Brú, tal

25.2.2020 ~ 5 mín

Fyrstu myndrammar verks­ins Last and First MenHinstu menn og fyrstu – eftir Jóhann Jóhanns­son, voru þeir sterk­ustu sem ég hef séð á hátíð­inni hingað til. Sláandi fagrir og vildu mér eitt­hvað nýtt. 

Svart­hvítur myndrammi, stein­steypt form ber við himin fyrir miðjum ramma. Við bætist tónlist sem mig skortir forsendur til að greina af viti – mini­malísk, mónótón, drón­kennd, draum­kennd – lúmskt margradda en stefnir á núll. Eða 1. Kannski stefnir hún á 1. Og loks kven­manns­rödd sem hefur mál sitt á að kynna sig, hún tali til okkar úr fram­tíð­inni, nánar til tekið frá því 20 þúsund milljón jarð­árum eftir okkar daga. Ef ég man rétt. Þúsundir millj­óna ára voru það.

Fyrst hugsar maður: a, Kubrick! En þegar kven­röddin hefur mál sitt víkur Kubrick fyrir Chris Marker. Fasið og taland­inn minnti í það minnsta mig mjög á rödd­ina sem les yfir kvik­mynd­aða bréfið Sans Soleil. Og það er líka eitt­hvað skylt með viðfangs­efnum þeirra. Kven­rödd þess­arar myndar talar um fram­tíð mann­kyns, kynbætur, þriðja augað sem nýja mann­fólkið er með og vísar beint upp í himin, hún talar um enda­lok sólar, leit að öðrum sólum eða plán­etum sem „beri hugsun“, hún segir að stærsta fram­fara­skref mann­kyns, fyrir hennar tíð en eftir okkar, sé að yfir­stíga tungu­málið með beinum hugs­ana­flutn­ingi, hóphug. Og hún talar um hnignun og yfir­vof­andi enda­lok, þráð­lausa sambandið milli huga fólks sé að syngja sitt síðasta, þau hafi orðið að grípa til forn­fá­legra, hljóð­rænna tákna á ný, nú sé merkið orðið óskap­lega veikt, líka merkið milli hennar og okkar, varla að hún nái sambandi. Hún vildi biðja okkur um eitt­hvað, en ég man ekki hvað það var.

Á meðan halda stein­steyptu formin áfram að birt­ast, snúast og hverfa, tónlistin að dróna. Kvik­myndin er öll sett saman úr þessum þremur þáttum: stein­steyptu formunum, tónlist og kven­rödd­inni sem ávarpar okkur. Endrum og eins fær kven­röddin mynd, sem græn lína á sveiflu­sjá, eins og tækið heitir á íslensku, oscil­loscope. Þessi innlit sveiflu­sjár­innar eru þó meira eins og grein­ar­merkja­setn­ing en efnis­leg viðbót.


Þetta er kvik­mynd sem þarf sal. Þú þarft að sitja föst eða fastur –  ef þú reynir að horfa á þessa mynd við tölvu­skjá í eldhús­inu muntu alltaf skyndi­lega muna eitt­hvað annað brýnt sem þú ættir að vera að gera. Að verk þarfn­ist tiltek­ins rýmis er ekki galli á því.


Titill verks­ins vísar til samnefndrar vísinda­skáld­sögu eftir Olaf Stap­ledon sem kom út árið 1930. Ef ég skil rétt er allur text­inn sem kven­röddin les, erindi hennar við okkur, feng­inn úr bókinni. Sú stað­reynd breytir nokkru um þýðingu ákveð­inna smáat­riða, til dæmis áhrif þess að heyra orðið „climate“ í miðjum ljóð­rænum átökum, orð sem nú er svo þvælt að það ljóð er vand­fundið sem myndi ekki kikna undan nálægð við það. (Já, umræðan er sann­ar­lega þörf en hún er líka eins og myglu­sveppur.) En Stap­ledon skrif­aði um lofts­lags­hörm­ungar löngu áður en þær áttu erindi við heim­inn utan skáld­skapar. Hér er orðið tíma­ferða­langur, hér er það nýtt.


Merkja­send­ingin slitnar, mann­kyn líður undir lok, ég vildi biðja ykkur um eitt, hvað var það aftur? Þegar leið á verkið og endur­tekn­ingu grunn­stef­anna, þá leit­aði á mig sorg, eða spurn­ing um sorg: hvernig bregst maður við grun um að hafa, með nokk­urri viðhöfn, verið dreg­inn í fjöl­mennan sal til að taka þar á móti einnar kvik­myndar löngu sjálfs­vígs­bréfi? Þegar mynd­inni lýkur, lýkur öllu. Ekki einföld sorg, nei, ég varð satt að segja svolítið reiður.


Að frum­sýn­ing­unni lokinni voru haldnar pall­borð­sum­ræður. Þar sátu Þórir Snær Sigur­jóns­son, fram­leið­andi, Yair Elazar Glotman, sem lauk við tónsmíð­ina í verk­inu, Sturla Brandth Grøv­len, kvik­mynda­töku­maður, og Mark Bukdahl, klipp­ari, auk spyrils.

Spurn­ingar úr sal beind­ust ítrekað að stein­steyp­unni sem fyllti næstum hvern einasta myndramma verks­ins. Hvers vegna var höfunda skúlp­túr­anna ekki getið á kred­itlist­anum, spurði maður sem sessu­nautur minn bar kennsl á sem þekktan gagn­rýn­anda frá Balk­anskaga. Góð spurn­ing, já, góð hugmynd, svör­uðu þátt­tak­endur í pall­borð­inu. Höfum það í huga. Næst sagði ung kona: „Það er skrítið fyrir okkur, frá fyrrum Júgó­slavíu, að horfa á þessa mynd því við vitum hvað skúlp­túr­arnir merkja“. Og þriðji aðili í sal bætti við: „Þetta eru ekki bara einhver fagur­fræði­leg form heldur vitn­is­burður um tiltekið líf, minn­is­varði um þúsundir sem dóu á einum stað, um unnin afrek á öðrum.“

Ég fer með þetta eftir minni, en inntak allra þess­ara spurn­inga og athuga­semda var þetta: Formin sem birt­ast í mynd­inni, og sem allt mynd­mál hennar grund­vall­ast á, eru ekki ótil­greindar utan­heims­furður heldur tiltekin verk, tiltek­inna höfunda, frá dögum Titos í fyrr­ver­andi Júgóslavíu.

Þórir Snær, fram­leið­andi mynd­ar­innar, tók þessum ábend­ingum vel en hann gat ekki svarað þeim efnis­lega, gat ekki tekið ábyrgð á verk­inu fyrir hönd höfund­ar­ins. Jóhann var vel lesinn, sagði hann, og eldklár, og vissi áreið­an­lega sjálfur vel hvað honum gekk til með þessu vali.


Tónlist­ar­mað­ur­inn, Glotman, minnt­ist á það snemma í pall­borð­sum­ræð­unum hvernig þrír grunn­þættir verks­ins, hljóð, mynd og orð, birt­ust þar sem jafn­okar, flétt­ust saman og skipt­ust á að hafa yfir­hönd­ina, en stæðu ekki í stig­veldi eins og tíðk­ast í kvik­myndum, að mynd­efnið hafi forystu og aðrir þættir þjóni því. Þessi einfalda lýsing bætti nokkru við skiln­ing minn á samsetn­ing­unni. Og ég held að samsetn­ing sé mögu­lega nothæft hugtak hér, eða þá smíð, hvernig sem fólk vill þýða composition. Upphafs­maður verks­ins var tónskáld, hann kompós­aði það. Valdi þætt­ina og setti þá saman.

En þegar upp er staðið gerði hann það ekki, eða hvað? Jóhann Jóhanns­son lést frá þessu verki, óklár­uðu. Og raunar mátti skilja á þátt­tak­endum í pall­borð­inu að nokkuð langt hafi verið í land: Jóhann hafði þegar leik­stýrt og tekið upp lestur Tildu Swinton á texta verks­ins, valið mynd­efnið, sett saman styttri skissu úr grófum mynd­skeiðum, mælt fyrir um í hvaða hljóð­banka skyldi leita eftir umhverf­is­hljóðum. Og tónsmíð­unum til grund­vallar lágu hugmyndir, stef og þættir sem Jóhann hafði deilt með samverka­manni sínum. Úr þessu verður hins vegar verkið til á klippi­borði allt annars manns, án nærveru þess sem er sagður höfundur þess. Og klipp­ar­inn, Mark Bukdahl, sagði ramm­heið­ar­lega í pall­borð­sum­ræð­unum að hráefnið hefði mátt setja saman á hundrað vegu, hann hafi farið í gegnum það með trial-and-error aðferð, ekkert annað hafi verið hægt: mátað saman skot við skot við orð við hljóð, eitt af öðru, þar til úr varð þessi tiltekna mynd, verkið eins og það var frum­sýnt í Berlín á þriðjudag.

Þarna liggur kannski fínlegri nálgun á hvað hún er, þessi mynd. Kannski er hún sálu­messa skálds­ins. Verald­leg sálu­messa, jarð­bundin eins og steypuklumpar sem teygja sig til himins. Og kannski ber frekar að líta á þá messu sem ólokið verk – verk sem ólíkir höfundar gætu nálg­ast og lokið við með ólíkum hætti. Í dag var borin á borð ein nálgun á verkið. Og það er nokkur gjöf. En hugs­an­lega þráir sálu­messan remix.