklega þurft að spyrja hvort setn­ing­arnar eru skilj­an­legar eða merk­ing­ar­bærar. Til að gera nemand­anum ljóst hvað er átt við með að setn­ing sé skilj­an­leg eru tekin örfá dæmi: Rétt svar við setn­ing­unni The red car had a flat tire er já, hún meikar sens, enda ljóst hvað það þýðir að rauður bíll sé með sprungið dekk. Rétt viðbragð við setn­ing­unni Airpla­nes are made of dogs, eða Flug­vélar eru gerðar úr hundum, er hins vegar nei, að hún meiki ekki sens. Nú þætti það ekki svo afdrátt­ar­laust í skáld­skap eða innan heim­speki, en gott og vel – af þessum dæmum á nemand­anum að vera ljóst að öll vitleysa skuli flokkuð sem bull en hitt ekki.

Aðrir hlutar prófs­ins grund­vall­ast á víðari hugmynd um læsi. Einn fimmt­ungur byggir á lestri spjall­borðs­ins sem vitnað er í að ofan, þar sem notendur svara ýmist vel, illa eða ekki spurn­ingu Ingu_88 um hvort óhætt er að gefa kjúk­lingum aspi­rín. Annar fimmt­ungur byggir á lestri ólíkra texta um Páska­eyju: þar birt­ist blogg­færsla prófess­ors á ferða­lagi um eyjuna, komm­ent við blogg­færsl­una, og ritrýnd vísinda­grein. Þriðji hluti prófs­ins snýst um yfir­lýs­ingu frá hags­muna­sam­tökum mjólk­ur­búa, um holl­ustu kúamjólkur, ásamt grein blaða­manns sem er harð­lega andsnú­inn mjólk­ur­neyslu. Fjórði hluti prófs­ins byggir á textum sem eru sagðir „í vinnslu“, en nemandinn hefur fengið í hend­urnar sem efni­við til að hanna upplýs­inga­síðu um Galapagos-eyjar.

Í fjórum af fimm hlutum prófs­ins er nemendum þannig gerð grein fyrir samhengi text­ans sem lagður er fyrir, hvernig hann birt­ist eða barst lesand­anum. Læsi þýðir í öllum þessum tilfellum ekki aðeins læsi á orðin sem þarna standa, heldur áreið­an­leika þeirra og ásetn­ing­inn að baki.

Lestur sem úrvinnsla upplýsinga

Þegar lesinn er inngangur að spurn­ingum prófs­ins, kemur enda í ljós að þeim er ætlað að kanna tök nemenda á þremur ferlum sem hér eru lögð til grund­vallar hugtak­inu læsi: bera kennsl á upplýs­ingar, að skilja, og að leggja mat á og ígrunda (snarað úr ensku: „Locate information, Under­stand, and Evaluate and Reflect“).

Fyrsti þátt­ur­inn, að bera kennsl á upplýs­ingar, felst í að geta sótt afmark­aðar upplýs­ingar í lengri texta, hvort sem þær felast í nokkrum orðum, setn­ingum eða talna­gögnum, ásamt því að geta leitað gegnum nokkra texta að þeim sem helst varðar upplýs­ing­arnar sem sóst er eftir.

Annar þátt­ur­inn, skiln­ingur, felst ekki aðeins í bókstaf­legum skiln­ingi setn­inga, heldur að geta dregið frek­ari álykt­anir, bæði af stökum setn­ingum og fjölda þeirra. Ennfremur er athugað hvort nemandinn getur skapað grund­vall­ar­hug­mynd – á íslensku væri þó venja að tala um að móta hugmynd frekar en skapa hana – hvort nemandinn getur sjálfur byggt grund­vall­ar­hug­mynd á brota­kennd­ari texta, dregið saman kjarnyrta hugmynd sem myndi þá til dæmis hæfa í fyrir­sögn. Loks er í skiln­ings­hlut­anum athugað hvort nemandi getur dregið álykt­anir út frá fjölda heim­ilda, það er borið saman gögn sem birt­ast í fleiri en einum texta og unnið úr þeim.

Þriðja þætti þess læsis sem kannað er í PISA-könn­un­inni, þeim sem snýst um að meta og ígrunda texta, er loks skipt í þrjá undir­liði. Kannað er hversu hæfur nemandi er til að leggja mat á gæði og trúverð­ug­leika texta, meta hvort upplýs­ingar sem þar birt­ast telj­ast „gildar, uppfærðar, nákvæmar, óvil­hallar, áreið­an­legar o.s.frv.“. Hér þarf lesand­inn að leggja mat á uppruna upplýs­ing­anna, taka bæði form og inni­hald til greina, og hvernig höfundur text­ans kemur máli sínu frá sér. Þá er könnuð geta nemandans til að gera sér grein fyrir því hvað form text­ans eða snið segir um tján­ing­ar­máta höfundar. Þessi liður krefur nemandann, segir í inngangi, um að máta text­ann við eigin þekk­ingu og reynslu af ólíkum sjón­ar­miðum. Í þriðja lagi felst mat og ígrundun texta, samkvæmt próf­inu, í getu nemanda til að bera kennsl á og greiða úr átökum: að hvaða leyti ólíkir textar styðja hver annan, að hvaða leyti þeir eru í mótsögn hver við annan og hvernig megi greiða úr stað­hæf­ingum ef þær reyn­ast mótsagnakenndar.

Með öðrum orðum grund­vall­ast lestr­ar­hluti PISA-könn­un­ar­innar á hugtaki um læsi sem felur í sér dómgreind. Þar er athugað hversu færir nemendur eru í að beita dómgreind innan raun­hæfs, hvers­dags­legs textaum­hverfis – grisja hávaða frá upplýs­ingum, aðal­at­riði frá auka­at­riðum, meta áreið­an­leika heim­ilda og svo fram­vegis. Þessi spurn­ing um læsi snýst ekki um bókstafi og orð, heldur hæfni til að rata og þríf­ast á þeim vinda­sömu ruslahaugum orðanna sem þessi samtími okkar er. Ef svo má segja.

Ólæsi sem dómgreindarleysi

Nú veit ég næstum ekki neitt um skólastarf í samtím­anum – það kom mér nýverið í opna skjöldu að heyra að í grunn­skólum sé nú borinn fram matur, fólk geri jafn­vel kröfur um að sá matur sé hollur og góður. Ég veit ekkert hvað þarna fer fram, er ekki læs á skóla – en ég er þokka­lega læs á fjöl­miðla og nokkuð læs á suma samfé­lags­miðla. Kannski er flestum innan skól­anna full­kom­lega ljóst hvers konar læsi er kannað í PISA-könn­un­inni. En í minni sápu­kúlu, að minnsta kosti, hef ég ekki séð mikið um þetta fjallað: að þetta hugtak um læsi er samsett úr nokkrum þáttum, og að beit­ing dómgreindar hefur þar einna mest vægi. Það er sann­ar­lega brýnt að börn hafi úr góðum bókum að velja og læri að njóta þeirra. Og orða­forði – eflum hann. Absólútt. En eitt og sér er ég ekki viss um að þetta tvennt myndi duga til að kljást við vand­ann sem hér birt­ist eða bæta niður­stöður könn­un­ar­innar svo nokkru nemi.

Og jafn­vel – afsakið, en jafn­vel þvert á móti. Það sem á undan fór er varfærn­is­leg tilraun til að lesa prófið – það væru ýkjur að kalla það grein­ingu, mér sýnist það allt blasa við. En nú hætti ég mér til að leggja fram tilgátu. Þegar við njótum skáld­skapar, hvort sem er á sviði, í kvik­mynd eða í bók, föll­umst við á blekk­ingu. Á ensku er talað um suspension of disbelief. Ef til vill er ekki lang­sótt að kalla það frestun dómgreindar. Lista­verk og lesandi gera með sér samkomu­lag um þetta, að þú færð að njóta ferð­ar­innar svo lengi sem þú leggur ekki hvert orð eða hverja senu á vogar­skálar raunveruleikans.

Tilgátan er þessi: íslenskt samfé­lag hefur tilhneig­ingu til að verð­launa þá sem fresta dómgreind sinni, í þessum skiln­ingi, ekki aðeins við lestur skáld­skapar heldur í lífinu sjálfu. Þá ekki síst á opin­berum vett­vangi. Það hefur verið hvers­dags­legt skyldu­verk þeirra sem vilja taka þátt í íslensku samfé­lagi, ekki aðeins að fresta dómgreind sinni heldur útvista henni – að líta svo á að dómgreind sé best fyrir komið innan þartil­bærra embætta eða í höndum sérfræð­inga, en ekki hvers og eins okkar. Þessu vilja margir breyta, og sjá má ótal merki um slíkar tilraunir, í það minnsta síðast­lið­inn áratug. En það þykir enn heldur óforskammað að beita dómgreind á almanna­færi án umboðs eða leyfis. 

Þannig virt­ust það mér svolítil tíma­mót, á dögunum, þegar RÚV birti frétt undir fyrir­sögn­inni Dóms­mála­ráð­herra í mótsögn við sjálfa sig. Dóms­mála­ráð­herra hafði vissu­lega sagt bæði X og ekki‑X, í þessu tilfelli að dómur Mann­rétt­inda­dóm­stóls­ins um skipan Lands­réttar hefði mikið fordæm­is­gildi og að hann hefði ekki mikið fordæm­is­gildi. Að það rati í fyrir­sögn hjá RÚV er hins vegar óvenju­legt. Hefðin væri sú að í einni frétt segði ráðherr­ann X, í annarri ekki‑X. Í þriðju frétt­inni væri hugs­an­lega haft eftir þing­manni í stjórn­ar­and­stöðu að í því fælist mótsögn. Eða þá sérfræð­ingi – fund­inn væri lögfræð­ingur til að ræða um fordæm­is­gildi dóma eða siðfræð­ingur til að fjalla um sann­leika og lygi. Frétta­maður hefði aftur á móti látið sér nægja að bera hljóð­nema á milli þess­ara viðmæl­enda en eftir­látið þeim alla beit­ingu dómgreindar. Sú hefð er svo rótgróin að dómgreind­ar­leysi frétta­fólks er kallað hlut­leysi og haft til marks um fagmennsku. Hér stóðst hins vegar frétta­maður PISA-prófið, beitti eigin dómgreind, treysti henni, byggði frétt á henni.

Ólæsi sem valdatæki

Fjöldi frétta­fólks og blaða­manna berst um þessar mundir, dag frá degi, fyrir tilveru­rétti dómgreind­ar­innar. Þau eru þar í banda­lagi við stóran hluta almenn­ings. Valdið í land­inu reiðir sig hins vegar á viðvar­andi frestun og útvistun þess­arar getu. Um þetta skrif­aði raunar Þorgeir Þorgeir­son ítrekað, sem ólæsi yfir­vald­anna. Árið 2001 birti Morg­un­blaðið stystu grein Þorgeirs um fyrir­bærið, undir titl­inum Analfa­bet­is­mus regalis. Þar segir Þorgeir ólæsi löngum hafa verið „eitt helsta valda­tæki ráðandi stétta“ eða frá því farið var að skrifa niður laga­texta og annað ritmál. Með vaxandi lestr­arkunn­áttu almenn­ings hafi valda­stéttir þurft að hand­leika sama valda­tæki með öðrum hætti:

„hefðir eru lífseigar þegar valda­tæki eiga í hlut, eins og dæmin sanna, því oft hafa kúgun­ar­áhöldin lifað af róttækar bylt­ingar, sem fátt raunar drepa nema bylt­ing­ar­menn­ina sjálfa (svo valda­tækin gömlu fái svig­rúm í nýju formi).

Þannig er ólæsið enn þann dag í dag eitt helsta valda­tæki yfir­stétt­ar­innar, ekki ólæsi almenn­ings, sem nú orðið les eins og fara gerir, heldur verða sendi­tíkur valds­ins þá ólæsar á þá texta, sem ekki henta hags­munum ráðamannanna.“

Það er ekki hend­ing að Þorgeir var fyrsti maður­inn til að höfða mál gegn íslenska ríkinu fyrir Mann­rétt­inda­dóm­stólnum, flutti þar málið sjálfur og vann. Það er ekki hend­ing að hand­hafar hefð­ar­valds­ins á Íslandi þótt­ust þá ekkert skilja, lýstu furðu sinni á þessu öllu og sögð­ust hafa talið Mann­rétt­inda­sátt­mála Evrópu nokk­urn veginn samhljóða íslenskum mannasiðum frá land­námi. Öllu aðgangs­harð­ara gerist ólæsið ekki. Þorgeir var læs. Hann fékk að finna fyrir því en í þessu samhengi var hann um hríð, hugs­an­lega, eini læsi maður­inn á landinu.

Mig grunar að það ólæsi sem mælist í PISA-könn­un­inni hafi eitt­hvað að gera með þetta ólæsi, ólæsið sem valdið í íslensku samfé­lagi reiðir sig á, ólæsi í merk­ing­unni frestun eða útvistun dómgreindar. Ólæsi sem sú krafa að hvað sem orð svosem merkja þá skuli þau, þegar upp er staðið, helst ekki hafa neina þýðingu. Mig grunar að hefð­ar­valdið í samfé­lag­inu vinni gegn því, dag frá degi, leynt og ljóst, að almenn­ingur beri virð­ingu fyrir eigin dómgreind, sé læs í þeim skiln­ingi. Og mig grunar að það sé hæpið að gera ráð fyrir því að skóla­börn verði upp til hópa, í þessum skiln­ingi, mikið læsari en foreldrar þeirra og kenn­arar leyfa sér.

Geta íslenskra nemenda samkvæmt PISA-könn­un­inni hefur legið niður á við frá því hún var fyrst lögð fyrir, um alda­mót, með einni undan­tekn­ingu í öllum flokkum samtímis: árið 2009 jókst hæfni nemend­anna skyndi­lega. Síðan hrak­aði henni aftur. Það getur hugs­ast að þetta hafi með hagvöxt að gera: mikill erill í hagkerf­inu sé hrein­lega andsnú­inn bóklestri, þetta tvennt fari illa saman, allir lesi meira í niður­sveiflu, mest í kreppu. Þá túlkun mætti jafn­vel styðja með athug­unum PISA-könn­un­ar­innar á yndis­lestri ólíkra landa, þar sem börn virð­ast heldur lesa sér til ánægju eftir því sem lands­fram­leiðslan er lægri. Andspænis þess­ari hagrænu tilgátu má hins vegar leggja fram aðra enn póli­tísk­ari: að nei, læsi ungling­anna hafi skánað upp úr hruni vegna þess að almenn­ingur hafi þá, um hríð, neyðst til að reiða sig á eigin dómgreind. Síðan hafi bábiljur valds­ins aftur náð velli. Og dómgreind okkar enn verið slegið á frest.