Er þetta betra en netið?

24.2.2020 ~ 8 mín

Berl­inale. Á sunnu­deg­inum sá ég enga kvik­mynd. Ég fór heim með væg flensu­ein­kenni, ég held að orsak­irnar séu líkam­legar, ég held ekki að ég hafi nógu sterkt ímynd­un­ar­afl til að kokka þau upp sisona. Þar sem andheiti sótt­kvíar er alþjóð­leg kvik­mynda­há­tíð og Norður-Ítalía er rétt einni vind­hviðu fyrir sunnan okkur, þá hringdi ég í lækni og spurði hvað best væri að gera. Ég bjóst allt eins við að innan kort­ers myndu sérsveit­ar­menn brjóta sér leið inn um glugg­ana hjá mér, sækja mig á þyrlum, fleiri en einni, með gelt­andi hunda, hvers vegna ekki, og flytja mig í plast­t­jald á fjar­lægri eyju. En lækn­ir­inn sagði mér að fara vel með mig og líta við ef þetta vernsaði.

Gott og vel. Hér koma nokkur orð um myndir laug­ar­dags­ins á meðan þær eru mér í tiltölu­lega fersku minni, og ég tiltölu­lega ódauður.


Ég kom þegar upp um, í fyrri færslu, hver var besta mynd dags­ins: First Cow, heitir hún. Leik­stjóri Kelly Reich­ardt, banda­rísk. Kvik­myndin gerist í Oregon, held ég að hún hafi sagt – í villta vestr­inu, á gull­leit­ar­svæðum. Harðjaxlar þess tíma, eins og við þekkjum þá úr ótal verkum, eru sólandi allt í kring – en þeir eru í bakgrunni. Í forgrunni hér eru annars konar menn. Otis Figowitz, kall­aður Cookie, hefur í upphafi myndar hlut­verk matselju fyrir hóp hörku­tóla í leit að gulli. Hann er ungur gyðingur sem gerir ekki flugu mein – samferða honum gefur mynda­vélin gaum að því smáa þar sem hann fer um og tínir ætisveppi, réttir af litla eðlu sem hefur oltið á bakið, og þiggur barsmíðar fyrir að hafa ekki skaffað meiri mat en raun ber vitni. Á vegi hans verður Kínverji á sama reki, King Lu, þar sem hann felur sig alls­ber í rjóðri, á flótta fyrir morð sem hann framdi til að hefna vinar síns. Sá eltinga­leikur er fljótt úr sögunni, sá alls­beri sleppur og þaðan í frá er okkur sögð saga af vináttu þeirra, tveggja ljúf­linga sem reyna að hasla sér völl í heimi harð­neskj­unnar. Að segja frá hlut­verki titilkýr­innar í þeirri sögu væri spoiler, það er ástæðu­laust að svo stöddu. En þetta er bæði fallegt verk og vel hugsað.

Hin keppn­ismyndin sem ég sá sama dag heitir Salt of Tears á ensku, Le sel des larmes á frum­mál­inu. Þegar ég sett­ist í salinn var ég satt að segja búinn að gleyma hvaða mynd væri í vændum og hafði ekki lesið mér til um hana að neinu ráði hvort eð er. Hún afhjúp­að­ist í þess­ari röð: svart­hvít, saga af ástum ungs Frakka af verka­lýðs­stétt, sögu­maður víkur að orði og orði, yfir­bragð verks­ins minnir allt ræki­lega á fyrstu verk frönsku nýbylgj­unnar, er sextíu ára gamalt – en virð­ist þó ekki bein­línis fela í sér stílíska blæt­is­dýrkun á þeim tíma eða þeim andblæ, enda gerist myndin hér og nú. Þegar titl­arnir runnu yfir skjá­inn varð síðan ljóst hverju sætti: leik­stjór­ann Phil­ippe Garrel þekki ég því miður ekki að ráði, en meðhöf­undur hans að hand­rit­inu hins vegar, reynd­ist vera Jean-Claude Carrière. Carrière er meðhöf­undur franskrar kvik­mynda­sögu síðast­liðin 60 ár. Hann er þekkt­astur fyrir mynd­irnar sem hann skrif­aði með Luis Buñuel: Hinn falda þokka borg­ara­stétt­ar­innar og Vofu frels­is­ins, en meðal þeirra 149 hand­rita sem hann á hlut­deild að, samkvæmt IMDB.com, eru hand­ritið að Óbæri­legum létt­leika tilver­unnar, eftir skáld­sögu Milans Kund­era, kvik­myndir eftir Jean-Luc Godard, eftir Tati og Malle og Wajda. Hann er ótrú­leg fígúra í kvik­mynda­sögu 20. aldar, og við smíð fjölda ólíkra hand­rita virð­ist hann gegna hlut­verki sem er kannski helst sambæri­legt við hlut­verk fram­leið­anda í tónlist­ar­sköpun, kannski má líkja því við hlut­verk ljós­móður. „Ég er 72 ára og hann er 15 árum eldri en ég,“ sagði leik­stjór­inn um meðhöf­und sinn á blaða­manna­fundi eftir sýningu mynd­ar­innar. Saman gerðu þeir mynd um ungan mann sem byggir ákvarð­anir sínar, hverja eftir aðra, á hugleysi. Og þeir gerðu það ágæt­lega. En myndin ætti betur heima í katalóg verka frá allt öðrum tíma, hér og nú varð mér ekki ljóst að hún hefði miklu við tilver­una að bæta.

Báðar þessar keppn­ismyndir laug­ar­dags­ins fjöll­uðu um unga menn sem eiga ekki séns. Í báðum tilfellum verður áhorf­endum það ljóst nokkuð snemma, og við fylgj­umst með því afhjúp­ast nákvæm­lega hvernig tilveru persón­anna rekur í strand, hvaða tilteknu leið hún ratar út um þúfur. Í fyrri mynd­inni skrif­ast það á „hversu átak­an­lega vondur hann er þessi heimur“, en síðari myndin veit ég ekki alveg hvort ætlar að hafa um það nokkra kenningu.


Þriðja bíó dags­ins var utan keppni, í flokknum Forum, og ber spænska titil­inn Anunciaron tormenta, á ensku: A Storm Was Coming.

Myndin er fram­leidd á Spáni en fjallar um atburði á eynni Bioko, við Gíneuflóa, nú í grennd við Afríku­ríkið Kamerún. Bioko er um 2.000 ferkíló­metrar að stærð. Bantu-ættbálkar bjuggu þar frá því fyrir okkar tíma­tal. Portú­galar sigla þangað 1472, og nefna eyna Formosa Flora – fagra blóm. Síðar er eyjan nefnd eftir land­könn­uð­inum Fern­ando Pó. Hollenska Austur-Indía félagið hóf þræla­sölu á eynni án samþykkis Portú­gala árið 1642, og gerði hana um hríð að miðstöð þræla­versl­unar sinnar. Frum­byggja eyjunnar nefndu Evrópu­menn Bubi, mögu­lega vegna kveðj­unnar á „A boobe, oipodi“, sem þýðir, les ég, „góðan dag, maður“. Erfð­a­rann­sóknir síðari tíma hafa leitt í ljós að fjöldi svartra Banda­ríkja­manna á ættir að rekja til íbúa eyjunnar – með öðrum orðum voru margir færðir þaðan í þræl­dóm vestanhafs.

Bubi­sam­fé­lagið hóf undir­bún­ing að stofnun, eða endur­reisn, eigin konungs­ríkis á 18. öld. Það kom ekki í veg fyrir að Portúgal gæfi Spán­ar­kon­ungi eyjuna, með sátt­mála þeirra á milli frá árinu 1778, í skiptum fyrir land­svæði í Amer­íku. Spán­verjar nýttu nýlend­una framan til fram­leiðslu á pálma­olíu, síðar kakói, um leið og hún þjón­aði að nokkru leyti hlut­verki fanga­ný­lendu: þangað sendu spænsk yfir­völd hundruð Kúbana af afrískum uppruna, í stríð­unum sem Spánn háði gegn sjálf­stæði Kúbu; yfir 200 uppreisn­ar­menn frá Fillips­eyjum; og einhverja tugi spænskra fræðimanna og annarra áhrifa­valda sem ollu vald­höfum ónæði.

Ekkert af þessu vissi ég fyrir, og ég lærði það ekki heldur af mynd­inni, heldur fletti ég því upp nú á meðan ég skrifa þetta til að stað­setja viðfangs­efni mynd­ar­innar betur fyrir mér sögu­lega: það er semsagt árið 1904 sem Ësáasi Eweera, einn af síðustu konungum Bubi-samfé­lags­ins sjálfs, fellur frá „við dular­fullar kring­um­stæður“ eins og segir í kynn­ingu mynd­ar­innar. Í verk­inu sjálfu kemur fram hvílíka óbeit nýlendu­herr­arnir höfðu á því að undir forystu Eweera hefðu Bubi­menn afmarkað nær hálfa eyjuna sem sína eigin, og lýst því yfir að þangað næðu yfir­ráð Spánar ekki. Öll er þessi saga hulin nokk­urri þoku, sem verður að veru­legu leyti viðfangs­efni mynd­ar­innar. Verkið byggir á rann­sókn á skjölum um fráfall konungs­ins, en skjölin eru glopp­ótt, og leið rann­sókn­ar­innar liggur um gluf­urnar og gjárnar. Það sem vantar. Við sögu koma meðal annars skrá­sett fyrir­mæli um opin­bera rann­sókn sem aldrei kom til fram­kvæmdar – það er reimt í arkíf­unum. Og það er reimt í minni þjóð­ar­innar, Bubi-fólks­ins, meðal annars eftir herferð spænskra stjórn­valda til að útrýma tungu­máli þeirra á 20. öld, sem fór ekki aðeins fram innan skóla­kerfis eyjar­innar heldur einnig með kröfu spænskra stjórn­valda til mæðra um að tala aðeins spænsku við börn sín, hvort sem þær höfðu sjálfar vald á spænsku eða ekki. Þessum fyrir­mælum var fylgt eftir með eftir­liti á heim­ilum fólks og refs­ingum gegn þeim sem ekki hlýddu.

Eins og vöntun á gögnum og munn­legri geymd væri ekki nóg áskorun, þá eru meðlimir Bubi-samfé­lags­ins mótfallnir því að láta festa myndir af sér. „Þú mátt taka upp raddir okkar, við getum sagt þér það sem við vitum, en engin andlit, þú verður að nota orðin við einhverjar aðrar myndir,“ leggur kona nokkur kvik­mynda­gerð­ar­fólk­inu línurnar í upphafi myndar, og hlær.

Og það er þetta sem gerir mynd­ina að forvitni­legri tilraun, til viðbótar við hið sögu­lega viðfangs­efni eitt og sér: hvernig gerirðu mynd um atburði sem varla eru til heim­ildir um, um liðna tíð og týndar frásagnir, í samfé­lagi sem var næstum þurrkað út, þegar eftir­lif­endur sjálfir kjósa í ofanálag heldur að vera utan myndar?

Leik­stjór­inn heitir Javier Fernández Vázquez, með mann­fræði­nám að baki, og meðlimur í kvik­mynda­gerð­ar­kollektífi sem nefnir sig Los Hijos. Þetta er frum­stætt verk, mér fannst það ekki veita sann­fær­andi svar við því hvernig gera má kvik­mynd um það sem er ekki til staðar, mér fannst það ekki full­burða – en mér þótti það líka ramm­heið­ar­leg tilraun og verð­mæt, vísa veginn á slóðir sem verður þess vert að fylgja lengra.


Að öllu þessu sögðu, þá eiga kvik­myndir við ramman reip að draga þessa dagana. Þrátt fyrir að engin þeirra mynda sem ég hef séð til þessa hafi verið slæm, þá hefur enginn myndrammi þeirra heldur slegið við þeim furðum eða óvæntu myndum sem berast mér gegnum fréttamiðla, samfé­lags­miðla eða í skila­boðum: sand­ur­inn sem blæs frá Sahara yfir á Tenerife og gerir allan heim­inn rauðan nema bláþrjóskar hótelsund­laugar; ítalskir kaffi­baristar að afgreiða fastak­únna eins og hvern annan morgun nema sjálfir klæddir í hvíta einangr­un­ar­bún­inga og með lækna­grímur; fiðlu­leik­ari sem lék á hljóð­færið sitt í miðjum heila­upp­skurði til að lækn­arnir gætu séð og forð­ast þær heila­stöðvar sem varða tónlist­ina; gamall vinur að frum­flytja mikil­vægan söng í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Sex ára frændi, uppréttur og einbeittur við eldhús­borð, að skrifa sína tólftu bók, klæddur í dreka­bún­ing sem aðrir höfundar mega öfunda hann af.

Fimm myndir og mynd­skeið, bara frá síðustu dögum, innbyrðis gjör­ólík, sum opin­ber, önnur einka, merk­ing­ar­bær á þennan veg eða hinn, kyrr eða vara í örstutta stund. En hvert um sig óvænt­ari, sérstæð­ari og mögu­lega eftir­minni­legri, öll með eitt­hvert X til að bera, umfram allt sem ég hef séð á hátíð­inni til þessa. 

Kvik­mynd­irnar hafa alls ekki verið nein tíma­sóun. Þvert á móti. Allar nærandi. Meira eða minna. Gott í augað. Og án allrar íbyggni væri þessi saman­burður áreið­an­lega ósann­gjarn, hann er varla til að taka bókstaf­lega. En eftir sem áður. Ef tónskáldum ber að spyrja sig: er þetta betra en þögn, hlýtur þá ekki, frammi fyrir kvik­mynd, að vera pláss fyrir spurn­ing­una: er þetta betra en það sem ég sæi annars í símanum mínum, er þetta betra en netið?