Grobb

13.1.2020 ~ 3 mín

Sögur eru sögur af vand­ræðum. Ef ekki hefðu orðið vand­ræði að Berg­þórs­hvoli væri engin Brennu-Njáls saga, ekki einu sinni Brennu-Njáll, bara Njáll, ágætur maður, öllum gleymdur. Sama á við um fréttir, kvik­myndir – allar frásagnir: ef ekki eru vand­ræði er það ekki í frásögur færandi.

Þess vegna er íslenska orða­til­tækið að eitt­hvað hafi gengið eins og í sögu svolítið forvitni­legt, vegna þess að við notum það þegar eitt­hvað gengur vand­ræða­laust – er ekki í frásögur færandi. Það hlýtur þá að vera einhver annar skiln­ingur á fyrir­bær­inu saga sem hér býr að baki – en hver?

Að minnsta kosti ein tegund frásagna er undan­skilin ofan­nefndu viðmiði um frásagnir, og reyndar aðeins ein, það ég muni: grobb­sagan. Grobb­sögur geta verið sannar eða lognar en þær eru sagðar til að gera ljóst að eitt­hvað hafi gengið óvenju­lega vel enda sé aðal­per­sóna sögunnar, oft sögu­maður sjálfur, óvenju­legum kostum prýddur. Grobb­sögur þurfa að vera stuttar því annars verða þær fljótt þreyt­andi. „Jákvæðar árang­urs­sögur“ eru þær kall­aðar meðal fagað­ila í því sem eitt sinn hét auglýs­inga­bransi en er nú víðtæk­ara svið: mark­aðs­mál, ímynd­ar­sköpun, upplýs­inga­stjórnun, fjölmiðlafulltrú…un. Í samstarfi við Samtök atvinnu­lífs­ins rekur íslenska ríkið heilt ráðu­neyti til að grobba um land og þjóð.

Grobb er hins vegar ekki lögverndað fag, það eru ekki aðeins lang­skóla­gengnir fagað­ilar sem grobba fyrir hönd skjól­stæð­inga sinna. Dagleg tilvera okkar er morandi í grobb­sögum. Samfé­lags­miðlar eru fyrstu hreinu auglýs­inga­miðlar sögunnar, hver færsla liður í mark­aðs­setn­ingu okkar sjálfra, hver Insta­grammynd örlítil grobb­saga: þessum óvenju­legu kostum erum við gædd og svona njótum við góðs af. Við erum dæmd til grobbs.

Kannski er þar, í þessum sögu­skiln­ingi, að finna eina skýr­ingu þess að íbúar Íslands eru marg­faldir heims­meist­arar í notkun samfé­lags­miðla. Einu sinni hvarfl­aði að mér að með hugtökum á við „sögu­þjóðin“ eða „sagna­eyjan“ væri í reynd vísað til slúð­ur­sagna sem eins konar þjóðarí­þróttar. En þessi hugtök eru mark­aðs­tæki, samin til að hæla okkur sjálfum. Þannig fela orðin sjálf í sér augljósa vísbend­ingu um hvers konar sögur er átt við: sjálft orðið sögu­þjóð er ein knöpp og bein­skeytt grobbsaga. 

Ég veit að ég á fjölda vina, kunn­ingja og ættingja sem standa ekki í minna basli en ég. Aldrei nokk­urn tíma myndi hvarfla að þeim að afhjúpa þau vand­ræði á Face­book, birta þar til dæmis færsl­una: „ísskáp­ur­inn tómur, leigu­samn­ing­ur­inn útrunn­inn, lögfræð­ingar elta mig, ég veðsetti mynda­vél­ina og er búinn með klinkið sem ég fann í sófanum“. Harma­kveinin, andstæða grobb­sög­unnar og vors eilífa, viðvar­andi atvinnu­við­tals, væru fjar­stæðu­kennd færsla, kapí­talískt harak­iri. Ég myndi ekki einu sinni minn­ast á ómögu­leika slíkrar færslu nema vegna þess að nú stefnir allt til betri vegar, bráðum verð ég minna blankur og þarf að líkindum ekki að velta við sófa­pullum um hríð. Þar með er þetta hér ekki saga, ekki frásögn af vand­ræðum og þaðan af síður umkvörtun, heldur, í það minnsta öðrum þræð­inum, grobb. Eða nær grobbi, að minnsta kosti, vand­inn er leystur, já, gekk bara eins og í sögu.

Harma­kvein andstæða grobb­sög­unnar? Er það rétt? Já og nei. Jæja, jú. Og þó. Það sem andstæðupör eiga sameig­in­legt ristir dýpra en það sem aðgreinir þau: svart og hvítt eiga það sameig­in­legt að sjást, beiskt og sætt að þau bragð­ast. Og harma­kvein og grobb eiga það sameig­in­legt að vera beit­ing á orðum til að taka frekar en gefa. Að vera samfé­lag er að skipt­ast á ótal sögum, öðrum.