Að nenna ekki að leita að fjarstýringunni.
Að vera of þreyttur, dasaður, slenaður, slæptur, lúinn, latur til að leita að fjarstýringunni. Það hafa áreiðanlega verið sagðir ótal brandarar um þessa senu og hversu fjarstæðukennd hún væri í augum allra forvera okkar á jörðu. Að nenna ekki að leita að fjarstýringunni þó að maður viti að hún sé sennilega einhvers staðar í sófanum, í sama sófanum og maður situr sjálfur í einmitt þá sömu stundina.
Hreyfingarnar sem við þurfum að inna af hendi til að hlutirnir okkar geri eins og fyrir þá er lagt eru sumar svo smáar, hlutirnir svo hlýðnir, að það er stundum tvísýnt, þegar upp koma þessar aðstæður, til dæmis, að fjarstýringin týnist, hvort maður bretti upp ermar og ómaki sig við að finna hana. Þetta gerist við og við og hefur gerst síðustu áratugi, á tugmilljónum heimila, á hundruðum milljóna heimila, að stundum verður eitt andartak tvísýnt hvort þar muni nokkur ómaka sig við að finna fjarstýringuna þó að allir séu sammála um að betra væri að skipta um stöð. Eða kveikja eða slökkva eða hækka eða lækka eða hvernig sem þarf að skikka hlutinn til.
Í um 40 ár hefur þetta atriði verið í viðstöðulausum flutningi einhvers staðar á jörðu: að sérhverja stund stendur einhver frammi fyrir þeim vonbrigðum að sjónvarpsfjarstýringin reynist ekki vera þar sem viðkomandi bjóst við, og viðkomandi nennir ekki að gá hvar hún er þá niðurkomin. Hún lætur þá fyrst á það reyna hvort vandinn sé hugsanlega alveg þolanlegur í sínu óleysta formi – hvort stöðin sé hugsanlega hreint ekki svo vond, þátturinn kannski ekki svo leiðinlegur, hljóðið ekki svo hátt að það trufli neinn, ekki það lágt að maður heyri ekki – kannski heyrist bara ágætlega ef maður geymir snakkið rétt á meðan. Hún kemst að lokum að raun um að svo er ekki, þetta er röng stöð, þátturinn er óþolandi, það heyrist alltof hátt í auglýsingunum eða svo lágt í öllum samtölum að hún er farin að halda niðri í sér andanum og sussa á alla aðra, sem hlýtur til lengdar að vera meiri vinna en að finna fjarstýringuna – sem viðkomandi tekur loks ákvörðun um að gera. Ákvörðunina tjáir hún, án þess að gera sér fulla grein fyrir því, með dæsi.
Ekkert af þessu gerist með skyndingu, ekkert af því tekur þó verulegan tíma heldur. Umfram allt hefur aldrei nokkurn tíma einn einasti flutningur þessa atriðis orðið leikendum minnisstæður. Ekki einn og sér, það þarf þá eitthvað annað að koma til.
Fyrstu áratugina eftir að þetta stef hóf göngu sína hefur litið út fyrir að þar hefðum við loks fundið okkur sæti við lágmark mannlegs þolgæðis. Það er engin furða að upp úr því hafi farið af stað orðrómur um endalok sögunnar. Hvað gætum við átt eftir, hvaða stórtíðindum gætum við valdið, sem eigum þessa reynslu sameiginlega, að nenna stundum ekki að leita að fjarstýringunni?
Svo brast á með tölvum og við gerðum okkur grein fyrir að þessi botn þolgæðisins er gljúpur og djúpur. Tilgátan er sú að glufan milli sófapullanna nái alla leið niður en þangað hefur enginn komist: hversu litlu sem við nennum virðist alltaf hægt að nenna minna.
Það gerist semsagt suma daga að ég nenni ekki að framkvæma þær hreyfingar um úlnliðinn sem þarf til að opna glugga í vafra, færa fingurna á lyklaborð til að slá þar inn fyrstu bókstafina í vefslóð, færa hægri hönd aftur á mús, beita þar úlnliðnum á nýjan leik, síðan vísifingri, smella á valda reiti, áður en ég færi báðar hendur loks aftur á lyklaborðið og myndi þá loks skrifa. Blogga, á ég við.
Þetta er furðuleg tegund af leti. Hreyfingarnar sjálfar útheimta svo litla orku að rafhlaða í armbandsúri ætti að duga til. Letin getur ekki snúist um þá vinnu, út af fyrir sig, það hlýtur að vera eitthvað annað sem kerfið upplifir sem erfiði í þessum aðstæðum. Hugsanlega er það þessi tilfærsla á athygli, þessi hugmynd um leið, um skref í átt að markmiði. Hvað sem veldur er þarna þröskuldur – þegar ég hef stigið yfir hann, réttir gluggar eru opnir, réttur bendill blikkar í réttum reit og fingurnir eru loks á sínum stað á lyklaborðinu, í nokkurri fullvissu um að þurfa hvergi annars staðar að vera næstu augnablikin, þá gera þeir sitt eins og ekkert væri sjálfsagðara, eins og það að slá á þessa hnappa, slá inn texta, sé hvíld eða nærandi leikur.
Það er kannski munurinn á bloggi – agalausu og stefnulausu bloggi eins og þessu hér – og flestum öðrum vettvangi ritmáls, að blogg getur verið hvíld. Eins konar heilsuhæli fyrir orð. Sú tilhugsun hefur kannski ekki aðdráttarafl fyrir lesendur, ég ímynda mér að flestir lesendur vilji heldur lesa orð sem vinna vinnuna sína. En þessi orð, þau eru bara í fríi.
Og það er þess vegna semsagt, vegna þess að stundum er ég of latur til að opna þá glugga sem þarf til að orðin megi síðan teygja úr sér og slaka aðeins á – svo að segja – sem ég bind nokkrar vonir við það sem mér virðist ágætt lítið forrit frá WordPress, pínulítið app sem ég sótti fyrir stuttu og er nú bara þarna, í sínum eigin glugga, tilbúið að láta orðin setjast í sig þegar þeim hentar, hlamma sér þar niður og halla sér aftur, hindranalaust, fyrirvaralaust, þröskuldalaust. Ég vonast, á ég við, til að þau geri það aðeins oftar nú á næstunni en undanfarið. Sjáum hvað setur. Færri hreyfingar, fínt app.