Sögur eru sögur af vandræðum. Ef ekki hefðu orðið vandræði að Bergþórshvoli væri engin Brennu-Njáls saga, ekki einu sinni Brennu-Njáll, bara Njáll, ágætur maður, öllum gleymdur. Sama á við um fréttir, kvikmyndir – allar frásagnir: ef ekki eru vandræði er það ekki í frásögur færandi.
Þess vegna er íslenska orðatiltækið að eitthvað hafi gengið eins og í sögu svolítið forvitnilegt, vegna þess að við notum það þegar eitthvað gengur vandræðalaust – er ekki í frásögur færandi. Það hlýtur þá að vera einhver annar skilningur á fyrirbærinu saga sem hér býr að baki – en hver?
Að minnsta kosti ein tegund frásagna er undanskilin ofannefndu viðmiði um frásagnir, og reyndar aðeins ein, það ég muni: grobbsagan. Grobbsögur geta verið sannar eða lognar en þær eru sagðar til að gera ljóst að eitthvað hafi gengið óvenjulega vel enda sé aðalpersóna sögunnar, oft sögumaður sjálfur, óvenjulegum kostum prýddur. Grobbsögur þurfa að vera stuttar því annars verða þær fljótt þreytandi. „Jákvæðar árangurssögur“ eru þær kallaðar meðal fagaðila í því sem eitt sinn hét auglýsingabransi en er nú víðtækara svið: markaðsmál, ímyndarsköpun, upplýsingastjórnun, fjölmiðlafulltrú…un. Í samstarfi við Samtök atvinnulífsins rekur íslenska ríkið heilt ráðuneyti til að grobba um land og þjóð.
Grobb er hins vegar ekki lögverndað fag, það eru ekki aðeins langskólagengnir fagaðilar sem grobba fyrir hönd skjólstæðinga sinna. Dagleg tilvera okkar er morandi í grobbsögum. Samfélagsmiðlar eru fyrstu hreinu auglýsingamiðlar sögunnar, hver færsla liður í markaðssetningu okkar sjálfra, hver Instagrammynd örlítil grobbsaga: þessum óvenjulegu kostum erum við gædd og svona njótum við góðs af. Við erum dæmd til grobbs.
Kannski er þar, í þessum söguskilningi, að finna eina skýringu þess að íbúar Íslands eru margfaldir heimsmeistarar í notkun samfélagsmiðla. Einu sinni hvarflaði að mér að með hugtökum á við „söguþjóðin“ eða „sagnaeyjan“ væri í reynd vísað til slúðursagna sem eins konar þjóðaríþróttar. En þessi hugtök eru markaðstæki, samin til að hæla okkur sjálfum. Þannig fela orðin sjálf í sér augljósa vísbendingu um hvers konar sögur er átt við: sjálft orðið söguþjóð er ein knöpp og beinskeytt grobbsaga.
Ég veit að ég á fjölda vina, kunningja og ættingja sem standa ekki í minna basli en ég. Aldrei nokkurn tíma myndi hvarfla að þeim að afhjúpa þau vandræði á Facebook, birta þar til dæmis færsluna: „ísskápurinn tómur, leigusamningurinn útrunninn, lögfræðingar elta mig, ég veðsetti myndavélina og er búinn með klinkið sem ég fann í sófanum“. Harmakveinin, andstæða grobbsögunnar og vors eilífa, viðvarandi atvinnuviðtals, væru fjarstæðukennd færsla, kapítalískt harakiri. Ég myndi ekki einu sinni minnast á ómöguleika slíkrar færslu nema vegna þess að nú stefnir allt til betri vegar, bráðum verð ég minna blankur og þarf að líkindum ekki að velta við sófapullum um hríð. Þar með er þetta hér ekki saga, ekki frásögn af vandræðum og þaðan af síður umkvörtun, heldur, í það minnsta öðrum þræðinum, grobb. Eða nær grobbi, að minnsta kosti, vandinn er leystur, já, gekk bara eins og í sögu.
Harmakvein andstæða grobbsögunnar? Er það rétt? Já og nei. Jæja, jú. Og þó. Það sem andstæðupör eiga sameiginlegt ristir dýpra en það sem aðgreinir þau: svart og hvítt eiga það sameiginlegt að sjást, beiskt og sætt að þau bragðast. Og harmakvein og grobb eiga það sameiginlegt að vera beiting á orðum til að taka frekar en gefa. Að vera samfélag er að skiptast á ótal sögum, öðrum.