Berlinale. Í jarðlestunum forðast fleiri en áður að snerta yfirborð með berum fingrum, halla sér upp að frekar en halda sér í, hika við að opna dyrnar í von um að aðrir verði fyrri til, toga jakkaermina yfir fingurna ef þau neyðast til að ýta á hnappinn sjálf.
Við vaskana á baðherbergjunum þvo blaðamenn sér hótinu lengur um hendurnar en á meðalári. Sýna smá núvitund við handþvott, eins og fjölskyldulæknirinn hvatti til á dögunum.
Kína vantar á hátíðina. „With China’s film sector essentially shut down and release dates for even Hollywood tentpoles still up in the air, sellers are reluctant to commit to the Middle Kingdom,“ skrifar Hollywood Reporter á föstudag. „The situation for the film industry is terrible“. Terrible í merkingunni að fullt af samningum sem menn ætluðu að gera verða ekki gerðir hér og nú. Þetta snertir markaðssvæðið frekar en hátíðina sjálfa – myndi maður segja ef markaðshlutverk svona hátíða væri ekki svo umfangsmikið að „hátíðin sjálf“ virðist stundum bara vera frontur fyrir kauphallargólfið.
Og svo er það hryðjuverkaárásin í Hanau. Þar var nasisti að verki. Í Þýskalandi vísar slík árás óhjákvæmilega á allan þunga sögunnar, helvítis hyldýpið. Gjá sem liggur þvers og kruss, meðal annars inn í erfðaefni kvikmyndahátíðarinnar: um mánuði áður en hátíðin hófst varð opinbert það hneyksli að Alfred Bauer, stjórnandi Berlinale í aldarfjórðung frá því að hátíðin var fyrst haldin, árin 1951 til 1976, var nasisti. Nú getur það þýtt ýmislegt í landi þessarar sögu, en Bauer var semsagt hvorki tregur í taumi né tilneyddur, segja blaðamenn Die Zeit, sem ljóstruðu upp um málið. Bauer var ekki aðeins meðlimur í nasistaflokknum, heldur einnig í stormsveitunum SA. Eftir herþjónustu í stríðinu hlaut hann vottun frá áróðursmálaráðuneyti Göbbels um að hann væri innmúraður og traustur gaur. Þau meðmæli leiddu hann til frama innan UFA, hins opinbera kvikmyndavers þriðja ríkisins. Leið Bauers til forystu kvikmyndahátíðarinnar eftir stríð lá þannig gegnum framabrautir nasistaflokksins. Þá forsögu faldi hann á meðan hann lifði. Og 34 árum betur.
Þetta kom allt á daginn bara núna í síðasta mánuði. Alfred Bauer-silfurbjörninn, sem svo nefndist fram að því, leikstjóraverðlaun hátíðarinnar, heitir nú einfaldlega 70. Berlinale silfurbjörninn. Frekari úrvinnsla á þessum þætti í sögu hátíðarinnar mun áreiðanlega fara fram og birtast víða á komandi árum.
Hvort það er kórónaveikin eða nasistarnir eða eitthvað allt annað sem veldur veit ég ekki – og svo er ekki alltaf gott að segja hvað er bara í manns eigin brjósti og hvað þarna úti – en ég hef á tilfinningunni að andrúmsloftið á hátiðinni sé heldur moldarlegra en stundum áður. Ég er að reyna að segja somber – hvað er íslenska yfir somber? Svona eins og allir séu nýbúnir að bregðast við einhverjum tíðindum með orðunum „Aha. Ókei. Fokk.“ Í þeirri röð.
Að því sögðu: bíó!
Minimata var fín, nú má segja það, embargoinu aflétt. Vegna þess að Depp er í henni og hún fjallar um mikilvægt málefni munið þið áreiðanlega heyra af henni víðar. Myndin er byggð á sannri sögu stríðsljósmyndarans W Eugene Smith sem er tekinn að eldast, kominn með nóg, vill fara að hætta þegar myndin hefst, árið 1971, en lætur dragast í einn leiðangur enn: að ljósmynda afleiðingar merkúr-mengunar frá efnaverksmiðju við Minimata-flóa í Japan. Depp fer vel með hlutverkið en mér þótti tvennt annað standa upp úr verkinu kvikmyndalega. Það fyrra er nálgun leikstjórans á ljósmyndirnar sem Smith tók í þessari ferð. Hvernig kvikmyndin nálgast frægustu ljósmynd ferðarinnar er hápunktur kvikmyndarinnar. Og er ætlað að vera það. En sá hátindur er eiginlega jafnhattaður af öðrum, sem lætur þó minna yfir sér: það er ákveðin nánd, eða mynd af nánd, milli ljósmyndarans Smith og Aileen Mioko, konunnar sem hann kynnist í myndinni og giftist síðan í raunveruleikanum. Þegar þau eru enn að kynnast, sitja saman til borðs með öðru fólki og hlusta á frásagnir þeirra, hallar hún sér upp að honum. Þau sitja þarna hvort um sig og hlusta, athygli sína og vit gefa þau öðrum – þau eru hvort á sínum vegum en saman í liði og eiga þennan einfalda stuðning hvort í öðru, að halla sér upp að. Þetta er einföld mynd af ást, má segja, hversdagsleg og lætur lítið yfir sér, en hárnákvæm og heppnast vegna þess að leikstjóri og leikarar vita hvað þau eru að gera.
Leikstjórinn heitir Andrew Levitas, liðlega fertugur, bandarískur myndlistarmaður, málari. Þessi mynd var ekki tímasóun.
Föstudaginn hóf ég samt á því andlega afreki að hunsa blaðamannafund með Johnny Depp og fara í bíó.
Þá sá ég myndina El Prófugo eða The Intruder – Boðflennan? – eftir Nataliu Meta. Hún er í keppni. Þetta er mexíkósk-argentínsk framleiðsla, sækóþriller um konu sem lendir í þeim leiðindum, eftir að nýtilkominn kærasti hennar fellur eða stingur sér fram af svölum og deyr, að raddir og persónur úr draumum hennar taka að þröngva sér yfir í ytri veruleikann, raunveruleikann, og valda henni þar ýmsum vandræðum – ekki síst faglegum, en ásamt því að syngja í kór starfar aðalpersóna myndarinnar við raddsetningu kvikmynda. Það sterkasta við þessa mynd þótti mér hugsanlega upphaf hennar, fyrsti þáttur: á hvaða máta kærastinn sem svo dó var óþolandi, hvernig hann sýndi stjórnsemi. Það var eitthvað nýtt þarna, ný mynd af vafasömum kærasta. Ég varð ekki fátækari af þessari mynd, ég sé alls ekki eftir mínútunum í salnum.
Önnur keppnismyndin sem ég sá var ítalska myndin Volevo nascondermi – Ég vildi fela mig – eða Hidden Away. Þetta er sannsöguleg mynd um málarann Antonio Ligabue. Ef hún væri bandarísk fengi aðalleikarinn óhjákvæmilega tilnefningu til Óskarsverðlauna, ekki bara vegna þess hvað honum helst vel á hlutverkinu, heldur um leið vegna þess um hvers konar hlutverk er að ræða. Antonio er á hrakhólum í tilverunni frá upphafi. Hann á það reyndar sameiginlegt með aðalpersónu myndarinnar Elle, sem RÚV sýndi á dögunum, að faðir hans virðist hafa framið voðaverk: móðir Antonios og þrír bræður létust af eitrun, árið 1913, og Antonio sjálfur leit í öllu falli svo á að þar hefði faðir hans verið að verki. Sem barn er hann sendur í fóstur, síðar vistaður á geðsjúkrahúsi, hrekst um tilveruna, kjörinn til algerrar og lífshættulegrar útskúfunar. Hann reynist aftur á móti búa að hæfileika sem aðrir eru tilbúnir að hlúa að, sem verður honum til bjargar. Sem málari eignast hann líf, eða hlutdeild í heiminum. Þetta er góð mynd, forvitnileg saga, magnaður leikur. Hreint engin tímasóun.
Loks sá ég suður-kóresku kvikmyndina Sa-nyang-eui-si-gan, á ensku: Time to Hunt. Veiðitímabilið? Hún er kynnt sem saga úr suður-kóresku samfélagi upp úr fjármálakreppunni 2008, og mér þótti forvitnilegt að sjá sögusviðið. Eftir fyrsta korterið er það allt þó horfið í bakgrunn myndarinnar og í forgrunni tekur við hefðbundið bang-bang: rán í spilavíti, eltingarleikur, margir deyja, glæpir borga sig ekki. Allt var þetta nógu vel gert til að myndin mun njóta sín á stórum skjá, með nýbakaðri pítsu og timburmönnum, ótal sunnudaga í mörgum húsum – þá má dotta yfir henni í korter, jafnvel hálftíma, án þess að missa þráðinn. En fyrir óþunna, pítsulausa menn í kvikmyndasal var þetta heldur tosaður lopi og eftirsjá að sumum mínútanna.
Aftur að Minimata, eitt andartak: Í umfjöllun sinni á Smyglinu segir Ásgeir H. um vettvangsferð ljósmyndarans:
„En þótt hinn almenni borgari taki honum fagnandi þá svífst þetta stórfyrirtæki einskis. Við Íslendingar getum kannski ímyndað okkur Kárahnjúka eða kaupfélagsstjórann í Héraðinu – og margfaldað ófyrileitnina með hundrað. Þetta eru hákarlar sem einskis svífast, mafíósar í gervi bisnessmanna.“
Þegar Ásgeir minnist á Kárahnjúka í þessu samhengi megum við öll rifja upp hvar við lögðum síðast frá okkur blygðunarsemina, við sem kunnum á myndavélar, höfum aðgang að fjölmiðlum, en vorum þar ekki þegar hirðuleysi um öryggi verkafólks olli ótal manns örkumli og dauða. Þegar þau eru að kynnast þarna í myndinni, Eugene og Aileen, og hún biður hann um myndavél, þá heldur hann fyrst örlítinn inngangsfyrirlestur. Fyrst kemur klisjan: ættbálkar meðal frumbyggja í Ameríku trúðu því að við myndatöku glati módelið hluta af sálinni sinni. En maður þarf að lesa smáa letrið, bætir hann við: að það á við um ljósmyndarann líka. Að taka myndir tætir hjartað. Taktu myndavélina, segir hann, en ekki taka henni af léttúð.
Eða eitthvað í þá veru, þetta er eftir minni. Ég held að Ásgeir og Depp hafi rétt fyrir sér. Og ég held að það megi bæta við smáu letri undir smáa letrið: Ljósmyndin er ekki vitnisburður, heldur gerir hún þig, sem sérð hana, að vitni. Og sá sem er vitni að grimmd en þegir yfir henni er samsekur um hana. Þannig gerir ljósmyndin okkur öll að gerendum, í merkingu sektar, einmitt þegar við gerum ekki neitt. Þess vegna hafa ljósmyndir stundum orðið hreyfiafl.
Og ég er að hugsa um Kópavog, líkamsárásina og upptökuna. Freistinguna að láta sem við sjáum ekki það sem við sjáum. Þá skyldu manns að trúa eigin augum. Hættuna sem í því felst. Og hættuna sem felst í að gera það ekki.