Ég fer að segja þetta gott frá hátíðinni. Mig grunar að ég hafi ekki séð sigurmynd keppninnar – í það minnsta sá ég enga mynd sem ég tel augljóst að eigi verðlaunin ótvírætt skilið, enga sem markaði tímamót fyrir augun mín.
En það er svolítið langt síðan ég fór síðast í bíó að ráði og ég lærði nokkuð um sjálfan mig á ferðunum í þetta sinn, á þeim tug mynda sem ég þó sá: ég held að ég njóti kvikmynda mest þegar þær kenna mér að sjá eða nema eitthvað sem ég kunni ekki áður, sem hefði farið framhjá mér. Það geta verið fyrirbæri af fjölmörgum ólíkum toga, oftast þó eitthvað um mannfólk, eitthvað í fari þess, eitthvað við ferð þess um tilveruna. Hvernig við brennum eða göngum gegnum eldinn, það allt.
Og líklega á ég annað ólært í dag en ég átti fyrir tíu árum síðan. Á fimmtudag sá ég kvikmyndina Charlatan, Skottulækninn, eftir Agnieszku Holland, sem er sýnd utan keppni, í dagskrárliðnum Special Gala. Myndin segir frá tékkneska heilaranum Jan Mikolášek, sem var uppi á fyrri hluta 20. aldar. Sem ungur maður beitir Mikolášek lækningajurtum til að græða fótlegg systur sinnar, sem annars stóð til að aflima. Í kjölfarið gerist hann lærlingur konu af austurrískum uppruna, sem er þekkt fyrir að lesa berum augum í þvagsýni og veita fólki ráð á grundvelli þeirrar greiningar: slæður af einni gerð benda til sjúkdóms í lifur, kennir hún honum, aðrar eindir í vökvanum gefa til kynna að eitthvað ami að nýrum, botnfall er til marks um sýkingu, og svo framvegis. Ég fer áreiðanlega rangt með hvað er hvað, en þið skiljið prinsippið.
Fátt er hversdagslegra á heilbrigðisstofnun en að læknir biðji sjúkling um þvagprufu. Miðað við hvernig þýskir læknar eru sagðir hafa rýnt í hægðir fólks virðist alls ekki fjarstæðukennt að eitthvað af gögnunum sem leynast í þvagi megi lesa berum augum. Um það veit ég þó ekkert, ekki frekar en flestir áhorfendur. En þegar Mikolášek tekur að starfa á eigin vegum, við að rýna í hland, greina kvilla og selja jurtamixtúrur til að vinna á þeim, reynist hann í öllu falli gríðarlega vinsæll: hundruð manna bíða fyrir utan dyrnar á heimili hans dag hvern, önnur hundruð senda honum þvagprufur í pósti. Hann leiðréttir hvern sem kallar hann lækni, og hann þykist ekki geta lagað hvað sem er. En bæði hann og þau sem til hans leita eru sannfærð um að mixtúrurnar gagnist við eitt og annað. Sem út af fyrir sig er auðvitað ekki heldur fjarstæðukennt.
Fyrir nokkrum öldum síðan hefði þetta þó allt saman heitið galdur. Og Mikolášek er ekki aðeins sekur um kukl, í þeirri merkingu að fást við lækningar utan opinberra vottunarkerfa, heldur sker hann sig úr á fleiri vegu. Hann kemst í svolitlar álnir af iðjunni, efnast umfram sveitunga sína; þegar seinna stríð skellur á sinnir hann erindum foringja úr innrásarliði nasista til jafns við heimamenn; síðast en ekki síst á hann í ástarsambandi við karlmann.
Kvikmyndin er byggð á raunverulegum atburðum. Mikolášek lifði frá 1889 til 1973, fæddur í fjölskyldu garðyrkjumanna, og hlaut þjálfun í ræktun og umgengni við jurtir frá barnsaldri. Á Wikipediu má finna stutta færslu um hann. Hún líður fyrir heimildaskort og erfitt að fullyrða hvort satt er, sem þar er haldið fram, að jafnvel Georg VI Bretakonungur hafi sent Mikolášek þvagsýni sitt til greiningar. Þó má telja víst að Antonín Zápotocký, forsætisráðherra og síðar forseti Tékkóslóvakíu, hafi leitað til hans, eins og kemur fram í myndinni. Á alfræðivefnum er sagt að það hafi verið vegna dreps í fótlegg eftir dvöl í fangabúðum, og að það hafi Mikolášek læknað. Þegar Zápotocký féll frá tóku harðlínumenn við völdum. Og það er loks þá, nokkru eftir seinni heimsstyrjöld, sem Mikolášek kemst verulega upp á kant við yfirvöld. Samkvæmt kvikmyndinni kokkuðu stjórnvöld upp dómsmál á hendur heilaranum, þar sem honum var gefið að sök að hafa byrlað tveimur sjúklingum sem til hans leituðu eitur og þannig banað þeim.
Þetta er ekki einföld saga af píslarvætti – Holland kveður ekki upp neinn dóm um það, út af fyrir sig, hvaða árangur var af aðferðum Mikolášeks. Mín er freistað að segja að hún sýni okkur afdráttarlaust að hvaða leyti Mikolášek var skíthæll, ekki þá síst í samskiptum við aðstoðarmanninn sem verður ástmaður hans en er honum líka fullkomlega háður um lífsviðurværi. En afdráttarlaust er ekki rétt orð, því hér frestar Holland líka dómi. Við stöndum frammi fyrir tvíræðri mynd. Ef einhver á tilkall til að segja að tilgangurinn helgi meðalið er það læknir. Ef Mikolášek læknaði fólk eða linaði þjáningar þess gæti það kannski réttlætt sumt af því sem annars var einfaldur níðingsskapur. Ef, aftur á móti, Mikolášek var aðeins karismatískur költ-leiðtogi sem færði sér neyð og trúgirni fólks í nyt, skottulæknir sem makaði krókinn á óförum alþýðunnar og naut um hríð verndar valdhafa við þá iðju, þá hefur hann fátt sér til varnar. Við stöndum frammi fyrir tvíræðri mynd, afdráttarlaust tvíræðri: tveimur túlkunum sem virðast jafngildar um leið og þær útiloka hvor aðra.
Mikolášek var að endingu ekki sendur í gálgann, eins og ákæruvaldið krafðist. Í eftirmála myndarinnar kemur fram að hann hafi þó lagt niður störf sín að réttarhöldunum loknum. Í hinni heldur óáreiðanlegu Wikipedia-færslu er sagt að í dómsorði hafi hann verið sviptur eignum og borgaralegum réttindum. Eftir stendur þetta, fullvíst innan ramma myndarinnar: hvort sem Mikolášek var bjargvættur eða skottulæknir, velgjörðarmaður eða svindlari, þá lifði hann á skjön við samfélag sem hann engu að síður tilheyrði, gegndi óvenjulegu hlutverki innan vistkerfis þess, hlutverki sem virðist best lýst með skírskotun til galdrafólks liðinna alda. Og var dæmdur með svipuðu lagi.
Þessari sögu miðlar Agnieszka Holland listilega vel. Þetta er ekki í fyrsta sinn á hátíðinni sem ég hrífst af mynd sem ég heyri aðra líkja við miðlungi gott sjónvarpsefni. En það er rangt mat. Enginn sjónvarpsframleiðandi myndi leggja það á áhorfendur að rýna jafn mikið og gaumgæfilega í nærmyndir af hlandi – eða gera hlandið svona heillandi, svona ríkt af smáatriðum, á köflum töfrum líkast. Það er auðvitað aukaatriði – nema að sá þáttur í myndmálinu, sá díteill, er samofinn þeirri sérstöðu sem felst í nálgun Hollands á söguna: virðingu hennar fyrir kuklinu. Nánar til tekið virðingu fyrir möguleikanum á að alþýðuhefð geti falið í sér þekkingu, að sú þekking geti verið staðbundin og legið í kunnáttu, verið til sem þjálfunaratriði, þegar ekki er búið að gefa henni það form að hún rúmist í kennslubók, ritrýndu vísindariti eða starfsemi stofnunar. Eða hvernig þjálfar maður auga?
Hvernig þjálfar maður auga og hvaða verðmæti eru í því fólgin? Um þessar mundir er að koma til sögunnar hugbúnaður sem getur skimað röntgenmyndir og bent á mein. Að því er ég best veit hefur þó færnin sem þarf til að lesa í slíkar myndir, hingað til, einmitt ekki rúmast í texta, hana hefur ekki verið að finna í bókum heldur hefur hún falist í þjálfun sem krefst innsæis, gengur mann fram af manni, frá þolinmóðum meistara til efnilegs lærlings. Augu þarf að þjálfa.
Þess vegna er Charlatan ekki bara mynd af því hvernig valdbeiting 20. aldar var líkari valdbeitingu 16. aldar en hún sjálf vildi kannast við. Eða af því hvað valdbeiting kommúnista átti sameiginlegt með valdbeitingu rannsóknarréttarins í kaþólskunni, sýslumanna í löndum Lúthers. Þetta er um leið mynd um verðmæti þess að þjálfa augu. Hún setur fram spurningu um hvaða verðmæti samfélag fer á mis við ef það vanvirðir slíka þjálfun. Hvað það er að sýna augum umhyggju, sínum eigin og annarra, og hversu mikla ræktarsemi þarf að sýna þeim til að það taki því að trúa þeim. Og hún spyr hvaða ógn það er sem ríkjandi valdi, hvað sem það kýs að kalla sig, getur stafað af þeirri alþýðulist að sjá. Að vera jafnvel læs á piss.