Gull

28.2.2020 ~ 6 mín

Ég fer að segja þetta gott frá hátíð­inni. Mig grunar að ég hafi ekki séð sigur­mynd keppn­innar – í það minnsta sá ég enga mynd sem ég tel augljóst að eigi verð­launin ótví­rætt skilið, enga sem mark­aði tíma­mót fyrir augun mín.

En það er svolítið langt síðan ég fór síðast í bíó að ráði og ég lærði nokkuð um sjálfan mig á ferð­unum í þetta sinn, á þeim tug mynda sem ég þó sá: ég held að ég njóti kvik­mynda mest þegar þær kenna mér að sjá eða nema eitt­hvað sem ég kunni ekki áður, sem hefði farið fram­hjá mér. Það geta verið fyrir­bæri af fjöl­mörgum ólíkum toga, oftast þó eitt­hvað um mann­fólk, eitt­hvað í fari þess, eitt­hvað við ferð þess um tilver­una. Hvernig við brennum eða göngum gegnum eldinn, það allt.

Og líklega á ég annað ólært í dag en ég átti fyrir tíu árum síðan. Á fimmtu­dag sá ég kvik­mynd­ina Char­latan, Skottu­lækn­inn, eftir Agnieszku Holland, sem er sýnd utan keppni, í dagskrárliðnum Special Gala. Myndin segir frá tékk­neska heilar­anum Jan Mikolášek, sem var uppi á fyrri hluta 20. aldar. Sem ungur maður beitir Mikolášek lækn­inga­jurtum til að græða fótlegg systur sinnar, sem annars stóð til að aflima. Í kjöl­farið gerist hann lærlingur konu af aust­ur­rískum uppruna, sem er þekkt fyrir að lesa berum augum í þvag­sýni og veita fólki ráð á grund­velli þeirrar grein­ingar: slæður af einni gerð benda til sjúk­dóms í lifur, kennir hún honum, aðrar eindir í vökv­anum gefa til kynna að eitt­hvað ami að nýrum, botn­fall er til marks um sýkingu, og svo fram­vegis. Ég fer áreið­an­lega rangt með hvað er hvað, en þið skiljið prinsippið.

Fátt er hvers­dags­legra á heil­brigð­is­stofnun en að læknir biðji sjúk­ling um þvag­prufu. Miðað við hvernig þýskir læknar eru sagðir hafa rýnt í hægðir fólks virð­ist alls ekki fjar­stæðu­kennt að eitt­hvað af gögn­unum sem leyn­ast í þvagi megi lesa berum augum. Um það veit ég þó ekkert, ekki frekar en flestir áhorf­endur. En þegar Mikolášek tekur að starfa á eigin vegum, við að rýna í hland, greina kvilla og selja jurtamixt­úrur til að vinna á þeim, reyn­ist hann í öllu falli gríð­ar­lega vinsæll: hundruð manna bíða fyrir utan dyrnar á heim­ili hans dag hvern, önnur hundruð senda honum þvag­prufur í pósti. Hann leið­réttir hvern sem kallar hann lækni, og hann þykist ekki geta lagað hvað sem er. En bæði hann og þau sem til hans leita eru sann­færð um að mixt­úr­urnar gagn­ist við eitt og annað. Sem út af fyrir sig er auðvitað ekki heldur fjarstæðukennt.

Fyrir nokkrum öldum síðan hefði þetta þó allt saman heitið galdur. Og Mikolášek er ekki aðeins sekur um kukl, í þeirri merk­ingu að fást við lækn­ingar utan opin­berra vott­un­ar­kerfa, heldur sker hann sig úr á fleiri vegu. Hann kemst í svolitlar álnir af iðjunni, efnast umfram sveit­unga sína; þegar seinna stríð skellur á sinnir hann erindum foringja úr innrás­arliði nasista til jafns við heima­menn; síðast en ekki síst á hann í ástar­sam­bandi við karlmann.

Kvik­myndin er byggð á raun­veru­legum atburðum. Mikolášek lifði frá 1889 til 1973, fæddur í fjöl­skyldu garð­yrkju­manna, og hlaut þjálfun í ræktun og umgengni við jurtir frá barns­aldri. Á Wikipediu má finna stutta færslu um hann. Hún líður fyrir heim­ilda­skort og erfitt að full­yrða hvort satt er, sem þar er haldið fram, að jafn­vel Georg VI Breta­kon­ungur hafi sent Mikolášek þvag­sýni sitt til grein­ingar. Þó má telja víst að Antonín Zápotocký, forsæt­is­ráð­herra og síðar forseti Tékkó­slóvakíu, hafi leitað til hans, eins og kemur fram í mynd­inni. Á alfræði­vefnum er sagt að það hafi verið vegna dreps í fótlegg eftir dvöl í fanga­búðum, og að það hafi Mikolášek læknað. Þegar Zápotocký féll frá tóku harð­línu­menn við völdum. Og það er loks þá, nokkru eftir seinni heims­styrj­öld, sem Mikolášek kemst veru­lega upp á kant við yfir­völd. Samkvæmt kvik­mynd­inni kokk­uðu stjórn­völd upp dóms­mál á hendur heilar­anum, þar sem honum var gefið að sök að hafa byrlað tveimur sjúk­lingum sem til hans leit­uðu eitur og þannig banað þeim.

Þetta er ekki einföld saga af píslar­vætti – Holland kveður ekki upp neinn dóm um það, út af fyrir sig, hvaða árangur var af aðferðum Mikolášeks. Mín er freistað að segja að hún sýni okkur afdrátt­ar­laust að hvaða leyti Mikolášek var skít­hæll, ekki þá síst í samskiptum við aðstoð­ar­mann­inn sem verður ástmaður hans en er honum líka full­kom­lega háður um lífs­við­ur­væri. En afdrátt­ar­laust er ekki rétt orð, því hér frestar Holland líka dómi. Við stöndum frammi fyrir tvíræðri mynd. Ef einhver á tilkall til að segja að tilgang­ur­inn helgi meðalið er það læknir. Ef Mikolášek lækn­aði fólk eða linaði þján­ingar þess gæti það kannski rétt­lætt sumt af því sem annars var einfaldur níðings­skapur. Ef, aftur á móti, Mikolášek var aðeins karis­ma­tískur költ-leið­togi sem færði sér neyð og trúgirni fólks í nyt, skottu­læknir sem makaði krók­inn á óförum alþýð­unnar og naut um hríð verndar vald­hafa við þá iðju, þá hefur hann fátt sér til varnar. Við stöndum frammi fyrir tvíræðri mynd, afdrátt­ar­laust tvíræðri: tveimur túlk­unum sem virð­ast jafn­gildar um leið og þær útiloka hvor aðra.

Mikolášek var að endingu ekki sendur í gálgann, eins og ákæru­valdið krafð­ist. Í eftir­mála mynd­ar­innar kemur fram að hann hafi þó lagt niður störf sín að rétt­ar­höld­unum loknum. Í hinni heldur óáreið­an­legu Wikipedia-færslu er sagt að í dóms­orði hafi hann verið sviptur eignum og borg­ara­legum rétt­indum. Eftir stendur þetta, full­víst innan ramma mynd­ar­innar: hvort sem Mikolášek var bjarg­vættur eða skottu­læknir, velgjörð­ar­maður eða svindlari, þá lifði hann á skjön við samfé­lag sem hann engu að síður tilheyrði, gegndi óvenju­legu hlut­verki innan vist­kerfis þess, hlut­verki sem virð­ist best lýst með skír­skotun til galdra­fólks liðinna alda. Og var dæmdur með svip­uðu lagi.

Þess­ari sögu miðlar Agnieszka Holland listi­lega vel. Þetta er ekki í fyrsta sinn á hátíð­inni sem ég hrífst af mynd sem ég heyri aðra líkja við miðl­ungi gott sjón­varps­efni. En það er rangt mat. Enginn sjón­varps­fram­leið­andi myndi leggja það á áhorf­endur að rýna jafn mikið og gaum­gæfi­lega í nærmyndir af hlandi – eða gera hlandið svona heill­andi, svona ríkt af smáat­riðum, á köflum töfrum líkast. Það er auðvitað auka­at­riði – nema að sá þáttur í mynd­mál­inu, sá díteill, er samof­inn þeirri sérstöðu sem felst í nálgun Hollands á söguna: virð­ingu hennar fyrir kukl­inu. Nánar til tekið virð­ingu fyrir mögu­leik­anum á að alþýðu­hefð geti falið í sér þekk­ingu, að sú þekk­ing geti verið stað­bundin og legið í kunn­áttu, verið til sem þjálf­un­ar­at­riði, þegar ekki er búið að gefa henni það form að hún rúmist í kennslu­bók, ritrýndu vísinda­riti eða starf­semi stofn­unar. Eða hvernig þjálfar maður auga?

Hvernig þjálfar maður auga og hvaða verð­mæti eru í því fólgin? Um þessar mundir er að koma til sögunnar hugbún­aður sem getur skimað rönt­gen­myndir og bent á mein. Að því er ég best veit hefur þó færnin sem þarf til að lesa í slíkar myndir, hingað til, einmitt ekki rúmast í texta, hana hefur ekki verið að finna í bókum heldur hefur hún falist í þjálfun sem krefst innsæis, gengur mann fram af manni, frá þolin­móðum meist­ara til efni­legs lærlings. Augu þarf að þjálfa.

Þess vegna er Char­latan ekki bara mynd af því hvernig vald­beit­ing 20. aldar var líkari vald­beit­ingu 16. aldar en hún sjálf vildi kann­ast við. Eða af því hvað vald­beit­ing komm­ún­ista átti sameig­in­legt með vald­beit­ingu rann­sókn­ar­rétt­ar­ins í kaþólsk­unni, sýslu­manna í löndum Lúth­ers. Þetta er um leið mynd um verð­mæti þess að þjálfa augu. Hún setur fram spurn­ingu um hvaða verð­mæti samfé­lag fer á mis við ef það vanvirðir slíka þjálfun. Hvað það er að sýna augum umhyggju, sínum eigin og annarra, og hversu mikla rækt­ar­semi þarf að sýna þeim til að það taki því að trúa þeim. Og hún spyr hvaða ógn það er sem ríkj­andi valdi, hvað sem það kýs að kalla sig, getur stafað af þeirri alþýðulist að sjá. Að vera jafn­vel læs á piss.